Loksins út í vorið...

Kosningabaráttan hefur tekið allan minn tíma og ekki laust við að mér finnist ég hafa misst af vorinu þangað til núna á sunnudaginn að mér tókst að komast frá í klukkustund með Elínu og Gunnlaugi til að borða ís úti í guðsgrænni náttúrunni, spottakorn utan við Þrastalund.

Toppurinn var svo á sunnudagskvöldinu að moka úr lífræna haugnum sem hefur núna beðið ósnertur í nokkur ár. Reyndar ekkert nýtt að hann fái að malla lengi hér á bæ en það er hreint með ólíkindum hvað verður úr öllu lífrænu sorpi heimilisins þegar hann fær að gerjast vel og lengi í safntunnu í garðhorninu. Þarna tók ég heilt ár neðst úr eldri tunnunni og brytjaði það niður með gafli og skóflu. Líklega 3 ára gamalt. Allt nema nokkrir sviðakjammar orðnir að úrvals áburðarmold sem var skipt bróðurlega milli fjögurra fermetra gulrótagarðs og nokkurra rabbabarahnausa. Samtals var þetta, sem samt er helmingur af öllu eldhússorpi 5 manna fjölskyldu í heilt ár, orðið að hálfum rúmmetra af svörtum skít. Yndislega vorlegum skít. Við setjum allt sem flokkast getur undir að vera lífrænt í þennan haug og slatta af dagblöðum með. Merkilegast hvað sviðakjammarnir eru lengi að brotna niður meðan stórgripabein úr vikulegu hrossaketsáti hverfa.

Sæt er lykt úr sjálfs rassi segir í gömlum íslenskum málshætti sem ég hef alltaf tekið fyrir sönnun þess að smávegis pervertismi hafi alltaf verið til með þjóðinni. En þetta vorkvöld öðlaðist þessi orðskviður nýja merkingu fyrir mér þegar mér var hugsað til þess að ef þetta hefði verið lífrænn eldhúshaugur frá einhverjum öðrum hefði ég jafnvel viljað hafa hanska en þar sem þetta voru okkar eigin matarafgangar gekk lyktin hreint ekkert fram af mér. Andaði að mér vorinu og fann að hvað sem allri þingmennsku líður er lífið samt við sig...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Ég vona að þetta hleypi þér ekki svo mikið kapp í kinn að þú farir að kúka í tunnuna! ...nei svona bara útaf hugrenningatengslunum um pervertismann og þefinn úr endagörninni. - Annars leit ég nú bara hér inn til að óska þér til hamingju með þingsætið. Það er vissulega nokkurt skraut af þér í þingliði framsóknarmanna.... og veitti ekki af.

Pétur Tyrfingsson, 15.5.2007 kl. 01:17

2 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Petur Tyrfingsson. Afar ósmekkleg athugasemd þetta. Þótt ykkur
vinstrisinnum líði óbærilega, skiljanlega, er lágmark að gæta alls
velsæmis.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 15.5.2007 kl. 01:31

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Nú þurfa Framsóknarmenn að fara sér hægt. Það er að sjálfsögðu verk forsætisráðherra að slíta þeirri ríkisstjórn sem nú situr,ekki framsóknarmanna.Ég fæ ekki séð hvernig framsóknarmenn ætla sér að hafa málstað til að geta gagnrýnt nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, ef af verður, ef framsóknarmenn hlaupa úr þeirri ríkisstjórnsem nú situr.Það er að sjálfsögðu hlutverk Sjálfstæðismanna að fella þá ríkisstjórn sem nú situr,ekki hlutverk Bjarna Harðarsonar.

Sigurgeir Jónsson, 15.5.2007 kl. 09:42

4 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Til hamingju með kosninguna Bjarni og ég er sammála Pétri það er skraut að þér hvar sem er með eða án lífræns áburðar.

Steingerður Steinarsdóttir, 15.5.2007 kl. 09:53

5 identicon

Vil benda á það einu sinni enn að í þér liggur von Framsóknar. Þú ert hinn gamli góði framsóknarmaður sem öll mín stóra framsóknarætt í Borgarnesi dást að. Þið ættuð að segja skilið við Íhaldið, endurvekja ykkur í stjórnarandstöðu eða með vinstri listanum og skapa ykkur það nafn samvinnu og félagshyggju sem þið stóðuð einu sinni fyrir. Hjá þér og og Jónínu liggur framtíðin.

Þið ættuð að fara í formanninn, engin spurning.

kær kveðja

Björg F (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 12:18

6 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Björg....mér sýnist að þú sért af Egilsætt.  Ef svo, þá langar mig að segja þér hvað ég heyrði í gær.  Fyrstu tölur úr NV voru allt öðruvísi en alls staðar annars staðar á landinu.  Má eiginlega segja að D, B og S hafi skipt jafnt á milli sín fylginu.  Síðan lækkuðu tölur Framsóknar þegar næsta talning kom.  Gárungarnir segja að það hafi fyrst verið talið upp úr kassanum sem Egilsfjölskyldan kaus í.   Húmor í lagi. 

Anna Einarsdóttir, 15.5.2007 kl. 13:04

7 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Skil nú ekki alveg hvað er svona dónalegt við kommentið hjá Pétri, sé ekki betur en það passi mjög vel við skrifið hjá Bjarna? Er það virkilegt að þetta sé eitthvað úr tengslum við skrifin hans Bjarna (sem eru á léttu nótunum eins og oftast) ???

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 15.5.2007 kl. 13:44

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér finnst vingjarnlegt af Sigurgeiri frá Skálafelli að benda Bjarna á hvert hlutverk hans er í pólitík. Verði Bjarni ráðherra er hann vel settur í leit að aðstoðarmanni. Einhvern veginn læðist sá grunur að mér að Bjarni muni þó í einfeldni sinni verða helst leiddur af eigin sannfæringu.

Árni Gunnarsson, 15.5.2007 kl. 17:46

9 identicon

Til hamingju með þingsætið Bjarni. Það er vissulega ánægjulegt að hafa fjölbreyttari flóru en lögfræðinga í húsinu við Austurvöll.

Bestu kveðjur, aðeins neðar úr Flóanum.

Valdimar Guðjónsson (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 21:33

10 identicon

Sæll Bjarni og til hamingju með þingsætið...ég er af þeirri kynslóð sem þekki varla framsóknarmenn nema með sjálfstæðismönnum...sem margir segja að sé mikil "skrumskæling" á hugmyndafræði framsóknarmanna...þe hægrisveiflan...ég vona að menn eins og þú hjálpi til við að breyta viðhorfi landsmanna í átt að félagshyggju.

Gangi þér vel

Aldís Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 10:13

11 identicon

Anna; Mikið rétt enda rauðhaus. Amma og afi eignuðust nú 13 börn saman, allir á lífi og við hesta heilsu nema afi sjálfur svo ætli ættin mín sé ekki stæðsti Framsóknarflokkur sem til er og nóg til að fylla heilan kjörkassa  

Talandi um það þá eru bræðurnir 7 og eiga flestir hesta. Þeir geta eitt tímunum í að standa saman í hesthúsi og ræða hvað skíturinn sé nú góður sem kemur frá þeirra eigin stóði.. velt honum fyrir sér og dást að.. Já þeir í Framsókn eru alveg spes

Björg F (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 13:15

12 identicon

Björg þú skalt tala varlega og ekki niður um skyldfólk þitt - þú veist aldrei hverjir lesa það sem þú skrifar.  kv ættmenni

nn (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 08:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband