Evrópustefna Framsóknarflokksins

Nýleg skoðanakönnun Samtaka iðnaðarins um afstöðu landsmanna til inngöngu í Evrópusambandið staðfestir það sem áður hefur komið fram í könnunum að andstaða við aðild er hlutfallslega meiri í Framsóknarflokki en nokkrum öðrum stjórnmálaflokki. Og staðfestir líka að fylgið við ESB aðild er ekki að breytast svo nokkru nemi, hvorki meðal Framsóknarmanna né annarra landsmanna.

Sé Framsóknarflokkurinn klofinn vegna þessa máls eru aðrir flokkar það ekki síður. Þannig er andstaða við aðild innan Samfylkingar litlu minni en fylgi við aðild innan Framsóknarflokks. Eini flokkurinn sem kemur nú og fyrr einkennilega út í könnunum um þetta mikilsverða mál er Sjálfstæðisflokkurinn því þar er meira en helmingur flokksmanna fylgjandi aðild að ESB meðan forystan talar einum rómi gegn aðild. Sá málflutningur segir meira en mörg orð um lýðræðislega umfjöllun í þeim stjórnmálaflokki.


Er uppgjör framundan
Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur flokkur og umburðarlyndur. Þannig er innan flokksins rúm fyrir fleiri en eina skoðun í þessu máli og flokksmenn takast þar almennt á í bróðerni og án heiftar um ESB mál sem önnur. Jafnt á fundum sem og með tölvupósti og ekkert athugavert við það. Þegar reynt er að skipa mönnum innan flokksins í fylkingar þá riðlast það eftir málefnum. Þannig hafa sá sem hér skrifar og varaformaður flokksins talað einum rómi í ýmsum umdeildum málum eins og kvótamálum og þjóðlendumálum. En við sjáum Evrópumálin vissulega ekki sömu augum.


Nú ber svo við að Egill vinur minn Helgason og fleiri stjórnmálaskýrendur þessa lands telja að skammt sé að bíða uppgjörs innan Framsóknarflokksins um Evrópustefnu. Það er rétt að ef sitjandi ríkisstjórn ákveður að hefja aðildarviðræður hefst mikið uppgjörstímabil innan allra stjórnmálaflokkanna. Jafnvel í Samfylkingu eru menn sem munu ókyrrast í slíkri stöðu eða að minnsta kosti ekki fylgja forystunni í þessu einstaka máli. En í þeim efnum verður staða Framsóknarflokksins síst erfiðari en annarra. Stefna flokksins frá síðasta flokksþingi rúmar báða hópa en er skýr að því leyti að við teljum Ísland ekki á leið í ESB að sinni.


Alþjóðahyggjan mikilvæg
Það kann vel að vera að allir flokkarnir verði að skerpa á sínum Evrópustefnum á næstu misserum. Mín tilfinning er að átökin í þessu máli verði Sjálfstæðisflokki erfiðust og margendurtekin orð Björns Bjarnasonar styðja það. Mögulegt er að hluti af flokksforystu Sjálfstæðisflokksins muni á þessu eða næsta kjörtímabili halla sér að aðildarumsókn. Flokkur Vinstri grænna er hluti af alþjóðlegu andófi gegn alþjóðavæðingu viðskipta og hann mun hér eftir sem hingað til leiða þá sem vilja standa utan Evrópusambandsins á forsendum einangrunar.

Hlutverk Framsóknarflokksins í hinni pólitísku mun væntanlega taka mið af þjóðhyggjunni og verður þá eins og nú að standa vörð um fullveldi landsins samhliða því að vinna að aukinni alþjóðavæðingu og opnun viðskiptalífsins. Gríðarleg tækifæri bíða Íslands í viðskiptum við rísandi efnahagsveldi í Asíu og víðar. Við stefnumótun flokka er mikilvægast að þeir fari í takt við vilja meginþorra sinna kjósenda og í takt við þær meginlínur sem liggja í hugmyndafræði flokksins til lengri tíma litið.

Það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn hefur aldrei verið flokkur einangrunarstefnu hvorki í utanríkismálum né viðskiptum. En hann er jafnframt sá flokkur íslenskur sem hefur sterkastar rætur í fullveldisbaráttu þjóðarinnar og hugsjónum hins unga lýðveldis. Menn geta svo deilt um hvernig þær meginlínur flokksins ríma við afstöðuna í ESB málum. Við Framsóknarmenn höfum um það skiptar skoðanir og mikilvægt að við berum virðingu hvort fyrir öðru. Í mínum huga ríma ESB - aðild og Framsókn illa saman og fátt er betur fallið til einangrunar nú um stundir en að lokast inni í þröngum skrifræðisskápum Brusselveldisins.

Það er allavega ekki frjálslynd stefna.

(Birt í Mbl. á skírdag sem heitir reyndar græni fimmtudagurinn á þýsku og er því örugglega mikill framsóknardagur... gleðilega páska!)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Framsóknarmenn allra flokka sameinist/Gleðilega Páska!!!/ og kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 20.3.2008 kl. 21:24

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Kæri Bjarni

Er ekki nokkuð frjálslega farið með að nota setninguna "lokast inni í þröngum skrifræðisskápum Brusselveldisins" um ESB, sem skapað hefur grundvöll aukinna lýðréttinda fyrir milljónir manna í Evrópu. Reyndar líka á Íslandi í tengslum við EES.  Tækifæri og mannréttindi einstaklinga munu aukast þó að sjálfstæði minnki sem því nemur að taka tillit til annarra.

Við lokuðumst ekki í neinum skrifræðisskáp eða töpuðum sjálfstæði með inngöngu í SÞ 1946. Samt hefur Guðni Ágústsson lýst yfir því að hann vilji gangast undir hið erlenda vald sem að er Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og hefur bent á að brotin hafi verið mannréttindi með því að úthluta fámennum hópi fiskveiðiréttindin.

Tapaði fjöldi fólks sjálfstæði og lýðréttindum vegna kvótalaga Framsóknarflokksins? Síðan verða þeir frelsaðir og fá hugsanlega sjálfstæði með erlendu valdi innan SÞ. Það er mikið fagnaðarefni.

Við erum sennilega sammála í flestum málum öðrum en þessu.

               Bestu óskir um gleðilega páska til þín og þinna.

Gunnlaugur B Ólafsson, 20.3.2008 kl. 21:31

3 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Bjarni, það er sjálfsagt það besta sem landslýður fær fyrir komandi kynslóðir að ganga í Evrópusambandið, en Bjarni hvernig á maður að geta treyst því að flokkurinn standi við kosningaloforð? Kær kveðja frá Eyjum.

Helgi Þór Gunnarsson, 20.3.2008 kl. 23:24

4 Smámynd: Björn Heiðdal

Eru allir orðnir kolvitlausir nema Bjarni!  ESB er ekki lausn heldur vandamál í fæðingu.  Fólk þarf að nota verulega sterk sólgleraugu til að sjá ekki þau óveðurský sem hrannast upp fyrir ofan Gullna hliðið í Brussel.

Þegar þrír helstu stuðningsmenn manndrápanna í Írak eru orðaðir við nýtt forsetaembætti ESB er skrattinn búinn að sýna andlitið.  Gunnlaugur er greinilega einn af þessum sem vilja skemmta skrattanum og ganga í ESB.  

Það er greinilega engin tilviljun að öllum Nígeríubréfunum er stefnt til Íslands. 

Björn Heiðdal, 21.3.2008 kl. 12:23

5 identicon

Já þetta á eftir að riðlast þvert á flokka, alveg eins og í Noregi, þar sem ég held að stór meirihluti í forystu næstum allra stjórnmálaflokkana studdi aðild að ESB og einmitt þessvegna fór þetta í þjóðaratkvæði í Noregi og það meira að segja 2svar sinnum.

En hvað skeði ekki þar, það var fellt 2svar sinnum á almennri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það stefnir allt í það sama hér og það sama mun ske hér líka, aðild að ESB fyrir okkur Íslendinga verður kolfelld hér. 

Eftir því sem staðreyndir málsins verða fólki betur ljósar því fleiri sjá í gegnum þessi "nýju föt keisarans" sem hafa akkúrat ekkert að bjóða fyrir okkur Íslendinga, en margt að taka.

Því verð ég að segja það að ég ber mjög mikla virðingu fyrir þeim stjórnmálamönnum eins og til að mynda Bjarna Harðar, sem þora að andæfa þessu og benda hiklaust á það sem augljóst er að "keisarinn er ekki í neinu" !  

Þrátt fyrir nánast skefjalausan og gagnrínislausan áróður meginhluta fjölmiðla- og sérfræingaveldisins, fyrir inngöngu Íslands í ESB.

Nei við skulum ekki láta þessa sölumenn dauðans komast upp með að falbjóða sjálfstæði Íslands fyrir aðeins 30 silfurpeninga.

"Vér mótmælum allir" ! 

Íslandi allt !  Lifi frjálst og fullvalda Ísland

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 00:31

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Fínn pistill hjá þér Bjarni. 

Að mínu viti er Samfylkingin og FUF út þekju. Af tvennu illu væri skárra að ganga í Noreg en EB.

Sigurður Þórðarson, 22.3.2008 kl. 01:01

7 identicon

Góðan daginn. Heyrðu ég er sjómaður og hef það fínt núna. En hvernig er það. Núna hefur gengið hækkað og ekkert skeður í verði til sjómanna. Svo eru það bráðarbirðalöginn fyrir útgerðarmenn sem voru sett 1700 og súrkál um olíukosnað á ekkert að fara að aflétta þeim. af hverju eigum við að borga olíuna og hvað þá bátana ef að þeir eru yngri en 7 ára? sérðu fyrir þér strædó bílstjóra gera þetta? HA?

Svo með launinn hjá sjómönnum..... lálaunastétt.... hver er trygginginn.... sama og atvinnisleysisbætur.... ekki satt??? fyrir að hanga út í ballar hafi og fá tryggingu einu sinni í viku og máli er dautt.... útgerðinn hagnast af afurðum... ekki samgjart... á að borga út fyrir hvern túr strax????

Svo er það verðið á loðnunni á þessari verktíð... maður las það á www.vinnan.fo að færeyingar væru að landa á 1,8dk og þá var það um 25kr ísl. en íslendingarnir voru að fá um 18 kr meðalverð fyrir sinn afla max. samgjart??? nákvæmlega sami stofn... ER ÞETTA SAMGJART?

Einn af sjónum (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 01:58

8 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 23.3.2008 kl. 16:13

9 identicon

Sæll Bjarni - alltaf gaman að sjá hvað þú ert að brasa þó ég viðurkenni fúslega að mér þykji skrif þín um dakarferðir og þjóðtrú öllu skemmtilegri en Evrópuandstæða þín.

Fullvalda þjóð - á þessu er klifjað. Hvað er það nákvæmlega og erum við fullvalda þjóð í dag? Er maður einungis fullvalda þegar maður hefur óheft frelsi til athafna óháður öllum öðrum? Eða er fullveldið fólgið í að velja sér stöðu í bandalag við aðra? Er fullvalda þjóð sem velur að vera í bandalagi við aðrar fullvalda þjóðir ekki lengur fullvalda?  Þeir sem svara þessu játandi eru í raun að segja að England, Þýskaland, Frakkland, Danmörk og allar hinar ESB þjóðirnar séu búin að missa fullveldi sitt - sem er náttúrulega tómt bull. Ef menn vilja fara alla leið í þessum málflutningi eiga þeir náttúrulega að fara fram á að við segjum upp EES samningnum, sérílagi þeir sem búa svo vel að vera á þingi.  

Það er rangt hjá þér að allir flokkar eigi eftir að fara í e.k. ESB uppgjör. Samfylkingin gerði það fyrir nokkrum árum. Leysti það með póstkostningu allra flokksamann. Mikill meirihluti flokksmanna vildu að Ísland hæfi aðildarviðræður. Vissulega eru einhverjir ekki sama sinnis - eins og gengur, en stefnan er alveg skýr.

Ég skil ekki ótta ykkar andstæðinga við þessa umræðu. Óttin kemur best fram í uppskrúfuðum málflutningi með þjóðernislegu ívafi eins og sjá má í kommentum hér að ofan. Mér er einnig ómögulegt að skilja afhverju þeim, sem eru svo ant um þjóð sína, eru svo á móti því að þjóðin sjálf, milliliðalaust, fái að sjá svart á hvítu hvað aðild hefur í för með sér og kjósa svo um það í framhaldinu.

Hrafnkell Ásólfur (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 15:32

10 identicon

Innlent | 20.03.2008 09:22:12 dv.is

Bjarni í litlum metum
Mynd: DV

Bjarni Harðarsson alþingismaður er í fremur litlum metum innan Framsóknarflokksins eftir undarlegar árásir á Valgerði Sverrisdóttur, varaformann flokksins. Bjarni hefur litlu svarað um trúnaðarbréf til flokksmanna með árásunum öðru en því að sökudólgurinn sé DV sem birti bréfið.

Bjarni ku eiga sér mikla drauma um áhrif í æðstu stjórn flokksins í framtíðinni. Bjarni er náfrændi Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra og telur sig væntanlega hafa svipaða burði þótt ekki séu allir á sama máli þar.

Hannes (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 20:23

11 Smámynd: Bjarni Harðarson

Veit svosem ekki hvort ég á að kommenta á fréttina hér að ofan - hún er semsagt tekin af DV og birtist þar bæði í vef og blaði og er jafn vitlaus og margt sem í því blaði birtist. En af þvi að mér er annt um ættfræðina þá tel rétt að koma því á hreint að við Davíð tilheyrum ekki sömu jólaboðunum þó rekja megi ættir okkar saman eins og gjarnan er með Íslendinga. Það rétta er að móðir mín og Davíð eru þremenningar af mætum bændaættum í Fljótshlíðinni. Þetta telst varla til náinnar frændsemi en er samt ekki eins arfavitlaust og sumt annað í fréttinni - þannig var ég hvergi með árásir á Valgerði Sverrisdóttur, ætla mér ekki til æðstu metorða í Framsóknarflokknum og hefi ekki orðið var við fáleika flokksmanna í minn garð nema síður sé...

Bjarni Harðarson, 25.3.2008 kl. 22:33

12 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Nafni kær.

Það var svosem gott að lesa, að þú eigir sameiginlega áa með móður Davíðs.

Rökföst og heilsteypt kona þsem á nafnbótina kappi skilda.

Um inngöngu inn í svoddan bandalag eins og EB vil ég segja það, að mjög gæti orðið þröngt fyrir durum bænda og frjálsborinna íslendinga ef þeir líti þanga að bjargráðum.

Staan núna er svona vegna þess, að menn gættu ekki að sér við breytingavinnuna og ígrunduðu ekki mannlegt eðlið. Það virðist einnig vera að kristallast í umsýslu eigna á Varnarsvæðinu fyrrverandi.  ÞAr eru ungir menn í mínum flokki, annar eiginmaður ráðherra.

Frekar óyndislegt fyrir íhald eins og mig

Miðbæjaríhalidið

Bjarni Kjartansson, 26.3.2008 kl. 11:30

13 identicon

"16. mars 2008 af eyjan.bingi.is, eftir Björn Inga Hrafnsson 

"Ég sé að formaður Framsóknarflokksins skrifar tvær greinar um afstöðu flokksins til ESB í Morgunblaðið um helgina. Er fróðlegt að rýna aðeins í þær, því í þeim rekur Guðni Ágústsson réttilega þá miklu umræðu sem átt hefur sér stað um Evrópumálin í flokknum á undanförnum árum og bendir á merkar samþykktir á flokksþingum þar að lútandi. Allt er það satt og rétt. Þeim mun merkilegra er að formaður Framsóknarflokksins skuli í sömu greinum týna fram ótal rök fyrir andstöðu sinni við aðild að ESB og ennfremur að nýleg skoðanakönnun Samtaka iðnaðarins sýni að meirihluti stuðningsmanna Framsóknarflokksins sé sama sinnis!

Ég þarf varla að minna formann Framsóknarflokksins á þá staðreynd að könnun Samtaka iðnaðarins sýndi um 7% stuðning við Framsóknarflokkinn. Augljóst er að stærsti hluti þess hóps er andvígur aðild að Evrópusambandinu. En hvað þá með hina, sem kosið hafa flokkinn á síðustu árum en gera það ekki lengur? Skyldu þeir hafa yfirgefið flokkinn vegna stuðnings við aðild? Hvernig stendur á því að fylgi flokksins var miklu meira þegar Framsóknarflokkurinn hafði forystu um umræður um Evrópumálin hér á landi? Skyldi ekki segja einhverja sögu, að stuðningur við aðild færi vaxandi meðal þjóðarinnar, en fylgi við Framsóknarflokkinn minnkandi? Varla er ætlunin að einskorða sig við þessi 7% landsmanna sem mælast nú í könnunum? Vilja menn ekki auka fylgið á nýjan leik með einhverjum hætti? Hvers vegna talar formaðurinn svona, þegar hann veit hversu margir í hans röðum eru á öndverðum meiði í grundvallaratriðum?

Auðvitað er ekki hægt að alhæfa eitt eða neitt um þessa hluti, enda eflaust margir enn ekki tilbúinn að segja til um hvort þeir séu beinlínis fylgjandi eða andsnúnir aðild að Evrópusambandinu. Margir eru hins vegar án efa tilbúnir að sækja um aðild og bera niðurstöður úr slíkum aðildarviðræðum undir þjóðina. Og láta þannig íslensku þjóðina eiga lokaorðið.

En ég er hins vegar handviss um að það er mikið vanmat að halda því fram, að Samfylkingin muni einangrast fyrir næstu kosningar og eftir þeirra vegna ESB-umræðunnar. Miklu frekar myndi slík sérstaða styrkja þann flokk, enda væru þá allir aðrir á móti, ef marka má stjórnmálaskýringu ritstjóra Morgunblaðsins. ESB-sinnar í öðrum flokkum hefðu þá lítil ráð önnur en styðja Samfylkuna eða hreinlega stofna nýjan flokk um ESB-aðild í þeirri viðleitni að koma málinu á dagskrá.

Ef íslenska flokkakerfið hefur ekki burði til að ráða við umræðuna um aðild að Evrópusambandinu er ég sannfærður um að almenningur á Íslandi og íslenskt atvinnulíf muni finna leiðir til þess að taka málið úr þeirra höndum. Almenningur finnur hvernig vextirnir eru að sliga heimilin og fyrirtækin, og um næstu mánaðarmót munu tugþúsundir Íslendinga finna á eigin skinni hvernig gengistryggð lán og vísitölutengd hafa snarhækkað. Að ekki sé minnst á endalausar verðhækkanir á hverskyns nauðsynjum sem éta upp kauphækkanir landsmanna, sparnað þeirra og rýra lífsgæði á marga lund.


Þá mun andstaðan við óbreytt ástand vaxa enn, enda flýtur enginn vakandi að feigðarósi. Svefninn hefur hingað til verið eina afsökunin í þeim efnum. Og þá er alveg fjarskalega ólíklegt að sú staða komi upp að fjórir flokkar af fimm myndi einhverja samtryggingu gegn þeim eina sem vill taka brýnasta hagsmunamál Íslendinga á dagskrá og leiða það til lykta með einhverjum hætti.

Gerðu þeir það, gætum við fyrst farið að tala um pólitíska afleiki.""

Hilmar (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband