Varðstaða fyrir Suðurkjördæmi

Árið 2007 tókst okkur sem þá vorum þingmenn Suðurkjördæmis að afstýra því að ráðist yrði í byggingu fangelsis á Hólmsheiði. Það var mikilvægur áfangasigur en um leið var ljóst að þingmenn og ráðamenn í héraði yrðu að fylgja þeirri ákvörðun eftir með málefnalegum hætti.

Það tókst ekki og er mjög miður. Nú er hafin uppbygging á stóru Hólmsheiðarfangelsi sem setur myndarlega stofnun á Litla Hrauni í mjög erfiða og tvísýna stöðu. Fyrir nokkrum misserum var Réttargeðdeildinni á Sogni stolið af okkur og færð til Reykjavíkur. Málið allt vekur okkur til umhugsunar um það hversu vel sé haldið á kjördæmishagsmunum Suðurlands.

Reykjavík togar

Einhverjum kann að þykja ómálefnalegt að setja skipulag fangelsismála í slíkt samhengi að þetta snúist bara um hagsmuni héraða og má rétt vera. En staðreynd málsins er sú að það er yfirgangur Reykjavíkurstofnana sem setur málið í þá stöðu en ekki varnarbarátta okkar á landsbyggðinni. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur fjöldi opinberra starfa verið færður af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Ekki vegna þess að það sé faglega nauðsynlegt eða sérstakur sparnaður af því að svo sé gert heldur einfaldlega vegna þess að það er bitist um störfin.

Í landinu er nú slíkt byggðalegt ójafnvægi að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar búa á einu og sama svæðinu og í baráttu við þann skriðþunga dugar landsbyggðinni engin hálfvelgja. Við verðum að spyrna við fótum af fullum krafti í hvert sinn sem Reykjavíkurstofnanirnar heimta að taka stofnanir og störf af okkur. Tepruskapur þingmanna í þeirri baráttu hefur því einu skilað að embættisaðallinn fer sínu óhikað fram.

Í öllum öðrum löndum yrði það talinn hlægilegur málflutningur að halda að fangelsi og réttargeðdeild mættu ekki vera í klukkustundar akstursfjarlægð frá höfuðborg. Þegar borið er við að langt sé að fara með menn til dómara og læknis er því til að svara að á Selfossi er bæði dómshús og sjúkrahús og full þörf á að efla þær stofnanir.

Hagsmunir þjóðar

Það eru ekki þröngir kjördæmahagsmunir að halda landinu í byggð og skapa öflugan hagvöxt um land allt. Það eru einfaldlega hagsmunir allrar þjóðarinnar. Velmegun á Íslandi byggir á því að við nýtum landið og mið þess af þekkingu og nærfærni. Til þess þurfum við að byggja það.

Austurkantur Suðurkjördæmis er eitt af þeim svæðum landsins sem eru í dag í stórri hættu að leggjast í eyði, allt frá Vík til Hafnar. Þar eru engu að síður gríðarlegar auðlindir í formi ræktarlands, orku, menningu og síðast en ekki síst einum fegurstu ferðamannaleiðum þessa lands. Verði ekki spyrnt við fótum verða hér um 300 km af hringveginum akstur um eyðibyggðir. Þegar ríkisstjórnin stofnaði til Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir fáeinum árum var höfuðstöðvum hans valinn staður í Reykjavíkur!

Suðurkjördæmi allt þarf á einarðri málsvörn að halda á komandi árum.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband