Stormur í vatnsglasi og einlægur brotavilji

Það er ótrúlegur pilsaþytur í umræðunni um Landsdóm þessa dagana og kostulegur. Það er annars karlremba að nota orðið pilsaþytur um hégóma og nær að tala um storm í vatnsglasi. Það hefur lengi tíðkast að refsa mönnum fyrir vanrækslu og gáleysi. Slík lög hafa náð yfir alþýðu manna hvort sem um er að ræða bókara í fyrirtækjum eða mjólkurbílstjóra.

Nú þegar svipuðum reglum er ætlað að ná yfir æðstu leiðtoga þjóðarinnar ætlar allt um koll að keyra og því er í alvöru haldið fram að ekki megi ákæra nema sekt liggi fyrir. Verði hinir ákærðu sýknaðir hljóti ákærendurnir að segja af sér í þingmennsku o.s.frv. o.s.frv. Mikið væri gott að vera glæpon í því landi þar sem ríkissaksóknarar mættu aldrei tapa máli án þess að missa sjálfur höfuðið. 

Mér er ekkert kært að sjá þau Björgvin, Ingibjörgu, Geir og Árna á sakamannabekk. Þetta er allt saman fólk sem mér þykir vænt um og hefi álit á fyrir marga mannkosti þeirra. En ég vorkenni þeim minna heldur en manni sem óvart skriplar til á bíl á svelli og er dæmdur fyrir, eða bókara sem óvart borgar reikninga í rangri röð og lendir úti með vörsluskatta þegar fyrirtæki kemst í þrot.

Þegar litið er á umræðuna frá haustinu 2008 þá liggur mér stundum við að halda að hér hafi verið um ásetningsbrot að ræða. Ég man vel eftir þegar við komum til þings það haust og Ingibjörg Sólrún hafði slegið því fram í fjölmiðlum að í landinu væri engin kreppa. Engin kreppa. Og það var haustið 2008! 

2. september 2008 flutti Ingibjörg ræðu á Alþingi sem við í stjórnarandstöðunni mótmæltum harðlega enda sagði hún þar að það væru í mesta lagi váboðar í samfélaginu, ekkert óveður og engin kreppa, engin eiginfjárvandi banka o.s.frv. 

Það þarf enginn að leggja á sig að lesa níu binda rannsóknarskýrslu og aðra skýrslu um skýrslu til að sjá að viljinn til fela og vanrækja vandamálið á þessum síðustu dögum gamla Íslands var einlægur og mér liggur við að segja ófyrirleitinn. 

Það eina sem ég geri athugasemdir við að er ekki skuli fleiri ákærðir, þ.á.m. núverandi utanríkisráðherra en sakfelling þeirra sem nú eru nefndir hlýtur að kalla á endurskoðun þeirra mála.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Þakka þér fyrir þarfa ádrepu, Bjarni, vegna umræðunnar um landsdóm og kveinstafina yfir að ákæra eigi nokkra ráðherra lögum samkvæmt fyrir að bregðast á þann afdrifaríka hátt sem allir ættu að þekkja. Það var þarft hjá þér að benda á ræðu formanns Samfylkingarinnar á Alþingi 2. september 2008. Ég les þar m.a. eftirfarandi orð Ingibjargar Sólrúnar mánuði fyrir hrunið sem viðbrögð við aðvörunum Steingríms J.:

"Formaðurinn [SJS] dró hér upp fyrirsögn úr Viðskiptablaðinu þar sem ég segi að það sé ekki kreppa á Íslandi. Það eru váboðar. Það eru blikur á lofti en það er ekki óveður á Íslandi núna. (Gripið fram í.) Vonandi getum við komið í veg fyrir að það verði. Það eru váboðar og við eigum að taka mark á þeim en það er ekki skollið á neitt óveður."

Ef þetta er ekki ráðamaður sleginn blindu á vaktinni veit ég ekki hvaða orð á að nota.

Hjörleifur Guttormsson, 19.9.2010 kl. 15:25

2 Smámynd: Guðmundur Paul

ég er nú að velta fyrir mér, eftir að hafa lesið orð tveggja fyrrverandi þingmanna og annar þeirra að auki fyrrum ráðherra, hvort þeir hafi aldrei lent í þeirri aðstöðu að hafa upplýsingar undir höndum sem væru kannski og kannski ekki skaðlegri ef þær yrðu birtar strax eða seinna eða jafnvel þagað í von um að allt myndi lagast og hvernig þeir hafi þá brugðist við. Menn hafa velt því fyrir sér hvort afleiðingarnar hefðu orðið eitthvað mildari ef upplýst hefði verið strax og vitað var um ástand fjármálakerfisins.

Guðmundur Paul, 19.9.2010 kl. 16:11

3 Smámynd: Vendetta

Sama hvort hefði verið upplýst um upplogna stöðu bankanna á Alþingi eða ekki, þá hefðu Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn átt að grípa inn í í staðinn fyrir að loka augunum, eins og duglaust fólk er vant að gera. Ef það hefði verið upplýst strax og bankasvindlið varð kunnugt (sem allir með hálfan heila gátu séð þegar árið 2006), þá hefðu hlutabréf bankanna að sjálfsögðu fallið í verði, enda ekki mikils virði, en það hefði bara verið þjóðinni til góðs. Þeir sem þögðu og voru aðgerðarlausir, eru allir samsekir.

Fyrst og fremst hefði átt að setja lög um bankastarfsemi þegar árið 2002, eins og er í gildi á Norðurlöndum. Það hefði komið í veg fyrir að bankarnir yrðu rændir innanfrá. En þetta sýnir hvernig amlóðar og hálfdrættingar sátu á þingi þá og sitja enn.

Vendetta, 19.9.2010 kl. 16:24

4 Smámynd: Einar Guðjónsson

Er ekki alveg sammála ykkur Hjörleifi, á mannamáli þýðir þetta að það eru hættur framundan en ekkert '' óveður núna''  ( en það kom í október ). Skil ekki endilega hvers vegna hún átti að verða fyrsti íslenski ráðherrann til að segja satt í ræðustól á Alþingi. Hitt er svo annað mál ef að Landsdómur kemur ekki lögum yfir þetta fólk þá er engin leið önnur en að almenningur fari í skaðabótamál við þessa ráðherra ( helst í New York ).

Einar Guðjónsson, 19.9.2010 kl. 16:35

5 identicon

Hvað gerði Össur eiginlega?

Ari (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 17:06

6 identicon

Ég las yfir ræðu Ingibjargar. Eftir þann lestur er ljóst að endursögn og túlkun þeirra félaga úr VG , Bjarna og Hjörleifs , er ekki rétt. Það er ekki hægt að gera ræðu skil með því að velja úr henni 3 eða 5 setningar. Í ræðu Ingibjargar kemur  fram að hún gerir sér ljóslega grein fyrir þeim efnahagserfiðleikum sem við blasa. Hún talar um váboða en að óveðrið sé ekki skollið á. Það er engin kreppa segir Ingibjörg. Ingibjörg ræðir einstaka þætti vandans og sérstaklega lausafjárvanda bankanna. Ástandið í fjármálaheiminum sérstaklega í BNA fór ekki framhjá neinum. Í fjármálageiranum er lausafjárvandinn mikilvægastur. Ingibjörg nefnir einnig álagspróf og eiginfjárstöðu bankanna. Það var mín skoðun 2008 að Ingibjörg gerði sér ekki grein fyrir alvarleika vandans en hún var ekki ein um það.Fá hagfræðingum komu misvísandi greiningar og lýsingar. Eftir skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis vitum við öll betur.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 17:14

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Misvísandi greiningar frá hagfræðingum, sumar mjög alvarlegar er stjórnvöldum ekki skylt að bregðast við fyrr en eftirá. Og gildir þá einu þótt skuldaálag hafi hækkað úr 1oo í 4000!

Ekki hægt að bjarga bönkunum eftir 2006. Þetta eru forsendurnar fyrir því að enginn ráðherranna telur sig sekan um vanrækslu. Hefði verið brugðist við mátti búast við "run" á bankana. Sennilega rétt. Hér er öll áherslan lögð á að vernda bankana.

Getur einhver bent á að staðan eftir að bankarnir hrundu í okt. 2008 hafi verið betri en ef þeir hefðu hrunið 2006?

Hversu miklum fjárhæðum var rænt úr bönkunum "innanfrá" á þessum tveim árum og hversu háan kostnað bera íslenskir gjaldendur vegna þessa viðhorfs ráðherranna og náhirðar þeirra?

Er það boðleg vörn að ráðherrarnir hafi leyft bönkunum að auka upp í stjarnfræðilegar tölur skaða fólks í fjölmörgum þjóðlöndum vegna varkárni sem tengdist orðspori bankanna?

Er stjórnvöldum leyfilegt að krefjast sýknu vegna þess að þeir hafi gert allt sem þeir töldu sig geta til að vernda orðspor ræningjanna svo þeim gæfist tækifæri til að ræna fólkið?

Mér finnst betra að  þegja en að taka til máls með svona málsvörn og heimta réttlæti!

Árni Gunnarsson, 19.9.2010 kl. 18:00

8 Smámynd: Oddur Ólafsson

Sagði okkar ágæti Geir H Haarde eina einustu setningu árið 2008 sem var sannleikanum samkvæmt og án undanbragða?

Man ekki til þess í augnablikinu.

Oddur Ólafsson, 19.9.2010 kl. 19:59

9 identicon

Ágæti Bjarni og þið hin!

Á villigötum finnst mér umræðan öll, grunn og loftkennd að sumu leiti.  Það hvort bæta eigi  ÖS á sakamannabekk með því ólánsfólki sem tók við þrotabúi helminganna og hafði vissulega engin ráð við neinu, finnst mér ekki öllu skipta meðan höfuðpaurarnir eru utan seilingar.  Hvernig í ósköpunum stendur á því að formaður þingmannanefndar setti sig á móti ýtarlegri rannsókn á því sem er helsta ástæða ófaranna þ.e. einkavæðingu bankanna?????

Viðar Steinarsson (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 20:19

10 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Nornaveiðar voru stundaðar á miðöldum, þetta líkist þeim nokkuð. Umræðan hér litast nokkuð af slíkum hugsanahætti. Þó eru nokkrir ágætir punktar sem koma fram, eins og ábending Vandetta um að setja hefði átt lög um banka að fyrirmynd annara Norðurlanda strax árið 2002.

Þá komum við að kjarnanum, við eigum að nota rannsóknarskýrsluna til að lagfæra það sem þarf. Núverandi stjórnvöld í samvinnu við þingið ætti frekar að snúa sér að því, í stað þess að eyða dýrmætum tíma þingsins í svona eltingaleik, sem mun engu skila hvort sem þessir fyrrverandi ráðherrar verða dæmdir sekir eða saklausir. Ef einhverjum dettur í hug að dómur yfir þeim muni lægja óánægjuöldur í samfélaginu er sá hinn sami á villigötum.Rannsóknarskýrsluna á ekki að nota til að leita sökudólga.

Seint mun ég verða sammála Ingibjörgu Sólrúnu, en ekki ætla ég henni það að hafa viljandi reynt að koma Íslandi á kaldan klaka. Ég vil trúa því að stjórnmálamenn, bæði áður fyrr og nú, vinnu sína vinnu eftir bestu vitund og telji sig vera að vinna landi og þjóð til heilla. Það má síðan deila um hversu góð sú viska hefur verið og er. Varla er þó hægt að draga menn fyrir dómstóla vegna lélegrar visku, þá ætti frekar að draga kjósendur fyrir dóm, þeir kusu jú misvitra menn til valda.

Ríkisstjórn hinna vinandi stétta ætti frekar að reyna að sameina þingið í stað þess að sundra því. Aðeins með þeim hætti er hægt að taka á vandamálum, nógu er af að taka! Virðing alþingis fæst ekki fyrir dómstólum, virðing alþingis fæst því aðeins ef þingmenn sýna þroska og nýta sér rannsóknarskýrsluna til að sníða þá agnúa af í stjórnkerfinu sem þarf.

Því miður hafa núverandi stjórnvöld ekki sýnt þann þroska að nýta skýrsluna í þeim tilgangi.

Gunnar Heiðarsson, 20.9.2010 kl. 09:01

11 identicon

Vendetta chiede vendetta

Vendicatore (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 21:43

12 identicon

blogg eru alltaf áreiðanleg uppspretta upplýsinga .....

MCSE (IP-tala skráð) 23.9.2010 kl. 09:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband