Vammlausa alþingismenn - nei takk!

Hluti af því að gefa sig í stjórnmál er að verða allra skotspónn. Komast í almannaeigu.  Þó svo að það þurfi veiðikort til að skjóta svartfugl og máv og enginn megi lengur drepa sér álft til matar skulu stjórnmálamenn án kvóta. Þingmenn og ráðherrar hafa látið þetta yfir sig ganga og lúbast undan eins og barðir hundar. Eins og það sé þeirra aðal að hneigja sig fyrir vitleysum.

Skýrustu og frægustu dæmin fyrir okkur Íslendingum nú í seinni tíð eru Einar Kristinn Guðfinnsson lundabani annarsvegar og kvennaljóminn Clinton hinsvegar. Hvorugur gerði nokkuð það af sér sem orð var á gerandi en voru samt báðir svo aumir að hengja haus. Það var ljótt. Það er alltaf ljótt að beygja sig fyrir heimsku. 

Ég hef reyndar sagt þetta sem hér er að ofan ritað áður - í blogginu hér fyrir liðlega ári síðan þegar ráðist var á mig fyrir að hafa ekið eftir flæðarmáli á torfærumótorhjólinu sem er mín besta skemmtan. (Það er reyndar ekkert ólöglegt við að aka í flæðarmáli en einhverjum datt það samt í hug.) En þessi ummæli eiga ekki síður vel við nú þegar ráðist er að vini mínum Birki Jóni Jónssyni alþingismanni með offorsi fyrir það eitt að hafa tekið þátt í pókerspili.

Póker meinlaus skemmtan og góð og það jafnvel þó spilað sé upp á peninga. Ef að þjóðin býr ekki við alvarlegri vandamál eða stærri syndir stjórnmálamanna þá er vel. Það er auðvitað til fólk sem heldur að á Alþingi eigi að sitja 63 vammlausir einstaklingar en ég gæfi ekki fyrir slíka löggjafarsamkomu. Hún væri að minnsta kosti ekki góður spegill þeirrar þjóðar sem hún þjónar og kannski er það mikilvægasta að þingið sé.

Auðvitað er peningaspil ekki allra og spilafíkn er grafalvarlegur sjúkdómur rétt eins og anorexía og alkóhólismi. Sjálfur þekki ég svolítið til þessa málaflokks og ber mikla virðingu fyrir því góða starfi sem unnið er þar til aðstoðar fólki. Ég tel mig líka vita að fæstir þeirra sem sitja við póker- eða briddsborðin á við nokkra fíkn að stríða og örugglega ekki Birkir Jón. Spilafíknin sem er mjög raunaleg kemur helst fram í ástríðunotkun spilakassa og annarri frekar einmanalegri iðju þess sem tapað hefur áttum. Í spilamennsku þingmannsins felst engin óvirðing við þetta vandamál,- ekki frekar en að hófleg víndrykkja með mat á Bessastöðum geti skoðast sem óvirðing við starf SÁÁ.

En auðvitað er Birkir vinur minn breiskur maður og það er ég líka. Kannski óvenjulega breiskur meira að segja því að ég reyki, ég safna spiki, ég skila skattframtalinu alltaf of seint og það kemur fyrir að ég hugsi girndarlega um alls óviðkomandi og þroskaðar konur. Svo er ég í tilbót trúlaus og fer aldrei svo mikið sem í anddyri á leikfimihúsum.  Ég man ekki hvað ég get talið fleira en ef það er ætlun hæstvirtra kjósenda að ekki skuli aðrir en vammlausir einir séu á Alþingi þá er ég ekki rétti maðurinn.

Það getur vel verið að þessir vammlausu menn séu til einhversstaðar en það hefur ekki verið sannað. Flestir þeirra sem taldir eru vammlausir reynast undir smásjá lygarar og sumir segja að summa lastanna hjá okkur sé jöfn!  En jafnvel þó til væru 63 vammlausir menn í landinu, 100% löghlýðnir og sléttgreiddir þá efast ég um að það séu alveg réttu mennirnir á Alþingi Íslendinga. Aðallega vegna þess að þá verður nú ósköp leiðinlegt þar. 

Og guð forði okkur frá því að það lið komist að stjórn landsins sem nú höfuðsitur okkur þingmenn þessar þjóðar fyrir mannlega breiskleika og um leið fyrir það að vera með í flóru mannlífsins. Það eigum við einmitt að vera og aðeins þannig getum við verið fulltrúar þessa sama mannlífs við lagasetningu og stjórn landsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Sæll Bjarni og takk fyrir skemmtilegan pistil.

Það að þú skilir ekki skattframtalinu á réttum tíma segir ekkert til um það að lögin um skil á skattframtali séu asnaleg. Eða hvað? Og varla bregstu ókvæða við, eða ferð undan í fíflagangi ef þú ert áminntur fyrir að klikka á slíkum hlutum. Nei, því trúi ég ekki. Væntanlega gerirðu eins og við hin sem erum ekki fullkominn. Skilar of seint og geldur kannski eitthvað fyrir það. Þegjandi og hljóðalaust.

Auðvitað er enginn maður fullkominn. Það segir sig sjálft. En vinur er sá er til vamms segir, ekki satt? Og þá er ekki stórmannlegt af ykkur framsóknarmönnum að fara upp um fjöll og firnindi í móðursýkislegum varnartilburðum. Jafnvel að tala um að lögin séu asnaleg, eins og formaðurinn hefur ýjað að. 

Mér finnst það í sjálfu sér ekkert merkilegt að Birkir Jón skuli spila póker upp á peninga. Satt að segja átti ég ekki von á því að hann hefði rænu á að stunda einhverja iðju sem gæti þótt skemmtan, en það er önnur saga. En ég leyfi mér þó að spyrja eins og fávís kona: Er löglegt að spila póker upp á peninga á Íslandi? Og hagnast á pókerspili, hvort heldur sem hagnaðurinn er 18 þúsund eða eitthvað annað? Ég spyr af því að ég veit það ekki, og kannski í leiðinni: Ef það er löglegt, er það þá alþingismönnum til eftirbreytni?

Heimir Eyvindarson, 21.2.2008 kl. 15:31

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Dyggðirnar eru margar og syndirnar líka. En það eitt og sér að ástunda dyggðugt og vammlaust líferni gefur að minni hyggju lífinu ósköp daufan lit.

Man eftir sögu af því þegar skáldið Einar Benediktsson hlýddi á lofræðu um látinn bindindismann. Þegar hlé varð á ræðunni varð Einari að orði með óduldu fálæti:

"Ég veit nú ekki til þess að annað liggi eftir þennan mann en að hafa alla ævina stritast við að vera ófullur."

Árni Gunnarsson, 21.2.2008 kl. 16:43

3 Smámynd: Steinn Hafliðason

Eins manns brot afsakar ekki annars.

Ég er engu að síður ánægður með að Birkir skuli vekja athygli á þessu máli og hvernig löggjöfin er um fjárhættuspil. Það er þörf umræða um fjárhættuspil og spilafíkn þeim viðkomandi.

Ég efast stórlega að Birkir hafi gerst sekur við lögin frekar en bridge spilararnir hinu megin við götuna.

Steinn Hafliðason, 21.2.2008 kl. 17:03

4 identicon

Heimir það er klárlega löglegt að spila póker og jafn vel að græða peninga á því.  Það sem er hins vegar ólöglegt er að hagnast á því að aðrir spili póker, t.d. með rekstri spilavítis eða með því að selja aðgang að pókerspili og taka 10% af aðgangseyri í þóknun.  Svo lengi sem allur peningur sem greiddur er fyrir að spila rennur í verðlaunafé er klárlega löglegt á Íslandi að stunda pókerspil.

Hvað Birkir Jón á við með því að önnur lög gildi um pókerspilun en önnur spil veit ég hins vegar ekki.  Ég hef staðið í þeirri trú að sömu lög gildi um póker og bridds.

Máni Atlason (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 17:28

5 Smámynd: halkatla

ég er með endemum sómakær og vammlaus, fyrir utan það þegar mér verður á

halkatla, 21.2.2008 kl. 17:38

6 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Kannski er póker framtíðarmúsik í eyrum Birkis, eins og Byrgið á sínum tíma? Svo vitnað sé í manninn sjálfan

Heimir Eyvindarson, 21.2.2008 kl. 17:50

7 identicon

Ertu alveg viss að þú skiljir þetta? Þetta gengur ekki eingöngu út á lög-eða lögbrot. Siðferðisstika þingmanna á að vera hærri en almennings líkt og foreldrar fyrirmynd barna. Eitt er að vera vammlaus - annað að vera siðlaus. Stigðu út fyrir framsóknarhringinn og horfðu á þetta eins og almenningur, kúnnarnir í bóksölunni.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 19:20

8 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Það sem skyggir á "Pókermann" í þessum pistli er hversu skemmtilegur hann er til lestrar. Takk.

Þorkell Sigurjónsson, 21.2.2008 kl. 20:55

9 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Skemmtileg grein Bjarni og sönn að mestu/þetta minnir mann á að" sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum" en sá sem ekki trúir á kenningar bibliunar , les þetta ekki/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 21.2.2008 kl. 21:02

10 Smámynd: Bjarni Harðarson

takk fyrir umræðuna. Halli, ég les reyndar biblíuna mér til fróðleiks og skemmtunar og hefi rennt yfir mestallt gamla testamentið og slatta af því nýja. Varðandi það að ég skilji þetta ekki Gísli þá held ég við séum bara ekki alveg sammála. Í fyrsta lagi sé ég alls ekki að það séu siðlausir menn sem spila póker. Svo er ég því einfaldlega ósammála að menn séu kjörnir á þing til að vera einhverskonar glansmyndir borgaralegra dyggða fyrir þegnana til að fara eftir og hneikslast á. Hlutverk þingmanna er ekki sambærilegt hlutverki foreldra gagnvart börnum. Menn eru kjörnir á þing vegna pólitískra hæfileika og sannfæringar - eða þannig ætti það a.m.k. að vera. -b.

Bjarni Harðarson, 21.2.2008 kl. 21:32

11 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þingmenn sitja í reykfylltu herbergi Alþingis með sigarettu í munni og spila póker upp á peninga. Allt löglegt að sjálfsögðu.En er landi austan úr hreppum í glösunum á borðinu.Og fær Björn að vera með.

Sigurgeir Jónsson, 21.2.2008 kl. 23:29

12 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ætli þú hefðir skrifað þennan pistil Bjarni ef spilarinn hefði komið úr öðrum flokki?
Ótrúlegt! Nú vilja Framsóknarmenn ekki hafa menn í sínum röðum nema þeir brjóti lögin... af því að það gerir þá svo mannlega eitthvað!!

Allir menn eru breiskir en það er nú fokið í flest skjól ef kjörnir þingmenn geta ekki stillt sig um að brjóta lög.
Og ef póker er svona saklaust skemmtan... jafnvel þó spilað sé upp á peninga.. Af hverju er það þá lögbrot???

Heiða B. Heiðars, 22.2.2008 kl. 01:07

13 identicon

Bjarni,haltu bara áfram þessum kjánaskrifum.Þú ert komin í hóp hinna flokksystkina þinna sem sagga niður Framsóknarflokkinn,vei fyrir því.Hvernig dettur þér í hug að láta aðra eins vitleysu fara frá þér .Mér er spurn ert þú og félagi þinn Birkir Jón Jónsson ekki alþingismenn ?ja síðast þegar ég vissi allavega.Alþingi=Löggjafasamkunda þjóðarinnar,en kannski vissir þú ekki af því,held að þið ættuð að fá ykkur eitthvað annað að gera.   Því skal ekki leyna að þú Bjarni karlinn ert ágætasti maður af Framsóknarmanni að vera.

jensen (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 08:28

14 identicon

Fólk virðist ekki átta sig á því að það að spila póker er EKKI lögbrot.

Máni Atlason (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 08:45

15 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ofurviðkvæmni menna er að verða til baga.

Margir eru farnir að gera út á að berja sér á brjóst, sem rétthugsuðir.

Flestir slíkir eru hug-sauðir, með fullri virðingu fyrir þeim ferfættu.

Opinberlega er ekki unnt að rökræða við þetta fólk, það er svo upptekið af eigin ágæti og vammleysi.

Annars er það nú samt svo nafni minn, að þau þurfa nú að beyja sig fyrir lortinum, eins og sagt var ,,fyrir vestan"

Annars er svo, að hann Birkir ætti svosem að vanda sína palladóma um okkur íhaldið, varkárni er dyggð.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 22.2.2008 kl. 09:48

16 identicon

Sæll Bjarni

Ég er ekki löglærður en miðað við þessa umræðu af vef Ferðaklúbbsins 4x4 er akstur í flæðarmáli lögbrot þótt hann valdi engu tjóni.

http://www.f4x4.is/new/forum/default.aspx?file=umhverfismal/10202

Vigfús Eyjólfsson (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 10:39

17 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

syndin er dyggð

Brjánn Guðjónsson, 22.2.2008 kl. 11:01

18 identicon

Munu Bjarni Harðarson og,Birkir Jón Jónsson leggja það til á Alþingi að Fjárhættuspil,einsog póker verði lögleitt á Alþingi?.Lítið virðist vera að gera hjá þessum þingmönnum,annað en það að viðurkenna brot á lögum sem þeir eiga að framfylgja,og eiga þátt í að skapa á Alþingi.Hvað skyldi koma næst hjá þessum Sjálfseiðingaflokkahökkurum.?

jensen (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 12:42

19 identicon

Það kom nýverið út bók hjá Andríki um lesti og viðbrögð við þeim. Í henni eru raktar margar ástæður fyrir því að ríkið eigi ekki að skipta sér af löstum manna heldur taka bara á glæpum manna gegn öðrum mönnum.

Sjá til dæmis um bókina Löstur er ekki glæpur hér:

http://www.andriki.is/default.asp?art=19062007

http://andresm.eyjan.is/2008/02/22/a%c3%b0-sigra-heiminn/

Már (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 14:19

20 Smámynd: Vendetta

Nú hefur komið fram, að þar eð pókerspil upp á peninga stríðir ekki gegn lögum, þá hafi Birkir ekki gert neitt ólöglegt. Yfir hverju ætli þessir nöldrarar hér að ofan kvarti  næst?

Vendetta, 22.2.2008 kl. 14:35

21 Smámynd: Vendetta

Ég átti auðvitað við nöldrarana í færslunni á undan. Svo vil ég benda á að "breyzkur" stafast með y.

Vendetta, 22.2.2008 kl. 15:32

22 Smámynd: Bjarni Harðarson

auðvitað er orðbragð margra hér í bloggheimum fyrir neðan allar hellur og fer nú oft saman að það er verst þar sem vitið er minnst. slíkt tal dæmir sig sjálft...

Bjarni Harðarson, 22.2.2008 kl. 16:21

23 identicon

Í útvarpsviðtali í dag viðurkenndi hæstvirtur Birkir Jón Jónsson,nánast að vera spilasjúkur.Bjarni við hvað starfar þú eiginlega.?

Jensen (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 00:28

24 Smámynd: Baldur Fjölnisson

"...ég reyki, ég safna spiki, ég skila skattframtalinu alltaf of seint og það kemur fyrir að ég hugsi girndarlega um alls óviðkomandi og þroskaðar konur. Svo er ég í tilbót trúlaus og fer aldrei svo mikið sem í anddyri á leikfimihúsum."

Lofsverð hreinskilni hjá þingmanninum.

Samtíminn snýst að mestu um neyslu, afþreigingu og peninga og því fylgir óhjákvæmilega firring, hugmyndafræðileg úrkynjun og hnignun og fíknir af ýmsu tagi. Menn eru fíknir bæði í löglega hluti og ólöglega og fíknaframleiðslan er á ógnarhraða á meðan kerfið sem setur lögin er sem snigill og vill helst viðhalda status kvó. Svo margir brjóta til dæmis lög um ólögleg fíkniefni að þau eru í raun orðin marklaus fyrir löngu. Þetta snýst allt saman fyrst og fremst um lífsstíl sem fólk velur sér eftir einhverjum fyrirmyndum væntanlega.

Varðandi pókerinn þá er hann fjárhættuspil og slíkt er fullkomlega löglegt hér á landi, það má bara ekki hafa hann beinlínis í atvinnuskyni. Skilst mér. En það er út í hött. Þetta spil byggist á ákveðinni hæfni en líka mikið á blekkingum og líkist að því leyti td. stjórnmálum og bílasölu og verðbréfasölu sem fjöldi manns hefur atvinnu af. Er siðferðilega rangt að féfletta náungann og ljúga hann fullan? Verður eitthvað siðferðilega rétt ef það er lögleitt á alþingi?

Baldur Fjölnisson, 23.2.2008 kl. 16:12

25 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Það er enginn vammlaus. Langt í frá. En samt eru menn alltaf að reyna að réttlæta eigin græðgi og breyskleika og margir virðast telja að lögin og þeir sem þau setja hreinlega úrskurði hvað sé siðlegt og hvað ekki. Þeir telja sem sagt að að allt sé leyfilegt sem ekki sé beinlínis bannað með lögum. Samt bulla þeir gjarnan um eitthvað "kristilegt siðferði" sem þeir þykjast fylgja. Þetta er það sem ég á við með hugmyndafræðilegri úrkynjun. Það mætti segja mér að Bjarni Harðar hefði lesið meira af uppbyggilegu lesefni en restin af núverandi þingheimi.

Baldur Fjölnisson, 23.2.2008 kl. 17:23

26 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Bjarni er öðruvísi stjórnmálamaður.  Taktu nú upp hanskann fyrir alla stjórnmálamenn, allra flokka. Réttlætis skal gætt.

Páll Geir Bjarnason, 23.2.2008 kl. 17:40

27 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ja, hann er með bókaverslun. Sem mjög sterklega bendir til þess að hann sé vel læs. Sennilega hefur hann lesið meira en gjörvallur þingheimur. Því skyldi ég þröngva honum niður á lægsta samnefnarann?

Baldur Fjölnisson, 23.2.2008 kl. 20:27

28 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Og svo hefur hann (afsakið að ég ræði um viðstaddan í þriðju persónu) ekkert á móti því að almenningur tjái sig á bloggi sínu. Það er mjög gott merki.

Baldur Fjölnisson, 23.2.2008 kl. 20:50

29 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

"Spilafíknin sem er mjög raunaleg kemur helst fram í ástríðunotkun spilakassa og annarri frekar einmanalegri iðju þess sem tapað hefur áttum."

 Bjarni: mér finnst ofanrituð ummæli þín í þessu bloggi um fíkla ekki vera sannleikanum samkvæm og að þú ættir að kynna þér þessi mál betur og skrifa meira um þau, því þitt blogg er mikið lesið og þú hefur áhrif. Ég held að fíklar séu eins og allt annað fólk og alls ekki endilega andfélagslegir. Að þeir stundi mikið spilakassana held ég að stafi bara af því að um fátt annað er að velja. 

Kveðja

Sæmundur

Sæmundur Bjarnason, 26.2.2008 kl. 16:42

30 Smámynd: halkatla

það koma örsjaldan almennilegir þingmenn á þing en þeir eru til og óþarfi að nefna einhver nöfn. Ég á við þá fáu sem eru þarna ekki bara fyrir sjálf sig. Aumingja pókerspilarinn mikli á sér draum, þann draum að auðvelda sér pókerspilið. Ég hef ekki tíma til að hafa skoðun á því.

halkatla, 28.2.2008 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband