Auðvitað viljum við göng...

Tilfinningin að ganga landganginn á Herjólfi er alltaf svoldið eins og maður sé að koma til útlanda. Ekki það að Vestmannaeyjar séu ekki íslenskar en þær eru samt talsvert öðruvísi. Og ferðalagið þangað er heilmikið mál. Ég þurfti að vera á fundi í Mosfellssveit í morgun og síðan hér í Vestmannaeyjum og hafði reiknað með að taka flug en í morgun leit út fyrir að það yrði ekkert flugveður. Svo það var ekkert annað að gera en rjúka af Mosó fundinum miðjum og ná Herjólfi klukkan 12...

Var svo heppinn að lenda hér beint á Ægisdyrafundi sem hófst reyndar tvö en ég átti ekki fast land undir fótum fyrr en um 3. Mjög fróðleg umræða og raunar með ólíkindum hvernig vinnubrögðum er beitt þegar stjórnvöld hafa ákveðið að eitthvað skuli ekki gert. Í þessu tilfelli göng til Vestmannaeyja. Minnir um margt á umræðuna sem var heima um fjórbreiðan Hellisheiðarveg þar sem bæði vegamálastjóri og samgönguráðherra stóðu framan af sem veggur gegn framkvæmdinni og gegn því að kostir hennar yrðu athugaðir til hlítar. Ég er ekki að segja að þessir embættismenn hafi ekki haft eitthvað til síns máls um það að kannski væri þríbreiður vegur nóg og kannski er ekki hægt að leggja göng til Eyja. En þeir gera sig ómerka í þeirri umræðu þegar þeir þybbast við að heimila almennilega og hlutlausa úttekt mála.

Hér fer Ægisdyrahópurinn fram á 60 milljóna króna rannsóknir á því hvort hægt sé að bora göng til Eyja en rekst á vegg. Ekki við gangaborunina heldur umræðuna. Það er auðvitað ekki þannig að það eigi að leggja göng til Vestmannaeyja hvað sem það kostar en ég er sannfærður um að ef kostnaður er eins og Ægisdyramenn telja rétt um eða innan við 30 milljarðar þá á að ráðast í þá framkvæmd. Og áður en menn ráðast í framkvæmdir við Bakkafjöru á hlutlaust kostnaðarmat gangagerðar að liggja fyrir.

Byggð hér í Vestmannaeyjum stendur tæpt. Ef ekki koma til verulega breyttar aðstæður í samgöngum er langlíklegast að hún líði undir lok á næstum áratugum. Spurningin er hvort höfn í Bakkafjöru dugi til að snúa þeirri þróun við. Ég er ekki viss um það.

Það alvarlegasta við annars ágæta stjórn Íhalds og okkar undanfarin ár er andvaraleysið í byggðamálum. Þenslan og einkavæðingin hafa víða gengið nærri byggðunum og sama gera margháttaðar breytingar í atvinnu- og menningarlífi. Þrátt fyrir að efnin séu næg hafa mótvægisaðgerðir verið sáralitlar. Sú þróun er ekki bara áhyggjuefni sveitarstjórna og fáeinna atvinnurekenda á landsbyggðinni. Íslenskt alþýðufólk sem á sínar húseignir í Vestmannaeyjum, Vestfjörðum eða Vík er rænt eiginfjárstöðu sinni og aleigu þegar fasteignaverð þessara staða hrynur en það gera veðskuldiirnar ekki. Jafnaðarstefna okkar Framsóknarmanna þarf að ná til þessa fólks...

En nóg um þetta í bili. Nú þarf ég að fara að hugsa upp hvað ég á að gera á karlakvöldi ÍBV í kvöld þar sem mér er ætlað að vera skemmtilegur. Best verður auðvitað að klæmast svolítið á Framsóknarmönnum. Vona bara að ég þurfi ekki að sitja þar yfir sumbli fram undir morgun...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Mér hugnast lítt  það að keyra til Eyja í 30km jarðgöngum í gegnum virka eldstöð, en engu að síður skil ég vel Eyjamenn og þann draum þeirra að geta keyrt uppá skerið.

Það sem mér finnst undarlegast í þessari umræðu er sá feikilegi munur sem liggur í kostnaðarmati hina ýmsu aðila, það er í hæsta máta undarlegt hvað ber mikið á milli.

Eiður Ragnarsson, 17.3.2007 kl. 19:00

2 Smámynd: GK

Göng til Eyja úr Landeyjunum yrðu töluvert styttri en 30 km.... :)

GK, 17.3.2007 kl. 20:57

3 identicon

Framsókn og Sjallar eru að ganga af landsbyggðinni dauðri með kvótakerfi sínu. Vestmannaeyjar ætla að sameinast Færeyjum, þar sem matur og olía eru mun ódýrari en hér og konur feitari vegna áralangrar óstjórnar Framsóknar og Sjalla. Hafðu því ekki áhyggjur af þessum göngum. Það er engin framtíð í þeim. Þetta yrði bara rottugangur, jafnvel enn hrikalegri en draugagangurinn á Stokkseyrarbakka.

Steini Briem (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 22:01

4 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Ég held að þetta sé nokkuð rétt ályktað hjá þér Bjarni, varðandi umræðuna um gangagerð hingað til Eyja. Það næst engin sátt um Bakkafjöru fyrren besti kosturinn hefur verið skoðaður, þ.e. göng.

En pólitíkusar virðast hafa séð sér hag í því að etja fólki gegn hvert öðru með því að útiloka algjörlega alla umræðu um göng, það hefur meira að segja ekki mátt kanna þann möguleika. Það er engu líkara en Sturla og hans fylgisveinar hafi einhverra persónulegra hagsmuna að gæta í því að koma Bakkafjöru í gagnið.

P.S. Vonandi gengur þér vel að skemmta ÍBV-körlum í kvöld, og kannski kemstu heim með flugi á morgun - eða ekki?

Guðmundur Örn Jónsson, 17.3.2007 kl. 23:30

5 identicon

Ég vil benda á að árið 2005 lét vegagerðin framkvæma  rannsókn á jarðlögum á hugsanlegri gangnaleið, þar kom m.a. fram að fullnaðarrannsókn kostar hundruðir milljóna, 60 milljónr sem Ægisdyrahópurinn fer fram á dugir því skammt ( sjá á bls. 41 í skýrslunni )

http://vgwww.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/vestm_gong_berggr_isor/$file/Vestm-Gong-Berggr_2005.pdf

Addi (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 00:51

6 identicon

Göng til Eyja yrðu langlengstu neðansjávarjarðgöng fyrir bílaumferð í heiminum. Má ekki fyrst kanna  hvers vegna engin önnur þjóð hefur farið út í  neðansjávargangnagerð  af þessari stærðargráðu?

Vigfús Eyjólfsson (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 01:14

7 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Ertu að stríða Bjarni ?

Tómas Þóroddsson, 18.3.2007 kl. 11:28

8 Smámynd: Halldór Borgþórsson

Eru ekki kostningar í námd ??  Greinin virkar þannig á mig.   Ég held að mesti vandi landsbyggðar sé allur sá kvóti sem hefur verið seldur á brott.  Kerfi sem að framsóknarflokkurinn hannaði og er að steypa landsbyggðinni í glötun.  Hins vegar get ég vel skilið  eyjamenn um úrbætu í samgöngumálum

Halldór Borgþórsson, 18.3.2007 kl. 13:55

9 identicon

 

Ég samþykki göng í einkaframkvæmd!    Ekki einhver til?   Svona, kommon...

Bakvörðurinn (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 15:24

10 identicon

Allan andskotann fara menn nú að vilja þegar þeir lenda í framboði.

Atli (IP-tala skráð) 19.3.2007 kl. 22:52

11 identicon

Þegar menn eru að tala um kvótakerfið er lágmark að menn hafi hundsvit á sögu þess. Framsóknarflokkurinn á svo sannarlega ekki meira í kvótakerfinu heldur en Kratar og Sjálfstæðisflokkurinn. Það að eigna okkur Framsóknarmönnum þetta kerfi er því rangt. Við höfum hins vegar varið kerfið vegna þess að það er í grunninn gott og hefur skilað miklu til sjávarútvegsins, þó lengi megi finna og laga vankanta.

Stefán Bogi Sveinsson (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband