Markaðsvæðing stjórnmála og hagsmunir þjóðar

Tvö þúsund ára reynsla segir okkur að sé von kraftaverka þá verði slík aksjón helst á morgni páskadags. Hér við Ölfusá hafa menn horft á sólardans þennan morgun og suður í Palestínu hafa krossfestir risið upp. Við sem lifum í voninni gátum látið okkur dreyma að íslenskir stjórnmálaflokkar settu þjóðarhag í fyrsta sæti en það varð ekki. Ekki á þessum páskum.

En fréttir sem okkur bárust af Norður Kóreu og fleiri sóknum jarðarkringlunnar hugguðu einhverja við það að stjórnarfar er víða lakara en hér hjá okkur. Það losar okkur samt ekki undan því að ráðast í lagfæringar.

Markaðsvæðing stjórnmálanna

Samkeppni varð fyrir fáeinum áratugum lykilorð til lausnar á öllum vanda líkt og aflátsbréf nokkrum öldum fyrr. Við sem höfum svo fylgst með svokölluðum samkeppnislögmálum innanfrá í atvinnurekstri sjáum hvernig hún hefur skekkt allt sem heitir jafnræði á markaði. Risafyrirtæki sem reglulega skipta um kennitölu henda tapinu á herðar almenningi, gefa banksterum innkomuna og valta niður fyrirtæki sem rekin eru af heiðarleika og forsjálni.

Stjórnmálin hafa svo dregið dám af sama. Þar hefur einnig ríkt andi samkeppninnar. Ef að flokkur A segir já þá segir flokkur B nei og svo er sett upp skrautsýning orðagjálfurs og loforða. Eftir því sem stjórnmálaflokkarnir hafa fest sig betur í sessi verður samkeppnisandi umræðunnar sterkari. Stjórnmálin sjálf eru orðin að hópíþrótt þar sem markaskor miðar að hagsmunum flokks en ekki þjóðar.

Markmið og markaðsvæðing

En það er einmitt markið sem meginmáli skiptir í stjórnmálum, þ.e. að hvaða marki stjórnmálamenn keppa. Með flokksræðinu verður markmið stjórnmálamanna að vinna fyrir sinn flokk enda litið á þá sem starfsmenn flokkanna ekki þjóna þjóðar. Einhver kynni að segja að flokkarnir eigi sér það markmið að vinna þjóð sinni gagn og því sé þetta allt í allra besta lagi.

Staðreyndin er þó að stjórnmálaflokkarnir hýsa fyrst og síðast hagsmunaöfl samfélagsins og styrkur hvers þeirra fer eftir peningalegu vægi. Um áratugi hefur mikill meirihluti þingmanna verið kjörinn á þing með það að stefnumið að afnema verðtryggingu en á sama tíma hafa þau öfl verið sterkust í bæði stjórnmálaflokkum og verkalýðshreyfingu sem tryggja hag fjármagnseigenda. Afleiðingin er sú að verðtryggingin blívur og almenningur borgar.

Annað dæmi um samspil lýðræðis, flokksræðis og hagsmuna þjóðar eru boðaðar breytingar á kvótakerfi. Í síðustu kosningum kaus mikill meirihluti flokka sem lofuðu að bylta núverandi kerfi með hagsmuni byggða og þjóðar að leiðarljósi. Þegar til átti að taka reyndist hagsmunagæsla útgerðarmanna sterkari innan VG en nokkurn gat órað fyrir. Flestar tilraunir sjávarútvegsráðherra til breytinga voru í reynd brotnar á bak aftur af fulltrúum útgerðar í forystu VG.

Stjórnmálaflokkar sem gefið hafa flokksgæðingum ríkisbanka og ríkisfyrirtæki, flokkshestar sem raðað hafa flokksbræðrum á garða við embættaveitingar og flokkslegar línur við veitingu styrkja og fjárveitinga eru allt dæmi um það sama.

Verjum lýðveldið

Íslenska lýðveldið er ungt, liðlega hálfrar aldar og það er enn í mótun. Í mörgu hefur vel til tekist og á aldarlöngum fullveldistíma höfum við risið frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í fremstu röð. Skugga sem nú ber á vegna skuldasöfnunar breytir engu um þá heildarmynd. En stjórnkerfið og traust almennings á því hefur beðið hnekki. Til þess að vinna traust þjóðar dugar ekki orðagjálfur og innantóm umræðustjórnmál. Þjóðin veit að stjórnmálamenn ganga of oft erinda annarlegra afla og meðan svo er skapast ekki sátt milli þings og þjóðar.

Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar verða að vera frjálsir undan oki, hagsmunagæslu og heimsku íslenska flokkakerfisins. Regnboginn sem býður fram nú í komandi kosningum gerir nú tilraun innan kosningakerfis fjórflokksins til þess að koma á einstaklingskjöri og skapa stjórnmálamönnum möguleika til starfa án þess að tilheyra flokki. Hvorki lífeyrissjóðir, bankar né kvótaeigendur geta gengið í Regnbogann því hann er aðeins bandalag þeirra sem bjóða fram en ekki stjórnmálaflokkur þar sem peningaöfl rísa til áhrifa. Það er von okkar að þessi tilraun geti orðið skref í þá átt að hrista upp í spilltu kerfi hagsmunagæslu og flokksræðis. En ekkert slíkt gerist án atbeina kjósenda.

(Birt í Morgunblaðinu 3. apríl 2013)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þú þarft að útskýra þetta aðeins betur Bjarni.Þú segir að "kvótaeigendur" geti ekki gengið í Regnbogann.Látum það vera.En hvað áttu við þegar þú talar um kvótaeigendur.Ertu að tala um bændur.Eða trillukarla með nokkur tonn.Eða hluthafa í sjávarútvegsfyritækjum.Og hað er "kvótaeigandi".Og má það fólk sem þú hugsanlega kallar "kvótaeiganda" kjósa þig.

Sigurgeir Jónsson, 5.4.2013 kl. 21:20

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Á að vera "hvað er,"kvótaeigandi".

Sigurgeir Jónsson, 5.4.2013 kl. 21:21

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Og hvað með fólkið sem vinnur hjá þeim sem þú kallar "kvótaeigendur" og eru  í öllum sjávarbyggðum suðurkjördæmis.Má það kjósa þig.Og ætti það að gera það, ef það fær leyfi.Ekki er annað sjáanlegt en að þú haldir þig við þinn fyrri boðskap.Að allan veiðirétt í suðurkjördæmi eigi að færa til ríkisins í R.Vík. með tilheyrandi skattpíningu á fyrirtæki og fólk í suðurkjördæmi.

Sigurgeir Jónsson, 5.4.2013 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband