Mensalder spjarar sig
7.9.2012 | 21:17
Mensalder í Húsum spjarar sig. Hann kom á götuna nú í vikubyrjun og er búinn að halda tvö partí sem bæði væru mjög vel heppnuð. Núna rétt áðan voru 50 manns að yfirgefa bókakaffið okkar á Selfossi og flestir með bók í hendinni. Myndirnar hér á síðunni eru aftur á móti frá fyrra teitinu sem fór fram í MM á Laugavegi, ljósmyndari var vitaskuld Egill Bjarnason.
Fyrir þá sem heima sátu datt mér í hug að birta einn kafla úr bókinni. Þessi er framarlega í bókinni. Mensalder eldri hefur legið rúmliggjandi í sút yfir konumissi. Bræður hans koma í heimsókn og hafa tíðindi að segja.
Kaflinn heitir Gull.
----
Gull!
Grjótharðir og skínandi gullpeningar, sagði Eiríkur, sá yngri
og leit hróðugur til Odds bróður síns sem fyrstur sagði þetta
voðalega orð í þessu húsi.
Þeir voru komnir aftur, fjallabræðurnir Eiríkur og Oddur, að
telja kjark í litla bróður sem lá hér enn, úfinn og kviðdreginn
undir brekáni og gærusnepli. Hann var tómur til augnanna eins
og hann hafði nú verið í heilar átta vikur. Allt frá því hún
rjátlaðist af honum óraunveruleikakenndin sem greip allt hans
æði við fráfall hennar. Mitt í hirðingu, kistusmíði og sykur útveg -
unum hafði hann ekki fundið til neins en svo kom tvíeflt allt það
sem erfiði lífsins hafði tekist að fergja.
Þeir voru hér inni á gólfi hjá honum, fullir af bjartsýni og
skýjaborgum, með stjörnur í augunum. Fullir ef þeir hefðu ekki
strammað sig af andspænis bróður sem var karlægur af sorg og
þegjandalegri matselju. Þennan dag voru þau samtaka í
þegjanda hættinum og spurðu einskis, kunnu engin tíðindi að
segja, en þeir Oddur og Eiríkur spunnu smám saman fram
ævintýri sem hlotnast myndi öllum lýðnum. Kóhill hét hann,
útlenskur maður í skósíðri kavíu, sem nú fór um sveitir og bauð
í sauði sem hann flutti lifandi til frálags í útlöndum. Hann hafði
verið á Rangárvöllunum í vikunni og rekið þaðan tuttugu sauði,
allt metfé sem fékkst greitt út í hönd með gullpeningum. Engin
innskrift, enginn þjófnaður. Nú þurfti enginn að hugsa lengur um
vesturferðir eða vorsult, hvað þá kaupmannsskuldir. Menn sem
ættu gull gætu allt. Þess yrði kannski skammt að bíða að það yrði
kaupmaðurinn sem skuldaði þeim en ekki öfugt. Var hann
kannski ekki kominn á heljarþrömina, sá danski á Bakkanum?
Eiríkur hafði selt þá þrjá sauði sem hann átti með áratölunni
og ætlaði sér til skurðar á þessu hausti. Oddur var svo óheppinn
að hans voru allir innan við hraun þegar karlinn kom.
Hann lofaði að koma aftur að ári og þá verða þeir sko til
taks og það verður ekki nokkrum sauð slátrað í vetur, söng í
Oddi eins og hann þyrfti á því að halda að sannfæra sjálfan sig
um endurkomu þessa galdramanns.
Margur hefur nú beðið síns endurlausnara árlangt og ævina
út, skaut matseljan snöggt inn í og grúfði sig ofan í prjónana.
Hún var forviða á sjálfri sér að hafa í sama orðinu guðlastað og
rifið kjaft við gullmenn þessa.
Ekki ...
En áður en nokkur fengi að vita hvað Eiríkur ætlaði sér að
segja um endurlausnarann var eins og snögghitnaði í bóndanum.
Kannski bara við tilhugsunina um að þurfa að verja sína
matselju í öllum þessum fyrirgangi.
Hvurn andskotann ætlarðu þá að éta, Oddur bróðir, ef þú
skerð ekkert ofan í þig út af þessu gulli? Ekki éturðu gullið,
umsum sums og andskotinn.
Matseljan gerði sér til erinda að skjótast út úr baðstofunni að
sækja kaffidrukk ofan í gesti, enda fann hún á sér veðrabrigði í
baðstofunni.
... og haldiði að ég ali hér sauði á mýrlendinu, angurgaparnir
ykkar, heyrði hún blessaðan húsbóndann setja ofan í við gestina
sem töluðu nú báðir í senn um að sauði mætti reka til fjalls og
að lifa mætti á skreið og baunum úr kaupstaðnum. Úr því
útlendingar vildu éta sauðina þá yrði bara svo að vera.
Hvað veistu að þeir éti þá, þessir andskotar? Kannski selja
þeir þá ofan í námur eins og þeir ku gera við klárana og sagt er
frá í blöðunum, þessir helvítis þrælar.
Sussu, sussu. Það held ég nú hann Zakarías minn fari ofan í
námu svona sver og þver sem hann er. Nei, hann verður nú étinn
af einhverjum herramanninum úti þar með ertum og sultutaui,
það sagði hann mér hann Guðmundur skáldi sem túlkaði fyrir
Kóhill.
Og fyrir þetta ætlarðu að svelta ykkur þarna uppi í
hundsrassi, svo fíniríisfólk í útlandinu eigi eitthvað með sult unni
sinni, sagði Mensalder saltvondur, stökk upp úr fletinu
kviknakinn og snaraði langbrók af dvergbita.
Æi, farðu með þessar hreðjar frá andlitinu á mér, kumraði í
Oddi um leið og hann tók fram glerið. Honum var stórum létt að
hafa þó ræst bróður sinn fram úr, hvað sem liði Kóhill og öðrum
þeim endurlausnurum sem beðið væri.
Þannig varð gull þeirra fjallabræðra og umræða um sultutau í
út löndum til að hrífa hinn syrgjandi burt úr veruleika sorgarinnar
inn í óraunveruleika hvunndagsins.
Næstu ár söfnuðu bræðurnir á Vatnafjöllum gulli í hand -
raðann við vaxandi angist, beittu upp skóga sína og fjölguðu
sauðum. En Mensarnir í Moldartungu létu matselju sinni eftir að
elda ofan í sig alla sína holdrýru mýrarsauði og sáu aldrei gull
nema sem mont í annarra lófum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Áhugaverð lsening Bjarni minn, góði bloggvinur.
Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 17:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.