Ef einhver hefði hlustað á Brynleif

Ég sagði það, ég sagði það, heyrist á blogginu og í pólitíkinni þegar menn hafa þörf fyrir að hampa því að allt sé nú komið fram sem þeir spáðu. Stundum slá menn um sig og hafa þetta á ensku, æ-sed-só.

Verra er þó þegar svo langt líður að menn séu dauðir þegar að öllu kemur sem þeir sáu samt fyrir. Það eru nú meira en hálf öld síðan sá merki maður Brynleifur Tobíasson frá Geldingaholti enti sína hérvist. Hann flutti lýðveldisárið 1944 nokkra pistla í útvarpi sem útvarpsráði líkaði svo illa við að síðasta pistilinn var honum bannað að flytja. Hann hafði þá eftir siðvenju síns tíma skilað útvarpsráði handriti þar sem starfsmaður þess merkti við það sem óhæfa þótti að flutt yrði. Þetta voru þeir dagar.

Brynleifur dó ekki ráðalaus frekar enda væri það ólíkt Skagfirðingum. Hann gaf pistla sína út í litlu kveri sem heitir Horft um öxl og fram á leið. Þar feitletrar höfundur allt það í síðasta erindinu sem útvarpsráð hafði merkt við og taldi óheppilegar skoðanir til flutnings í útvarpi. Það er athyglisvert nú meira en hálfri öld síðar að Brynleifur sá fyrir alla samspillingu stjórnmálaflokkana og hvernig þeir myndi smám saman verða innantómu lýðskrumi að bráð. Brynleifur vildi koma í veg fyrir þetta með sterkara forsetavaldi og fullum aðskilnaði framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Í umrótinu eftir fall bankanna er merkilegt hvað fáir hafa gefið því gaum að ofurveldi flokkanna og framkvæmdavaldsins er ein af höfuðmeinsemdum samfélagsins.

Brynleifur dregur ágætlega fram í riti sínu hvernig allt hangir á sömu spýtunni, lýðskrumið þar sem enginn þorir að segja sannleikann, dugleysið þar sem duglitlir snatar flokkanna komast til æðstu metorða, flokksræðið og klíkukennt vald Alþingis umhverfis flokksforingjanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband