Berlín er best borga og ævintýri hennar engu lík

img_6556.jpgBerlín hefur hér með verið útnefnd best borga í Evrópu og vonum framar að það verði því hengi hefi ég þar átt góðu að mæta.

En Trapant safari sem þar er nú boðið uppá við Checkpoint Charlie er slík lífsreynsla, slík menningarleg og andleg endurnýjun, slík upphefð að ekkert tekur slíkri fram nema ef vera skyldi að eiga sinn eigin Trapant.

Vitaskuld er díalektíska tvískipting mannheima margvísleg en mestu varðar að heiminum deila saman þeir sem átt hafa og elskað sinn Trapant og þeir sem hafa það ekki. Milli þessara hópa er regindjúp.

Sjálfur er ég svo ríkur að hafa átt tvo Trapanta og aldrei náð mér til fulls af þeirri bitru afturför að þurfa síðan að aka vestrænum og japönskum auðvaldskerrum sem eru ómarkvissar, sálarlausar, heimskar og jafnast í fegurð á við silfurskottur.

Það varð mér því opinberum þegar konan mín nefndu í framhjáhlaupi okkar næstsíðasta dag að hér væri rekið fyrirtæki sem byði upp á Trapantsafari um borgina. Allt hér originalt, reykurinn, lyktin, hægindin, reisnin og hvarvetna sem við ókum var okkur veifað og af okkur teknar óteljandi filmur og ljósmyndir.

img_6552.jpgÞar sem við Elín ókum meðfram trjágöngum Unden den Linden og skynjaði ég sterkt hvernig líf Prússakeisara hefur verið þar sem hann líkt og ég veifaði mannfjöldanum, ók sínum gullvagni framhjá hestakerrum sem hafa orkað á allt umhverfið jafn hversdagslegar og ljótar eins og tjöruglansandi BMW bílar þeir sem ekki voguðu sér svo mikið sem nálægt okkar 7 bíla Trapantlest.

Fyrst og fremst fann ég til vorkunnar með lýðnum sem var svikinn um allt og þar á meðal að sitja í bifreið sem gefur þér raunveruleg tengsl við landið sem ekið er um, snertingu við steina, sand, grös og vinda himinsins. Í Trapant skynjar hver maður ferðalag með nýrri merkingu sem gefur kosti hinnar hefðbundnu bílferðar en er samt eins og gönguferð. Meðan ég veifaði varð veraldarvön konan mín aftur eins og ung jómfrú, roðnaði upp að hársrótum við það eitt að sitja slíka reisu og fól andlit í höndum sér. Lífið var fullkomið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

"... og þar á meðal að sitja í bifreið sem gefur þér raunveruleg tengsl við landið sem ekið er um, snertingu við steina, sand, grös og vinda himinsins."

Ertu að segja, að Trabantinn hafði enga fjöðrun og að ekki var hægt að loka hurðunum?

Kannski er ég smásmugulegur, en ég veit ekki hvers vegna þú stafar bílnafnið Trapant í staðinn fyrir Trabant og götunafnið Unden den Linden í staðinn fyrir Unter den Linden.

Vendetta, 19.6.2011 kl. 21:46

2 Smámynd: Eyþór Örn Óskarsson

Frábær að venju Bjarni.....

Eyþór Örn Óskarsson, 20.6.2011 kl. 01:37

3 identicon

Til hamingju með að vera mikill smekkmaður á bíla. Berlin ist immer eine Reise wert.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 20.6.2011 kl. 07:17

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ESB er frábært

Óskar Þorkelsson, 20.6.2011 kl. 10:35

5 Smámynd: Bjarni Harðarson

Vendetta, þessi stafsetning kemur til af póstmódernískum áhrifum stórborgarinnar...

Bjarni Harðarson, 20.6.2011 kl. 12:43

6 Smámynd: Vendetta

Veiztu það að Trabant er eini bíllinn sem getur sagt nafnið sitt sjálfur: "trab-trab-trab-trab-...."

Vendetta, 20.6.2011 kl. 12:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband