Afhverju sníkir hann smjerið, drengurinn?

Ég er einn þeirra manna sem hvunndagslega sníki smérið. Ekki þannig í eiginlegri merkingu að ég fari í Kaupfélagsskrattana hér í plássi og relli í afgreiðslufólkinu að gefa mér smjör. 

En þetta er semsagt gamalt orðtæki sem var allavega þekkt í Grímsnesinu á fyrri hluta síðustu aldar. Það vísar til þess að vera með skyrtuboðungana flaksandi upp úr buxunum, stundum bara annan en á sunnudögum jafnvel báða.

Hjá fæstum er um að ræða ásetningsglæp og ég hef ekki heyrt um að þetta særi blygðunarkennd nokkurs en maður veit samt aldrei. Í raun og veru er þetta komið til af vaxtarlagi, þegar manni tekst með aldri að þróa með sér framstæða kúrvu eins og ófrísk kona þá er alltaf hætt við því að minnsta búkhreyfing verði til þess að skyrtan tosist aðeins upp úr enda veldur velmegun því að hún kemst mjög stutt niður fyrir buxnastreng. Þetta má vissulega leysa með mjög uppháum buxum en "það er sagt mér" að þær séu ekki í móð. Hin aðferðin er að hafa enn framstæðari maga þannig að skyrtan sé öll ofan strengs og strekkt þar þannig að ekkert flaksast.

Þetta með að sníkja smjerið er eiginlega vandamál meðalmennskunnar. Vandi okkar sem hvorki erum almennilega feitir né anorexíuleg sporteðjót. Hjá mér er þetta alls ekki tengt aldurdómi heldur hef ég alla ævi verið svona utan stutt hungur- og veikindaskeið í suðrænum löndum.   

En allt þetta mas, bara til að koma einu orðatiltæki á framfæri. Böðvar Pálsson á Búrfelli sem er heimildamaður minn að þessari skemmtilegu rúsínu í málinu kunni engar sögur af því hvernig hún væri til orðin né heldur afhverju þetta héti svo.

En skýringin liggur samt nokkuð í augum uppi að þetta tengist því að sá sem missir skyrtuboðungana svona upp úr streng er talinn hafa fengið ofan í sig, hann hefur náð að sníkja sér smjör á lífsleiðinni. Um hann yrði líka sagt eins Sæmunddur heitinn á Friðarstöðum sagði um mig ungan,- hann bítur ekki klakann þessi.  

PS: Án þess að það eigi að tala um pólitík í sunnudagsmessu, samt til hamingju Steingrímur með að hafa hætt við að hætta við að hætta - en hætt samt einhverju pínu smá... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Má ekki nota þetta orðtak yfir þá sem hafa hagnast verulega en á liggur grunur um pilsfaldakapítalisma, kennitöluflakk, sjóðasukk eða hverja þá þjóðariþrótt aðra sem fleytir mönnum óverðskuldað til auðs og áhrifa?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.2.2013 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband