Úrbætur í stað refsigleði

Það hefur verið hrollvekjandi að fylgjast með umræðum undanfarinna daga um Breiðuvík vestra og Byrgið hér í Grímsnesinu. Það má samt velta fyrir sér hvort ekki sé mál að linni í lýsingum og reynslusögum og kominn tími á aðgerðir í stað orða.

Aðgerðir vegna þessara mála þurfa að hafa tvennt að markmiði. Í fyrsta lagi að bæta eftir því sem mögulegt er fyrir það tjón sem viðkomandi einstaklingar hafa orðið fyrir. Það á við um bæði þessi tilvik, einnig Breiðavíkina þó áratugir séu síðan. Okkur ber skylda til að veita þeim einstaklingum sem orðið hafa fyrir tjóni á sál og líkama alla þá heilbrigðisaðstoð sem unnt er að veita. Einhverjum kann að þykja fráleitt að tala um slíkt þegar um er að ræða atburði fyrir áratugum síðan en það er það ekki. Sálfræðileg og geðræn vandamál eiga sér oft tilurð í löngu liðnum atburðum og þarf að takast á við með því að opna á umræðu um erfiða hluti. Í tilviki þeirra sem dvöldu í Byrginu þarf að koma til mjög víðtæk aðstoð heilbrigðisþjónustu og félagsmálayfirvalda. Sú aðstoð þarf að ná til allra sem þar dvöldu á þessu tímabili, vistmanna og starfsmanna.

Við megum ekki falla á þá gryfju refsigleði að vilja alltaf og eingöngu lúskra á sökudólgum. Með þessu er ég ekki að segja að menn eigi ekki að taka út refsingu fyrir sín afbrot að því marki sem lög ákveða. Þar fer kerfi lögreglu, saksóknara og dómstóla sína leið og þar handan við tekur svo Fangelsismálastofnun.

Hitt má aldrei gleymast í ákafanum og reiðinni sem við eðlilega fyllumst öll við að heyra um mjög andstyggileg afbrot að brotamaðurinn er í flestum tilvikum einhverskonar fórnarlamb líka. Í öllum afbrotum af því tagi sem hér er talað um er brotamaðurinn fórnarlamb eigin sjúkleika. Allt í kringum hina seku standa svo aðstandendur, börn, makar, foreldrar. Allt þetta fólk tekur nú út grimmilegri refsingu götunnar en nokkurt okkar utan þessa hóps getur almennilega gert sér í hugarlund. Við þurfum í samfélagi okkar að hafa leiðir til að mæta öllum fórnarlömbum atburða sem þessara.

Fjölmiðlar munu segja sögur af þessum stöðum meðan almenningur vill hlusta. Grimmileg uppljóstrun fjölmiðla hefur hér unnið ómetanlegt gagn en hún er tvíbent vopn í höndum fórnarlambanna. Miklu farsælla er nú að þeir sem bera harm vegna viðskipta við þessar stofnanir og aðrar leiti leiða út úr þeim tilfinningum með aðstoð sálfræðinga og sálgæsluaðila fremur en blaðamanna.

En ég gat hér um að aðgerðir í máli þessu þyrftu að hafa tvennt að markmiði. Um það fyrra hefi ég nú talað en það síðara er að afstýra þarf að atvik þessi geti endurtekið sig og séu að endurtaka sig. Það kemur engum sérstaklega á óvart að eftirlit hins opinbera með stofnunum á borð við Breiðavík var í molum á Íslandi fyrir 40 árum. Hitt er til muna einkennilegra að allt síðan þá hafa nær engar framfarir orðið í eftirliti með þeim fjölmörgu aðilum sem þiggja opinbert fé til mannúðar- og líknarmála. Við verðum að vona að atvik eins og þau sem átt hafa sér stað í Byrginu séu algerlega einstæð. En við vitum aftur á móti að fjárhagsleg óstjórn og frjálsleg meðferð almannafjár hefur margoft komið upp á sambærilegum stofnunum án þess að gripið hafi verið inn í. Hinar fjölmörgu og rykföllnu skýrslur Ríkisendurskoðunar um Sólheima bera þessu glöggt vitni og kalla ásamt óhæfuverkum á Byrginu á algera uppstökkun á allri tilsjón með opinberu fjármagni.

(Birt í Sunnlenska fréttablaðinu 15. febrúar 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Þessi krafa  um þyngri refsingar sífellt þjónar engum tilgangi og eykur bara vandan. Þetta endar með því fólk fer að krefjast dauðarefsinga því margir afbrotamenn eru jafn sjúkir eftir 1 ár í steininum og 10. Það er að mörgu hyggja í þessum efnum.

Ps Þessir pistlar þínir er hver öðrum skemmtilegri. Þó ég sé ekki Framsóknarmaður þá þurfum við mann eins og þig á þing, víðsýnan og málefnalegan  

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 17.2.2007 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband