Kjarkleysi í kvótamálum
13.7.2007 | 23:08
Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur tekið þá ákvörðun að fylgja algerlega ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og færa þorskkvóta landsmanna í 130 þúsund tonn. Bakland ríkisstjórnarinnar sem er óvanalega sterkt um þessar mundir hefur lokið þar lofsorði á og talað um kjarkmikla ákvörðun. En er það réttmæt einkunn?
Lét Hafró hræða sig
Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú farið með stjórn sjávarútvegsmála í 16 ár og á sama tíma hefur þorskstofninn verið í stöðugri afturför. Skýring vísindamanna Hafrannsóknarstofnunar á þeirri þróun er að ekki hafi að fullu verið farið að þeirra ráðum. Veiði umfram ráðleggingar nemi milljón tonnum á nokkurra ára bili. Engu að síður er viðurkennt að veiði umfram ráðleggingar er miklu mun minni en var fyrir nokkrum áratugum og að veiðin í heild er aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem var. Ef sjávarútvegsráðherra hefði enn einu sinni skautað örlítið framúr Hafrannssóknarstofnun kallaði hann yfir sig þá hættu að fræðimenn þar hefðu getað sagt framan í þjóðina,- þarna sjáiði!!!
Það er frammi fyrir þessari mynd sem sjávarútvegsráðherra stóð og ég get einhvernveginn ekki lýst ákvarðanatöku hans sem kjarkmikilli. Menn geta auðvitað haft þá skoðun að hún hafi verið varfærin og jafnvel skynsamleg en það er erfitt að sæma hana sæmdarheitinu kjarkmikil.
Getur rústað samstöðu útgerðar og stjórnvalda
En hversvegna hefði yfir höfuð átt að taka einhverja aðra ákvörðun? Var einhver skynsemi í því að fara framyfir veitta ráðgjöf enn einn ganginn og var einhver leið til að réttlæta slíka ákvörðun? Svarið við báðum þessum spurningum er já en það þurfti kjark til að fylgja þeim niðurstöðum.
Í fyrsta lagi þá skapar 130 þúsund tonna kvótasetning í þorski þá hættu að ekki takist að veiða aðrar tegundir sem Hafrannssóknarstofnun telur samt óhætt að sækja í. Þetta á einkum við um ýsuna. Afleiðing af svo mikilli kvótaskerðingu getur því hæglega orðið til að auka brottkast og mótþróa sjómanna og útgerðar gagnvart kvótakerfinu. Hvað sem annars er sagt um íslenska kvótakerfið þá hefur náðst um það viðunandi sátt milli sjómanna og útgerðar annarsvegar og stjórnvalda hinsvegar. Það hefur oft verið lag að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar út í æsar án þess að stofna þeirri sátt í hættu og þá hefðu menn betur gert það. Í ár eru aftur á móti ekki staðan. Þær aðstæður gætu skapast að brottkast þorsks aukist til muna þegar útgerðir sem berjast fyrir lífi sínu reyna að ná á land kvóta annarra tegunda. Víða í Evrópu er ríkjandi mikil togstreita og allt að því stríðsástand milli útgerða og fiskveiðistjórnunar. Það er óskandi að slíkar aðstæður skapist ekki hér á landi.
Þar með tel ég mig hafa svarað fyrrihluta spurningarinnar. Það er að það eru ákveðin rök fyrir því að skerða þorskkvótann ekki eins mikið og Hafrannsóknarstofnun lagði til. Það er ekki Hafrannsóknarstofnunar að leggja pólitískt mat á það hversu langt er hægt að ganga í niðurskurði án þess að stefna fiskveiðistjórnuninni í hættu. Það er stjórnmálamanna að meta þau áhrif og með tilliti til þeirra töldum við Framsóknarmenn rétt að halda þorskkvótanum í 150 þúsund tonnum sem er nálægt þeirri tillögu sem Landssamtök útvegsmanna töldu ásættanlega.
Mótvægisaðgerðir með hvaladrápi
En þá að síðari lið spurningarinnar. Hefði verið einhver leið til að réttlæta slíka ákvörðun gagnvart þeim umhverfisverndarsjónarmiðum sem Hafrannsóknarstofnun talar fyrir. Hefði slík ofveiði ekki stefnt þorskstofninum í hættu. Að óbreyttu, jú. En ekki ef sjávarútvegsráðherra hefði sýnt þann kjark að heimila niðurskurð hvalastofnsins til mótvægis við meinta ofveiði. Það er óumdeilt að hvalurinn einn sér étur mun meira af þorski en sem nemur allri veiði þjóðarinnar, aðeins spurning um það hversu margfalt meiri hans afli er. Því er það aðeins reiknisdæmi fiskifræðinga hversu mörg stórhveli þyrfti að aflífa á móti hverju tonni sem veitt væri umfram ráðgjöf. En til þessa hefði sjávarútvegsráðherra þurft kjark.
Sjálfur er ég ekki í vafa um að slíkt hvaladráp væri mörkuðum okkar og orðspori léttvægt. Við erum hvort sem er að veiða hvali og hvort þeir eru fleiri eða færri breytir þá litlu. Vandræðalegast hefði ef til verið ef rétt er að ekki megi finna markaði fyrir hvalinn en þá mætti vel ræða þá hugmynd að drepa skepnur þessar á afmörkuðum svæðum án þess að flytja skrokka þeirra í land. Við fyrstu sýn kann þetta að þykja nokkuð róttæk hugmynd í þeirri fárkenndu umræðu sem er á móti hvalveiðum. Það er samt margt sem bendir til að útilokað sé að byggja þorskstofninn upp nema með stórauknum hvalveiðum enda voru bestu þorskveiðiár okkar Íslendinga einmitt þegar útlendingar höfðu nánast útrýmt hvalskepnum við landið. Svo langt skulum við þó aldrei ganga en hvalirnir falleg dýr og lífríkinu dýrmæt.
Um mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar og raunverulegar mótvægisaðgerðir mun ég skrifa í næstu grein og vonast þá til að hafa um sinn rekið slyðruorð það af stjórnarandstöðunni sem Staksteinum Morgunblaðsins er annars tíðrætt um.
(Birtist í Morgunblaðinu í dag, 13. júlí 2007)
P.S Nokkuð var fjallað um þessa grein mína í fréttum RÚV í dag, fyrst í hádeginu þar sem reynt var að snúa út úr umræðu minni í þingsölum þar sem ég beindi orðum mínum til frjálslyndra og annarra sem vilja halda hér uppi óábyrgri fiskveiðistefnu - og síðan í ágætri frétt um kvöldið sem var reyndar líka birt á rúv-netinu og á fréttastofan þökk fyrir vandaða eftirfylgni málsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já stattu þig Bjarni þetta er alveg rétt hjá þér/Halli Gamli
Haraldur Haraldsson, 13.7.2007 kl. 23:17
Hvað hefðirðu kallað hann ef hann hefði hunsað Hafró og gefið leyfi fyrir 150 þús. tonnum ?
Högni Jóhann Sigurjónsson, 14.7.2007 kl. 00:03
Georg Eiður Arnarson, 14.7.2007 kl. 10:26
ég er nú ekki vanur að svara kommentum en geri undantekningu núna högni - ég held að það sé algerlega útilokað að það hefði verið túlkað sem svo að sjávarútvegsráðherra væri að hundsa ráðgjöf hafró ef hann hefði skorið þorskinn niður í 150 - það er mjög mikill niðurskurður. hann hefði aftur á móti fengið á sig gagnrýni fyrir að ganga ekki nógu langt í niðurskurði en ekki frá mér. ég hefði aftur á móti líkt og ábyrgir aðilar í greininni kallað eftir meiri rannsóknum, athugun á mögulegum mótvægisaðgerðum í lífríkinu o.s.frv.
-b.
ps. kæri georg, - ég er enginn sérfræðingur í sauðfé og ég er heldur ekki heldur fræðimaður á sviði haffræði - en æski kurteislegri kommenta hér á þessari síðu. við getum verið andstæðingar í pólitík án þess að hreyta í hvorn annan illyrðum um heimsku.
Bjarni Harðarson, 14.7.2007 kl. 15:10
Þakka þér fyrir Bjarni að gera undantekningu mín vegna, ég er sunnlendingur og hef skoðannir á ýmsu hér á suðurlandi og ekki síst hve hroðalega ílla tókst til við að manna lista framsóknarmanna á suðurlandi, en það að þú svarar ekki kommentum, er það vegna þess að það er fyrir neðan virðingu þína að tala við okkur almúgann eða er það af því að þú er framsóknarmaður og átt erfitt með að halda stefnu? Eða viltu bara fá að vaða elginn í friði hvað, hvernig og um hvað svo sem það er.
Viltu ekki að mark sé á þér tekið eða líturðu svo á að þú sért gulltryggður sem þingmaður?
P.s. Ég hef þá hugmynd, sem að þú vænir Georg Eið Arnarson um að hafa um þig og vona landbúnaðirns vegna að þú tjáir þig sem minnst um hann. Í þessu framhaldskommenti held ég mig eins nærri kurteysinni og framast er unnt og um leið hreinskylnislega og heiðarlega.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 14.7.2007 kl. 20:41
Það eru ekki nema kjarkmenn sem þora að skipta algerlega um skoðun eins og þú gerðir Bjarni.Mér finnst það virðingarvert ef stjórnmálamenn þora að taka ákvarðanir sem stangast algerlega á við það sem þeir höfðu ákveðið að gera áður.Ég ætla að láta liggja á milli hluta hvort ég sé sammála skoðunum þínum bæði þeirri fyrri og seinni.En fjórir stjórnar menn af fimm, sem sitja í stjórn Hafró stóðu að tillögu Hafró, þar á meðal fulltrúi sjómanna Sævar Gunnarsson.Menn hafa alltaf látið eins og stjórn Hafró sé ekki til.Ég held að menn verði að byrja á að skoða stjórn þessarar stofnunar ef menn eru ósáttir við störf hennar.
Sigurgeir Jónsson, 14.7.2007 kl. 20:59
Kæri Bjarni. Þakka fyrir að svara athugasemdum. Það var ekki meining mín að kalla þig heimskan, heldur aðeins að benda þér á að þig skortir þá reynslu, sem maður eins og ég, sem hefur starfað alla ævi í sjávarútvegi hefur. Sjómenn eru að sjálfsögðu svolítið viðkvæmir fyrir því, þegar alþingismenn fjalla um sjávarútvegsmál af (eftir því sem mér sýnist) talsverðri vankunnáttu. Svo mig langar að bjóða þér einfaldlega að hafa samband þegar þér hentar. Ég er í símaskránni, og skal ég þá fara með þér í gegnum sjávarútvegsmálin, kosti núverandi stefnu og galla. Eitt atriði langar mig að nefna í skrifum þínum á undan þessum athugasemdum, þ.e.a.s. hugmynd þína að veiða hvali án þess að koma með þá í land. Ég er alveg sammála þér í því að það þurfi að veiða meiri hval, en að öðru leiti er hugmyndin ekki góð, enda myndi alþjóðasamfélagið aldrei samþykkja slík vinnubrögð. Hins vegar er ég ekki í nokkrum vafa um það, að við höfum ýmsa möguleika á því að nýta hvalkjötið, t.d. veit ég til þess að Framsóknarmenn í Vestmannaeyjum hafa verið að athuga með leiðir til að framleiða gæludýrafóður úr afskurði af fiski, og því ekki gæludýrafóður úr t.d. hvalkjöti? Þingmenn eins og þú, mættu gera meira af því að ræða við hagsmunaaðila í hverri atvinnugrein fyrir sig, áður en þeir fara að setja skoðanir sínar á prent. p/s Skýrskoðun mín í að þú ættir frekar að halda þig við rollurnar, var ekki sett fram til að móðga þig, heldur einfaldlega hélt ég að þú værir sveitamaður, með reynslu af landbúnaði, án þess að það væri illa meint.
Kveðja
Georg Eiður Arnarson, 14.7.2007 kl. 23:56
ríkisútvarpið hélt því vissulega fram í hádegisfréttum í fyrradag að ég hefði skipt um skoðun í kvótamálum en það er einfaldlega rangt. í fréttum sömu stöðvar um kvöldið kom fram að ég hefi haldið mig við sömu skoðun í fiskveiðimálum allan tímann og aðeins kem ég inn á það í grein í blaðinu í gær sem mun von bráðar birtast hér á netinu.
Bjarni Harðarson, 15.7.2007 kl. 11:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.