Kjarklausir sveitamenn

Þjóðlendumálið er skólabókardæmi um kjarkleysi íslenskra sveitamanna og talsmanna þeirra. Stofnun samtaka til að berjast í þessu máli vekur vonir um betri daga í þeim efnum.

Nú er það auðvitað svo að stórfelld tilraun ríkisvaldsins til eignaupptöku snertir fleiri en sveitamenn. Íslenskir landeigendur búa víðs vegar, bæði í borg og sveit. Upphaflega eru þjóðlendulög sett til að taka af tvímæli um land sem er í einskis manns eigu. Hvorki samtök bænda né þingmenn landsbyggðar vöruðu sig á að setja yrði sérstakar skorður við því að tekist yrði á um þinglýst lönd einstaklinga. Fljótlega var þó ljóst að ríkið hlyti að ganga út á ystu nöf í kröfugerð sinni sem það enda hefur gert. Þannig eru grunnreglur réttaríkisins.

Það sem vekur furðu er að ekki skuli fyrr hafa komið fram mótuð og ákveðin krafa um breytingu á lögunum. Hún er fyrst nú orðuð af alvöru eftir að fjármálaráðuneytið ræðst á vígi Þingeyinga og kemur kannski ekki á óvart að þar sé vörnin hvað sterkust. Hafi Þingeyingar og aðrir sem að stofnun Landssamtaka landeigenda stóðu þökk fyrir.

Hinir duglausu ...

Þjóðlendumálið allt eru ógöngur íslenska réttarríkisins. Þar bera fjölmargir ábyrgð. Bændasamtökin sem lögðu blessun sína yfir lagafrumvarp um málið, ríkisstjórnin, ráðherrar sem með málið hafa farið en þeir koma allir úr Sjálfstæðisflokki og síðan allir þeir sem létu þetta óátalið. Þar er ábyrgð stjórnarandstöðu mikil en þar í flokki hafa menn haft fjölmörg tækifæri til að setjast niður með landeigendum og forma þær lagabreytingar sem duga til að milda alla meðferð málsins. Sama hefðu óbreyttir stjórnarþingmenn getað gert. Dugleysi þessara aðila er mikið.

En einnig landeigenda og Bændasamtakanna sem hafa haft allan tíma til að vinna að lagafrumvarpi til breytinga og getað síðan látið á það reyna að frumvarpið fengist flutt á Alþingi.

Ég held aftur á móti að það sé ósanngjarnt að draga dómara og kröfugerðarmenn fjármálaráðuneytis fram sem sökudólga. Þeir aðilar eru aðeins að vinna sína vinnu og verða að gera það innan þess ramma sem Alþingi setur. Það er líka ósanngjarnt að draga ráðherra annarra málaflokka fram sem sökudólga í þessu máli. Þeirra staða til að beita sér gegn samráðherrum er afar þröng, - miklu mun þrengri en til dæmis staða óbreyttra stjórnarþingmanna.

...og héraháttur þeirra!

En afhverju hefur þetta farið svo! Afhverju hafa íslenskir sveitamenn ekki haldið betur á sínum málum. Af meiri festu og einurð.

Ég held að ástæðunnar sé að leita í þeirri bælingu sem einkennt hefur alla baráttu landsbyggðarfólks fyrir réttindum sínum innan samfélagsins um langt árabil. Byggðastefnan hefur verið skammaryrði, barátta landsbyggðarfólks verið gerð tortryggileg, aumkunarverð og núið um nasir að vera hluti af sérgæðum og spillingu. Allt er þetta fram úr hófi ósanngjarnt en hefur síast inn í samfélagi þar sem borgríkið við Faxaflóa ber höfuð og herðar yfir allt annað.

Í skjóli þessa hugsunarháttar hafa ógöngur þjóðlendumálanna dafnað. Landsbyggðarþingmenn í stjórnarliði hafa hikað við að standa upp í þessu máli eins og svo fjölmörgum öðrum í ótta við að þar með væri verið að styggja ímynduð meirihlutasjónarmið. Í stjórnarandstöðu hefur áhuginn á hag landeigenda og landsbyggðarfólks verið hverfandi og stundum minni en enginn. Talsmenn landsbyggðarinnar utan þings hafa einnig verið hikandi.

Það er löngu tímabært að landsbyggðarfólk á Íslandi láti af hæversku sinni og hérahætti. Okkar staða í samfélaginu á og getur verið sterk. Landsbyggðin öll og þar með baráttumenn í þjkóðlendumálum eiga sér virkan stuðning við sjónarmið sín meðal fjölda þeirra sem búa við Faxaflóa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bændur hafa alltaf staðið fyrir sínu og eru vel menntuð stétt svo er fyrir að þakka Guðmundi Jónssyni heitnum fyrrv. skólastjóra á Hvanneyri.

Þessi nýja árás á bændur  er nýtilkomin þar sem reynt er að stela þinglýstum eignum þeirra á "löglegan hátt." 

Hver leyfði okkur annars yfirleitt að vera íslenskir ríkisborgarar eða Íslendingar yfirleitt. Verðum við ekki að sanna það. Voru ekki írskir munkar á undan okkur. Þeir hljóta að vera hinir eini og sönnu eigendur Íslands. Nú er bara að veita fé í fornleifauppgröft. Ef til vill eiga bara Írar okkur með húð og hári, grátbroslega  bjánaleg löfræði.

Bændur/landeigendur munu án efast berjast vasklega við lögræðinga-og reglugerðarfræðinga (sem túlka lögin á skjön við anda þeirra) um tilveru sína.

Hvað varðar styrki til bænda þá má deila um í hvernig formi þeir eiga að vera. En þeir eru tilkomnir vegna þess að verið er að vernda frumþarfir okkar í mat. Það er héraháttur að skilja ekki svona einfalt dæmi.

Ekki vænlegt að naga innflutt kjúklingbein (með fuglaflensu?) eins og Samfylginginn gerði á fundi hjá sér fyrir nokkrum árum og fékk fjölmiðla til að mynda athöfnina eins og frægt er. 

Með baráttukveðjum fyrir því að borða lambakjötið okkar með bestu lyst.

Sigríður Laufey Einarsdóttir (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 22:46

2 Smámynd: Bjarni Harðarson

reyndar koma 100% af launum þingmanna úr ríkissjóði ingvar og ég var ekki síður að tala um þeirra hérahátt. og ég er ekki viss um að gorgeir eða héraháttur standi í nokkru samhengi við það hvaðan tekjurnar koma - mjög stór hluti höfuðborgarbúa lifir af einhverskonar blýantsnagi á ríkisjötunni og þorir samt alveg að standa á sínu þannig að þessi röksemd um samhengi milli, ja líklega styrkjakerfis í landbúnaði og slaknandi baráttuþreks sveitamanna stenst ekki,- sérstaklega ekki þegar horft er til þess að styrkir þessir fara ár af ári minnkandi en baráttuþrekið hefur ekki vaxið að sama skapi...

Bjarni Harðarson, 4.2.2007 kl. 06:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband