Við viljum tafarlaus viðræðuslit

Í þá tíð þegar formaður VG talaði enn svolítið sem andstæðingur ESB aðildar notaði hann orðtækið að ekki mætti „bera fé á dóminn" í hinu lýðræðislega ferli ríkisstjórnarinnar sem átti að geta af sér aðildarsamning. Það mætti semsagt ekki leyfa ESB að koma hér inn með sérstaka styrki og áróðurspeninga enda myndi slíkt brengla algerlega hina lýðræðislegu nálgun að hún hlutlaust og yfirvegað gæti tekið afstöðu til aðildar að fengnum „aðildarsamningi".

Við sem hlustuðum á formanninn héldum að nú myndi hann hjálpa okkur að stöðva óeðlilega tilburði ESB til að koma upp áróðursskrifstofum og auðvitað var það nú dregið sem strik að aðlögunarstyrkir yrðu ekki samþykktir meðan VG væri á stjórnarvaktinni.

Lýðræðisferlið eyðilagt

Þetta var 2010 og síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Steingrímur J. Sigfússon er ennþá langvaldamesti maður VG en völdin samfara því fara óneitanlega þverrandi. Og sami Steingrímur er steinhættur að leika ESB andstæðing. Nema þá kannski á þorrablótum.

ESB fór sínu fram á Íslandi og opnaði áróðursskrifstofur þvert á alþjóðlega samninga um að sendimenn ríkja mættu aldrei hafa áhrif á umræðu um umdeild innanlandsmál í fullvalda ríki. 2011 samþykkti ríkisstjórnin að heimila milljarða aðlögunarstyrki svo nú var virkilega slegið í og fé skyldi „borið á dóminn" eins og enginn væri morgundagurinn.

Evrópusambandið gefur nú á báðar hendur hér á Íslandi en býr eigin þegnum þau kjör að víða er meira en 50% atvinnuleysi meðal ungs fólks og neyð steðjar að milljónum manna innan sambandsins. Verum þess minnug að þetta fólk er skattlagt til þess að hér megi dreifa gullinu.

Afhverju ekki að klára!

Afhverju ekki að klára samninginn, segja ESB sinnar og taka andköf af því að enn séu til raunverulegir fullveldissinnar á Íslandi. Svarið er þríþætt.

Í fyrsta lagi segir ESB að það sé ekkert til sem heiti samningaviðræður heldur sé þetta aðlögun. Það er því verið að beita þjóðina blekkingum. Á síðu stækkunardeildar heitir það sem hér fer fram aðlögunarsamningur og þar segir m.a.:

Hugtakið "samningaviðræður" getur verið misvísandi. Aðlögunarsamningar einblína á skilyrði og tímasetningar á því hvenær og hvernig umsóknarríki lagar sig að reglum ESB.. sem eru ekki umsemjanlegar.

Í öðru lagi, ESB sinnar hafa eyðilagt möguleika á hlutlausri og íhlutunarlausri innlendri lýðræðislegri nálgun með því að leyfa ESB að „bera fé á dóminn".

Í þriðja lagi var lagt upp í þetta ferli með ólýðræðislegu ofbeldi gagnvart þjóð og þingi. Alþingismenn viðurkenndu í samþykkt sinni að þeir hefðu verið beittir þvingunum og að þeir hafi verið að greiða atkvæði gegn eigin sannfæringu. Slíkt atferli þingmanna er stjórnarskrárbrot og allur grundvöllur málsins er ein óhæfa.

Við þetta bætist svo að Ísland hefur aldrei lagt fram skýra samningsafstöðu í okkar helstu málum, eins og um sjávarútveg og auðlindir, heldur hefur umræðu um þau mál verið haldið frá þjóðinni með óheiðarlegu pukri.

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn á flótta

Fyrir fáeinum mánuðum komu hægri flokkarnir Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fram sem einarðir ESB andstöðu flokkar. Síðan hafa báðir verið á flótta frá þeirri afstöðu sinni. Bjarni Ben. og Hanna Birna hafa boðað verulegar tilslakanir frá landsfundarsamþykktum til þess að þóknast ESB sinnuðum umræðustjórum ríkisins og litlum en afar háværum hópi ESB innan eigin flokks. Framsókn sem stefnir að meirihlutafylgi gætir þess að enga megi nú styggja og því skuli enga opinbera skoðun hafa á málinu nema þá að þjóðin eigi að fá að kjósa um það hvort viðræðum sé haldið áfram!

Í þeirri kosningabaráttu munu ESB andstæðingar berjast með örfáum krónum á móti hundruða milljóna skriðdrekum frá ESB. Hér hefur svo sannarlega verið „borið fé á dóminn." Með þessari framsetningu mála hjá Framsókn er í reynd verið að viðurkenna að fram fari eðlilegt samningaferli þar sem Ísland og ESB sitji að samningaviðræðum á jafningjagrunni. Það er ekki svo.

Regnboginn hefur einn allra framboða markað sér þá sérstöðu í kosningabaráttunni að vilja tafarlaus og skilyrðislaus viðræðuslit.

Þjóðin á rétt á að kjósa

Þjóðaratkvæðagreiðslur um stór hagsmunamál eru vitaskuld lykill að farsælli nálgun mála. Við sem barist höfum gegn ESB aðild og hverskyns fullveldisskerðingu höfum margoft farið fram á þjóðaratkvæði um þau mál. Við vildum þjóðaratkvæði um EES, við vildum þjóðaratkvæði um það hvort hefja skyldi viðræður um ESB aðild og það hefur réttilega verið nefnt að Shengen samstarfið verðskuldar að vera sett í þjóðaratkvæði.

Þegar áróður ESB hér innanlands hefur verið stöðvaður með lokun Evrópustofu, slitum á viðræðum og stöðvun siðlausra aðlögunarstyrkja þá er sjálfsagt og eðlilegt að efna til kosninga þar sem allt samstarf okkar við viðskiptaþjóðir okkar í Evrópu og ESB verður lagt undir.

Aðildarsinnar hafa um áratugi hundsað allar okkar tillögur um þjóðaratkvæði og barist gegn þeim með oddi og egg. Látum þá ekki blekkja okkur nú með því að það séu þeir sem standi fyrir lýðræðinu á móti þjóðarmeirihlutanum sem vill svo sannarlega, eins og kannanir hafa margoft sýnt, taka ESB brautarteinana úr sambandi.

Kjósum með Íslandi og fullveldi þess. Kjósum fólk sem þorir að berjast gegn ESB aðlögun. Setjum X við J á kjördag.

(Birt í Morgunblaðinu 13. april 2013)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband