Jón í Úthlíð, Ágústa og sumarið '76
27.2.2008 | 22:22
Horfin er mín matmóðir frá Deðreksári og nú einnig tutor, fyrirmynd og pískari. Þetta er ekki af kala sagt að nota svo gróteskt orðalag nú á útfarardegi heiðursmannsins Jóns H. Sigurðssonar. Þetta er málfar sem ég þarf að nota til að komast inn í þann heim sem ríkti með okkur Tungnamönnunum út með hlíðum sumarið 1976. Eitt mitt sælasta sumar. Mér fannst ég fullorðinn.
Fékk þá aðeins að hleypa heimdraganum þó innansveitar væri og var sumarlangt við störf á stórbúi þeirra bræðra Jóns og Björns, húsaður hjá Birni og Ágústu heitinni en daglega undir verkstjórn Jóns. Í kompaníi með Óla Björns.
Það eru vitaskuld grimm örlög sem taka landsins bestu börn um aldur fram til annars heims. Slík voru örlög Jóns sem kveður nú 64 ára gamall og ekki síður hinnar mætu húsmóður í Úthlíð Ágústu sem lést litlu eldri fyrir fjórum árum. Bæði voru hvunndagshetjur sem auðguðu lífið og gáfu því lit.
Að koma pervisinn 14 ára strákur inn í þetta samfélag var ævintýri,- alls ekki tóm sæla enda held ég að slík heimska hafi aldrei hvarflað að neinum út með Hlíðunum á þeim árum. Það stóð ekki til á þeim árum að geyma okkur í bómull. Björn bóndi átti til að gera tilraunir með okkur hálfsofandi eftir baggahirðingu á gangi yfir túnin í ágústnóttinni. Orgaði fyrirvaralaust í eyra manns svo hjartað í útpískuðum skrokknum skalf og nötraði. "Bara að athuga hvort að þú sért nokkuð hjartveikur, strákur,- og það fór ekkert milli mála að allt var það vel meint.
Ágústa með sinn fjörlega hlátur og móðurlega strangleika sá enda til þess að aldrei væri gengið of nærri viðkvæmum unglingi og var tilbúin til varnar. Eitt orð hennar dugði, - voru lög þegar hún vildi það við hafa. Hún var heilbrigðið uppmálað og átti til að fárast í gamansömum tón yfir að vera farin að bæta á sig en Björn bóndi svaraði af hreinskilni að af heittelskuðu yrði aldrei of mikið, - því meira því betra!
Jón var í senn félagi okkar drengjanna og húsbóndi en alls ekkert alltaf þægilegur. Datt ekki í hug að vera það. Fræddi okkur og stríddi okkur, ól okkur upp og píndi. Það var hugurinn og kappið sem bar hann og við hrifumst með. Oft töfrandi hamagangur þess sem vissi hvert hann vildi. Hann var fráleitt hestamaður og ekki nema í meðallagi gefið að sinna fjósverkum en slíkur afburða fjármaður að leitun var að slíku. Búið var eitt hið stærsta í sveitinni á þessum árum, 500 fjár og 60 hausar í fjósi. Jón þekkti hverja kind með nafni og vissi eigindir þeirra af ætt þeirra.
En það var þetta sambland af æringjahætti og þrotlausri vinnusemi sem verður mér minnistæðast. Hér var iðkuð sagnalist og í dagsins önn talað lotulaust um Tungnamenn í fortíð og nútíð. En samt aldrei slegið slöku við. Mér eru minnistæðar smalamennskur í Sundinu þar sem nú eru tjaldstæði. Hér var í heiðri haldið þeim sunnlenska sið að menn fengu útrás bæði fyrir hlaupanáttúru og skapsmuni sem var tappað kinnroðalaust. Jón var gjarnan á hesti fyrsta hálftímann en stökk svo skyndilega af baki, stundum með slíku þjósti að klárinn gekk hvefsinn í burtu. Vissi sem var að þarna var ofjarl hans því eftir þetta hljóp Jón þindarlaust um mýrina þar til hverri kind var náð. Slíkt lék enginn eftir. Við krakkarnir röltum eftir klárnum sem eigraði svekktur með hnakk og beisli.
Þó liðin séu þrjátíu ár þá finnst mér þetta í minningunni eins og nýskeð. Samt er svo útrúlegur munur á mörgu í lífskjörum þjóðar. Björn bóndi stundaði á þessum árum áburðarakstur á stórum vörubíl en Jón rak búið með okkur unglingunum, Óla, mér, Systu, Dísu og Ínu. Ágústa sá í rauninni um fjósið og gömlu hjónin á bænum létu ekki sitt eftir liggja. Sigurður Jónsson bóndi í Úthlíð var vissulega ellimóður en gekk að verkum og hafði skoðun á því hvernig gera skyldi hlutina. Mest þó skoðun á pólitíkinni og mér verður minnistæður sá dagur þegar heimsbyltingin reið um hlað á þessu skemmtilega íhaldsheimili. Við Óli hittum gamla manninn á hlaðinu forviða yfir ágengni kommúnista í heiminum sem engan og ekki einu sinni hann léti í friði. Síðar um daginn fréttum við að það var einmitt þennan dag sem ungur framsóknarmaður af Vatnsleysukyni keyrði um sveitina og bauð happdrættismiða þess flokks fala.
Það var fallegt í Laugarási," sagði gamla konan Jónína Gísladóttir móðir Jóns fyrsta sinn sem við töluðumst við. Hún var að tala um bernskuheimili okkar beggja en faðir hennar flutti snemma á öldinni sem leið úr Laugarási í Úthlíð. Bætti svo við eins og til skýringar á því að betra væri í Úthlíð: En það voru þar bannsettir hverirnir."
Það var einn bíll á bænum, gamall Saab sem allir ökufærir skiptust á um að nota. Þessutan ljóslaus og allslaus Gipsy jeppi sem notaður var til ferða inn í hraun eftir óþekktar hillum eins og það fé var kallað sem ekki fylgdi settum reglum búskaparins. Einn daginn kom töffarinn Bjarni Gísla á miklum kagga í hlað. Merkastur þótti sá bíll fyrir að í honum voru græjur og ég man að við Óli ræddum það hvort einhverntíma yrðu nú settar græjur í Saabinn en sáum fljótt að það myndi stranda á Jóni. Hann segði vísast að það væri hægt að hafa með sér ferðatæki út í bíl!
Blessuð sé minning Jóns í Úthlíð og blessuð sé minning Ágústu Ólafsdóttur. Vissulega er sveitin okkar og landið allt fátækari á eftir en líka ríkari að hafa átt slíkar persónur. Fyrir það ber að þakka.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vel mælt Bjarni það er kjarnafólk úr Tungunum/Blessuð sé myning þessa fólks/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 27.2.2008 kl. 22:46
Falleg minningarorð
Jón kenndi mér í menntaskóla, var óþrjótandi viskubrunnur og frábær kennari.
Barði Barðason (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 00:16
Sæll Bjarni.
Kærar þakkir fyrir þennan pistil.
Ég varð þess aðnjótandi að fá að kynnast Jóni sl sumar og starfa með honum í Hvaleyrarskólanum.
Blessuð sé minning hans.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 28.2.2008 kl. 00:49
Takk Bjarni fyrir góðan pistil um eftirminnilegar og töfrandi persónur sem vissulega auðguðu líf samferðamanna sinna. Það var alltaf gaman að spjalla við Jón eftir Reykjavíkurmaraþonin þar sem við skiptumst á skoðunum um upplifun á hlaupinu...hann búin að fara hálft maraþon í stólnum sínum áhugasamur um gengi sveitunga sína, enn með gamla góða keppnisglampann og gáskann í augunum. Kv Erla Gunnars
Erla Gunnars (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 01:39
Takk fyrir góðan pistil Bjarni, þetta rifjar upp góðar minningar frá þessum tíma. Athöfnin í gær var líka eftirminnileg, og í anda Jóns.
kv
Óli Bj
Ólafur Björnsson (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 09:47
Frábær pistill Bjarni. Maður er hér með tár í augunum ýmist af hlátri eða sorg. Margar góðar sögur til og ég man líka hvað Jón hló af því þegar þú lentir ofan í rollubaðinu sem deðrekur í Úthlíð sem var fullt af leysingavatni og hrossahlandi eftir veturinn.
Kv. Ína Bj
Ína (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 10:19
víst man ég ína - var að vonast til að þú hafir verið of lítil til að muna þetta - en jú ég man. óborganlegar minningar!
Bjarni Harðarson, 28.2.2008 kl. 13:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.