Svarfdælir á góu og brunnar skræður...

Ef frá er talið að áðan brann til skemmda hamsatólgin mín svo saltfiskurinn var með sméri,- já að þessu frátöldu er lífið gott. Ekki að neinn skuli gera lítið úr því að ég hafi misst af mínum skræðum og það þegar mér hafði nýlega áskotnast hangiflot sem ég henti ofan á skræðurnar og vissi að þær yrðu enn gómsætari. En þær enduðu semsagt í allar í lífræna haugnum hér í garðshorninu og verða þannig Sólbakkamaðkinum einum til gleði. Lífið er stundum óréttlátt þó maðkarnir séu góðs maklegir...S5001200

Hitt tel ég eiginlega ekki til ótíðinda að vera með slæmsku og hafa sofið að mestu í dag því sumpart er þetta kærkomið frí. Eiginlega þarf eitthvað í þá áttina til þess að ég hvíli mig almennilega og ég naut þess út í æsar að hafa smá hitavellu með reifara og miklum svefni. Byrjaði reyndar daginn á að keyra suður í morgunútvarp Bylgjunnar þar sem við sátum saman Kristján Þór Júlíusson og tókumst hressilega á. Kristján er með skemmtilegri mönnum þingsins en líka hvass andstæðingur eins og ég hef áður rifjað hér upp fyrr. Og svo ræddum hans heimasveit Svarfaðardal sem ég var svo lánsamur að heimsækja um helgina. Frændi minn Hjörleifur á Laugasteini fékk mig til að mæta þar í málþing um héraðsfréttablöð en um þessar mundir er blað þeirra Svarfdæla 30 ára.

Aldrei þessu vant dróst þingmannsfrúin á að líta upp úr tónsmíðunum og kom með mér svo við áttum þar nyrðra skemmtilega helgi saman. Fórum á Svarfdælskan mars á Húsabakka þar sem ég dansaði eða reyndi að minnsta kosti að dansa en fótamennt öll er mér frekar framandi. Kvefpestin gerði svo að verkum að mig svimaði meira og minna þannig að ekki var þetta þrautalaust!

Hápunktur ferðalagsins var samt að koma í morgunkaffi hjá þeirru mætu konu Sigríði Hafstað á Tjörn. Einhverntíma spaugaði ég með frændsemi okkar Hjörleifs og nú var komið að skuldadögum þeirrar ættrakningar þegar ég hitti þessa gömlu konu. Hún og faðir minn eru þremenningar frá skagfirskum ævintýramanni sem ég segi svo frá á góðum degi að hafi meðal annars smíðað Nýju Jórvík vestra og verið fljótur að. Ekki hefur nú samband við þennan ættlegg ekki verið mikið en þó þekkti faðir minn Ingibjörgu ömmu Sigríðar vel og hún sömuleiðis afa hans, Benedikt frá Keldudal. Ég læknast seint af þeirri bakteríu að hafa gaman af ættrakningum og örlagasögum af fólki, bæði mínu fólki og annarra.

Og hér fékk ég Sigríði gömlu til að segja mér hina rómantísku sögu ömmu sinnar sem ung og gjafvaxta vakti upp draum hjá jafnaldra sínum á bænum Vatnsskarði í Skagafirði. Þar lenti hún sem unglingur þegar móðir hennar, snikkarakona í Reykjavík, dó um aldur fram árið 1885. 1889 heldur faðir hennar til Vesturheims og tekur barnið Sigurbjörn með sér. Þeir feðgar héldu þó ekki til Kanada eins og flestir heldur hafnaði karl í smíðavinnu í New York, enda snikkari sem var þá hið virðulega starfsheiti trésmiða. Þangað kominn gerir hann boð fyrir börn sín nyrðra og sendir þeim farareyri. Benedikt langafi minn sem var elstur þeirra systkina var þá í vinnumennsku í firðinum og mun hafa aftekið að fara en Ingibjörg sem var komin í vist á Króknum reiknaði með að hlýða boði föður síns. Á tilteknum degi kemur agentaskipið inn á fjörðinn og er þá búið að safna vesturförum víðsvegar um landið.

En rétt á eftir skipinu kemur hafís inn Skagafjörðinn og það verður innlyksa þar í tvær örlagaríkar vikur. Bóndasonurinn ungi fréttir af fyrirætlunum vinkonu sinnar rétt um það leyti að ísinn er að losna af firðinum og ríður í hendingu norður á Krók. Með tvo til reiðar og kvensöðul á öðrum. Má þá ekki tæpara standa að hann nái Ingibjörgu áður en hún stígur ferðbúin á Vesturfaraskipið. Rómantískara upphaf er varla hægt að hugsa sér. Þau giftust skömmu síðar og urðu mektarbændur á Geirmundarstöðum. Halldór vesturfari kom skömmu eftir aldamót heim aftur og settist í hornið hjá þessum ungu hjónum og dó þar árið 1919.

Um soninn Sigurbjörn sem fór með honum vestur var aldrei talað!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Skemmtileg frásögn. Ég hef líka ætíð haft áhuga á fjölbreytilegum vinklum minnar ættar. Ekki af því að það sé eitthvað merkilegra en annarra, heldur er það svo áhugavert að rekja söguna. Hvernig ættkvíslir myndast, ferðir og staðir koma inn í þetta.

Góður punktur þetta með soninn sem "var aldrei talað" um. Minnir að í Íslandssögu Halla Matt á Laugarvatni að þá hafi flutningur fólks til Vesturheims verið afgreiddur í einni setningu. Síðan verður áhugi á sögu þeirra meiri um 1990. Guðjón Arngrímsson skrifar bók, Böðvar Guðmundsson skrifar sín verk, Haraldur Bessason skrifar endurminningabrot o.fl.

Áður voru Vesturfarar bara afgreiddir sem einskis áhugaverðir föðurlandssvikarar, eins og Evrópusinnarnir núna   .  Mbk.

Gunnlaugur B Ólafsson, 18.3.2008 kl. 00:49

2 Smámynd: Bjarni Harðarson

Kæri Gunnlaugur - þetta var ódýrt! Yfirleitt heyri ég ekki aðra en ESB - sinna sjálfa tala um föðurlandssvikara í þessu samhengi. Sigurbjörn þessi frændi minn kom ekki til baka með föður sínum og hefur að líkindum látist ungur þar vestra. En það er rétt að það var mikil togstreita með þjóðinni um vesturferðirnar en samt var nú skrifað vinsamlega um þær af sumum og allmargir fóru líkt og forfaðir minn vestur og komu svo aftur. Kannski hefur karlinn viljað taka strákinn með sér heim aftur en sá verið kominn með fallega kærustu í New York og neitað að fara...

Bjarni Harðarson, 18.3.2008 kl. 08:56

3 identicon

Fórstu hljótt um hér fyrir norðan Bjarni? Þú hefur vonandi fengið meira en svarfdælska brúnku?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 14:22

4 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ég vildi að ég gæti sagt sögur af ættingjum í vesturheimi, en þó öfunda ég þig meira af "skræðunum", sem hefðu getað orðið. Synd að þær fóru fyrir bí.

Helga R. Einarsdóttir, 18.3.2008 kl. 15:28

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Bjarni, í ljósi þess að íslenska krónan er ONYT er ekki skritið að taka til orða eins og Gunnlaugur gerir!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.3.2008 kl. 19:23

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Gaman væri að þingmenn þjóðarinnar, sem eru bara 63 stykki hefðu meiri áhuga á gengi íslendinga?...ég meina sem samfélags 300.000 manns og ekki "heimsveldis" eða neitt annað, en hversu erfitt er að tjá sig um hvað kemur 300.000 manns til góðs?...mjög erfitt ef alþingi er dæmið..en alþingi isæendinga FORÐAST RAUNVERULEG VANDAMÁL eins og að krónan (sem 300.000 manns hafa) er ÓNÝT...GERSAMLEGA HRUNIN!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.3.2008 kl. 21:28

7 identicon

Það rifjast upp við þessa lesningu að margt heyrði ég í æsku af þeim heiðurshjónum Bensa og Laugu í Keldudal, og sömuleiðis því að þeir léku sér saman Skíðdal (Þórður) á Egg, Kádal (afi þinn) í Keldudal og Hródal (Alfreð föðurbróðir minn) í Hróarsdal.  Og hefur sambandið milli þeirra bæja löngum verið litríkt.  En til að forðast skaðbruna á hamsatólg er gott, og hollt, að blanda hana að þriðjungi með maísolíu.  Breytir bragði ekkert en hvorki gómurinn né diskurinn verða kámugir eður klístraðir en hjartað hoppar af gleði yfir minni kransæðaþrengingu.

Tobbi (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 22:08

8 Smámynd: Bjarni Harðarson

hver er tobbi - langar að vita meira...

Bjarni Harðarson, 18.3.2008 kl. 22:36

9 identicon

Við bjuggum einu sinni saman á Gamla-Garði og erum svosem málkunnugir, hittumst í Vestmanna á Straumey og í Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem ég kenni íslensku og heiti Þorvaldur og er Sigurðsson frá Hróarsdal.  Sl. 20 ár hef ég hins vegar reynt að breiða út skagfirska menningu á Suðurnesjum og kannski var það af mínum völdum að herinn sá sitt óvænna og fór, því allt skagfirskt er eitur í beinum hermangara og hryðjuverkamanna eins og sést á því að sturlungaöldin gerðist mestöll í Skagafirði.  Þá voru skillitlir menn að reyna að ganga á milli bols og höfuðs á þarlendri menningu en kom fyrir ekki því bæði Hallgrímur Pétursson og amk helmingur Fjölnismanna var úr þeirri fríðu sveit ættaður og ekki má gleyma eina alminlega framsóknarmanninum sem núlifandi er.  Svo fórum við Hallgrímur suður með sjó og höfum linnulítið juðað síðan við að bæta mannlífið þar.

libbðu svo heill

Þorvaldur frá Hróarsdal

Tobbi (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 17:46

10 identicon

Innlent | mbl.is | 19.3.2008 | 16:29

Vilja aðildarviðræður við ESB

Stjórn Alfreðs, félags ungra framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi suður, skorar á íslensk stjórnvöld að bregðast tafarlaust við hinum mikla vanda sem nú herjar á íslenskt efnahagslíf.

Segir félagið í ályktun, að það sé óþolandi að horfa upp á ríkisstjórn landsins sitja með hendur í skauti sér og aðhafast ekkert á sama tíma og yfirvofandi kreppa þurrki út mikinn efnahagsárangur sem náðst hafi  á undanförnum árum," segir í ályktuninni.  

Segist stjórnin telja að aðildarviðræður við Evrópusambandið sé æskilegur vettvangur til þess að láta reyna á hvort hagsmunum Íslendinga verði betur borgið innan sambandsins eða utan. Taktleysi ríkisstjórnarflokkanna í Evrópumálum sé vandræðalegt og ekki til þess fallið að auka trúverðugleika í annars erfiðu árferði. 

„Framsóknarflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur farið út í þá metnaðarfullu vinnu að skilgreina samningsmarkmið Íslands í aðildarviðræðum. Fólkið og fyrirtækin í landinu þola ekki þessa biðstefnu stjórnvalda, stefnu sem frestar nauðynlegum úrbótum á samfélaginu vegna valdastóla og innbyrðis valdabaráttu ríkisstjórnarflokkanna. Hættum að bíða! Stjórn Alfreðs skorar á stjórnvöld að marka sér samningsmarkmið og hefja tafarlaust aðildarviðræður við Evrópusambandið," segir síðan.

Hannes (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 20:05

11 Smámynd: Brynja skordal

Gleðilega páska

Brynja skordal, 20.3.2008 kl. 09:39

12 identicon

"Innlent | 20.03.2008 09:22:12 dv.is

Bjarni í litlum metum
Mynd: DV

Bjarni Harðarsson alþingismaður er í fremur litlum metum innan Framsóknarflokksins eftir undarlegar árásir á Valgerði Sverrisdóttur, varaformann flokksins. Bjarni hefur litlu svarað um trúnaðarbréf til flokksmanna með árásunum öðru en því að sökudólgurinn sé DV sem birti bréfið.

Bjarni ku eiga sér mikla drauma um áhrif í æðstu stjórn flokksins í framtíðinni. Bjarni er náfrændi Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra og telur sig væntanlega hafa svipaða burði þótt ekki séu allir á sama máli þar. "

Hannes (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband