Er lýðræðislegt að afnema lýðræði?

Eftir Valdísi Steinarsdóttur og Bjarna Harðarson

Þegar við tölum um að þetta eða hitt landið sé lýðræðisríki vísar það til þess að almenningur hefur eitthvað um það að segja hverjir fara með völd í ríkinu og sami almenningur getur kosið valdhafa af sér. Stjórnvaldsákvarðanir eru teknar af kjörnum fulltrúum fyrir opnum tjöldum og almenningur veit hvaða afstöðu einstakir kjörnir fulltrúar hafa til einstakra ákvarðana.

Valdis_Steinarsdottir_SV_XJ

Enn er það minnihluti mannkyns sem býr við lýðræði en hagur almennings, mannréttindi og jöfnuður er alla jafna meiri í löndum þar sem það er við lýði. Engu að síður koma alltaf öðru hvoru upp hugmyndir um að stjórna eigi með öðrum hætti eða fela völdin öðrum en kjörnum fulltrúum.

Niður með lýðræðið!

Framan af 20. öldinni voru helstu ógnir lýðræðisins frá öfgaöflum hægri og vinstri sem komust til áhrifa í kosningum en afnámu svo kosningaréttinn og í framhaldinu ýmis almenn réttindi. Þó svo að hugstæðust og þekktust sé þar saga nasista í Þýskalandi eru dæmi mannkynssögu síðustu áratuga miklu fleiri og ekki fögur.

Á okkar dögum steðjar önnur hætta að lýðræðinu. Það er linnulaus margra áratuga áróður menntamanna að til sé fagleg og rétt ákvörðun í stjórnmálum. Með réttri menntun og mælingum menntamanna megi til dæmis komast að því hvar eigi að virkja eða hvernig haga beri samningum við erlend ríki. Það sé auðvitað afar slæmt ef „pólitíkin" kemst að í slíkum málum og grunnhyggnir stjórnmálamenn lemja hvern annan í hausinn með því að segja þú ert pólitískur, ég er faglegur! Flokksræði og margskonar spilling sem þrífst í skjóli þess hefur um leið grafið undan öllu því sem kennt er við stjórnmál og pólitík verður ranglega að skammaryrði.

Ef til væri ein rétt ákvörðun er vitaskuld algerlega óþarft og jafnvel skaðlegt að hafa lýðræði. Lýðurinn, þessi ómenntaði tuddalegi massi fólks býr auðvitað ekki að þeirri menntun sem segir að það eigi að borga Icesave, virkja í Bjarnaflagi eða flytja bæði Þorláksbúð og Reykjavíkurflugvöll út í buskann! Auðvitað á lýðurinn ekkert að ráða neinu svona og þar af leiðandi ekki pólitíkin, segja hinir faglegu.

Frá sjónarhóli lýðræðisins og okkar sem aðhyllumst lýðræði er hér aðeins um að ræða nýja tegund fasisma sem má eigna menntahrokanum og gírugu embættismannavaldi. Það er auðvitað ekki til nein sú menntun sem setur einstaklinga í þá stöðu að geta tekið sjálfsforræðið af fólki og þjóðum. Meginregla lýðræðisins er vitaskuld að allir séu betur komnir að stjórna sér og sínu sjálfir, sjálfsforræði sé grunnur að farsælu lífi.

Lögheimili hins nýja siðar

Evrópusambandið er mekka þeirra sem horfa til hins nýja siðar að koma á faglegri stjórnun þar sem aðeins eru teknar réttar ákvarðanir. Þar eru hinir kjörnu fulltrúar hafðir á valdalausri kjaftasamkomu en öll völd eru í höndum nafnlausra embættismanna sem þurfa aldrei að standa kjósendum reikningsskil gjörða sinna. Framkvæmdastjórnin er einfaldlega ekki kosin heldur valin og sama á við um alla lykilstöður. Herman Van Rompuy sem titlaður er forseti Evrópusambandsins og einn valdamesti maður álfunnar hefur aldrei verið kosin til síns embættis. Þessvegna er Evrópusambandið ekki lýðræðisríki heldur ólýðræðislegt heimsvaldasinnað stórveldi.

Tilfinning einstakra kjósenda fyrir því að þeim komi við eitthvað sem gerist í Evrópusambandinu er ekki mikil. Kjósandi í Katalóníu lætur sig Madrid varða og jafnvel skotanum finnst London skipta máli. Þessir vita líka að atkvæði þeirra hafa áhrif innanlands. Þeir og meðbræður sem deila sama landi og sömu menningarsýn ráða nokkru um það hverjir fara með völdin í Bretlandi og sama á við um Skánska bændur þegar kemur að valdhöfum í Stokkhólmi. En hvorugir hafa tilfinningu fyrir því að þeir ráði í Brussel enda hafa þeir varla áhuga á því og þátttaka í kosningum til Evrópuþingsins er eftir því hörmuleg þar sem langt innan við helmingur kosningabærra manna tekur þátt.

Kosning um ESB aðild er kosning um endalok lýðræðis

Ríki geta verið fullvalda án þess að vera lýðræðisríki og Norður Kórea er sorglegt dæmi um það. En þetta getur ekki snúið öfugt. Ríki geta vitaskuld ekki verið lýðræðisríki ef þau eru ekki fullvalda. Hversu mjög sem Tíbetum langar að búa í lýðræðisríki eiga þeir engan kost á því fyrr en þeir losna undan heimsveldi kommúnistanna í Bejing. Sama á við Kýpur og Grikkland sem eru nú troðin undir járnhæl fjármálafurstanna í Brusselvaldsins. Í hjálendu heimsveldis getur almenningur ekki tekið völdin til sín nema ná þeim fyrst frá heimsveldinu.

Öfugt við orðagjálfur reglugerðarmeistara hins faglega valds þá fjallar lýðræðið um raunverulega hluti, raunverulegt vald, raunveruleg yfirráð. Ef að yfirráð yfir landi, lagasetningu þess, auðlindanýtingu, dómum og innra skipulagi eru flutt í hendurnar á stærra og voldugra kerfi þá geta sömu völd ekki á sama tíma verið í höndum stjórnarinnar heima. Heimsveldi allra tíma hafa reynt að skrökva þessu að almúganum. Þau koma fyrir einhverskonar leppstjórnum í hjálendum sínum og fela þeim málamyndahlutverk en völdin eru raunverulega horfin. Land sem lent hefur undir hrammi stórveldis er ekki fullvalda ríki og þar verður ekki lýðræði fyrr en heimsveldið hefur verið brotið á bak aftur.

(Birt í Morgunblaðinu 18. apríl 2013)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband