Framsóknarflokkurinn er forsenda farsællrar landsstjórnar

Samsteypustjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur nú verið við völd í 12 ár. Margt hefur áunnist á þeim tíma en samfélagið ber þess líka mörg merki að við stjórnvölinn hefur verið hægri stjórn þar sem valdahlutföllin hafa að vonum legið nær íhaldshliðinni. Þó svo að samstarf flokkanna hafi verið gott hefur Sjálfstæðisflokkur vitaskuld notið stærðar sinnar.

Í vinstri kanti stjórnmálanna er að vonum mikill vilji til breytinga og margir vilja sjá nýtt stjórnarmynstur. Vinstri sinnaðir landsbyggðar- og framsóknarmenn telja margir vænlegustu leiðina í þessu að sniðganga Framsóknarflokkinn og refsa honum þannig fyrir áralangt dekur við íhaldið. Þetta eru afskaplega misráðar refsiaðgerðir. 11

Fari svo að Framsóknarflokkurinn komi mjög illa út úr kosningum má búast við að flokkurinn taki sér frí frá stjórnarþátttöku og Sjálfstæðisflokkurinn geti þá valið hvort heldur Samfylkingu eða Vinstri græna til samstarfs. Það fer ekkert milli mála að báðir þessir flokkar beiða ákaft til íhaldsins og beina þessvegna öllum sínum spjótalögum að Framsókn. Áfram yrði þá í landinu stjórnað með ákveðinni hægri slagsíðu en það er hætt við að hagsmunir sveitanna, landbúnaðarins og raunar öll landsbyggðarsjónarmið yrðu þá mjög fyrir borð borin. Viðeyjarskotta var síðasta tilraun Sjálfstæðisflokksins til stjórnarsamstarfs með krötum og það er mikið vafamál að vinstri flokkunum hafi farið fram síðan þá.

Það er allavega með ólíkindum hvað lítill vilji er hjá vinstri flokkunum tveimur fyrir að mynda raunverulega vinstri stjórn. Fyrr er talað um kaffibandalag þar sem taka á koldimma hægri öfga Frjálslynda flokksins með.

Framsóknarflokkurinn hefur nú haft það hlutverk um langt árabil að halda aftur af frjálshyggjuöfgum innan Sjálfstæðisflokksins og margt í þeim efnum tekist vel. Flokki okkar er ekki síður hent að halda um taumana í þeysireið vinstri manna og öllum má vera ljóst að vinstri stjórn mun ekki njóta trausts atvinnulífsins í landinu án þátttöku Framsóknarmanna. Samstarf VG og Samfylkingar myndi heldur aldrei lifa án sáttahyggju Framsóknarmanna.

Þó hér verði ekki birtir spádómar um hvað gerist eftir kosningar má fullljóst vera að öflugur Framsóknarflokkur er forsenda þess að hægri stjórnir í landinu taki tillit til hagsmuna byggðanna í landinu. Og gott gengi Framsóknarflokksins er líka forsenda þess að þjóðin eigi völ á alvöru starfhæfri vinstri stjórn sem nýtur trausts bæði þings og þjóðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég get glatt þig með því kæri vinur, að ég hef heyrt á tali margra ungmenna hér í bæ, að þau ætla að kjósa framsókn, því þau hafa mikla trú á þér og vilja þig inn á þing.

Ásdís Sigurðardóttir, 13.4.2007 kl. 15:38

2 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

S.l 12 ár hafa verið mesta framfaraskeið íslenzkrar þjóðar. Þess
vegna á Framsóknarflokkurinn ekki síður en Sjálfstæðisflokkurinn
góðan málstað að verja. Hinu er ekki að leyna, að innan Framsóknarflokksins hefur ríkt ágreiningur. Nefni þar aðallega
Evrópumál. Fyrrverandi forrmaður flokksins KLAUF flokkinn með
eilífu Evrópusambandsáróðri og harkti marga frá flokknum svo og
kjósendur.  - Nú er staðan gjörbreytt. Nýr formaður hefur tekið
við og hefur sameinað flokkinn á ný.  Þannig það eru allar forsendur fyrir því að Framsóknarflokkurinn nái vopnum sínum
á ný og fái ásættanlega kosningu. En til þess þar þrotlausa
vinnu fram að kosningum.

    Hins vegar yrði það stórkostlegt pólitískt slýs ef hér yrði mynduð
afturhaldssöm vinstristjórn. Vinstristjórn er algjör tímaskekkja.
Hinn afdánkaði sósíalismi Vinstri grænna er þar besta sönnunin
og öfgastefna þeirra í umhverfismálum. Vinstrisinnuð sjónarmið
eru tabú fyrir þróttmikið og gróandi íslenzkt þjóðlíf framtíðarinnar.
Gegn vinstrisinnuðu afturhaldi ber ÆTÍÐ að berjast. Setjum
ÞJÓÐLEG og framsækin  viðhorf ávalt í öndvegi!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 13.4.2007 kl. 16:47

3 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Vinstri stjórn gerði mig að ákveðnum stjórnarandstæðingi!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 13.4.2007 kl. 16:54

4 Smámynd: Sveinn Árnason

Sæll Bjarni. Ég get í fullri alvöru velt því fyrir mér hvort rétt er að refsa Framsóknsarflokknum fyrir 12 ára dekur við Sjálfstæðisflokkinn eins og ég hef hugleitt undanfarið.  Nú hefur orðið breyting á forustunni, og Halldór Ásgrímsson horfinn af vettvangi og vonandi hafa áhrif hans einnig horfið. Það er margt fólk í forystu Framsóknarflokksins sem ég hef fulla trú á eftir að tökum Halldórs linnir. En ég velti því líka fyrir mér hvort óska meðreiðarsveinn Framsóknar sé ekki eftir sem áður íhaldið. Ég er sammála þér að vinstri stjórn án þáttöku Framsóknarflokksins er ekki vænlegur kostur því mér hugnast ekki málflutningur Vinstri Grænna hvað þá Frjálslynda flokksins. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin gætu dregið úr þeim öfgum sem þar ráða ríkjum. Gefurm íhaldinu nú langt frí og reynum að fá vitrænt samstarf Framsóknarflokks og Samfylkingar, en það þarf sjálfsagt stuðning til viðbótar. Íslenskt efnahagslíf þolir ekki stopp stopp VG.

Kveðja að austan.

Sveinn Árnason

Sveinn Árnason, 13.4.2007 kl. 22:25

5 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er allavega öruggt að framsókn, (með litlum, eins og drengurinn segir) losar ekki sjómenn og þjóðina, úr álögum þessa kvótakerfis andskotans (og Halldórs Ásgrímssonar).......

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 13.4.2007 kl. 22:26

6 Smámynd: Þórður Steinn Guðmunds

Það er kominn tími á breytingar og það verður ný stjórn mynduð eftir kosningar spurningin er bara hvort það verður vinstri græn og samf eða vinstri græn og sjálfs

Þórður Steinn Guðmunds, 13.4.2007 kl. 22:33

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hinar gamalgrónu sjávarbyggðir víðs vegar um land treysta ykkur best til að forða þem frá nýtingu auðlindanna. Það er engu byggðarlagi hollt að vera sjálfbjarga. Svo þarf náttúrlega að forða bændabjálfunum frá að slátra lömbunum sínum í heimabyggð. Aldrei hafa íslensk lömb fyrr lifað við munað sem þann að fá að ferðast frá Ísafjarðardjúpi eða Berufirði á þriggja hæða flutningavagni til að fá að deyja Þórólfi Gíslasyni, sem er stjórnarmaður í einhverjum banka ef ég man rétt.

En fyrir utan þetta fólk, sem auðvitað eru ekki Íslendingar þá höfum við Íslendingar aldrei haft það jafngott og undir stjórn þessara flokka. Framkvæmdasjóður aldraðra er orðinn svo bólginn að hann munar ekki um að henda nokkrum krónum í utanríkisþjónustuna.

Árni Gunnarsson, 13.4.2007 kl. 23:24

8 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Framsóknarmenn þurfa á fríi að halda, þú værir sammála mér ef þú værir ekki í framboði. 

Tómas Þóroddsson, 14.4.2007 kl. 00:27

9 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Það er ekki rétt hjá Guðmundi Jónasi hér fyrir framan að hagvöxtur síðustu ára sé einsdæmi í Íslandssögunni; það var hér meiri, stöðugri og góðkynja hagvöxtur á áttunda áratugnum sem gerði okkur að einni ríkustu þjóð í heimi. Hagvöxtur síðasta áratugar byggir á lánsfé, sem sést best á því að nú þegar dregur úr stóriðjuframkvæmdum er undir 2% hagvöxtur og spáð halla á ríkisjóði strax á næsta kjörtímabili.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 14.4.2007 kl. 04:12

10 Smámynd: Kristján Eldjárn Þorgeirsson

Framsóknarflokkurinn hefur haft skynsemina að leiðarljósi í samstarfi sínu við Sjallana.  Ég spyr Tómas Þóroddsson, frænda minn, afhverju að gefa Framsóknarflokknum frí en ekki Sjálfstæðisflokknum?  Er orðinn leiður á þessum misskilningi að Framsóknarflokkurinn sé einn í ríkisstjórn, eins og vinstri flokkarnir virðast halda á stundum.

X - B ekkret stopp

Kv. Kristján Eldjárn Þorgeirsson

Kristján Eldjárn Þorgeirsson, 14.4.2007 kl. 12:31

11 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Jónas Tryggvi. Á áttunda áratugnum var meiriháttar óðaverðbólga
og rugl í efnahagsmálum, enda vinstrisinnuð áhrif þá allt of mikil.
S.l 12 ár hefur verið hvorki meir né minna en 60% kaupmáttaraukning orðið  og ekkert atvinnuleysi.  Segir allt sem 
segja þarf um hina ÚRELTU  og STEINGELTU vinstrimennsku!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 15.4.2007 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband