Pistill Auðar Jónsdóttur um leigumarkað

Sem leigjandi í Reykjavík er ég orðin hundleið á að hlusta bara á hvernig megi laga/leiðrétta kjör þeirra sem eiga fasteign um leið og það er varla minnst orði á möguleika leigjenda til að tryggja sér húsnæði eða búa við mannsæmandi leigu. Um daginn skildist mér að talsmaður fjárfestingafélagsins Gamma, sem hefur nú þegar keypt 140 íbúðir á miðbæjarsvæðinu og fengið orð á sig fyrir að hækka fasteignaverð, hafi fullyrt að fasteignaverð í borginni væri of lágt – og gott ef ekki leigan líka, ef ég man rétt. Nú spyr ég: Við hvað er miðað? Borgir eins og til dæmis Barcelona þar sem ríkir túristar hafa lagt undir sig fallegustu hverfin líkt og El Born svo 80 prósent íbúanna eru túristar því heimamenn hafa ekki efni á að búa þar? Eða kannski Berlín þar sem skandinavískir unglingar hafa líka keypt upp heilu hverfin? Hvernig væri að einhver fjölmiðill hunskaðist nú til að gera útekt á kjörum fjölskyldufólks á leigumarkaðnum á Íslandi? Hvernig væri að taka viðtal við nokkrar fjölskyldur um kjör þeirra? Eða skoða á hvaða rökum menn byggja staðhæfingu á borð við þá að húsaleiga eigi að vera ennþá hærri (flestir leigjendur sem ég þekki eiga rétt svo fyrir nauðsynjum og varla það). Er ekkert til hérna sem heitir neytendapólitík? Nokkuð sem ætti kannski að vera brýnt umhugsunarefni í kosningabaráttunni. Eða er kannski tabú að tala um þetta því þeir sem eiga fasteignir á vondum lánum vilja umfram allt að verðið hækki? Kannski einhverjir frambjóðendur?

http://www.facebook.com/audurj1

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband