Mótorhjól og heilastöppur og króna sem er kannski Trójuhestur

Svona fer okkur bókamönnum. Í síðbúinni jólatiltekt í hinu reykmettaða kvistherbergi mínu hér á Sólbakkanum rekst ég ekki á Davíð Stefánsson. Var búinn að steingleyma að sú fjallvæna skræða hafi dottið mér í jólagjöf og langar helst að byrja strax að lesa en læt það ekki eftir mér. Bíður kvöldsins. Það er nefnilega tiltektardagur sem jafnan er fyrirkvíðanlegt. imh_0420

En annars hefur vikan verið mér góð og ólíkt betri en krónunni sem endar hana sínu lakari en byrjað var og veit þó ekki hvað í vændum er. Vikan hefur að mestu farið í að hugsa og lesa um þetta barn lýðveldisins, íslensku krónuna, örlög hennar og líf. Því meira sem ég les og heyra því meira efast ég um að tvævetla þessi sé lengur á vetur setjandi. Guðmundur bloggvinur minn ég jafnan tek mikið mark á skrifar þannig í kommenti hjá mér:

Við hefðum t.d aldrei getað farið í stórframkvæmdinar fyrir austan með erlendan gjaldmiðil og FAST GENGI. Það er alveg á hreinu t.d. Sú mikla spenna í hagkerfinu sem við það myndaðist var pólitísk ákvörðun. Einmitt vegna þess að við höfum sérstakan gjaldmiðil þá aðlagaðist hann furðanlega þeim efnahagsveruleika sem myndaðist þannig að ekki kom til HARKALEGRAR lendingar í  hagkerfinu. Vegna þess að VIÐ HÖFUM okkar gjaldmiðil getum við ráðið því ALFARIÐ hvernig hann skráist. Það er ekkert sem segir að við eigum að hafa hann algjörlega fljótandi í dag. Getum búið til allskonar myntkörfur, auk þess að binda hann við ákveðin gjaldmiðil eins og sumir gera, með ákveðum frávikum til eða frá, sbr, Danir.  Teldi það  mun skynsamlegra en að taka upp erlendan gjaldmiðil sem við höfum engin áhrif á.  (Þetta er klippt út úr kommenti Guðmundar, bendi mönnum á að lesa það allt sem og afar góð tilskrif frá Halldóri Jónssyni og Bjarna miðbæjaríhaldi.)

Ég ætla ekki djúpt í þessa umræðu hér í stuttu bloggi en ég hefi efasemdir. Í fyrsta lagi um það að sú fljótandi króna sem við höfum í dag taki í reynd eitthvert mið af íslensku hagkerfi og íslenskum veruleika. Það hefur verið bent á að gengið óð hér upp á þenslutíma Kárahnúpa og þannig eigi það einmitt að vera. Það má vera en bæði var sú gengishækkun ekki nema að hluta til rakin til innlendrar þenslu og stærri hluta erlendrar spákaupmennsku með íslenska hávaxtakrónu. Þar fyrir utan hefi ég ekki algera sannfæringu fyrir að hið háa gengi á þeim tíma hafi verið til góðs nema að litlu leyti. Hér á landi - öfugt við lönd sem eru allt að því sjálfbær með eigin iðnvarning - virkar gengishækkun hvetjandi á neyslu og það gerir alla hefðbundna hagstjórn mjög erfiða.

Þetta var í fyrsta lagi, Guðmundur. Í öðru lagi er ég ekki viss um að við höfum þetta algera frelsi til að ákveða hvað sem er varðandi gjaldmiðilinn. Þar skiptir miklu að einn af okkar öflugustu atvinnuvegum í dag er bankastarfssemin og ég er ekki viss um að króna sem lýtur með óbeinum hætti stjórnvaldsákvörðunum, t.d. með myntkörfuleiðinni eða dönsku leiðinni, njóti nægilegs trausts til þess að það teljist viðunandi fyrir fjármálageirann. Þar getum við illa borið okkur saman við Dani sem eiga bæði miklu stærra hagkerfi og miklu meinleysislegri fortíð. Við eigum ekki þá fortíð í efnahagsstjórn að handstýrð króna teldist mjög traust og mér finnst við ekki einu sinni lagðir upp með að vinna okkur inn slíka fortíð.

Í þriðja lagi; almennt er innlendur gjaldmiðill hluti af sjálfstæði, hluti af sjálfstjórn í efnahagsmálum og ég er fullveldissinni. Þessvegna er ég ekki hlynntur inngöngu okkar í ESB. En stundum dettur mér í hug að hin íslenska króna sé hálfgerður Trójuhestur sem færir erlendum fjármálaspekúlöntum raunveruleg og háskaleg völd í íslensku efnahagskerfi. Fyrir þeirra áhrif höfum við nú um langt árabil blóðmjólkað útflutningsatvinnuvegina í landinu sem ekki eru beint búhyggindi. Kannski verður næsta innlegg spekúlantanna í hagstjórnina að skapa hér glundroða með öfgafullum gengislækkunum. Vonandi þó ekki!

En annars ætlaði ég ekki að vera með bölmóð hér og nær að tala um eitthvað skemmtilegt eins og það að í vikunni mættum við þrír félagar í Dakarklúbbnum á stofnfund Slóðavina þar sem meðfylgjandi mynd var tekin. Þar var Guðmundur Tryggvi kjörinn í stjórn og alveg óvænt var Siv þarna líka og það var hún sem tók myndina. Svo lenti ég í viðtali við 24 stundir um þorramat og slysaðist til að tala þar um heilastöppur sem konu minni þótti miður...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Af hverju segist þú vera með bölmóð, Bjarni? Þetta er að mínu áliti raunsannar vangaveltur hjá þér. En í dag virðist enginn mega vera raunsær án þess að vera talinn bæði svartsýnn og leiðinlegur. Ef menn hefðu verið svolítið raunsærri á undanförnum misserum væri staðan í fjármálageiranum kannski ögn  betri en hún er nú.

Þórir Kjartansson, 18.1.2008 kl. 16:09

2 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Það er alveg hægt að taka undir þetta með raunsæið og Trjóuhestinn af nokkurri sannfæringu. Og að maður tali nú ekki um að umræðan hefur ekki mátt fara í alvöru farveg eins og er nauðsynlegt til að ná vitrænni niðurstöðu. Lokaniðurstaðan á að vera eins stöðugt hagkerfi og kostur er þar sem hægt er að hafa trú á.

Ragnar Bjarnason, 18.1.2008 kl. 21:26

3 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Ég furða mig á þessa dagana, hversu lítið hefur farið fyrir umræðu um hágengi íslensku krónunnar og áhrif þess á útflutningverð okkar sem og á arðsemi ferðaþjónustunnar.

Á hverju lifir þjóðin?  Hvaða framleiðsla er það sem heldur uppi efnahag okkar og hagvexti?  Sú hagfræði sem mér var kennd benti á að ekki væri skynsamlegt að hafa öll egginn í sömu körfunni.

Hvað þá ef karfan er jafn fallvölt og fjármálafyrirtæki eru.

Það er ég viss um að sjávarútvegurinn hefði ekkert haft á móti því að taka upp evru fyrir löngu síðan, en ...... er bara búið að koma þeim málum þannig fyrir að hann telst ekki nægjanlega sterkur þrýstihópur.  Afkoma þar örugglega skipt minna máli, en kvótaeign, kvótasala og kaup á hlutabréfum í kjölfarið.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 19.1.2008 kl. 03:14

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarni það vara gaman að sjá hvað þú komst bara mjög vel fram i Hádegisviðtalinu/um erfið mál,en komst mjög vel  frá þessu/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 21.1.2008 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband