Markaðssamfélag og réttlæti

Okkur Laugaráskrökkunum þótti uppsveitin heima heldur útúrboruleg og strjál. Varla að þar væri mjög fjölbreytilegt mannlíf. Sérstaklega átti þetta nú við um Eystri Tunguna sem var ekkert nema Pollengið og þar upp af endalausir gróðurlausir melar. Fráleitt að þar gætu þrifist fleiri en ein fyndni og ein lygasaga í senn. Kannski þó að þar væru einhverjar úreltar kerlingar með aðrar meiningar en slíkar töldust ekki með.

Með árunum hef ég komist að því að þetta var rétt. Ekki bara um Eystri Tunguna heldur jarðarpönnukökuna sem slíka. Á henni er yfirleitt ekki nema ein skoðun, einn sannleikur í einu ef frá kannski taldir örfáir afdalamenn sem er á hverjum tíma reynt að drepa eða þegja af sér eins og óværu.

Lygasaga markaðshyggjunnar

Fall Berlínarmúrsins, eins þarft og það fall nú samt var, leysti úr læðingi alveg nýja lygasögu sem hefur síðan drottnað yfir heiminum öllum. Allt í einu var það haft fyrir satt sem örfáir kjánar höfðu áður trúað, að til væri eitthvað sem héti markaðssamfélag og í töfraorðum þess samfélags lægi galdur allrar velmegunar og framfara. Um sumt minntu þessar möntrur á fræði Altúngu í sögu Voltairs.

Það er ekki fyrr en horft er til baka af rústum bankahruns og brostinna vona að það rifjast upp að svona hefur þetta ekki alltaf verið. Fyrir þrjátíu árum síðan var ekkert endilega sjálfsagt að allt ætti að liggja flatt fyrir einhverju sem kallað er samkeppnislögmál eða að alútboð væri hluti af hinu algilda réttlæti.

Stórfyrirtækin höfðu ekki sama frelsi til að plægja akurinn af því að siðferðið var annað og við leyfðum okkur að trúa á kaupmanninn á horninu, þó svo að hann væri kannski svolítið dýrari. Með hinu upplogna markaðssamfélagi fór heimurinn að trúa því að tryggð væri glæpur og sérgæskan ein skyldi ríkja.

Hið meinta réttlæti

Vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti, sagði vondur Skagamaður í góðri sögu. Smám saman hefur þetta meinta réttlæti orðið til þess að samsteypufyrirtæki hafa lagt undir sig verkefni smáfyrirtækja, keypt þau út af markaðnum og búið til atvinnulíf sem öllu er stjórnað af ábyrgðarlausum og andlitslausum hákörlum einokunar og fákeppni. Hlutabréfastrákum sem enginn veit hvað heita.

Hér á Selfossi eru varla nokkrir atvinnurekendur lengur en því fleiri útibú frá þeim nafnlausu fyrir sunnan. Getur verið að þetta hafi aukið samkeppnina, bætt verslun í landinu, aukið á hagkvæmni í atvinnurekstri? Mér er það mjög til efs. Og þegar kemur að réttlæti, sanngirni og heiðarleika hefur hér svo sannarlega öllu verið snúið á hvolf.

Gefið okkur ranglætið aftur!

Meðan íslenskir smákapítalistar erfiða í blankheitum með eigin kennitölu að veði, hús sín lögð undir við bankann og jafnvel ábyrgðaryfirlýsingu frá maka sínum þá siglir framúr þeim fagurbúin skúta stórfyrirtækja. Allt svo glansandi nýtt og ríkmannlegt. Ekki vegna þess að arðsemi hinna síðarnefndu sé svo mikil, heldur vegna þess að lygi þeirra er stærri en okkur kann að dreyma hér í Flóanum.

Við sjáum fyrirtæki eins og pizzakeðjur gera innrás inn í bæinn með forstjórann í þyrlu. Enginn talar um að nokkrum misserum fyrr hefur almenningur lagt þessu fyrirtæki til hundruðir milljóna í gegnum afskriftir.

Litlu fjölmiðlafyrirtækin hér í bæ í eigu þeirra Einars Björns og Sigmundar hins Sunnlenska keppa á auglýsingamarkaði við stórlaxa sem aldrei hafa borgað sínar skuldir og ætla ekkert að gera. Þessir kónar skipta frekar um kennitölur og láta okkur eftir skuldirnar en þykjast svo vera feykilega merkilegir boðberar frjálsa viðskipta.

Þessi öfugsnúna og ábyrgðarlausa mynd kapítalismans var greypt í lög með innleiðingu EES og hefur ráðið hér smáu og stóru. Við þurfum á eigin forsendum að taka hana til endurmats og reisa atvinnulíf á hefðbundnum gildum heiðarleika og atorku.

Þegar hrunið stóra varð 2008 voru það litlu fyrirtækin sem stóðu storminn af sér. En þeim var jafnharðan boðið upp í þann dans að keppa að nýju við sömu samsteypurnar og áður höfðu fallið og nú voru þeir stóru færari en nokkru sinni til að undirbjóða og hafa allt eftir stæl. Þjóðin borgaði brúsann og hún mun gera það aftur!

Þetta er þeirra réttlæti og þá segjum við eins og samtímabörn Jóns Hreggviðssonar, megum við ekki frekar fá þeirra ranglæti!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband