Hrossaketsát á Bessastöðum

Það hefðu einhverntíma þótt ólíkindi að boðið væri upp á folaldaket á sjálfum Bessastöðum en svo var í gærkvöldi þegar ég kom þar í fyrsta sinn í hús og gladdi mitt geð enda af hrossaketsætum kominn langt aftur. Ekki eru nema nokkrar kynslóðir síðan slátur hrossa þótti hvergi matur nema þá í kothreysum Þykkvabæjar og örgustu þurrabúðum.

bessast

En það fylgir semsagt þingmannslífinu að fá öðru hvoru vel í svanginn hjá þeim heiðurshjónum á Bessastöðum, Ólafi Ragnari og Dorrit Moussaieff og var sérstaklega ánægjulegt samkvæmi í gærkvöld á fullveldisdeginum. Helst að á vantaði að hafa þar fleiri úr virðulegum Heimastjórnarflokki en annars mættu þingmenn vel.

Til útvegunar veislufanga voru að þessu sinni hafðir menn í kjördæmi forseta þingsins, Sturlu Böðvarssonar sem týndu til á glæsilegt hlaðborð kræklinga úr Hvalfirði, kartöflur úr Sauðlauksdal og skagfirskan færleik. Já, og húnvetnsk fjallalömb sem við síra Karl Matthíasson gætum ekki stillt okkur um að stríða Árna Þór Sigurðssyni á að væru nú líklegast frá sauðaþjófum komin en vinstri maðurinn sá á til húnvetnskra að telja og vitaskuld ekki hvinnskra.

Stundin flaug hratt hjá þó setið væri yfir borðum nokkrar klukkustundir enda ræður blessunarlega fáar og þó góðar þær sem voru. Ólafur Ragnar minntist þess hversu stutt væri raunar síðan íslensk sjálfstæðisbarátta hófst með ráðabruggi Bessastaðapilta fyrir hálfri annarri öld. Steingrímur J. tók svari okkar sem komnir erum af þeim íslenskum kotungum sem seint áttu innangengt í Bessastaðastofur en Evrópusinnar skáluðu fullveldinu,- hugsunarlaust.

Sjálfum varð mér hugsað til þess að lítt hefði ég nennt að sitja langar veislur sem þessar yngri maður en í þá daga sem við Elín vórum í okkar tilhugalífi þótti mér allsendis óhugsandi að eyða meiru en klukkustund sitjandi yfir matardiskum og best að borða á Tommaborgurum og borða hratt og halda svo áfram verki...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, Þykkbæingar voru langt á undan sinni samtíð í þessu eins og mörgu öðru : )

Hafliði (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 12:17

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar ég var í sveit í Austur-Húnavatnssýslu var svo oft hrossaket á borðum að í minningunni yfirgnæfir það annan ágætis mat þar á bæ, svo sem saltfisk, því að auðvitað var það alger hátíð og undantekning ef hægt var að hafa ferskan fisk á borðum.

Auk hrossaketsins lifir hinn súrsaði matur, slátur og fleira, sterkt í minni mér.

Svínakjöt, fuglakjöt og fleira af því tagi sem þá var étið á mörgu velmektarheimili í Reykjavík um helgar var alveg óþekkt þarna í sveitinni.

Í dagbók minni frá vorinu 1954 sé ég að ég hef keypt fimm hluti í Reykjavík til að fara með í sveitina. Eitt af því voru fjórir Royal-búðingar, svona rétt til hátíðabrigða, því að slíkur matur hafði aldrei verið á borðum sumrin fimm sem ég var þarna í sveit.

Nú sýnist mér hrossaketið fá uppreisn á Bessastöðum og kannski kemur súrt slátur og saltfiskur næst.

Ómar Ragnarsson, 2.12.2007 kl. 17:36

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já, það er svo skrýtið að líklega var gæsin í Langadalnum mest étin af aðkomumönnum.

Reyndar jaðraði það við mannsmorð að skjóta gæs á Æsustaðatúninu eftir að Sverrir fluttist þangað.

En hver hefði trúað því að Ólafur kynni að salta hrossaket eða að Dorrit kynni að sjóða það?

Hafði hún uppstúf með eða jafning?  

Árni Gunnarsson, 3.12.2007 kl. 00:15

4 identicon

!. des alltaf verið meiri hátíðisdagur talinn á mínu heimili, frá því ég var í stúdentapólitíkinni og fékk fólk í framboð fyrir Félag vinstri manna.

Þá áttaði maður sig á því hvað þetta var mun erfiðari áfangi fyrir okkur en 17. júni yfirlýsing á stríðstíma, þegar danir gátu lítið að gert vegna aðstæðna.

Til hamingju með daginn Bjarni frá Umbótasinnum. 

Óli kommi. 

Ólafur Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 01:23

5 identicon

Folaldakjöt ber af öðru kjöti hér á landi ef undan er talið lambakjetið okkar góða. Folaldkjöt er betri að gæðum en nautkjötið sjálft, það er meirara, bragðbetra og mjúkt. Hefði verið gaman að að sjá hvernig kokkarnir hanteruðu kjetið góða fyrir ykkur.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 10:20

6 identicon

Var með vin minn og skagfirðing í mat á fimmtudagskvöldið -Árna Gunnarsson þáttagerðastúdent í Köbanhávn - og samstarfsaðila hans - danska stúlku sem mjög er þekkt í Danaveldi fyrir það sem það sem heitir á kvikmyndamáli "læn pródjúser"! Sú heitir Nanna og tók þátt í "Voksne mennesker" meðal annars.

Yndisleg stúlka - Nanna! Fékk sér þrisvar á diskin af steikinni - sem hún lýsti sem "útrúli möör köð".

Ja, tak skal du ha! Svaraði ég alltaf - enda stoltur yfir því að þessi yndislega stúlka kynni að meta matinn minn - og Ósk mín kímdi!

Það var ekki fyrr en við settumst yfir kaffibollann sem ég treysti mér til að segja henni hvað hún var að éta! Folaldahryggvöðva - (fillet) - steiktan á pönnu með "Lamb Islandia" kryddi - hitað síðan í ofni meðan ég lagði á borð og sauð upp sósuna.

Henni var fyrst ekki sama - en tók mig síðan í sátt - því kjötið var svo "dejlígt".

PS. Henni fanst íslenskur "Tuborg Sne"  betri en sá danski!

Hallur Magnússon (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 23:17

7 Smámynd: Lýður Pálsson

Sæll Bj. Alþingismanna Suðurkjördæmis var sárt saknað á virðulegri samkomu í Listasafni Árnesinga sunnudaginn eftir Forsetaveislu þar sem úthlutað var í fyrsta skipti styrkjum frá Menningarsjóði Suðurlands.  Aðeins einn þingmaður mætti og einn ráðherra sem greinilega var ekki heil heilsu. Fór folaldakétið svona hrikalega illa í maga?

Lýður Pálsson, 4.12.2007 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband