Atvinna er mannréttindi

Manngildi ofar auðgildi er slagorð sem flestir stjórnmálaflokkar hafa tekið í þjónustu sína, orðað á mismunandi vegu en merkingin sú sama og aftur og aftur letruð í spjöld loforðanna. Bjarni heitinn Benediktsson eldri, forsætisráðherra og sjálfstæðismaður setti þau fram í ræðu á sjöunda áratug 20. aldar, hinar evrusinnuðu flokksleifar VG hampa sama á plakötum í dag og í millitíðinni hafa bæði kratar og Framsóknarmenn talið þetta í sínum söfnuði.

Þetta slagorð er athyglisvert í þeirri efnahagsumræðu sem á sér stað í dag þar sem öðru hvoru heyrist að stöðugleiki í peningamálum sé æðsta hnoss hvers ríkis. Allir þeir sem stungið hafa svomikið sem nefinu ofan í hagfræðiskruddu vita þó að samfélag þar sem verðbólga er engin er samfélag algerrar stöðnunar.

Evrópulöndin sem nú sigla hvert af öðru í strand reyna það nú hvað það er að búa við hinn stöðuga gjaldmiðil sem lætur sig engu varða hvernig þjóðarskútan berst af. Það sannast betur og betur í þeirri kreppu sem nú gengur yfir að valið er milli stöðugleika gengis með miklu atvinnuleysi annarsvegar og óstöðugleika hins vegar þar sem gjaldmiðillinn mælir einfaldlega virði hagkerfisins á hverjum tíma og sveiflast með því. Því fylgja margir ókostir en einnig sá stóri kostur að atvinnuleysi er haldið í lágmarki. Þetta eru afgömul og sígild sannindi hagfræðinnar.

Ef við horfum á hag þeirra sem eiga peninga og peningalegir eignir þá er verðbólgan vitaskuld varasöm. Fjármagnsöflin tryggja sig síðan eftir mætti með verðtryggingu en margt af efnislegum eigum lætur þó mjög á sjá í dýrtíðinni. Auðstéttin reynir eftir mætti að koma og eftir sitja hinir lægstu og hafa fátt til varnar við dýrtíð og rýrnandi kaupmætti.

Enn verri er þó staða hinna lægstu í löndum þar sem allt kapp er lagt í að viðhalda kaupmætti gjaldmiðilsins og auðgildið svo sannarlega sett langt ofar manngildi. Þar tekur ekki annað við hjá almenningi en atvinnuleysi sem nú slagar í og yfir 50% hjá ungu fólki víða við Miðjarðarhafið. Rasískar fullyrðingar ESB sinna um leti og spillingu Miðjarðarhafsbúa eru vitaskuld ekki svaraverðar.

Íslenskt hagkerfi er lítið og það er opið fyrir sveiflum sem verða við mismunandi aflabrögð og sveiflur á erlendum mörkuðum. Við getum auðvitað sagt að við viljum ekki verða vör við sveiflurnar en það er hvorki mjög gáfulegt né farsælt til hagstjórnar. Ef að gjaldmiðillinn fær ekki að sveiflast með hagkerfinu verða aðrir sveiflujafnarar að taka að sér hans hlutverk og þeir eru miklu mun hastarlegri fyrir samfélagið.

Kapítalískir hagfræðingar og blindir trúmenn á markaðslögmál tala um atvinnuleysi sem eðlilegt meðal til þess að lagfæra hagkerfið. Offramboð á vinnuafli á þá að leiða til launalækkana sem aftur verða til þess að atvinnuvegirnir geta komist á lappir þrátt fyrir áföll.

En þá fer minna fyrir manngildishugsjónum. Einstaklingur sem ekki fær atvinnu finnur fyrir höfnun samfélagsins sem hann tilheyrir og hættir til að efast um að hann tilheyri því. Eða þá að hann telur sig ekki vera neins virði því sama samfélagi. En einmitt það að hafa hlutverk og vera samferðafólki sínu einhvers virði er það mikilvægasta í sjálfsmynd hvers manns.

Séu þessi skilaboð send ungu fólki skilja þau eftir sig ör sem alltof oft verða til að viðkomandi fótar sig aldrei fyllilega í lífsbaráttunni. Leggjumst aldrei svo lágt fyrir auðhyggjunni að við teljum atvinnuleysið hégómamál. Segjum nei við ESB. 

(Birt í Sunnlenska fréttablaðinu 4. apríl 2013) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband