Stórviðri á stórri stund

(Þetta blogg bloggaði ég á laugardagskvöldið en fyrir slysni fór það ekki inn á opna síðu heldur einhversstaðar baksviðs....)

Arabíski sagnaritarinn Ibn Fablan skrifar um dauðakúltur forfeðra vorra í merkri frásögn frá miðöldum, löngu áður en við vorum læsir. Þar kemur fram að við dauða víkings er eigum hans skipt í þrennt. Þriðjung fær hann að hafa með sér til sælli heima. Þriðjung fer til veislufanga fyrir erfi höfðingjans. Þriðjung fær eftirlifandi fjölskylda. Síðan kemur lýsing sem tekur mið af þeim tíðaranda sem þá var um samkomur og skemmtanir og kemur þessu máli ekki við. Grótesk lýsing sem á ekki við á þessm degi.

En mér varð samt hugsað til þess arna í Skálholtskirkju í dag þar sem til moldar var borinn höfðinginn Sveinn Skúlason í Bræðatungu, góður vinur minn og föðurbróðir konu minnar. Kannski hefur minna breyst en ætla mætti. Tungnamenn mættu þar velflestir og nokkur hundruð annarra vina, ættingja og samferðarmanna þessa áttræða sveitarhöfðingja. 600 þegar allt er talið sagði mér einhver.

Fyrir framan mig í kirkjunni sat tengdamóðir mín sem er þýskættuð og af þeim tengslum hefi ég kynnst því að þessi mikla virðing sem við Íslendingar berum til jarðarfara er að verða séríslensk í okkar heimshluta. Líklega óþekkt meðal annarra germana í dag en er samt til í uppruna okkar allra. Nútímalegri viðhorf meðal Evrópuþjóða og velflestra hinna vestrænu manna hafa hrakið þessa siði burt sem hverja aðra vitleysu. Látum þá dauðu grafa hina dauðu segir í helgri bók og kannski er þetta allt saman ókristileg forneskja. Dauðanum eigum við hvergi að standa frammi fyrir. Hann er að verða okkur hulinn nema sem endileysa á sjónvarpsskjá. Ég er ekki viss um það sé til bóta.

Íslenskar jarðarfarir með öllu sem þeim tilheyrir eru nefnilega afskaplega sálbætandi samkomur og gera okkur auðveldara að vinna úr eftirsjánni sem er eftir gengnum samferðamanni. Þær eru líka ein þau tærustu og bestu mannamót sem um getur. Laus við þann misskilning að allt þurfi að vera skemmtilegt eða fyndið til að vera gott. Þær eru stund íhugunar og líklegast fer mest af trúarlegu innra lífi landsmanna einmitt fram í þessum samkomum. Því hvergi er dauðinn okkur eins nálægur eins og einmitt í jarðarförinni og þar hljótum við öll að íhuga innstu rök tilverunnar. Meira að segja við sem segjum okkur á rúmhelgum dögum trúlausa. Og erum það en vitum samt af þeirri smæð okkar að vita samt ekkert. Ekki frekari en hinir trúuðu.

Jarðarför Sveins Skúlasonar var tilkomumikil samkoma og hæfði þeim stóra manni sem þar fór. Séra Egill Hallgrímsson jarðsöng og hélt góða og langa minningarræðu. Helst að ég saknaði þess að hann minntist ekki á að Sveinn er heitinn eftir dönskum ritstjóra og vini foreldra hans. Nokkuð sem varpar ljósi á að hér fór maður sem átti í bernsku til forystumanna samfélagsins að telja sem stóðu í nánu sambandi við framfaramenn á erlendri grund. Og líkt og í lífi Sveins var allt stórt í þessari samkomu, fjölmennið og veðrið. Þegar komið var í Bræðatungu var illa stætt í garðinum og köld rigning lamdi okkur utan. Kransablóm fuku inn eftir Tungunni sem bærinn stendur á og kirkjan gnötraði í verstu hryðjunum. Máttarvöldin tóku þannig virkan þátt í kveðjuathöfninni og gerðu hana eftirminnilega.

Fegurst í samkomunni þótti mér samt að horfa á andlitin. Andlit sveitunga og vina en einkanlega Bræðatunguandlitin sem sonur minn segir að séu þau sveitalegustu andlit sem um getur og ég held að það sé rétt hjá honum. Svipur Sveins í Bræðatungu er sterkur í mörgum afkomenda hans og ég trúi að það fylgi þessum andlitum gæfa. Sjálfur er ég að nokkru undir þeirri sömu gæfusól því kona mín hefur svipmót af þessum frænda sínum, meira að mér finnst en nokkur önnur af börnum tengdaforeldra minna. Mig grundar að þetta sé einkanlega svipur frá Soffíu húsfreyju á Kiðjabergi sem var dóttir hins mikla þjóðsagnaritara Skúla Gíslasonar.

En einhverjir kunna að hafa á orði að pistill þessi sé skrýtinn og annar að ég sé farinn að skrifa minningagrein inni á bloggsíðu sem er kannski ekki viðeigandi. En hvenær hefi ég kunnað það, hvað er viðeigandi...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Blessaður BJarni.

Þessa grein þótti mér gott að lesa. Ég hefi nú ekki fyrr hugleitt, að trúlega er þetta rétt sem þú segir um sérstöðu okkar Íslendinga gagnvart útförum almennt. Ég finn mikla samsvörun í þeirri hugleiðingu, sem þú reifar í greininni. Ekki það að ég sé mikill jarðafaramaður. Hins vegar hefir maður ekki komist hjá því, að þurfa að standa frammi fyrir andláti náinna ættingja. Greinin er góð hugleiðing um lífið og tilveruna.

fóv (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 09:02

2 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Gaman er að lesa allt sem þú skrifar , þrátt fyrir að þú sért  framsóknarmaður .

Og þessi pistill er alls ekki skrítin , og reyndar mjög viðeigandi .

Halldór Sigurðsson, 27.3.2007 kl. 12:01

3 identicon

Afar góður pistill og einlægur hjá þér Bjarni. Svona á að minnast góðra manna.

Þó vil ég gera athugasemd við það að líklegast séu samkomur einsog jarðarfarir og allt tilstandið í kringum þær ekki mjög kristilegar. Fyrir tilkomu kristninnar var dauðinn álitinn eitthvað feimnismál og grafreitir voru gjarnan utan bæja og borga. Með tilkomu kristninnar færðust grafreitirnir nær fólkinu því dauðinn varð viðurkenndur þáttur í samfélaginu og ekki feimnismál lengur. Þeir sem tilheyrðu hinu kristna samfélagi og höfðu játað Jesú Krist sem frelsara sinn höfðu ekkert að óttast lengur, sigurinn var nefnilega í höfn.

Af þessari ástæðu tel ég jarðarfarirnar mjög mikilvægar fyrir okkur til þess að varpa ljósi á fagrar minningar og ekki síður vonina sem krossinn bendir til. Þá er ég sammála þeirri ályktun þeirri að jarðarfarir séu mestu trúarlífsathafnir (ef svo má að orði komast) hérlendis. Þar standa menn andspænis hverfulleika heimsins á sama tíma og þeim er bent á vonina sem þjáningin, dauðinn og upprisan miðla til mannkynsins.

Stefán Einar Stefánsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 21:25

4 identicon

Sæll, Bjarni !

Fyllilega viðeigandi, og vel skrifuð orð. Líklega, má telja Svein til hinna mestu og beztu sunnlenzkra bændahöfðingja, á sinni tíð.

Varð lítillega málkunnugur Sveini; þá ég starfaði hjá Kaupfélagi Árnesinga, á síðasta áratug 20. aldarinnar. Mjög þægilegur, og blátt áfram; í allri viðkynningu. Blessuð sé minning hans.

Innilegustu samúðarkveðjur, til ykkar Elínar; og frændgarðs hennar alls.

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 00:25

5 identicon

Bjarni: Ibn Fadlan var að skrifa um sænska víkinga (rus) í Rússlandi, laust eftir 900 . Það er alls ekki víst að sú athöfn hafi neitt með okkar fortíð að gera, satt best að segja vona ég ekki.  Mér finnst algerlega út í hött og afar ósmekklegt að tengja þessa lýsingu við fjölmenna jarðarför í Tungunum!  Blessunarlega hafa sennilega fáir lesið það sem þessi arabíski sendimaður kalífans skrifaði ...

Mágkona þín á Skaganum

Harpa (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 20:36

6 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Ég hef mikið hugsað um íslensku jarðarförina og komist að þeirri niðurstöðu að útfarir séu helsti vettvangur kirkjunnar til að boða Krist og fagnaðarerindið. Í erfidrykku sem ég fór í á dögunum sagði ein kona; mikið er nú alltaf gaman í jarðarförum en þá var til moldarborin fullorðin kona, langveik og södd lífdaga. Sem betur fer eru flesta jarðarfarir þannig, heldur skemmtilegar.

Þú ert hinsvegar skemmtilegur, af því ertu framsóknarmaður, svo ég kommenti á komment hér að ofan. Þekkti konu sem hélt því fram að framsóknarmenn væru miklu skemmtilegri en allmennt gerðist, en hún var fyrst gift sjálfstæðismann og líkaði ill og giftist svo síðar framsóknarmanni og var það hið besta hjónaband. Held að hún hafi haft rétt fyrir sér.

Sigríður Gunnarsdóttir, 30.3.2007 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband