Að gera ráðherra reiðan!

Undirritaður hefur með viðtali við Stöð 2 gerst sekur um að gera byggðamálaráðherra þjóðarinnar reiðan og biðst forláts á því. Til þess að bæta þar ögn fyrir hefi ég ákveðið að birta orðréttar skammir hæstvirts ráðherra af vef hans: Skrifa kannski smá um málið í blöðin um helgina:haus

Stungið á vindbelg
Bjarni Harðarson, skutilsveinn Guðna jarls af Brúnastöðum, blés einsog hvalur kominn um höf utan við hótel Valhöll í öðru sjónvarpanna í kvöld, og átti ekki orð yfir þeirri ósvinnu minni að hafa lýst efasemdum um að byggja eigi upp Valhöll til áframhaldandi hótelrekstrar.

Ég hafði leyft mér að taka undir með röggsömum og langþreyttum slökkviliðsstjóranum í heimabæ Bjarna, sem hefur í fjölmiðlum haft efasemdir um framhald hótelrekstrar í Valhöll. Slökkviliðsstjórinn lýsti því með grafísku raunsæi í sjónvarpinu í kvöld að hann teldi húsakynnin gömlu slíkan eldsmat að kvikni í honum gæti staðurinn brunnið til ösku áður en nærlæg slökkvilið komist á staðinn. Það vefst greinilega ekki fyrir Bjarna.

Ég tók líka undir með slökkviliðsstjórnum um að ekki væri hægt að endurbæta Valhöll án þess að endurbyggja húsin í raun, með öllum þeim gríðarlega kostnaði sem því fylgir fyrir skattborgarana.

Nýi þingmaðurinn - sem er nýkjörinn í Þingvallanefnd þar sem ég sit líka - taldi þetta gersamlega fráleit viðhorf. Eftir ríflega tveggja mánaða setu sló hann því föstu að hvorki fráfarandi Þingvallanefnd né hin nýja hefði neitt á móti hótelrekstri innan þjóðgarðsins. Hótelið kvað hann part af "helgimynd Þingvalla" og lýsti þeirri skoðun að það væri skylda ríkisvaldsins að leggja út í þann kostnað sem fylgir því að endurbyggja Valhöll, svo hægt sé að reka þar hótel part af árinu. Írekað var hann spurður um kostnaðinn, og ítrekað lét hann uppi þau viðhorf að hann skipti ekki máli.

Nú er það svo að á skammri veru sinni á Alþingi hefur Bjarni Harðarson aðallega getið sér orð fyrir að skipta oftar og hraðar um skoðanir á lykilmálum en aðrir dauðlegir menn. Það tók hann heilar fjórar vikur að gjörbreyta afstöðu sinni til kvótaniðurskurðarins. Hugsanlega verður hann því búinn að skipta um skoðun á Valhöll áður en ég lýk þessum pistli.

En jafnvel menn með mikla skoðanasveigju einsog Bjarni verða eigi að síður að kynna sér málin áður en þeir byrja að hneggja einsog trippi fast í foraði - bara til að leiftra skammlíft augnablik á öldum ljósvakans. Nú kann að vera til of mikils mælst af þingmönnum Framsóknarflokksins að þeir verði sér úti um lágmarksþekkingu á þeim málum sem þeir telja fjölmiðlaslægjur í. Endranær geri ég ekki slíkar kröfur til þeirra.

Í þessu tilviki gildir annað um Bjarna. Hann var af Alþingi kjörinn til trúnaðarstarfa fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum. Bjarni er byrjaður að þiggja laun fyrir setu sína í Þingvallanefnd. Honum er því greitt af skattborgurunum fyrir að kynna sér mál þjóðgarðsins betur en aðrir þingmenn. En Bjarni lifir bersýnilega í anda flokkshefðar og lítur á Þingvallanefd sem flokksbitling. Yfirlýsingar hans í sjónvarpinu bentu að minnsta kosti til þess að hann telji sig ekki þurfa að vinna fyrir laununum sem hann fær fyrir Þingvallanefnd.

Það birtist í því að Bjarni Harðarsson hefur ekki ennþá nennt að lesa formlega stefnumótun Þingvallanefndar til næstu 20 ára. Einsog allir alþingismenn vita þó er hún grundvallarplagg Þingvallanefndar. Hefði þingmaðurinn haft fyrir að lesa hana hefði hann ekki eftirá þurft að skammast sín fyrir að svotil allar staðhæfingar hans í sjónvarpinu voru rangar. Í stefnunni, sem er að finna á heimasíðu þjóðgarðsins, er framtíð Valhallar og hótelrekstur tekið til umfjöllunar. Þar er lýst þeirri skoðun nefndarinnar að draga beri úr hótelrekstri. Síðan er reifuð sú hugmynd sem ég hafði uppi í Blaðinu, að þar ætti fremur að koma upp aðstöðu sem dygði til að Alþingi gæti haldið þar þingsetningarfund á haustin, og hugsanlega nýta undir smærri ráðstefnur um vísindi og menningu.

Stefnumótun Þingvallanefndar er því algerlega skýr að þessu leyti - og stimpluð af forseta Alþingis, en þingið fer lögum samkvæmt með formlega stjórn þjóðgarðsins. Hefði Bjarni Harðarson því nennt að vinna fyrir launum þeim sem hann fær sem Þingvallanefndarmaður - en við hálaunamennirnir Björn Bjarnason vinnum hins vegar ókeypis af hugsjón - þá hefði hann byrjað að lesa þetta plagg.

Það er svo í stíl við aðra seinheppni hins efnilega þingmanns, að undir þessa stefnu skrifa þrír menn: Auk okkar Björns er hinn þriðji enginn annar en leiðtogi lífs Bjarna Harðarssonar - núverandi formaður Framsóknarflokksins. Bjarni var því ekki bara að mótmæla mér, heldur líka formanni sínum. Ég vona þó, að gönuhlaup þingmannsins verði ekki túlkað sem atlaga að Guðna Ágústssyni heldur fremur rakið til hvatvísi.

En geti núverandi formaður Framsóknar kvartað undan óðagoti Bjarna - hvað má þá hið gamla flokkströll og fyrrverandi formaður, Halldór Ásgrímsson, segja eftir frumhlaup gamla ritstjórans á Selfossi? Það er kýrskýrt af máli Bjarna í sjónvarpinu í kvöld að hann hefur heldur ekki nennt að lesa hitt grundvallarplaggið sem varðar málefni Valhallar. Halldór lét nefnilega gera prýðilega skýrslu um Valhöll, sem allir Þingvallanefndarmenn hafa auðvitað lesið ofan í kjölinn - nema Bjarni sem hefur líklega eytt sumrinu í að laxera á kosningaúrslitunum..

Í skýrslu fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins kemur skýrt fram, að af Valhöll er ekkert eftir af hinu upprunalega húsi nema hugsanlega grindin af framhlið þess. "Helgimyndin" einsog Bjarni þingmaður kallar Valhöll, stendur ekki einu sinni á sínum upprunalega stað.

Á grundvelli skýrslunnar komust færustu ellihúsaarkitektar landsins að þeirri niðurstöðu að Valhöll væri ekki hægt að endurbæta - heldur yrði að endurbyggja hana nánast frá grunni. Sérfræðingar komust að þeirri niðurstöðu sem var kynnt á fundum Þingvallanefndar að það yrði dýrara að endurbæta húsið en byggja nýtt í þess stað. Kostnaðurinn, sem Bjarni taldi sjálfsagt að ríkið réðist í til að gott fólk geti rekið þar hótel part úr ári , hleypur á mörgum hundruðum milljóna króna.

Er þetta ekki framsóknarmennskan holdi klædd?

- Össur

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er alveg stórhneikslaður á orðavaðlinum í Össuri Skarphéðinssyni. Ég er algjörlega sammála því að ríkið ætti að bera ábyrgð á húsinu og leigja það til rekstrar en ekki standa sjálft í veitingarekstri. Vill Össur setja jarðýtuna á húsið og byggja þar urriðavísindasafn? Rosa málefnalegt en akkúrat einkennandi fyrir hann. Valhöll á að standa þó að húsið sé gamalt. Slökkviliðsstjórinn sagði að brunavarnir væru í lagi en vill láta rífa það vegna þess að það er svo langt að keyra á staðinn. En eru ekki brunavarnir og flóttaleiðir í lagi? Á þá ekki að rífa öll hús sem byggð eru úr timbri sem slökkvilið, hvar sem þau eru, ná ekki til á einhverjum áætluðum tíma...sem er hver? Hversskonar málflutningur er þetta eiginlega.

Össur þarf að bera meiri virðingu fyrir húsinu og sögunni. Húsið er partur af Þingvöllum og í mínum huga er það ofbeldi að rífa húsið eins og hann leggur til. Af hverju er Össur í þessari nefnd? Ég vil að Össur fari úr ríkisstjórn enda ekki valinn þangað af fólkinu heldur flokknum sem hann situr í. Ég trúi því að Össur sitji hlægjandi yfir tölvunni þegar hann snýr málefnum eins og þessum yfir í pólitískan skrípaleik eins og hann gerir í þessum heimskulega pistli sínum. Vá hvað ég er pirraður á að ráðherrann skuli geta látið detta sér þessi vitleysa í hug. Það á að vera stöðug umferð fólks í þjóðgarðinum og það er hlýtt og notalegt að koma við í Valhöll og fá sér kaffi og kleinur á eftirmiðdögum.

En það er Össuri líkt að gera lítið úr öðrum og snúa öllu uppí andstöðu sína til að reyna að slá pólitískar keilur í stað þess að vera málefnalegur. En hann er bara þannig blessaður. 

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 21:09

2 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þetta er ekkert minna en snilldarskrif hjá Össuri eins og oft áður og ég átta mig ekki alveg á hverju Bjarni getur bætt þar við...

Kofarnir eru ónýtir að ALLRA áliti sem um hafa fjallað, en ef mönnum finnst það nægjanleg ástæða til að byggja nýja Valhöll, að það "sé hlýtt og notalegt" að koma við eftir kleinum á eftirmidögum, þá þetta vitlausara en ég hélt.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 19.7.2007 kl. 21:25

3 Smámynd: Hlynur Hallsson

Mér sýnist Össur rassskella þig þarna Bjarni (en ég hef náttúrulega ekki kynnt mér málið til hlýtar!) Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 19.7.2007 kl. 21:44

4 Smámynd: Rögnvaldur Hreiðarsson

Össur er, ekki ólíkt þér sjálfum, oft víðáttuskemmtilegur fýr. Frábærlega skrifandi. Og þarna skrifar hann skemmtilegan texta.

En mikið er ég óánægður með hvernig hann matreiðir skoðun sina á málflutningi þínum. Gerist óþarflega persónulegur og ræðst að vitsmunum þínum af fullum þunga. Kvartar undan því að þú þjáist af reynsluleysi og hefur líklega nokkuð til síns máls þar en hann getur ekki með nokkru móti skýlt sér bak við það sjálfur þegar hann verður dæmdur fyrir dónaskapinn.

Sennilega verið fremur lágskýjað hjá honum þegar hann settist niður. Og þó hann sé skemmtilegur þá ætlar það að reynast honum þrautin þyngri að læra að vera ráðherra en ekki morfís drengur á skemmtilegu föstudagskvöldi.

Þú sparkar duglega í rassinn á honum við tækifæri eins og Árni forðum.

Rögnvaldur Hreiðarsson, 19.7.2007 kl. 23:14

5 Smámynd: HP Foss

Ég var nú að hlusta á þetta viðtal, hlustaði á Slökkviliðsstjórann á Selfossi og mér þótti hann nú frekar tæpur á þekkingu á  brunaviðvörunarkerfum, talaði um að í veitingasalnum væri ekki viðvörunarkerfi og í ofanálag væri ekki nægt vatn í því viðvörunarkerfi sem fyrir væri??!!? Mismælti maðurinn sig svona eða þekkir hann þetta ekki?
Það er ekki vatn í viðvörunarkerfum, vatnið er í vatnsúðakerfum og þau kerfi fara í gang annaðhvort við boð frá viðvörunarkerfum eða við hita.

Ég vona að hann hafi verið að mismæla sig, annars eru brunavarnir á Selfossi í slæmum málum.

Össur? Þeir gusa mest sem grynnst vaða.

HP Foss, 19.7.2007 kl. 23:32

6 Smámynd: Brynjar Hólm Bjarnason

Mér hefur nú alltaf verið frekar hlítt til húsanna þarna. En það er ekki endalaust hægt að sólunda með fé almennings. Það er sennilega alver rétt að betra sé að rífa og byggja upp aftur en að brúka mun meira fé til endurreisnar þessu á húsi.

Það þarf að hafa hús þarna sem fólk getur komið í og hægt er að nota til fleiri athafna en bara hótelhalds. Alþingi þarf annað hús en bara þennan þingvallabæ sem ekki nýtist til annars en að stofna til stjórnarmyndunar.

Brynjar Hólm Bjarnason, 19.7.2007 kl. 23:41

7 identicon

Ég hef nú ekki fengið betri drátt en í hótelinu á Þingvöllum og ef ekki er hægt að fá þar pönnsur og silung er úti um íslenska menningu. Ég treysti því að þú bjargir því sem bjarga verður, Bjarni minn.

Foringinn (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 23:51

8 Smámynd: Kristján Eldjárn Þorgeirsson

HP Foss!

Slökkviliðsstjórinn á Selfossi mismælti sig.  En þetta með þetta Hótel þá verð ég að vera sammála Össuri og slökkviliðsstjóranum.  Það á að rífa þennan kumbalda.  Það hefur ekkert upp á sig að vera að reka hótel þarna einhvern part úr ári og það væri þá nær að byggja annað hús í staðinn  sem þá nýttist í það sem Össur tiltekur í sínum málflutningi.  En þessi grein hans Össurar, hér að ofan, er að mínum dómi klaufalega og kjánalega skrifuð og það má þá benda á að Bjarni má segja sína skoðun þó að hann sé orðinn alþingismaður.  Hann er samt sem áður borgari í þessu landi og má þar af leiðandi hafa skoðun á málinu og á að hafa, út á það kaus ég hann á alþingi.  Bjarni er einn af þeim mönnum sem segir sína skoðun óháð flokkslínum.  Össur á að hætta þessu framsóknareinelti og einbeita sér að því að vera í stjórn með sjálfstæðisflokknum.  Ef samfylkingin passar sig ekki þá gæti farið eins fyrir henni og fór fyrir framsóknarflokknum í samstarfi sínu við sjálfstæðisflokkinn.

Kristján Eldjárn Þorgeirsson, 20.7.2007 kl. 00:30

9 identicon

Er eldur ekki þess eðlis að það sem fyrir honum verður brennur? Er hægt að byggja hús sem eldur bítur ekki á? Össur er auðvitað innligsa í þessu máli eins og svo oft áður. Búinn að mála sig út í horn í persónuárásum og gaman verður að sjá hvernig hann snýr sér út úr málinu...margur dansar þó hann dansi nauðugur...en þannig gæti Össur endað í þessu máli. Nema að hann taki orð sín aftur.

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 01:02

10 identicon

Æi Bjarni, þú ert svo vitlaus varðandi hugmyndir þínar um hvalveiðar að engu líkara er en að þú hafir ekki minnstu hugmynd um hve flókin vistkerfi í hafinu eru.

Ekki grænan grun!

Hafró hefur, í von um aukið fjármagn, sungið raddað undir þeim kór fávísra stjórnmálamanna að hvalir séu að éta okkur út á gaddinn.

Sem er þvaður!

Ef ætti að hafa einhver merkjanleg áhrif á svonefnt "arðrán hvala" á nytjastofna okkar, þá er vitað að það þyrfti að veiða minnst milli 30.000 og 60.000 dýr!

Án þess þó að vita hverjar afleiðingar eða ávinningurinn verður.

Vistkerfi hafsins er svo margslungið að Amazon líkist einna helst kálgarðinum á gamla sveitabænum þínum.

En eins og þú væntanlega veist, nýkosinn á þing sem einn af mektarmönnum þjóðarinnar, eða í það minsta ættir að gera þér grein fyrir, þá er nokkuð mikil andstaða við hvalveiðar af margvíslegum sökum (jú, rétt gamli framsóknarklárinn, sumum af tillfinningalegum rótum runnar)... Kannski hefuru ekki heyrt af því...

Og til þess að hafa möguleg áhrif vöxt nytjastofna okkar, þá þarf sem sagt að fara fram eins konar útrýming á hvölum, án þess þó að afleiðingin leiði nauðsynlega til ávinnings (ef þú nennir að lesa í skekkjumörkin hjá Hafró í þessum efnum, þá nálgast þau um 90%)

Í guðanna bænum, farðu frekar í að skrásetja fleiri draugasögur....

bugurbugadi (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 01:33

11 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það var gott mál að það kom maður í þinvallanefnd Bjarni Harðarson, sem hefur áhuga á því að það komi fólk í þjóðgarðinn á Þingvöllum.Sú Þingvallanefnd sem setið hefur á síðustu árum hefur haft það helst fyrir stafni að flæma venjulegt fólk úr þjóðgarðinum svo þar kemur helst ekki nokkur, nema hann sé  ráðherra eða þingmaður og svo fólk sem telur sig eiga að ráða því hverskonar trjágróður sé þar.Helst er á Össuri að skilja að Þingvellir eigi að vera fyrir einhverja sérútvalda,og þá væntanlega hann sjálfan.Síðan er þvaðrað um það að Þingvellir séu helgistaður.Enginn trúarsöfnuður hefur gefið Þingvelli út sem helgistað, nema það sé kannski hægt að kalla Þingvallanefnd þá sem Össur hefur setið í trúarsöfnuð

Sigurgeir Jónsson, 20.7.2007 kl. 10:29

12 Smámynd: Snorri Hansson

Það á að rífa Valhöll. Þetta er ómerkilegur hjallur. Leifum arkitektum heimssins að spreyta sig við að hanna glæsilegt hús sem smellspassar við umhverfið. Alþingi á að sjálfsöðu að hafa þar funda,veislusal og gistiaðstöðu fyrir okkar bestu gesti . Þarna á að bjóða aðilum sem hafa staðið í illdeilum og stríðs rekstri að vera í afslöppuðu umhverfi tala saman og reyna að semja frið. Þingvellir eru ekki helgur staður. Þeir eru umhverfis og menningarlegt djásn.

Snorri Hansson, 20.7.2007 kl. 17:20

13 Smámynd: Lýður Pálsson

Sæll Bjarni.

Til hamingju með grein Össurar.

Hún er í raun meiri lýsing á honum sjálfum en þér.

Bestu kveðjur, Lýður

Lýður Pálsson, 21.7.2007 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband