Ræktum menningarbyltinguna!

Grundvöllur hvers samfélags er frumframleiðsla. Hér á Suðurlandi er einkanlega landbúnaðurinn sem leggur grundvöll samfélagsins og hefur gert frá öndverðu. Í sjávarþorpunum í Flóanum var þorskurinn þessi grundvöllur.

Utan í frumframleiðslunni vex svo margskonar þjónustu- og úrvinnslustarfssemi. Og tímarnir breytast. Það er fyrir löngu af að þorskur sé veginn í land í Flóanum og lengi voru plássin tvö, Eyrarbakki og Stokkseyri í nokkurri kreppu og ekki séð hvort þau næðu að vaxa eðlilega.

Þær áhyggjur eru nú að baki. Stokkseyri og Eyrarbakka hafa að nýju eignast sinn aflahlut og geta staðið keik frammi fyrir öðrum byggðum landsins. Þar eru nú byggð ný hús og ekki að sjá annað en að byggðin sé að taka vaxtakipp.

Einhver kann að halda að þessu ráði einvörðungu nálægðin við höfuðborgarsvæðið. En það kemur fleira til. Vaxtakippur sjávarbyggðanna við ströndina tengist menningarbyltingunni sem þar hefur orðið á undanförnum árum. Listaspírur í hverri götu, fjölmörg gallerí og greiðasölur eru allt samstíga skref í því að gera þessi litlu þorp að aðlaðandi og öflugum samfélögum. Að ógleymdri Menningarverstöðinni í gamla frystihúsinu.

Þorskur þessara samfélaga í dag eru skilirín frá Sjöfn Har., Elvari Guðna, Halldóri forna og fjölmörgum öðrum skapandi einstaklingum. Þessi skilirí ásamt humardiskum og djöflatertum draga fé og fólk inn á svæðið. Ef vel er á málum haldið getur þessi starfssemi margfaldast á næstu árum og langt í að kvóti verður þar lagður á.

Undanfarin ár hefur Sveitarfélagið Árborg lagt þessari uppbyggingu ómetanlegt lið með vorhátíð sinni, Vor í Árborg. Nú hefur verið ákveðið í sparnaðarskyni að sleppa slíku hátíðahaldi. Það er miður og þó svo að það komi ekki mikið við atvinnulíf á Selfossi er þetta áfall fyrir grundvallar atvinnuveg sjávarþorpanna. Að því þarf að huga nú fyrir vorið.

(Birt í Sunnlenska 1. mars 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband