Skynsemin ræður - líka í vinningsliðinu!

Tvö af tíu boðorðum Mósesar gamla fjalla um öfundina. Menn skulu ekki girnast það sem aðrir eiga. Lærdómsríkt í pólitíkinni. Það sem verst íldir í pólitíkinni er einmitt öfundin og sú endemis hugsun að girnast það sem aðrir hafa. Við sveitamennirnir á þessu plani höfum fengið okkar skammt af þessu á undanförnum árum og kannski löngu tímabært að við verjum okkur aðeins. moses

Valdamikill miðjuflokkur 

Það kennir nefnilega giska mikillar öfundar í garð Framsóknar yfir því hversu valdamikill sá flokkur er, einkanlega miðað við slakt gengi í skoðanakönnunum. Og grínlaust þá er það alveg satt að flokkur okkar hefur oft og einatt mikil áhrif miðað við kjörfylgi. En hversvegna skyldi það svosem vera?

Vinstri flokkarnir berjast úti í kuldanum og kenna Framsókn um sem í bæði landsstjórninni og víða í hreppsnefndum sitja í lykilstöðum. Vinstri grænir berjast á móti öllu sem gert er og leggja upp með þá stjórnmálastefnu að eytt skuli en einskis aflað. Og skilja svo ekkert í því að þeir skuli ekki hefjast til valda. Þá sjaldan þeim tekst að komast í valdastóla vill þar á sama bæ loga ófriður eins og við þekkjum best í Mosfellssveitinni um þessar mundir.

Samfylkingin er til í að vera með hvaða stefnu sem er og breytir henni jafnharðan í takt við blaðafréttir og skoðanakannanir. Og skilja heldur ekki afhverju enginn býður þeim upp í dans. Ástæðan er samt einföld. Það er iðulega skynsemin sem verður ofaná. Sem betur fer. Í samstarfi hefur Framsóknarflokkurinn verið skynsamlegasti kosturinn, bæði í landsstjórn og sveitarstjórnum.

Farsæl sjónarmið 

Flokkurinn hefur verið áhrifamikill á mesta hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar síðastliðinn 12 ár. En flokkurinn hefur líka innan stjórnarsamstarfsins séð til þess að hóflega hefur verið farið í einkavæðingu og markaðshyggju jafnframt því að verja eftir föngum kjör hinna lægstu í samfélaginu. Það er ekki nóg að í landinu sé stjórn sem leiðir þjóðarbúið til hagsældar, sú hagsæld þarf að vera allri þjóðinni farsæl.

Það er heldur ekki nóg að í landinu sé gjafmild og vel meinandi vinstri stjórn eins og fulltrúa bæði Samfylkingar og Vinstri grænna dreymir um. Sú stjórn þarf jarðsamband og hún þarf að öðlast traust atvinnuveganna. Ef hana vantar þetta tvennt þá er hún hvorki líkleg til raunverulegra afreka né langlífis.

Vertu í vinningsliðinu

Versta útkoman fyrir byggðir landsins væri þó ný Viðeyjarskotta sem stofnuð yrði af Ess-flokkunum tveimur, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Slík stjórn varð síðast til fyrir 16 árum og slíkt sjórnarsamstarf gæti þá sem nú orðið bæði landsbyggðinni og fullveldisbaráttunni skeinuhætt. Fullveldisstefna Sjálfstæðisflokksins er brothætt og getur breyst á einni nóttu og áhyggjur vekur hversu byggðastefna þessara flokka ristir grunnt. Fjallagrasapólitíkin sem hefur að keppikefli að engan stein megi hreyfa austan Elliðaáa á sér nú fylgismenn marga og heilt málgagn þar sem Morgunblaðið er.

Framsóknarflokkurinn er ekki stærstur stjórnmálaflokka landsins en hann er sá áhrifamesti vegna þess að í stefnu hans liggur sú málamiðlun sem auðveldast er að ná sátt um. Þessvegna erum við Framsóknarmenn alltaf í sigurliðinu á kjördag og þér býðst að vera þar með okkur 12. maí næstkomandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Flott myndin af Móse -- og er hann þarna með þrjár töflur.
Í bókinni fékk hann bara tvær
Góð grein hjá þér , eins og fyrri daginn.

Halldór Sigurðsson, 5.5.2007 kl. 20:35

2 identicon

Þekki ég ekki einn frambjóðanda Framsóknar sem bara vill hreyfa steina fyrir austan Þjórsá?

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 21:07

3 identicon

Þriðja taflan er "Sunnlenska"

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 21:11

4 Smámynd: Hermann Ragnarsson

væri ekki best að taka upp franska systemið kjósa þar til einn flokkur fær hreinan meirihluta.

Hermann Ragnarsson, 5.5.2007 kl. 23:21

5 Smámynd: Jóhann Rúnar Pálsson

Hvað segir þú Bjarni um það sem Pétur Gunnarsson bloggar hér á vefnum um það sem Kristján Þór Júlíusson oddviti Sjálfstæðismanna á hafa sagt á stjórnmálafundi á Dalvík í liðinni viku? Þ.e. að búið sé að ákveða stjórnarmynstur sama hvernig úrslit kosninga verði. Samfylking og Sjálfstæðið í eina sæng!

Jóhann Rúnar Pálsson, 6.5.2007 kl. 11:00

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sæll Bjarni. Hét ekki Trabant-vinafélagið sem Gunnar Bjarnason og fleiri stofnuðu einmitt ,,Skynsemin ræður!" Og svo var Trabantinn bara bannaður, af því hann var hreinlega hættulegt farartæki í umferðinni, af því hinir voru svo miklu stærri og sterkari, og hann bara allt of linur. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.5.2007 kl. 15:49

7 Smámynd: Bjarni Harðarson

Jú Anna og ég var í því,- átti tvo Trapanta þegar best lét og sé ennþá eftir þeim. Ekki held ég að það sé rétt að Trapantinn hafi verið bannaður - það eru ennþá nokkrir á götunum og þetta voru svo sannarlega skynsamlegir og góðir farkostir. En með falli sósíalismans í Austur Þýskalandi lenti hagkerfið þar í þeirri óskynsemi að hætta að framleiða Trapanta og að því er mikil eftirsjá...

Bjarni Harðarson, 6.5.2007 kl. 20:49

8 Smámynd: Guðrún Olga Clausen

Mér er fyrirmunað að skilja  hvernig hægt er að kjósa flokk sem hefur innnan sinna vébanda fleiri en einn ráðherra sem ljúga upp í opið geðið á almenningi. Það eru fleiri enn einn í Framsóknarflokknum með "Gosanef". Nægir bara að nefna svör við spurningum um framtíð Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi og starfsemi BUGL. Tómar lygar!!!!! Það er bara þannig.

Guðrún Olga Clausen, 6.5.2007 kl. 21:57

9 Smámynd: Guðrún Olga Clausen

Fyrirgefðu Bjarni, ég gleymdi að segja takk fyrir komuna á minn vinnustað. Það var skemmtilegt að fá þig og þá sem með þér komu. En ég fer ekki ofan af því að Guðni og Siv verða að vanda sig betur. Sumir ættu kannski bara að finna sér eitthvað annað að sýsla við. fara kannski bara oftar á hestbak eða út að hjóla.

Guðrún Olga Clausen, 6.5.2007 kl. 22:06

10 identicon

Heill og sæll, Bjarni og aðrir skrifarar !

Heyr, heyr fyrir Guðrúnu Olgu. Það verður að segjast, eins og er Bjarni; þetta er algjör skandall, hvernig Guðni Ágústsson svarar fyrirspurnum, viðvíkjandi Garðyrkjuskólanum að Reykjum, og um framtíð hans, í Ölfusi. Kæmi mér ekki á óvart, að hinir kræfu frændur mínir; Vestlendingar, hrömmsuðu hann, þ.e. skólann, af Sunnlendingum og færðu til Hvanneyrar, beint fyrir framan nefið á Guðna.

Það verður að segjast, eins og er; Bjarni minn, að því lengur, sem þú skæklast; í humátt á eftir þessum leikræna túlkanda, Guðna Ágústssyni, að því meir, þverr orðstír þinn, nema þá hjá nokkrum viðhlæjendum þínum; sbr. svokallaða Draugabars rekendur, og aðra viðlíka fimmaura brandara smiða. Talandi um Draugabar og þess háttar stáss. Hún var nú ekki stórmannleg, framkoma Guðna Ágústssonar, Margrétar Frímannsdóttur og nokkurra samþingmanna þeirra forðum, þegar vinur minn, hugsjónamaðurinn Eggert Haukdal reyndi, að standa í ístaðinu; með fyrrum sveitungum mínum; Stokkseyringum, þá Hraðfrystihús Stokkseyrar hf, lagðist af, 1992.

Hann er oft bitur, sannleikurinn Bjarni; en ég er með þeim ósköpum gjörður, að geta ekki farið í kringum hlutina, eins og kötturinn umhverfis heita grautinn. Ég er ekki búinn að sætta mig, við stöðu plássanna við ströndina, hvar ég ólst upp, að nokkru, og orðin eru einskonar skemmtigarðar, fyrir Reykvízka, hverjir hlamma sér víða niður á landsbyggðinni, fremur en dára og litilsiglda; víðar að.

Göngum hægt, um gleðinnar dyr Bjarni. Það er ekki allt, sem sýnist.

Með beztu kveðjum, úr Efra- Ölfusi / Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 6.5.2007 kl. 22:28

11 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Voðalegt hagvaxtarhjal er þetta í þér Bjarni minn. Ég hélt þú vissir að hagvöxtur hefur ekkert með hag fólksins að gera, hann sýnir einungis verðmætaaukningu á sölu og þjónustu í krónum talið.

Heimir Eyvindarson, 6.5.2007 kl. 22:34

12 Smámynd: Hagbarður

Sæll Bjarni

Ég sé á skrifum þínum að þú minnist hvorki á "Kvótaskottu" eða skyldum við nefna hann "Kvótaglám" sem tröllriðið hefur fólki á landsbyggðinni undanfarna tvo áratugi með þeim afleiðingum að staðir sem töldust til blómlegustu staða þessa lands eru nú nánast óbyggilegir. En kannski eins og þú veist voru það flokksbræður þínir sem mögnuðu upp þennan fénað sem gengið hefur ljóslifandi um byggðirnar, leggst á fjölskyldur og venjulegt fólk  og eirir engu nema þeim sem gert hafa við þau samning og selt sálu sína.  Lénsskipulagið sem þið komuð á og lénsherrana sem við sjáum helst í  "Séð og heyrt" vegna afreka sinna við kaup á bönkum og bílaumboðum, eru afrek ykkar.

Ég hefi fylgst aðeins með skrifum þínum um þau byggðarlög þar sem Skottan eða Glúmurinn hafa verið stórtækust, nefni sem dæmi Vestmannaeyjar, og á hvern hátt þú telur að efla megi byggðina. Ég verð nú að segja að hvorki finnst mér þær vera merkilegar eða djarfmannlegar tilögurnar þínar. Að ætla að styrkja byggð með því að fjölga opinberum störfum eða treysta samgöngur án þess að ráðast að meinsemdinni, finnst mér ekki vera djarmannlagt. Það er engin lausn, í besta falli frestun á vanda með tilheyrandi fjáraustri. Byggð eins og Vestmannaeyjar með aðgengi að bestu fiskimiðum þessa lands, þar sem ekki nema fáir útvaldir hafa aðgang að auðlindinni, á sér enga möguleika til lengdar í núverandi kerfi.  

Maður sem er að reyna að komast á þing ætti að einbeita sér að rótum vandans, en ekki að því að vera að leggja til einhverjar smáskammtalækningar til að fresta vandanum.  Hann ætti að fara fram með hagsmuni heidarinnar að leiðarljósi en ekki sérhagsmuni Lénsherranna.

Kv.

Hagbarður

Hagbarður, 8.5.2007 kl. 00:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband