Útrýmum rangfeðrunum!

Þjóðlendumálin íslensku eru sprottin af mikilli nauðsyn. Þeirri nauðsyn að útrýma réttaróvissu. Um aldir hafa afdalamenn haldið fram eignarhaldi sínu á fjöllum og firnindum. Veifað til þess landamerkjabréfum og fengið þeim þinglýst hjá sýslumönnum. Einstöku sinnum hafa að vísu komið upp ágreiningsmál um tiltekna skækla í byggðum og óbyggðum og þá hafa dómstólar þurft að erfiða við að skera úr um slíkt. Það heita landamerkjamál og þykja ekkert spennandi, enda með ólíkindum flókin þó um litla skækla sé að ræða. En svo er þetta eiginlega leiðinlegt af því að oftar en ekki hafa hinir meintu eigendur landsins - reynst vera eigendur þess með réttu! Sem sumum þótti óskaplega skrýtið og erfitt. Picture 035

Svo skrýtið raunar að það ku hafa rænt menn svefni. Það að landamerki í landinu séu öll meira og minna eins og bændur segja og vilja er mörgu fólki móðgun. Eina leiðin til að breyta þeirri mynd er að heyja öll landamerkjamál í senn og gera það helst með miklum flýti og helst mjög hratt þannig að grauta megi upp örnefnunum. Þannig hefur gamall prófastur í Rangárþingi bent mér á þjóðlendudóm úr sinni sveit þar sem öllum örnefnum á hans gamla afrétti var snúið á haus. En þannig er nú leyst úr réttaróvissum á Íslandi og telst einkar þarft verk.

Nú þegar þjóðlendumál eru hálfnuð umhverfis landið er eðlilegt að stjórnvöld undirbúi næstu skref í því að eyða réttaróvissunum og þar er vissulega af mörgu að taka. Þannig mætti til dæmis hugsa sér að taka næst upp öll lóðamerki í kaupstöðum á Íslandi en eins og kunnugt er var húsum hér fyrr meir dritað niður eftir bendingum misviturra oddvita sem sögðu einfaldlega, þú mátt byggja hér eða þú mátt byggja þar. Ef pappírar þessir eru skoðaðir ofan í kjölinn kemur auðvitað í ljós að þar rekst hvað á annars horn og eins víst að limgerði eins sé inni í þinglýstri lóð annars og af þessu öllu gæti orðið hreint organdi skemmtilegur ófriður og lögfræðiveisla.

Annað óvissumál sem brýnt er að leysa úr eru faðernismál í landinu. Alþjóðlegar rannsóknir benda til að tiltekin prósenta allra fæddra barna séu rangfeðruð. Það er aðeins misjafnt eftir þjóðum hvað sú prósenta er há en allir unnendur réttlætisins hljóta að sjá að við svo afleita stöðu er óbúandi. Í landinu eru nú orðnir talsvert margir milljónerar og nokkrir trilljónamæringar. Finnst okkur hægt að rangfeðruð börn þessara manna deili arfi með hinum sem réttfeðruð eru. Og að börn sem sömu menn kunna að eiga utan síns heimilis og eru feðruð kennarablók eða róna fari á mis við allan þann auð sem þau sannarlega eiga heimtingu á. Slíkt óréttlæti nær auðvitað ekki nokkurri átt og skiptir þá engu hvað milljóneranum, spúsu hans og hjákonu kann að finnast í lagi. Hér er verið að tala um óréttlæti sem kemur niður á börnum og barnabörnum og jafnvel barnabarnabörnum löngu eftir að allir núlifendur hér á storði eru gengnir veg sinnar veraldar.

Krafan hlýtur að vera að þegar þjóðlendunefnd hefur lokið störfum stofni ríkið faðernisnefnd sem skyldi alla einstaklinga til að sanna tafarlaust faðerni sitt fyrir dómi með DNA rannsóknum. Aðeins þannig útrýmum við óréttlæti og réttaróvissum,- auk þess sem við sköpum óteljandi lögfræðingum og sérfræðingum atvinnu um ókomin ár!

(Áður birt í dálkinum Alvurulaust í Sunnlenska fréttablaðinu - Myndin hér með átti eiginlega að birtast með síðasta bloggi en hún er tekin í hjólaferð okkar félaga inn í austfirsk fjöll og þoku, - um fjallvegi þar sem til forna urðu til rangfeðruð börn og í afdal sem þjóðlenduríkið á enn eftir að skella sínum ránshrammi yfir. Ljósmyndari var sexhjólarinn Christhoper Wöll.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þjóðlendumálin eru rétt að byrja Bjarni.Þau geta þess vegna staðið næstu áratugina þar til valdníðslu íslenska ríkisins og ólögum þeim sem misvitrir þingmenn settu til höfuðs fátækum bændum hefur verið eytt.Og ekki síst að hæstiréttur Ríkisins fái skell fyrir að dæma að saga sem gerist þrjú hunruð árum áður en hún er skrifuð og byggist á munnmælum, hafi meira réttargildi en þinglýsingar á eignum og þinglýst landamerkja skjöl.Málið er alls ekki komið á seinni hlutann þótt ýmsir þingmenn væru fegnir því.En af því þú minntist á hvort kannski þyrfti að athuga lóðarétt fólks í þéttbýli, þá var ekki mikið mál að fá lóð í Kópavogi hér á árum áður og það er enn gott að búa í Kópavogi.

Sigurgeir Jónsson, 22.6.2007 kl. 23:14

2 identicon

Einn sveitungi þinn sagði mér einu sinni að bændur hér áður fyrr hafi verið lunknir við að notfæra sér nálægðina í sveitunum, boðið sýslumanni heim í kaffi (eða viskí kannski öllu heldur) og fengið þá til að skrifa upp á lögformlega pappíra, sem lýstu eign þeirra á fjöllum og firnindum.  Sel þetta ekki dýrara en ég keypti það....

Bjarni M. (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 02:38

3 Smámynd: Bjarni Harðarson

sæll nafni - þó ég átti mig ekki á hver maðurinn er - en mikið vildi ég komast í talfæri við þennan ónefnda sveitunga sem man löngu gleymd viskíboð sýslumanna. það var samt harla langt fyrir sýslumenn upp í tungur og aðra en tungnamenn lít ég ekki á sem sveitunga frekar en mér sýnist. en grínlaust þá er saga þessi fráleit því sýslumenn vottuðu ekki landamerki. þau urðu því aðeins til að nágrannabændur skrifuðu upp á og þar með var tryggt bæði að enginn ásældist land granna síns og nágrannarnir áttu líka þeirra hagsmuna að gæta að viðkomandi jörð skerti afréttarland - þ.e. sameign - sveitarinnar ekki að óþörfu. gömul viskíský sýslumanna breyttu hér engu...

Bjarni Harðarson, 23.6.2007 kl. 12:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband