Núlllausn ríkisstjórnarinnar í málefnum Vestmannaeyja
28.7.2007 | 20:58
Kristján Möller kynnti loks í gær aðgerðir í samgöngumálum Vestmannaeyja. Ég mun fjalla betur um þær á næstu dögum. Hefi ekki haft mig mjög í frammi um þessi mál - aðallega vegna þess að ég hef talið að ríkisstjórnin og hennar liðsmaður Árni Johnsen hafi átt að fá frið til að vinna. Nú er niðurstaðan fengin og hún er semsagt - endurtekning á loforði Sturlu Böðvarssonar sem gefið var áður en fram kom niðurskurður aflaheimilda í þorski. Það sem er athyglisvert er engu í samgöngubótum Eyjamanna er flýtt eins og þó er boðað í hinum margumtöluðu mótvægisaðgerðum. Gangahugmyndin er endanlega slegin útaf borðinu án þess að hafa verið könnuð af neinu viti og með það er ég virkilega svekktur - og get þar tekið undir margt sem Árni Johnsen hefur sagt.
Neðanritað skrifaði ég um þetta mál í gærmorgun og birti í Blaðinu í morgun - semsagt skrifað áður en Kristján Möller kynnti sínar mótvægisaðgerðir. Þarf auðvitað að yfirfara miðað við tíðindi gærdagsins og ég mun gera það á næstu dögum en leyfi mér að setja þessa inn til þess að halda grein þessari til haga með hinum...
Rangsleitni gagnvart Eyjamönnum
Samgönguráðherra gaf á fyrstu valdadögum sínum út loforð um 20 aukaferðir Herjólfs á árinu. Þetta var ekki léttvægt kosningaloforð heldur yfirlýsing starfandi ráðherra sem er reynda með Eyjamanninn Róbert Marshall fyrir aðstoðarmann.
Nú við upphaf Þjóðhátíðar er enn vafi á um að efndir verði á þessu loforði. Á sama tíma sendir flokkssystir ráðherrans og formaður samgöngunefndar Alþingis, Steinunn Valdís Óskarsdóttir okkur baráttumönnum fyrir bættum samgöngum við Eyjar tóninn og efast um greind og skynsemi slíkra manna.
Samgönguráðuneytið sendir Eyjamönnum þó enn verri kveðju með nýlegu svari við erindi umboðsmanns Alþingis þar sem gefinn er út sá boðskapur að ríkinu beri engin skylda til að koma að ferjusiglingum til Vestmannaeyja. Er víst að Vestmannaeyingum beri eftir þetta skylda til að greiða skatta til íslenska ríkisins?
Skipt um í krataflokknum
Rangsleitni og yfirgangur heitir það þegar einhver beitir yfirburðastöðu sinni til þess að fara með um með slíkum ójöfnuði. Jafnvel þó málinu vegna aukaferða Herjólfs verði lokið nú á föstudegi fyrir þjóðhátíð er mikill skaði þegar unninn. Eyjamenn hafa fengið þau skilaboð frá stjórnvöldum og ráðandi stjórnmálamönnum að kröfur þeirra séu léttvægar, þeim er ansað með skætingi og litlu skipti hverju lofað er. Slík skilaboð eru ekki til þess fallin að styrkja byggð í Vestmannaeyjum eða draga úr þeim gríðarlega fólksflutningi sem er þaðan.
Það hefur svo sannarlega skipt um í krataflokknum á hálfu ári eða frá því að einu mennirnir þar á bæ sem tjáðu sig um samgöngumál Eyjamanna töluðu af velvild og nokkurri kokhreysti. Í febrúar var umræða á Alþingi þar sem Björgvin G. Sigurðsson talaði og ég get alveg vottað að hann býr yfir heilbrigðri skynsemi hvað sem núverandi formaður samgöngunefndar telur í þeim efnum:
"Enn hefur ekki verið farið í þær rannsóknir sem útiloka göng á milli lands og Eyja eða leiða til lykta hvaða leið skuli farin. Að mínu mati á ekki að ákveða höfnina í Bakkafjöru fyrr en hitt hefur verið rannsakað til hlítar."
Loforð Lúðvíks haldreipi dagsins
Í skiptum Eyjamanna við landsstjórnina á fastalandinu er óneitanlega yfir litlu að gleðjast nú þegar eina haldreipi þeirra fyrrnefndu eru loforð Lúðvíks Bergvinssonar. Þegar samgönguráðherra kynnti mótvægisaðgerðir vegna samdráttar í þorskkvóta var því líkast að Vestmannaeyjar væru ekki verstöð eða þorskkvóti kæmi því byggðarlagi ekki við. Nú eða þá að Eyjarnar tilheyri ekki lengur Íslandi.
Staðreyndin er að Eyjarnar eru ein stærsta verstöð landsins og vitaskuld hefur niðurskurður í þorskkvóta ekki bara áhrif í kjördæmi samgönguráðherra þó síst vilji ég draga úr alvarlegri stöðu þar. En það var virkilega sláandi að sjá hvergi minnst á samgöngubætur til Eyjanna í tengslum við það mikla átak sem til stendur í samgöngumálum um allt land. Nokkrum dögum síðar kom Lúðvík Bergvinsson fram í útvarpsfréttum og lofaði að á næstunni yrði tilkynnt um stórfelldar aðgerðir í samgöngumálum Eyjamanna. Við væntum þar efnda.
Umræða á villigötum
Lítil fjölskylda í borg Steinunnar Valdísar sem leigir íbúð á 100 þúsund á mánuði er talin sýna heilbrigða skynsemi ef að hún ræðst í að koma sér upp þaki yfir höfuðið með kaupum á eigin húsnæði fyrir 15 milljónir. Jafnvel þó kaupverðið sé mestallt í skuld þá geta langtímalán tryggt það að afborganir og vextir verða sjaldnast meira en sem nemur 100 þúsundum á mánuði.
Í dag kosta samgöngur til Vestmannaeyja milljarð á ári og þyrfti meira til. Fyrir þann milljarð má skoða alla kosti, líka göng en verkefni dagsins er vitaskuld að leggja fé í bættar ferjusamgöngur jafnhliða því að gangakostur verði fullrannsakaður.
Borgarkratar þessa lands geta auðvitað fjargviðrast yfir því að Ísland sé jafn ólánlega stórt og raun ber vitni og að hafa ekki bara fæðst í borgríki eins og Hong Kong.
Staðreyndir málsins eru aftur á móti þær að auðsæld og ríkidæmi á 21. öldinni eigum við ekki síst að þakka gríðarlegri verðmætasköpun hinna íslensku verstöðva. Þegar þjóðin svalt hálfu hungri voru það verstöðvarnar með Eyjarnar í forystu sem hófu Ísland upp og við eigum öllum þessum verstöðvum okkar skuld að gjalda. Auðsæld nútímans grundvallaðist á þessum uppbyggingartíma. Auður okkar í dag er auður landsins, ekki prívateign gírugra Reykjavíkurþingmanna. Eyjarnar eru ekki að biðja um ölmusu með kröfunni um bættar samgöngur heldur að krefjast þess sem þeim ber af allsnægtaborði 21. aldarinnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Er hægt að trúa því í alvöru að við skuldum núlifandi íbúum Vesmannaeyja peninga vegna þess að einu sinni bjó fólk í sömu eyjum sem stórgræddi á fiskveiðum? Má ekki með sömu hudalógik fá það út að eftir 50 ár megi þeir sem búa við sömu götu og Jón Ásgeir eða Björgúlfur senda ríkinu reikning upp á nokkra tugi milljarða?
Atli (IP-tala skráð) 30.7.2007 kl. 21:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.