Regnskógavarnir Þórunnar

Það var fiðringur í matsal Alþingis í dag og ástæðan að nú var búist við að byltingu í afstöðu ríkisstjórnarinnar í svokölluðum loftslagsmálum. Yfir dýrindis ýsunni hennar Siggu í mötuneytinu lá ekki bara venjuleg og heilnæm matarlykt heldur líka fyrirboð þess að nú væri komið að því að Samfylkingin næði að beygja íhaldið. Skrýtinn fyrirboði þótti okkur sumum...thorunn

Forsaga málsins var semsagt að í gær var sagt frá fundi fjögurra ráðherra um stefnumótun ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum og klukkan 13:30 var svo boðað að umhverfisráðherra myndi fara í ræðustól í upphafi þingfundar og kynna þessa nýju afstöðu af minnisblaði sem áður var kynnt í ríkisstjórn.

Það er fljótsagt að heldur fór hér lítið fyrir garpskap Samfylkingar sem hafði áður uppi stór orð um umhverfisstefnu síðustu ríkisstjórnarinnar enda fór það svo að Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra fórst heldur óhönduglega við kynninguna og tókst ekki að ljúka lestri á minnisblaðinu á þeim knappa ræðutíma sem skammtaður er í umræðu sem þessari í upphafi þingfundar. Varð hún að hætta lestrinum án þess að koma nokkru merkingabæru á framfæri öðru en því að áfram skyldi byggt á sveigjanleika Kyoto-samningsins (les: Ísland fái áfram sérákvæði vegna álvera eins og við Framsóknarmenn höfum lagt áherslu á og Samfylking verið æf yfir til þessa).

Það kom svo í hlut fjármálaráðherra þessarar ríkisstjórnar og þeirrar síðustu einnig, Árna M. Mathiesen að lesa restina af minnisblaðinu þar sem vikið var að raunverulegum verklegum framkvæmdaþætti í bókun ríkisstjórnarinnar en hann hljóðar svo:

"Ísland styður aðgerðir sem miða að því að draga úr eyðingu regnskóga en talið er að eyðing á skóglendi í regnskógum samsvari 70% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu."

Sjálfum þótti mér reyndar vænt um að umhverfissinnanum Þórunni skyldi hlíft við að lesa þessi endemi þar sem íhaldið gat ekki látið nægja að fá Samfylkinguna til að samþykkja áframhaldandi sérákvæði Íslands heldur skyldi hið ríka Ísland sjá það sem sitt helsta skref að ræða um þátt fátækra þjóða í vandanum. Auðvitað á að taka á vanda þróunarlanda og auðvitað er það heimsbyggðinni til góðs að við sem búum að umhverfisvænni orku njótum sérákvæða vegna hennar,- en við verðum líka að geta teflt fram einhverju því sem við ætlum að leggja á okkur, minni bílanotkun, umhverfisvænni fiskiskipaflota eða allavega einhverju öðru en afskiptasemi af innanlandsstjórnun þróunarlandanna.

Markmiðið er nú sett á 25-40% minnkun í losun fram til 2020 sem er raunar ekkert nýtt frá markmiðum fyrri stjórnar þar sem stefnt var að 50-75% minnkun fyrir 2050. Sjálfir höfum við Framsóknarmenn miðað við 50% minnkun á losun bílaflotans á næstu 10 árum.

Það háðuglegasta við þessa markmiðssetningu ríkisstjórnarinnar er að umhverfisráðherra reynir að láta líta út fyrir að eitthvað hafi gerst - þegar það eitt gerist að íhaldið gerir grín að samstarfsflokki sínum!


mbl.is Markmið í loftslagsmálum kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hmmm þetta passar ekki alveg við að 90% kemur frá hafinu... er þá verið að meina 70% af því sem kemur frá landi?

Geiri (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 16:31

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Bjarni, hvernig líst þér á að ná strax 14% minnkun losunar með því að afleggja búgriparækt í landinu? Og hvernig líst þér á að fá stóran plús í losunarkladdan með endurheimt votlendisins? Með slíkum aðgerðum þyrftum við ekki einu sinni að skipta út jeppunum okkar fyrir Yaris!

Friðrik Þór Guðmundsson, 4.12.2007 kl. 21:00

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Var þér nokkuð alvara núna Friðrik?

Árni Gunnarsson, 4.12.2007 kl. 21:15

4 identicon

Þú hefur greinilega ekki kynnt þér hversu mikið Co2 þessar skepnur eru að losa.

Ef það á að neyða okkur í kolefnisjafnaðar samgöngur þá er alveg eins hægt að þvinga okkur til þess að hætta að borða kjör. En það hentar kannski ekki þínum hagsmunum eða lífstíl? Kemur mér meira að segja á óvart að grænmetisætu-græningjar hafi ekki dottið í hug að leggja áheyrslu á þetta, kannski það sé eitthvað um það erlendis. En já kannski ekki jafn töff og að vera á móti álverum eða bílum. 

Við megum ekki missa okkur þó að fjölmiðlar selji æsifréttir og stjórnmálamenn vilji aukin völd og fjármagn. 

Geiri (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 22:13

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ætli Vg yrðu nokkuð öðruvísi ef þær stæðu frammi fyrir því að þurfa að axla raunverulega ábyrgð sem stjórnarliðar? Efast um það, a.m.k. yrðu þeir ekki langlífir í ríkisstjórn ef þeir ætluðu sér að haga sér eins og þeir gera sem stjórnarandstæðingar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.12.2007 kl. 01:18

6 identicon

Einhverra hluta vegna gleymdir þú Bjarni að nefna aðal mengunarvaldinn, álverin, en með tilkomu álversins á Reyðarfirði eykst losun á koltvíoxíði úr 25% í 40% af heildarlosun þess efnis hér á landi.

Ætli gleymska þín felist í því að þetta síðasta álver var gæluverkefni ykkar Framsóknarmanna?

Svo "gleymdist" auðvitað að láta álverin borga fyrir mengunarkvótann þegar hann var gefinn þeim fyrr á þessu ári svo þeir menga nú frítt til ársins 2012 (2008-2012).

Þar fetaði Samfylkingin dyggilega í fótspor ykkar framsóknarmanna enda undirlægjuháttur ykkar borgaraflokkanna gagnvart útlendingum ekkert venjulegur

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 15:09

7 Smámynd: Bjartmar Oddur Þ Alexandersson

Sæll Bjarni

 Það er skylda okkur sem þjóð í þessum heimi að berjast gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Það á ekki að skipta máli hver var fyrstur að benda á þetta vandamál. Við erum öll sammála þessu og við ættum að styðja umhverfisráðherra í þessum málum.

Mér langar samt að svara Torfa hér fyrir ofan. Ef álið er ekki framleitt hér á landi með 100% hreinni orku hvar á þá að framleiða það, þú þarft jú að keyra í vinnuna þína, drekka bjórinn þinn úr dós eða jafnvel geta verið í tölvunni til að skrifa þessa athugasemd þína. Það sem fólk áttar sig ekki á að ef álið er ekki framleitt hérna verður það bara framleitt annarsstaðar með rafmagni sem er náð í úr kolum eða olíu og mengar því margfalt meira en það gerir hér á Íslandi.

 En nú ætla ég að skjóta einni góðri hugmynd af þér Bjarni. Hvernig væri nú að hvetja okkur Íslendinga betur til að endurvinna. Við erum jú með einhverra endurvinnslu en aðeins smávægilega ef miðað er við lönd eins Þýskaland. Þar er allt endurvinnt og meiri í lögum að fyrirtæki og einstaklingar verði að endurvinna úrgang sinn. Ef endurunnið ein kókdós sparar það nógu mikið rafmagn til að hafa kveikt á sjónvarpinu þínu 3 klukkutíma. Ég hvet þið til að taka þetta upp á þingi og reyna finna góðar lausnir til þess að láta okkur endurvinna meira og þar af leiðandi minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Bjartmar Oddur Þ Alexandersson, 5.12.2007 kl. 20:16

8 Smámynd: Einar Ben Þorsteinsson

Var þetta soðin ýsa hjá henni Siggu?

Einar Ben Þorsteinsson, 6.12.2007 kl. 07:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband