Gott er að eiga mismælin - en ég skrollaði líka
7.12.2007 | 12:41
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar er keikur og það er gott fyrir mann í hárri stöðu. En ég tel engu að síður hart að sitja undir afsökunarbeiðni útaf mismæli í ræðustól sem ég leiðrétti rétt síðar, féllu um hádegi og voru leiðrétt klukkan 14:28.
Vitaskuld drepur bæjarstjórinn málinu ekki á dreif með slíkum orðhengilshætti og til áréttinar birti ég hér með leiðréttinguna um málið og bíð bara eftir að þurfa líka að biðjast afsökunar á að hafa skrollað...
Mig langar að ræða sérstaklega um það sem varð okkur að ásteytingsefni við gerð fjáraukalaga sem eru málefni hins ágæta félags, Kadeco, sem starfar á Keflavíkurflugvelli. Ég ræddi þetta nokkuð í umræðunni fyrr í morgun en mig langar að byrja þessa umræðu á að gera lítils háttar játningu í framhaldi af orðum vinar míns Árna Johnsens, hv. þingmanns Suðurkjördæmis, sem hafði heyrt þau orð mín þannig í ræðu í morgun að ég hefði sagt að náfrændi hans Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, væri hluthafi í Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar og Keili. Til að taka af öll tvímæli um þetta gerði ég mér ferð í segulbandið inni á tölvunni til að hlusta á það og þá kemur í ljós að í tilvitnuðum texta sem ég las upp af minnisblaði sem ég hafði búið til fyrir þennan dag þá fataðist mér í lestrinum og er sjálfsagt að viðurkenna það. Ég bið hlutaðeigendur, bæði vin minn Árna Johnsen og frænda hans Árna Sigfússon, velvirðingar á þessu og vil af þessu tilefni, með leyfi forseta, lesa þennan texta að nýju. Ekki man ég nákvæmlega á hvaða línu á þessu minnisblaði ég byrjaði en ég kýs að taka þá frekar aðeins meira en minna til þess að enginn vafi sé á. En ég var akkúrat í þeim kafla þar sem ég líkti ástandi mála á Reykjanesi nokkuð við það ástand sem skapaðist með uppgangi Hvamms-Sturlu, sem var Dalamaður en það býr margt góðra Dalamanna á Suðurnesjum, og því hvernig þar hefði vald þjappast mjög saman á fáar hendur og þræðir orðið mjög flóknir og valdið svo margs konar vandræðum, þ.e. á Sturlungaöld. Ég er ekki að segja að það sé orðið hér nú en þegar slík samþjöppun valda gerist, líkt og algengt er í Sturlungu og menn geta lesið sig betur til um það, þegar menn leika við sama taflborðið marga mismunandi leiki og hafa mörg hlutverk í sama leiknum getur það oft og tíðum valdið ákveðnum vandræðum. Og þó svo að menn á Sturlungaöld hafi haft mjög skilvirkar leiðir til að leysa þau vandræði þá höfum við það ekki nú og þess vegna höfum við haft ákveðnar vanhæfisreglur til að mæta þessu og það er það sem ég tel að menn hafi kannski skautað svolítið glatt yfir í öllu þessu máli. En ég ætla að lesa þessa tilvitnun þar sem ég sleppti úr einu mikilvægu orði í lestrinum í morgun og hefst þá lesturinn, með leyfi forseta:
Þá vil ég geta þess að komið hefur fram í fjölmiðlum að fimm af sjö bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ tengjast kaupum og sölu á fasteignum á varnarsvæðinu á einhvern hátt.
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar er í stjórn Þróunarfélags Keflavíkurvallar og stjórnarformaður Keilis. Persónulega á hann ekki hlut í þessum félögum samkvæmt því sem ég best veit en er fulltrúi Reykjanesbæjar. Annar bæjarfulltrúi er stjórnarformaður Base sem einnig hefur keypt eignir á varnarsvæðinu. Þessi sami bæjarfulltrúi er einn eigenda Hótel Keflavíkur sem á 9% hlut í Base. Þriðji bæjarfulltrúinn er stjórnarformaður Sparisjóðs Keflavíkur sem á rúmlega 22% hlut í Háskólavöllum og hlut í Base. Eignarhaldsfélagið 520 ehf., í eigu fjórða bæjarfulltrúans, hefur keypt 800 fermetra skemmu af Base á varnarsvæðinu. Þá er fimmti bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ aðstoðarmaður fjármálaráðherra, en fjármálaráðherra er fulltrúi ríkisins í samningum við Þróunarfélagið. Því til viðbótar má nefna að bróðir fjármálaráðherra er stjórnarformaður Klasa og einn af eigendum þess fyrirtækis."
Svo mörg voru þau orð og ég skal alveg viðurkenna að það er leitt að þurfa að draga persónulega stjórnarþátttöku manna inn í umræðu eins og þessa en það hafa þeir menn kallað yfir sig sem raðað hafa sér við borðið með þessum hætti. Varðandi þetta orð sem ég missti úr í lestrinum í morgun þá má það svo sem vera næsta augljóst af samhengi hlutanna. Ef menn hefðu tekið það alvarlega að það hefði ekki átt að vera þarna þá hefði það þýtt það með öðrum orðum að ég væri að segja að bæjarstjórinn í Reykjanesbæ væri meðeigandi í Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar eða Kadeco eins og það heitir öðru nafni en allir vita að í því félagi er aðeins einn eigandi eins og ég hafði reyndar vikið að í ræðu minni fyrr.
Árni krefst leiðréttingar á ummælum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir kveðjuna Bjarni minn
Sigurður Hólmar Karlsson, 7.12.2007 kl. 14:06
Ekki veit ég nú hvort það var viljandi Bjarni minn, en einhvernvegnn tókst mér að skilja þig svo að þessu máli yrði ráðið til lykta með aðferðum Sturlunga!
Það teldi ég nú mikið óráð þó ég sé nú reyndar svolítið herskár innra með mér þegar pólitísk vinnubrögð sjálfstæðismanna eru til umfjöllunar.
Ég er barasta ekki orðinn nokkur maður til að standa í vopnaskaki.
En mikið óskaplega finnst mér þetta ómerkilegt fólk.
Árni Gunnarsson, 7.12.2007 kl. 15:14
Ég sé ekki betur en að öllu réttlæti hafi nú verið fullnægt í þessu máli strax í gær, svo það er undarlegt að Árni skuli ekki hafa heyrt þessa seinni tölu, eins og hann og fleiri tóku vel eftir þeirri fyrri...? En þú verður vafalaust beðinn afsökunar á þessu frumhlaupi.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 7.12.2007 kl. 15:39
Ég skrollaði yfir þetta hjá þér Bjarni.. ánægður með þig karlinn,
Óskar Þorkelsson, 7.12.2007 kl. 15:45
Einnig er nú sagt, að sæt sé lykt úr sjálfs rassi.
Kvað svo vera með skítalyktina af Sambandsfyrirtækjauppgjörum og að ekki sé talað um lygavefinn í kringum Búnaðarbankasöluna. Einnig væri ekkert úr vegi, að skoða Vís KEA KÞH og margt fleira í þeim dúr.
Var ekki stórgrósserinn hann Ólafur réttur og sléttur launamaður hjá Samskipum? Hvenær gat hann og hvernig eignast Samvinnufyrirtækið án þess, að löglegir eigendur þess (viðskiptavininrnir og Kaupfélaögin um land allt) fengu kvint fyrir?
Svo var einn mikill vonarpeningur sem reið umhéruð og vildi efla mjög GOÐA með uppvakningu hinna aðskiljanlegu Kaupfélaga, sem áður h-öfðu fengið að lúra úr sér sárasta kröfuhrollinn í skúffum velviljaðra Sýslumanna.
Reiðtúr hans varð til þess, að Goði fór nánast yfir og ,,nöfnin" á bak við hin aðskiljanlegu Kaupfélaög urðu að greiða fyrir ábyrgðir eða setja í pant fyrir slíku.
Ekki svo að skilja nafni minn, að mér þyki ógott að við Sjálfstæðismönnum sé hróflað, --ef þeir eru að aðhafast eitthvað miður gott fyrir almenning og á forsendum vinagreiða-- öðru nær, er einmitt sífellt að rífa kjaft við mðina menn.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 7.12.2007 kl. 15:53
Ég kaus íhaldið og studdi með ráðum og dáð í rúm 30 ár. Spllingarmálin ráku mann burtu frá þeim flokki, Það var ekki hægt að vinna gegn þeim innanfrá.
Ég lít svo á að það sé beinlínis hollt fyrir samfélagið að leggja þessa stjórnmálaflokka niður reglulega til þess eins að hreinsa til og koma í veg fyrir að gömul spillingarmál liggi eins og mara á nýjum liðsmönnum og trufli heiðarlega vinnu. Ég tel að gamalgróin ítök fyrirtækja í flokkum eins og Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum komi í veg fyrir menn þar geti beitt sér 100% í þágu samfélagsins.
Því miður, Bjarni, þarftu nú að liggja undir þessu frá honum nafna þínum og ert trúlega blásaklaus af því öllu eins og margir aðrir framsóknarmenn, en verður að draga þennan draug með þér ómaklega hvert sem þú ferð. Ég tek við þér í Flokkinn þegar þú ert tilbúinn!
Haukur Nikulásson, 7.12.2007 kl. 17:25
Jæja, þú ert amk. hættur að skrifa um mat. Hver er annars reglan á alþingi er varðar umræður um þriðja aðila, sem ekki er staddur í salnum til að bera hönd fyrir höfuð? Svona bara ef þú ætlar að draga Hvamms Sturlu aftur inn í umræðuna :)
-sigm (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 20:35
Ég skil ekki menn sem sækjast eftir opinberum störfum og spara þá ekki við sig að troða sér heim í stofu, svona fram á kjördag, en biðjast svo undan því að um þá sé rætt að þeim fjarstöddum, eftir kosningar. Störf þeirra og hvað þá heldur siðferði, á að vera í umræðunni, að þeim viðstöddum eða ekki.
Gæti þingmaðurinn ekki lagt fram frumvarp um rannsóknarnefndir, þar sem aðeins þyrfti minnihluta atkvæða til að fara fram á rannsókn? Slíkt hefði vafalaust fælingamátt fyrir sjálftökuliðið, ég er ekki endilega viss um að ríkisendurskoðun sé heppileg í öllum tilfellum og því er full þörf að rannsóknarnefndum.
Jón Einars (IP-tala skráð) 8.12.2007 kl. 13:49
"Framsóknarmenn verðum að standa saman í baráttu gegn spillingu, sem þessi þjóð virðist ætla að láta keyra sig um koll."
mér finnst þetta svolítið fyndin setning ! en ykkur hinum ?
Óskar Þorkelsson, 9.12.2007 kl. 19:56
Framsóknarmaður er ég ekki,en þú stendur þig vel Bjarni gagnvart þessari svívirðingu á eignum ríkisins. Vonandi fer fram rannsókn og þá gegnsæ,á viðskiptum á fasteignum á Keflavíkurflugvelli,,þú kemur manni nokkuð á óvart,en framsóknarmaður verð ég aldrei.
Jensen (IP-tala skráð) 9.12.2007 kl. 23:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.