Stjórnmálaspillingin, samstaðan og samtryggingin

Fyrir ekki mörgum árum var það plagsiður í öllum stjórnmálaflokkum að liðsmenn flokkanna vörðu einfaldlega allt sem flokksbræður þeirra gerðu (flokkssystur á þeim tíma voru einhversstaðar bakvið eldavélar!) Þessi varnarbarátta fyrir allt sem til flokknum heyrði átti jafnt við í pólitík sem atvinnulífi. Menn kepptu í liðum eins og fótboltabullur.TUmorrison2

Þetta andrúm átti sér hæli í veruleika flokksblaða og var um sumt arfur frá gamalgrónu feðraveldi bændasamfélagsins og  sterkri héraðamenningu. Á þessum tíma var ekki almennt að gera greinarmun á eðlilegri samstöðu og grímulausri samtryggingu en á þessu tvennu er þó mikill munur og hverjum þeim sem tekur þátt í stjórnmálum 21. aldarinnar mikilvægt að gera hér mun á. Enn hættir mér til að hugsa á þessum nótum, bæði varðandi Framsóknarflokkinn og ekki síður ef í hlut eiga menn úr minni æskusveit, Biskupstungunum, vegna Þórbergskra tilfinninga til þeirrar sveitar.

Eðlileg samstaða flokksmanna

Innan allra félaga er það með vissum hætti dyggðugt að menn sýni samstöðu og ræði ágreiningsmál innan félags en beri þau ekki fram meðal almennings. Þegar stjórnmálamaður tekur stefnumarkandi pólitíska og fylgir henni eftir þá má hann búast við gagnrýni og það er hinn eðlilegi þáttur lýðræðisins.

Meðan umræddur gerningur er í alla staði heiðarlegur og gengur ekki gegn stefnu flokksins er eðlilegt að viðkomandi stjórnmálamaður sé á opinberum vettvangi næsta öruggur gagnvart gagnrýni eigin flokksmanna og geti einbeitt sér að orrahríð pólitískra andstæðinga. Þetta er sú heilbrigða samstaða sem stjórnmálaflokkar veita og jafnframt má alltaf búast við að einhverjir flokksfélagar vilji ræða innan flokks ágreining sinn við tiltekna stefnu eða stjórnarathöfn.

Pólitísk samtrygging

Heiðarleikinn og einlægnin í hinni pólitísku samstöðu er sambærilegur

Hjá okkur Framsóknarmönnum hafa þau sjónarmið orðið langæ að ævinlega skuli tekið til varna fyrir alla okkar liðsmenn þegar á þá er ráðist, hver svo sem málefnastaðan er. Að hluta til endist þetta okkur af því að við erum íhaldssamir á hefðir, félagatryggir og flokkshollir. Að hluta til af því að við erum fáir og finnum meira til samkenndarinnar fyrir vikið. Mest þó vegna þess að flokkur okkar er gamall og rótfastur. Allt dyggðugar hugsanir. Ég er þess reyndar fullviss að sama anda gætti lengi í Alþýðubandalaginu enda var sá flokkur arftaki hins aristokratíska Kommúnistaflokks.

Umræðan um REI málið er mjög dæmigerð fyrir það sem hér er til umræðu þar sem nokkrir óbreyttir framsóknarmenn í bloggheimi og víðar töldu sér skylt í nafni flokksins og samstöðu innan hans að verja allt í málinu sem viðkom einstaklingum sem hugsanlega voru taldir Framsóknarmenn, jafnvel kauprétti einstaklinga og forleiki málsins sem þó voru unnir í því myrkri að engri af stofnunum flokksins var þar trúað fyrir staf af því sem var að gerast. Málið var og er Framsóknarflokki, stofnunum hans og stefnu í reynd óviðkomandi og það ber að meðhöndla það með þeim hætti. Það hefur öll forysta flokksins gert og mikilvægt að óbreyttir flokksmenn skekki ekki þá mynd.

Hve lotlegur væri þá Geir

Sama á við um einstakar ávirðingar um gerðir einstaklinga í viðskiptalífinu sem síðan eru spyrtir við Framsóknarflokkinn af því að þeir hafi setið í nefnd fyrir flokkinn eða verið í öðrum störfum fyrir hann. Ekki tekur Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð á öllu því sem einstakir flokksfélagar þess flokks gera enda væri þá lotlegri vor ágæti forsætisráðherra, Geir H. Haarde.

Það er fljótsagt að flokksleg samábyrgð af því tagi sem hér er rætt um er bæði úrelt og á mörkum þess að standast siðferðilega mælikvarða samtímans. En einmitt þessi þankagangur samtryggingar er okkar stærsta sök í þeim neikvæða stimpli sem almenningsálitið hefur ranglega klínt á Framsóknarflokkinn.

Krafa samtímans er að vandaðir stjórnmálamenn allra flokka myndi breiðfylkingu gegn sérgæsku og spillingu, hvar sem hún lætur á sér kræla og hviki hvergi í þeirri baráttu þó svo að eigin flokkssystkin eigi þar í hlut.

(Aðeins birt hér á heimasíðu.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband