Loksins hjólað...

Langþráður draumurDSCN1281 - komst loksins á mótorhjólið í morgun eftir meira en hálfsárshlé eða alveg síðan hjólaferð inn af Þistilfirði endaði hrapalega með 20 saumasporum. Síðan hefur hjólið verið í lamasessi en komst loksins í lag í höndum Víðis viðgerðameistara á Stokkseyri. Er nú eins og nýtt - það sést hér í miðið á myndinni sem reyndar er frá síðasta vori. Hefi engar myndir frá ferðinni í dag sem farin var á Gljána við Þykkvabæ. Baldur Öræfingur tók reyndar eina mynd en auk hans voru í föruneytinu Karl Hoffritz og Guðmundur Tryggvi,- semsagt kjarninn í Dakarklúbbnum.

Eftir bauk og hálfgerða siglingu á ís og snjóhraungli frá vegi niður að sjó tók við rennisléttur sandur og ægifagurt sjónarspil öldunnar.

Héðan réru fátækir forfeður mínir í Þykkvabænum fyrir 100 árum og gengu þess í milli eftir rekafiski í birtingu. Rákust þá stundum á skrímsl. Nú sáum við ekki annað kvikt en haus á einum sel í ósi Þjórsár. Kannski sá sami og við hittum þar fyrir í síðustu reisu á sömu slóðum. Þá var óseyrin öðruvísi í laginu enda sandurinn hér er eins og leir sem aldan lagar til og mótar upp á grín. Kannski allt öðru vísi aftur í næstu viku.

Spottakorn frá ósnum er strandstaður Vikartinds og undanfarin ár hefur ekki sést þar tangur né tetur af þessu stóra skipi en í dag brá svo við að aldan hafði sleikt sandinum ofan af brakinu sem var skilið eftir. Vélin ku vera þarna sundursprengd og einhver ræfill af kilinum. Stórkarlalegt járn sem marar í sandinum og mér tekst að losa eitt ryðgað kranahandfang af til minja.

Frá Vikartindi liggur bæði beinn og breiður vegur alla leið að Hólsá. Það var hér sem langamma mín horfði á eftir ungum unnusta sínum í ána fyrir liðlega 100 árum. Hún þá ung stúlka í Gvendarkoti og giftist síðan sér eldri manni ofan frá Látalæti á Landi, langafa mínum. Einhvernveginn slær það mig núna þar sem ég hjóla á bakka árinnar að líklega drukknar enginn í Hólsá nema vera ósyndur. En það voru líka flestir fyrir öld síðan.

Bakki Hólsárinnar var þakinn litlum ísjökum og greinilega ekki gott að fara of nálægt þeim stærstu á hjólinu. Þar er sandurinn lausari og frekar hægt að festa sig á mínum þunga dakar (sem er reyndar Kawasaki). Minnir á að fyrir austan ku þeir hafa kallað það hveri þar sem kviksyndi myndaðist eftir bráðnaða jaka á jökulsandi. Slíkir hverir gátu verið skeinuhættir og einn frændi minn þar eystra aftur í öldum hvarf með þeim hætti af yfirborði jarðar. En hér er engin hætta á slíku.

Á leiðinni til baka heilsa ég upp á hvalskepnu sem legið hefur einhver misseri á sandkambinum, orðinn lítið meira en hrúgald upp úr sandinum. Kannski hálfmorkinn til átu en mætti allavega notast til ljósa...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Bjarni. Mikið skil ég þig ég er kominn með gráafiðringinn segir sonur minn keypti mér Harley og ætla á honum hringinn í kringum landið næsta sumar í tilefni af sextíu ára afmælinu mínu. Munurinn á þér Bjarni og mörgum öðrum bloggurum er að þú getur skrifað menningarlega pistal og gleymt þessu ömurlega pólitíska þrasi annað slagið, minnt á að við eru öll menn. Takk fyrir það, ég er farinn að halda að allt gott komi frá Selfossi ég á yndislega tengdadóttir þaðan,

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 00:02

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég man efit þessu með Jórunni  ömmu. Las fyrst um þetta í bókinni "þúsund ára sveitaþorp" eftir Árna Óla. Aldrei var talað um þetta heima og þekkti ég þó ömmu nokkuð vel.

Það er alveg rétt hjá þér að áður fyrr þótti engin nauðsyn að vera syndur, svo undarlegt sem það er. Það var heldur ekki hlaupið að því að læra að synda. 

Sæmundur Bjarnason, 11.2.2008 kl. 00:18

3 Smámynd: GK

Skemmtileg lesning...

GK, 11.2.2008 kl. 02:03

4 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Nær ætt þín eitthvað austar?

Guðjón H Finnbogason, 11.2.2008 kl. 21:23

5 identicon

Skemmtilegt blogg...vissi ekki að þú værir á Kawa - líttu á síðuna okkar http://teamkawasaki.blog.is

Ólafur H. Guðgeirsson (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 22:26

6 Smámynd: Bjarni Harðarson

Já Guðjón - ættir mínar ná mikið austur um landið, Bjarni afi minn var úr Hvolhreppnum og átti ættir í Fljótshlíð og Skaftafellssýslurnar en föðuramma mín var frá Fáskrúðsfirði og þaðan rek ég ættir um firðina og til sauðaþjófa á Hólsfjöllunum en föðurafi minn var af Skagfirðskum aðli þannig að þegar það bætist svo við að austfirska amman var Hafnfirðingur í aðra ættina með ættir um Borgarfjörð og Biskupstungur þá er eiginlega hringnum lokað! -b. Ps.: Og bara svo því sé til haga haldið þá var það móðuramman sem var komin af hrossætum í Þykkvabænum...

Bjarni Harðarson, 12.2.2008 kl. 17:41

7 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Sæll Bjarni.

Skemmtu þér varlega á hjólinu. 

Linda Samsonar Gísladóttir, 12.2.2008 kl. 22:21

8 identicon

Sæll Bjarni

Ertu ekki örugglega kominn með betri (lokaðan) hjálm ?

 kveðja

 Ásgeir

www.slodavinir.is
www.123.is/hjolavillingar
www.motocross.is

Ásgeir (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 09:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband