Sumarverkið var milljón króna salerni

Meðan eðlilegir þingmenn stunda laxveiðar í frístundum hefi ég gamnað mér við að smíða salerni fyrir bókakaffið sem við hjónin rekum. Hlálegast við þetta er að ég er með þessu að uppfylla reglugerðarákvæði varðandi salernisaðstöðu sem eru auðvitað ekki annað en skrýtla skrifræðisins.

IMG_8497

Það er ekki að ég kvarti yfir að heilbrigðiseftirlit taki út kaffihús í landinu. Það hlýtur að teljast eðlilegt. En sú regla að ekki mega selja molasopa í húsi nema þar séu tvö salerni er svo órökrétt að engu tali tekur. Við erum ekki að tala um karlaklósett og kvennaklósett. Nei, við erum að tala um eitt klósett fyrir gesti og annað fyrir starfsfólk. Lögfróðir hafa sagt mér að grundvöllurinn undir þetta sé að ekki megi nú setja starfsfólk kaffihúsa í þá bráðu hættu að setjast á salernisskálar sem illa siðaður og smitandi almenningur hefur aðgangur að. Hvers eiga þá vammlausir kúnnar að gjalda!!!

Það alvarlega í þessu öllu er að reglugerðarfár eins og þetta er íþyngjandi fyrir rekstur fyrirtækja, bæði stórra og smárra. Hjá okkur var ekki möguleiki að uppfylla þetta skilyrði nema með töluverðum breytingum á húsnæðinu og við notuðum tækifærið til að fá um leið fram nokkurra fermetra stækkun á búðinni. En þrátt fyrir að erfitt hafi verið að fá iðnaðarmenn til starfa og vinnan því mest verið í sjálfboðavinnu er kostnaður vegna efnis og lítilsháttar sérfræðivinnu rafvirkja og pípara kominn í milljón kallinn. Og það er heilmikil blóðtaka fyrir litla einingu í leiguhúsnæði...

Ps. Ekki að ég hafi gert allt einn - í dag kom ofan úr Hreppum miskunnsamur Guðmundur og hjálpaði mér daglangt en auk þess hafa lagt hönd á plóginn vinnuþrælkuð börn að ógleymdum völundinum Gylfa frá Húsatóftum, Valla Reynis og Guðmundi úr Litlu Sandvík. Húsfreyjan á Jörfa málar millum bókhaldsverka...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Jeremías Bjarni, nefndu það ekki ógrátandi . Láttu mig þekkja slík mál að hluta til af tómri endemis dellu út í eitt hvað varðar fjölda tóla og tækja þótt nákvæmlega ekkert sé fylgst með því hvernig aðbúnaður er varðandi það atriði að sápa og handþurrkur til handþvotta séu til staðar , líkt og það væri nægilegt að koma fyrir klósetti án pípulagna út frá því.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 22.9.2007 kl. 03:02

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nú verða menn að verpa gulleggjum í postulínið postullega til að borga munaðinn.

Jón Steinar Ragnarsson, 22.9.2007 kl. 06:24

3 identicon

Rökin eru samt að svartir sauðir innanverslunarbransans vilji spara pening með því að hafa slæma aðstöðu fyrir starfsfólk og kúnna. Hvort 1 eða 2 klósett ætti að vera lágmark má deila um en þegar verslun verður örlítið stærri með nokkrum starfsmönnum og smá kúnnahóp þá verða aðskilin klósett fljótt nauðsyn og sem fyrrverandi starfsmaður í svona aðstæðum þá fagna ég þessari reglugerð.

Valur (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 13:49

4 identicon

Ég hélt nú að væri svo mikið að gera hjá þingmönnum við ýmis störf í kjördæminu, meðan á sumarleyfistíma þeirra stæði.

Þetta voru nú rökin fyrir síðustu og þarsíðustu kauphækkun. Þetta á nú greinilega ekki við þig . Viltu því vinsamlegast, þiggja lægri laun. Villi.

Vilhjálmur G. Gunnarsson (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 18:16

5 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Getur þessi reglugerð ,hafa verið gerð ,til að vernda saklausan lýðin,við óþekktum sýklum kaffi veitenda ?

Halldór Sigurðsson, 22.9.2007 kl. 19:13

6 identicon

Þú átt eftir að græða á þessu, Bjarni.

Ekkert almenningssalerni er á Selfossi. Þeir sem þess þurfa við vita nú af þínu klósetti og munu stefna för sinni þangað og kaupa í leiðinni bók eða jafnvel kaffi ef sprengurinn er ekki of mikill.

Komdu klósettinu einhvern veginn að næst þegar þú ert í sjónvarpi.

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 21:48

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér var nýlega sagt að nú fengju engin ný fjós vottun frá byggingafulltrúum nema í þeim sé sérstakur flór fyrir nautin.

Árni Gunnarsson, 23.9.2007 kl. 00:18

8 identicon

Já, hugsa sér. Ef við hefðum ekki hið opinbera til að hugsa fyrir okkur. Hjúkk! segi ég bara. Hverjum gæti dottið það í hug að höndla með bækur og aðeins eitt klósett? Vona að postulínið glansi og nóg sé af pappír svo ekki verði gengið á bókalagerinn. Eru annars til reglur frá apparatinu hvað á að nota mörg blöð?

-sigm. (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 02:01

9 Smámynd: Josiha

Ekki gleyma Guðmundi úr Stóru-Sandvík  Annars lítur þetta vel út hjá þér. Þetta milljóna króna klósett á eflaust eftir að hafa mikið aðdráttarafl 

Josiha, 23.9.2007 kl. 12:06

10 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Þetta reglugerðarfár er algerlega gengið út öfgar og er farið að stoppa allt frumkvæði fólks sem vill byrja á einhverju nýju.  

Það er einungis þeir stóru sterku sem hafa fjármagnið sem böðlast í gegnum þetta. 

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 23.9.2007 kl. 14:22

11 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ég helda að eina ráðið Bjarni,til að minnka reglugerðarfárið og ruglið í stjórnsýslu ríkisins sé að færa höfuðstað íslands.Meðan þetta himinháa fasteignaverð er í 101 R. vík, þá kæmi ríkið út í plús ef fasteignir þess þar yrðu allar seldar og stjórnsýslan yrði færð af þessum útkjálka.Hrepparnir gætu hugsanlega komið til greina  sem höfuðstaður. 

Sigurgeir Jónsson, 23.9.2007 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband