Þjóðlendumálin tekin í gegn...

Það var mikill hugur í Framsóknarmönnum í þjóðlendumálum um helgina og ég kom þar aðeins að. Eftir snarpar umræður var málið samþykkt með 90% atkvæða í vel fullum sal. Allar tillögur þingsins eru vitaskuld á vef Framsóknarflokksins en ég tel rétt að setja þessa einu hér inn og þar með greinagerð sem við áhugamenn um málið kokkuðum með en fór vitaskuld ekki inn í ályktanapakkann...

Þjóðlenduályktun: 

Markmið:

Að skapa sátt um eignarhald á landi.

 

 

 

Leiðir:

  • Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn að fresti frekari framgangi þjóðlendumála á Íslandi og taki lög um þjóðlendur til endurskoðunar.
  • Með frestun er átt við að ekki verði lýst kröfum í ný svæði á landinu en jafnframt leggur Framsóknarflokkurinn áherslu á að hraða málsmeðferð þeirra svæða þar sem ríkið hefur þegar lagt fram kröfur.
  • Fjármálaráðuneyti og kröfunefnd þess að endurskoði kröfugerð sína þar sem mál standa yfir og leiti þar sátta við jarðeigendur. Þá leggja Framsóknarmenn áherslu á að ríkisvaldið uni úrskurði Óbyggðanefndar enda nefndin skipuð af ríkisstjórn landsins.

 

Fyrsta skref:

Flokksþingið leggur áherslu á að forysta flokksins tryggi máli þessu þinglega meðferð fyrir þinglausnir á komandi vori.

Greinargerð

Lög um Þjóðlendur voru samþykkt frá Alþingi 10. júní 1998. Síðan þá hafa þingmenn allra flokka marglýst því yfir að framkvæmd laganna hafi ekki verið með þeim hætti sem þeir bjuggust við né heldur ásættanleg gagnvart landeigendum og dreifbýli þessa lands.

Nægir í þessu að vitna til nýlegrar greinar sem varaformaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, skrifaði um málið í Morgunblaðinu 17. janúar sl. Þar segir m.a.:

Ég vil að bændur og jarðeigendur hafi það alveg klárt að Framsóknarflokkurinn og reyndar báðir stjórnarflokkarnir fóru ekki í þessa vegferð til að ná bújörðum af bændum, heldur til að treysta eignar- og afnotarétt jarðeigenda og bænda horft til framtíðar, samhliða því að tryggja þjóðareign á eigendalausu landi og landsvæðum.

(Guðni Ágústsson: Morgunblaðið 17. janúar 2007)

Þá bendir landbúnaðarráðherra á það í grein sinni að kröfugerð ríkisstjórnarinnar hafi harðnað og ástæða sé til að fara vel yfir þann þátt hvort breyta þurfi lögum:

Fagna ber nú áformum um stofnun landssamtaka jarðeigenda. Ríkisstjórnin er sammála um að ganga til samstarfs og viðræðna við þessi samtök sem og önnur sem hagsmuna eiga að gæta um lögin, málsmeðferðina og hvernig hægt sé að milda hörð og harðnandi vinnubrögð kröfugerðarinnar. Þar verður auðvitað að fara vel yfir þann þátt, hvort breyta þurfi lögunum.

(Guðni Ágústsson: Morgunblaðið 17. janúar 2007)

Sérfræðingar á sviði eignaréttar hafa margir talið að með lögum þessum sé vegið að grundvallarréttindum samfélagsins, eignarréttinum. Um þetta er vitaskuld ekki eining milli málsaðila en minnsti grunur um að eignaréttur í landinu standi höllum fæti kallar á að löggjafarþing þjóðarinnar taki málið til skoðunar. Ekki þarf að tíunda hér að helgi eignarréttarinnar er grundvöllur stjórnskipunar okkar og velmegunar. Í þriðja heims löndum og löndum sósíalismans er iðulega bent á það sem eina helstu orsök vanþróunar að eignarréttur er háður duttlungum ólýðræðislegra stjórnherra.

Þrátt fyrir alla þessa gagnrýni hefur framkvæmd laganna haldist óbreytt og raunar verið með hverju árinu gengið lengra í kröfugerð og áfrýjunum mála. Þannig voru heilar jarðir dæmdar af einkaaðilum í Öræfum og í Þingeyjarsýslum stefnir í harðvítug átök um eignir sem hafa til þessa verið þinglýstar bændajarðir og þeir greitt af þeim skatta og skyldur. Í nokkrum tilvikum hafa dómstólar dæmt af bændum og sveitarfélögum eignir sem ríkisvaldið það hafði sjálft selt við verði. Þannig hefur ríkisvaldið eignast með málssókn eignir sem það áður hafði þegið greiðslu fyrir.

Mjög deildar meiningar hafa frá upphafi verið um nauðsyn þjóðlendulaga. En jafnvel þó viðurkennd sé nauðsyn þess að skera úr um eignarhald á miðhálendi Íslands er ljóst að litlu skiptir hvort því verki lýkur nokkrum árum fyrr eða seinna. Hvergi í landinu standa þær deilur um nýtingu á meintum þjóðlendum að það kalli á sérstakan flýti þessa máls.

Núverandi lög gera með áorðnum breytingum frá árinu 2006 ráð fyrir að Óbyggðanefnd ljúki störfum árið 2011. Vafamál er að það markmið náist að óbreyttu þar sem aðeins er nú lokið vegferð um tæpan helming landsins á 8 árum.

Að þessu virtu og síðan fullyrðingum fjölmargra þingmanna úr öllum starfandi stjórnmálaflokkum landsins um að framkvæmd laganna sé ekki með þeim hætti sem þeir bjuggust við eða telja ásættanlegt, telur Framsóknarflokkurinn það skyldu Alþingis að endurskoða lög þessi og eftir atvikum önnur lög sem tengjast eignarrétti á landi áður en ráðist er að fleiri eignarlöndum í landinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þettað er náttúrulega eðlilegt hjá framsóknarmönnum. Þegar þeir verða fyrir þrýstingi og fylgið fer fallandi fyrir kosningar þá á að reyna að klóra í bakkann og bjarga einhverju. Það að fara að breyta kröfugerðinni í miðju verki er alveg dæmigert, ekki orð að márka þá.

klakinn (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 10:49

2 identicon

Ég tók eftir annarri samþykkt, það er að skylda 5 ára börn að dvelja daglangt á uppeldisstofnun. Hver er ástæðan? Misstuð þið af nýlegri frétt frá alþjóðastofn sem benti íslendingum á að foreldrar þurfi að eyða meiri tíma með börnum sínum.

Elías Theodórsson (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 11:00

3 Smámynd: valdi

Hvað viljið þið Framsóknarmenn upp á dekk korteri fyrir kosningar.Það eina sem þið eyjið skilið er að fá duglega rassskellingu í Vor,sem þið fáið örugglega

valdi, 5.3.2007 kl. 12:16

4 Smámynd: Bjarni Harðarson

þetta eru hressileg komment og sýnir hvað framsóknarhjartað er sterkt í okkur öllum - eða hver skammast út þann sem honum kemur ekki við...

Bjarni Harðarson, 5.3.2007 kl. 16:31

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarni eg er sammál þer i þessum þjólendumálum,þetta er gott mál til að til að fylgja eftir!!!Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 5.3.2007 kl. 17:56

6 Smámynd: HP Foss

Ég er sammála þeim sem þykir seint fyrir rassinn gripið, kemur hallærislega út fyrir okkur sem viljum trúa því að Framsóknarflokkurinn standi vörð um landeigendur, bændur. lansbyggðafólk. Það er ekki eins og þetta sé að gerast núna, bændur búnir að berjast hatrammlega fyrir rétti sínum, sumir unnið sigur en aðrir tapað stórum hlurum jarða sinna og eiga þó afsal fyrir öllu saman. Fjármálaráðherrann og hans hyski átti að stoppa.
Þetta er of seint.

HP Foss, 5.3.2007 kl. 20:12

7 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Það er ekkert mál sem særir réttlætistilfinninguna hjá fólki eins mikið og þessi fáránlega eignaupptaka.

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 5.3.2007 kl. 21:02

8 identicon

Það er eins og mig minni að þetta þjóðlendumál sé ekki nýtt af nálinni frekar en auðlindamálið. Hvað með það ranglæti sem hefur viðgengist með undanförnum dómum í þjóðlendumálunum fór það framhjá Framsóknarmönnum???

Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 21:58

9 Smámynd: Katrín

"hver skammast út í þann sem honum kemur ekki við.."

Sem sagt Framsóknarflokkurinn  kemur ekki kjósendum við og hvað þá frambjóðendur. Minnsti flokkurinn en sá valdamesti segja sumir.  Mér finnst mér nú koma við það sem Framsóknarflokkurinn ályktar um og ekki síst það sem hann hefur lofað en ekki staðið við..

Katrín, 5.3.2007 kl. 22:34

10 Smámynd: Katrín

..koma það við.. á þetta að vera

Katrín, 5.3.2007 kl. 22:35

11 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Landupptaka verður að vera í sátt við þjóðina alla!

Ísland er byggt upphaflega af mönnum með eld og konum með kýr að eigna sér land!

Ef við viljum breyta þessu verðum við að skoða það vel hvað það er að  vera Íslendingur! 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 5.3.2007 kl. 23:01

12 Smámynd: Þórir Kjartansson

Hafðu heila þökk fyrir aðkomu þína að þessu máli Bjarni. Þú hefðir betur verið kominn fyrr inn í pólitíkina. Og fyrir þá sem ekki vita (og þeir eru nú ansi margir sem lítið þekkja til þessa máls) hafa þjóðlendumálin heyrt undir ráðherra Sjálfstæðisflokksins frá upphafi. Mér finnst samt margt benda til að réttlætiskennd Árna Mathiesen sé ofboðið og hann sé til í að gera eitthvað til að breyta um gír.

Þórir Kjartansson, 6.3.2007 kl. 21:54

13 identicon

Þjóðlendumálin eru áhugaverð.  Það er kannski rétt að benda á að auk þess sem bændur hafa margir keypt land sem ríkið gerir núna kröfu til af ríkinu þá hafa margir líka fengið t.d. greiddar eignarnámsbætur þegar er lagður vegur eða virkjun um land sem nú er allt í einu lýst þjóðlenda.  

 Ég skil ekki alveg hlutann í ályktuninni um að ríkið eigi að una úrskurði óbyggðanefndar?  Auðvitað á ríkið, rétt eins og bændur, að eiga kost á að bera úrskurði undir dómstóla í landinu.  Eða er ég að misskilja þennan hluta ályktunarinnar?

  En þetta ætti auðvitað að vera öfugt, þannig að í staðinn fyrir að allt sem bændur geta ekki sannað að sé þeirra eign sé þjóðlenda þá sé það sem ríkið getur sannað að sé ekki eign bænda þjóðlenda.

Máni (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 15:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband