Það blæs nú ekki byrlega...

"Það blæs nú ekki byrlega fyrir okkur..."

Þessi setning datt upp í hausinn á mér yfir Mogganum og slöku skoðanakannanafylgi. Úr hripi daganna er ein og ein setning aftan úr árunum sem festist og ómar þar öðru hvoru, bæði þegar við á og þegar það er alls ekki viðeigandi. En allavega - ég var hálfgerður unglingur, svona tuttugu plús, og paufaðist niðri í skúr heima í Tungunum við að skrúfa sundur gírkassa í Trapant sem ég hafði mikið dálæti á. Og í sjónvarpinu þetta kvöld var Evróvísjón söngvakeppnin, sú fyrsta sem við Íslendingar tókum þátt í. Popp hefur aldrei höfðað sterkt til mín og glamúr enn síður og þessvegna fannst mér miklu skemmtilegra að glíma við Trapantinn þetta kvöld. Og var svo sem sama hvernig við færum að því að vinna þennan söngvaþátt suður í heimi en sá vinningur var fastmælum bundinn með þjóðinni. Það var svo ekki fyrr en seint um kvöldið að það gerðist eiginlega fyrir tilviljun að útvarpið á trapantinum mínum hrökk skyndilega í gang og þar var þá rödd flokksfélaga míns Helga Pé sem sagði heldur raunalega og afskaplega langdregið þessa setningu sem ég gleymi ekki síðan.

"Það blæs nú ekki byrlega fyrir okkur...skriiiiiiiiiiiiiiiii"

Svo tóku við skruðningar og útvarpið dó og ég gat ekki á mér setið að hlæja með sjálfum mér. Það var púki í mér og þetta var Þórðarhlátur en svo er kallaður hlátur sem hleginn er í Þórðargleði þess sem hlær eiginlega skelmislega að óförum annars. Þetta sinn heillrar þjóðar sem sat við skjáinn þetta kvöld. Eftir á var mér hálfilla við þennan hlátur vitandi að hann var ekki fallega hugsaður. Einhver sagði mér svo næsta dag sætanúmerið sem við lentum í þá en mér festist það illa í minni. Þetta var giska há tala.

En því er ég að skrifa þetta núna þegar Gallupinn og fleiri spá okkur Framsóknarmönnum seigfljótandi andláti. Jú, allt tengist þetta. Vinur minn, mikill Framsóknarmaður og rauðhærður fór um daginn til völvu og spurði þar um gengi Framsóknar í komandi kosningum. Hún var að því leyti erfiðari en Gallup að hún gaf honum enga tölu en fullyrti að þingmannatalan yrði að lokum sú sama og sæti okkar rauðhærða Eiríks Haukssonar þetta sama kvöld austur í Finnlandi. Það verður þá sigur hvernig sem fer!

Nú er að sjá og vona. Og við Framsóknarmenn þurfum engu að kvíða og eigum að kæra okkur kollóta. Það er þjóðarinnar að velja sér þing og henni sjálfri auðvitað verst ef valið verður mjög óskynsamlegt. Við sem erum í framboði förum ekki verr út úr því vali en næsti maður og eigum hér engan rétt. Getum ekkert kvartað og tökum því einfaldlega brosandi ef að hér er þjóð sem raunverulega vill leiða Vinstri Græna til öndvegis.

En það verður þá í Þórðargleði yfir okkar þjóð og mönnunum sem vita hreint ekki hvað þeir gjöra. Og svo fögnum við Eiríki Hauks...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

     Það sem mér finnst skorta í dag hjá frambjóðendum Framsóknarflokksins hvað þeir gefa t.d Vinstri-grænum allt of frítt spil og minnast varla á þá. Því þetta ÓÞJÓÐLEGA AFTURHALD sem Vinstri- grænir svo sannarlega eru, fyrir utan  ÖFGASINNAÐAR skoðanir í umhverfismálum, þarf að fara að ráðast á  og tala
niður, málefnalega að sjálfsögðu.   Því það er með  ólíkindum að svona afdánkaðir sósíalistar skuli vaða svona uppi á Íslandi í byrjun 21 aldar. Alveg með ólíkindum. Því hér væri klárlega
meiriháttar eymd og kreppa hefðu þeir ráðið s.l 12 ár.

  Þannig Bjarni. Frambjóðendur Framsóknarflokksins þurfa því að
fara að ræða um  þessa svokölluðu Vinstri-græna sem eru ekkert annað en örugustu sósíalistar inn við beinið. Ekkí síst  ef þeir eru
að taka svo mikið fylgi af Framsókn eins og haldið er fram.
And-þjóðleg viðhorf  Vinstri-grænna  í svo mörgum málum eru nefnilega svo sláandi þegar vel er að gáð, og sem allt of margir virðast ekki sjá né skilja.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 19.4.2007 kl. 10:56

2 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

       Svo það verði ekki miskilið sem ég skrifaði hér fyrir ofan, og undirstrika því hér,  að það sem  virðist skorta hjá
frambjóðendum Framsóknarflokksins eru ákveðnari viðbrögð við 
málflutningi Vinstri- grænna og þeirra pólitík, sem eru bæði  í senn  afar afturhaldssöm og óþjóðleg.

 
 

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 19.4.2007 kl. 11:49

3 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Sæll Bjarni minn. Mikið óskaplega vona ég að þú komist á þing, þó ég verði reyndar að viðurkenna að ég á ekki von á að þú fáir hjálp frá mér við það, flokkurinn þinn er nú um stundir á of miklum villigötum til þess. Því miður.

Þó er aldrei að vita hvað maður gerir - þá er dagurinn kemur. Altént hef ég ekki enn fundið flokk sem mér líkar að fullu við. Líklegast myndi skila ég auðu ef það þýddi ekki að ég yrði flokkaður með klaufunum sem kunna ekki að kjósa - og gera ógilt - eins og nú tíðkast.

Eins og segi þá langar mig að kjósa þig, en alls ekki flokkinn. Því langar mig að spyrja þig hvort þú sért örugglega í réttum flokki? Ég minnist spjalls sem við áttum fyrir löngu síðan þar sem þú tjáðir mér að framsóknarflokkurinn(sem ég rita vísvitandi með litlum staf) væri sósíaldemókratískur jafnaðarmannaflokkur, eða eitthvað í þá veruna a.m.k.

Nú langar mig að spyrja þig hvort þú sért enn á þessari skilgreiningu? Ég get svosem alveg fallist á að flokkurinn hafi verið sósíaldemókratískur á einhverjum tímapunkti, t.d. þegar hann laut stjórn Steingríms Hermannssonar, en mér sýnist hann kominn talsvert langt af leið um þessar mundir. 

Það er engin skömm að skipta um flokk, enda breytast þeir ekkert síður en við. Afi minn heitinn, sem þú þekktir nú vel, tók t.d. þátt í því snemma á síðustu öld að stofna Alþýðuflokkinn og hélt, eftir því sem ég best veit, tryggð við flokkinn til æviloka. Hvor ætli hafi nú breyst meir flokkurinn eða hann?

framsókn er á bullandi villigötum, það hygg ég að þú vitir mæta vel innst inni. Það er lítilmannlegt að vera „hækja íhaldsins”, eins og sumum finnst gaman að klína á ykkur, en það er jafnvel enn minni reisn yfir því að halda því fram að góðverk ríkisstjórnarinnar séu afrakstur farsællar samvinnu flokkanna tveggja - en óhæfuverkin séu Sjálfstæðisflokksins, eins og þú lætur liggja að í grein í Sunnlenska í síðustu viku.

Í sambandi við þá söguskýringu þína langar mig að spyrja þig um 2 lítil, og fremur þreytt, atriði: 

1. Var það vegna þingstyrks Sjálfstæðisflokksins sem Ísland var sett á lista hinna staðföstu þjóða?

2. Var það vegna þingstyrks Sjálfstæðisflokksins sem Halldór Ásgrímsson þáverandi utanríkisráðherra sá ekki ástæðu til að aðhafast neitt þegar hann fékk í hendurnar kolsvarta skýrslu um málefni Byrgisins.

Og svo mætti lenga telja............... 

Með vinsemd, Heimir Eyvindarson

Heimir Eyvindarson, 19.4.2007 kl. 12:07

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gleðilegt sumar!

Á svona fallegum degi eiga menn að vera glaðir í bragði og skáldlegir. Það minnir mig á að einu sinni áttum við skáld sem fagnaði sumrinu á sinn hátt.

Lítinn hlaut ég yndisarð

á akri mennta og lista,

en sáðlát mér í svefni varð

á sumardaginn fyrsta.

Við megum ekki gleyma því að hafa gaman af lífinu, "af því að þegar öllu er á botninn hvolft þá fer nú allt saman einhvern veginn."

Hvernig ætli að fyljunin hafi verið hjá Orra frá Þúfu í fyrra?

Árni Gunnarsson, 19.4.2007 kl. 12:25

5 Smámynd: Arnfinnur Bragason

Það er aðallega tvennt sem pirrar mig við kostningabaráttu framsóknarflokksins þessa síðustu dag. Annað er að Vinstra afturhaldið fær alltof mikið að hrauna yfir framsókn án þess að þeim sé svarað að einhverjum mætti og svo hitt að daðrið við samstarfsflokkinn er allt of áberandi og gerir ekkert nema illt verra

Arnfinnur Bragason, 19.4.2007 kl. 12:34

6 Smámynd: Bjarni Harðarson

gaman að þessu öllu - smá svar til heimis eyvindarsonar sérstaklega en um leið til hinna... þú leggur fyrir mig tvær spurningar sem ég skal fúslega svara en fyrst þetta - ég hef efasemdir um að afi þinn, erlendur heitinn í dalsmynni, hafi haldið tryggð við alþýðuflokkinn til loka enda var sá flokkur orðinn mjög hægrisinnaður í lokin - langt til hægri við framsókn -  mig rámar í að hafa heyrt linda heitinn bera mikið lof á lúðvík jósepsson og gekk út frá því vísu að seinni árin hafi hann kosið alþýðubandalagið - en forláttu ef þetta er rangt hjá mér. varðandi spurningarnar: ég hef aldrei reynt að halda því fram að framsóknarflokkurinn hafi ekki gert vitleysur - ég hef raunar skrifað margar greinar og gagnrýnt margar af þessum vitleysum þar á meðal íraksmálið. niðurstaða mín er samt sú að flokkur þessi sé sá skársti og vel hægt að laga hann að réttum kúrsi. jón sigurðsson steig stórt skref í þá átt þegar hann baðst formlega afsökunar á þætti flokksins í íraksmálinu sem þó var verk eins manns, þáverandi formanns. meira er ekki hægt að gera í dag en kjósa nýjan formann og biðjast afsökunar. um byrgið og margt annað sem betur hefði mátt fara... nei heimir ég hef ekki reynt að skella slíkri skuld á þingstyrk íhaldsins - held reyndar að hin sv arta skýrsla um byrgið hafi einkanlega og eingöngu lotið að fjármálaóreiðu og það hefur verið alltof mikið um lausung í slíkum málum hjá hálfopinberum stofnunum á íslandi - liðist undir stjórn allra flokka og löngu mál að linni...

Bjarni Harðarson, 19.4.2007 kl. 13:03

7 Smámynd: Jakob


Ég held að framsókn eigi fullt inni... þeir eiga eftir að sækja í sig veðrið undir lokinn.

En ég held að þið ættuð að reyna einblína á að taka fylgið frekar frá vinstri helmningnum í stað þess hægri... annað myndi fá fólk til að missa trúna á góðu samstarfi í gegnum árin og báðir flokkar myndu skaðast á kostnað Vinstri flokka. Það er mín auðmjúka skoðun á þessu.

Jakob, 19.4.2007 kl. 14:04

8 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 40.8% fylgi og 18.7% af kjósendum sjálfstæðisflokksins nú, kaus framsókn síðast. Það eru nú meirihlutinn af þessum 10% sem ykkur vantar frá síðustu kosningum.

Tómas Þóroddsson, 19.4.2007 kl. 14:54

9 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

     Það er algjörlega út í hött sem komið hefur hér fram hjá vinstrisinnum að slagt gengi Framsóknar í skoðanakönnunum sé
samstarfinu með Sjálfstæðisflokknum í 12 ára  um að kenna. Því Framsókn má meiriháttar vera stolt af því að hafa tekið fullan þátt í einu mesta hagvaxtaskeiði Íslandssögunar þessi 12 ár. Það eru helst tvo atriði sem hafa skaðað flokkinn.

   Hvar er flokkurinn lang veikastur? Jú í Reykjavík. Innan við 3%.
Og hvers vegna ætlið þaða sé? Jú klárlega vegna þess að í
heil 12 ár var flokknum troðið inn í hræðslubanadalag vinstriflokk-
anna R-listann. Þar dagaði flokkurinn svo uppi. Tekur fjölda
ára að byggja flokkinn þar upp. Þannig að það vinstrasamstarf
stórskaðaði flokkinn, því hann er engin vinstri-flokkur heldur
þjóðlegur framfarasinnaður miðjuflokkur.

  Annað atriðið sem stórskaðaði Framsóknarflokkinn var
Evrópusambandsáherslunar  sem fyrrverandi formaður stóð
fyrir og fekk engan hljómgrunn innan flokksins. Fjöldi
kjósanda yfirgaf flokkinn út af þessu og fóru yfir til Sjálfstæðis-
flokks og Vinstri-grænna. ESB-áherslur Halldórs Ásgrímssonar
stórakaðaði  þjóðlega ímynd flokksins, og sundraði flokknum.
Nú hefur nýr formaður flokksins tekið við og hefur tekist að
sameina flokkinn á ný. Talar um þjóðhyggju og þjóðlega
félagshyggju. >  Þannig allar forsendur eru nú til þess að
flokkurinn fari að endurheimta fylgi sitt á ný. En til þess þarf
mikla vinnu, og að frambjóðendur fari nú að ræða pólitík
á fullu, og gefi engum eftir í þeim efnum. Fari að verða miklu
sýnilegri  í hinni  pólitísku  umræðunni nú síðustu vikurnar fram
að kosningum.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 19.4.2007 kl. 15:00

10 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

GLEÐILEGT SUMAR og gangi þér vel.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 19.4.2007 kl. 16:57

11 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ég vona svo sannarlega að þú komist á þing og Eiríkur Hauksson komist í sjálfa úrslitakeppnina. En ef ekki, geturðu hadlið áfram að bjarga Silfri Egils og Eiríkur getur haldið áfram að vera hann sjálfur.

Benedikt Halldórsson, 19.4.2007 kl. 17:12

12 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Sæll aftur Bjarni og takk fyrir svarið. Að sjálfsögðu fyrirgef ég þér ef rangt reynist að afi heitinn hafi á einhverjum tíma kosið annað en flokkinn sinn. Reyndar er ég ekki viss um að nokkur maður viti hvað gamli maðurinn kaus á síðustu metrunum, enda ekki höfuðatriði, ég man þó eftir ýmsum hressilegum umræðum við eldhúsborðið í Bergholti í tíð Jónanna tveggja. Eitt er víst að honum þótti alla tíð vænt um flokkinn, þó hann hefði borið talsvert af leið. Líkast er álíka fyrir þér komið. 

Ég fyrirgef þér líka þó þú sért framsóknarmaður, þó ég vildi óska að til væri sá flokkur sem frekar ætti skilið að hafa þig innanborðs. En margt er til í því hjá þér að úrvalið er svosem ekki gæfulegt, þó ég neiti reyndar, enn um sinn a.m.k., að viðurkenna að framsókn sé skásti kosturinn. Eitthvað betra hlýtur að finnast þar úti.

Að endingu ítreka ég að ég vona að þú náir kjöri, og ekki síður vona ég að þér takist að koma framsóknarflokknum á réttan kjöl - gera hann á ný að þeim sósíaldemókratíska jafnaðarmannaflokki sem hann ætti sannarlega að vera. Hver veit nema ég leggi mitt af mörkum

Í það minnsta er ég þess fullviss að persónulegt fylgi ykkar Guðna hér í kjördæminu mun vega upp á móti afglöpum flokksins og koma ykkur báðum inn á þing.  

Heimir Eyvindarson, 19.4.2007 kl. 17:14

13 identicon

Trúi ekki á þessar skoðanakannanir. Þær eru misvísandi og ekki vitað hvernig þær spurningar eru fram settar en það má gera á ýmsan hátt, láta þær falla að þeirri skoðun sem menn vilja fá.

Samt viðrist vera nokkuð ljóst að Geir Haarde nýtur stuðnings ekki bara í sínum flokki heldur virðast menn vilja hann sem næsta forsætisráðherra. Hann hefur líka hægt um sig það er skynsamlegt.

En það má líka drag ályktanir af þögn Geirs t.d. að hann vilji hafa nokkuð frítt spil eftir kosningar.

Stjórnarandstöðuflokkarnir sækja mjög að Framsókn fyrst og fremst til að geta komið í veg fyrir að þeir setjist í ríkisstjón til að fá stólana sjálfir. Það eru ekki málefnin sem ráða hjá þeim.

Að framansögðu getur Framsókn borðið höfuðið hátt og haldið fram stefnumálum sínum og gjörðum með festu og eindrægni þá mun vel fara.

 Ásamt mjög hóflegum glamúr í framsetningu, rata gullna veginn Bjarni minn!!!

Berðu höfuðið hátt og láttu heyra að framsókn hafi verið kjölfestan undanfarin ár og þurfi áframhaldandi umboð til stjórnarsetu og festa í sessi áframhaldandi framfarir.

Með baráttukveðjum, þú ert inni sem þingmaður enginn vafi!!!

Ekkert annað kemur til greina. gleðilegt sumar!

Sigríður Laufey Einarsdóttir (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 17:18

14 identicon

Og hvað varð svo um trabantinn?

-sigm. (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 19:27

15 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Trabantinn fór á hugana eins og allt sósíaliskt DRASL!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 20.4.2007 kl. 00:11

16 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Engin munur á sósíaiskum eða sósíaldemókratískum Trabandt. Báðir
ekki Íslandshæfir og því  beint með þá á hauganna!!!!!!!!!!! ÞAÐ
BÍLSKRIFLI.:)

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 20.4.2007 kl. 00:57

17 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Valdimar. Hlálegasta staðan í dag er fylgishrun Samfylkingarinnar,
sem enga pólítíska ábyrgð hefur borið á landsstjórninni frá stofnun
Samfylkingarinnar. Enda MJÓG óþjóðlegur flokkur sem íslenzk
þjóð bersýnilega  treystir alls  ekki!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 20.4.2007 kl. 01:15

18 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Valdimar. Skil ekki þinn málflutning hér. Að kalla þá  ÞJÓÐHYGGJU sem Jón Sigurðsson hefur sett fram ,, Þjóðarrembing" er gjörsamlega út í hött. Ef þú hefðir kynnt þér það sem Jón sagði og setti fram sérðu að hann var einmitt að tala um hið GAGNSTÆÐA. Það er með ykkur þessa alþjóðasinnuðu öfgamenn að þið skiljið ekki hvað í hugtökunum fullveldi og þjóðfrelsi felst, hvað þá fyrir hvað þjóðleg gildi og viðhorf standa. Enda eins og þú segir villt
troða Íslandi inn í Evrópska ríkjasambandið ESB með öllum þeim
stórkostlegu þjóðfrelsisskerðingum sem því fylgir. Ömurleg
framtíðaráform það fyrir Ísland , Valdimar Másson!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 20.4.2007 kl. 09:24

19 Smámynd: Lýður Pálsson

Það er að sjálfsögðu b í Trabant. Traustir bílar.

Lýður Pálsson, 20.4.2007 kl. 13:58

20 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þetta er nú meiri óhamingjan allt saman.....nema framsókn....?

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 20.4.2007 kl. 21:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband