Fullveldisyfirfærsla og forherðingin

„En tvímælalaust verða Íslendingar að breyta stjórnarskránni áður en hægt er að ganga í Evrópusambandið sökum þeirrar fullveldisyfirfærslu sem inngöngunni er samfara."skjaldarmerki

Eftirfarandi er tilvitnun í grein þeirra mætu Evrópusambandssinna Björns Friðfinnssonar og Andrésar Péturssonar í 24 stundum fyrir skemmstu. Nú vil ég ekki kasta rýrð að pólitískum sannfæringum manna og það er skoðun sem verður að virða sem hverja aðra að yfirfæra skuli fullveldi íslensku þjóðarinnar til Brussel. Ég vil þakka þeim félögum hreinskilnina því á stundum ber á þeim misskilningi í málflutningi Brusselsinna að látast ekki skilja að aðild að ESB fylgir að við afsölum okkur eigin fullveldi.

Hrokafull umræða

Þá hefi ég hrósað þeim félögum fyrir greinina en mig langar líka að finna hér að. Í upphafi segja þeir félagar að innan skamms hljóti andstæðingar aðildar Íslands við inngöngu að hætta að berja hausnum við steininn. Minnir mig á að nýlega rakst ég þá fullyrðingu á einni bloggsíðu Brusselsinna að við sem erum talsmenn fullveldisins eru taldir forhertir og hugsunarlausir.

Málflutningur af þessu tagi er engum til sóma. Okkur ber að ræða saman með rökum en ekki sleggjudómum um að menn berji hausum við steina. Mér er ekki grunlaust um að þessi málflutningur Brusselsinnanna tengist því að þeir eru vissir í sinni sök, sannfærðir og hafa séð ljósið. Þeir „vita" með öðrum orðum að við munum ganga í Evrópusambandið, rétt eins og Jón í Reykjadal sem vissi að jörðin hlyti að hrapa til helvítis. Annað dæmi eru gömlu kommarnir sem vissu að byltingin kæmi, þetta var bara spurning um tíma. Því blandast saman í málflutningi margra talsmanna ESB hér á landi sá hroki sem gjarnan fylgir þeim mönnum sem telja sig vita lengra nefi sínu. Í raunheimi reynist slík þekking oftar en ekki tálsýn.

Þjóðin sterkari í kosningum en könnunum

Það eru 50 ár síðan öll samtök atvinnurekenda í Noregi ákváðu að landið væri að ganga í Evrópusambandið og áratugir síðan meirihluti þingmanna gekkst sömu skoðun á hönd. Samt eru Norðmenn enn þar fyrir utan og fjær því en nokkru sinni að gerast aðilar. Hin þjóðrækni almenningur hefur þar ítrekað tekið fram fyrir hendurnar á þotuliði stjórnmála og athafnalífs. Þar er búið að kjósa um málið slag í slag og alltaf hafa hin þjóðlegu öfl yfirhöndina jafnvel þó skoðanakannanir hafi oft sýnt lýkur á að ESB - sinnar sigri.

Hér á landi hafa skoðanakannanir mjög sjaldan sýnt að það sé meirihluti með aðild að ESB og fylgið við það er minna nú en var fyrir nokkrum árum þrátt fyrir nokkra erfiðleika í efnahagslífinu. Það getur vitaskuld breyst í þeirri niðursveiflu sem nú gengur þannig að í stuttan tíma verði meirihlutafylgi með aðild líkt og oft hefur verið í Noregi.

En ef til kosninga kemur er miklu líklegra að fullveldishugsjónin verði hverskonar fullveldisyfirfærslum sterkari. Engu að síður er allt tal um ESB - kosningar leikur að eldi. Um aðildarkosningar að ESB gildir það sama og kosningar til sameininga sveitarstjórna. Þegar byrjað er verður kosið aftur og aftur þar til jáyrði fæst og svo aldrei aftur enda möguleikarnir þjóða á að ganga úr ESB og endurheimta fullveldi nær engir. Það er almennt viðurkennt af bæði ESB - sinnum og öðrum að úrsögn úr þessum félagsskap hefur ekki verið möguleiki.

Með Lissabonsamningum er reynt að klóra þar yfir og sett inn málamyndaákvæði um úrsögn en þau eru samt fremur til skrauts en brúks. Þannig er dagljóst að ESB - land sem ætlaði sér út úr bandalaginu stæði þá skyndilega eins og hvítvoðungur í samfélagi þjóðanna þar sem ESB - aðild fylgir að valdaafsal í utanríkismálum og samningum við erlend ríki.

(Birt í 24 stundum 29. apríl 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

Bjarni kæri vin!

Það er rétt hjá þér að þjóðin er sterkari í kosningum en könnunum.

Þess vegna eigum við að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB samhliða næsti sveitarstjórnarkosningum!

Þetta er mál sem þjóðin sjálf á að taka ákvörðun um - ekki einstakir flokkar. Málið er stærra en það.

Hallur Magnússon, 30.4.2008 kl. 09:44

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ef þú getur Bjarni, fundið eitthvert ríki af þeim 27 sem eru innan Evrópusambandsins, eða forsvarsmann einhvers þeirra ríkja,  sem segir að sú þjóð sem slíkur forsvarsmaður er í forsvari fyrir, hafi glatað fullveldi sínu með því að ganga í Evrópusmbandið, þá skil ég málflutning þinn.En þú munt ekki geta fundið síkan mann og það mun enginn geta.Ég efa það meira að segja að þú finnir forystufólk í landssjórnum Færeyja og Grænlands sem heldur því fram að Danmörk hafi glatað fullveldi sínu þegar Danmörk gekk í Evrópusambandið.Það er kominn tími til þess að Íslendingar eignist eigin stjórnarskrá og við hættum að nota þá dönsku sem við fengum1874, þótt hún hafi dugað vel með smábreytingum 1944.Kanski er rétti  tíminn til þess einmitt núna þegar við göngum í Evrópusambandið, þótt það hafi reynder staðið til í áratugi að breyta henni.Ölfusá rennur alltaf í sömu átt.En hugsunarháttur stjórnmálamanna á ekki að byggjast á þeim staðreyndum.  

Sigurgeir Jónsson, 30.4.2008 kl. 10:10

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

NAfni minn.  Hann pabbi minn benti mér á þá skýru staðreynd, að fullveldið, frelsið og sjálfstæðið er ekker SJÁLFGEFIÐ um aldur og æfi.

Fyrir því þarf að berjast dag hvern, með varfærni og yfirvegun.

Það er mannlegur eiginleiki, að vilja alt falt og laust fyrir þægilegt líf sér til handa og gefa skít og ingengting fyrir hvernig ,,hinir" hafi það, eins lengi og eitthvað sé í  því fyrir viðkomandi.

Svona er nú á tíð.  Mjög er kvakað flátt við almenning um, að allt lagist og allt fari vel, bara ef menn vilji ganga erlendu valdi á hönd.

Guð blessi þér baráttuna.  Jóni er ekki sjálfrátt,hann ætlar sér að standa með húsbændum sínum við skólann uppi í Borgarfirðinum.

Hann er galinn af Gý einhverri, jafnvel heitir hún Gili  nei Valgerð

læt af pælingum þar um.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 30.4.2008 kl. 11:16

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Evrópusambandslöndin afsala allt eins fullveldi sínu til Íslands við inngöngu landsins í sambandið. Þetta er samningur tveggja rétthárra aðila og nú getum við allt eins farið að hafa loks áhrif á gang mála niðri í Róm, rétt eins og Rómverjar færu að reka hér nefið ofan í okkar koppa, sturla og kirnur allar.

Gleðilegan 1. maí! Megi Framsóknarflokkurinn gera okkur alla frjálsa!

ES(B):

Persar kannast ekkert við bóksalann í Kabúl en nú þekkja þeir bóksalann á Selfossi og eru búnir að bjóða syni hans, Indíafaranum, lóðs um Tehran, þegar hann kemur loks til baka úr eyðimörkinni.

Þorsteinn Briem, 30.4.2008 kl. 16:06

5 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar verði af alvöru að skoða þann kost að ganga í sambandið. Setja í gang umsóknarferli. Hvort það skili þeirri niðurstöðu að Íslandi sé betur komið utan sambandsins en innan mun þá koma í ljós.

Hvað varðar allt tal um fullveldi, vil ég bara spyrja; hvernig er fullveldi Breta, Ítala, eða S0pánverja háttað? Eru þeir ráðalausir eymingjar?

Við höfum nú þegar gengist undir flest í hinu Evrópska regluverki og er það vel. Mörg íslensku bananalýðveldislögin hafa verið send út í hafsauga og hefði ekki gerst nema fyrir aðild Íslands að EES.

Það er enginn að tala um að kvitta upp á aðild á morgun. Menn tala um að fara út í ferli aðildarumsóknar, sem gæti allt eins endað með höfnun hennar. Það að þrjóskast við og gefa ekki færi á neinu, s.s. að skoða málin, er ekkert annað en þvermóðska og moldarkofahugsunarháttur.

Brjánn Guðjónsson, 30.4.2008 kl. 20:19

6 Smámynd: Gulli litli

Ég hef enga skoðun á thví hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið eður ei, en hitt veit ég að við höfum ekki efni á að halda úti eigin gjaldmiðli..

Gulli litli, 30.4.2008 kl. 20:39

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

piff.. Bjarni þetta er aumt tal.. í langlokustíl.  Ég nenni ekki að bíða eftir því að fólk geti lifað af 8 tíma vinnudegi.. 5 daga vikunnar 48 vikur á ári.. svo ég er að öllum líkindum farinn af landi brott með haustskipinu.. og kem ei aftur.

Óskar Þorkelsson, 30.4.2008 kl. 22:30

8 identicon

Ef Sigurgeir heldur að engum detti í hug að lönd Evrópusambandsins hafi tapað hluta af fullveldi sínu við inngöngu í það fylgist hann trúlega ekki mjög vel með því sem rætt er og ritað um stjórnmál. Ef hann hins vegar meinar það eitt að æðstu menn sambandsríkjanna hafi ekki sagt kjósendum sínum að þeir hafi samið um afsal fullveldis þá er það trúlega nokkurn vegin rétt. Topparnir ræða þetta sjaldan svo umbúðalaust. Frá þessu er þó a.m.k. ein undantekning sem er Vaclav Klaus. Hann lýsti því yfir í ræðu 22. apríl 2004 að senn yrði Tékkland ekki lengur til sem sjálfstætt og fullvalda ríki.

Víst eru til málsmetandi menn sem álíta að fullveldi og aðild að sambandinu fari saman (sjá t.d. http://www.jeanmonnetprogram.org/papers/00/00f1201EN.html) en flestir sem um málið fjalla líta svo á að aðild fylgi skerðing á fullveldi eða að ríkin fari með hluta af fullveldi sínu sem hópur en ekki sem einstök ríki. Sumir sem ganga hvað lengst (eins og vinstri mennirnir sem rita http://www.spectrezine.org/) álíta að sambandsríkin hafi þegar glatað öllu sjálfstæði. Um þetta virðast vera uppi nokkuð ólíkar skoðanir meðal þeirra sem fjalla um stjórnmál af lærdómi og þekkingu í ríkjum Evrópusambandsins.

Ágreiningurinn stafar líklega að nokkru af því að það er misjafnt hvað menn leggja áherslu á þegar fullveldi er skilgreint. Venjulegast er að telja tvennt og segja að ríki sé fullvalda ef:

a) Innlendir valdhafar hafa óskorað löggjafarvald.
b) Ríkið er fullgildur aðili að þjóðarétti (og sumir mundu bæta við því skilyrði að það megi vera félagi í Sameinuðu þjóðunum).

Eðlilega leggja þeir sem fást einkum við utanríkismál áherslu á b-liðinn og víst eru ríki Evrópusambandsins í Sameinuðu þjóðunum og fullgildir aðilar að þjóðarétti. Innlendir aðilar hafa hins vegar ekki óskorað löggjafarvald í sambandsríkjunum og þau eru því ekki fullvalda ef litið er svo á að bæði skilyrðin, a og b, þurfi að vera uppfyllt til að ríki teljist fullvalda.

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 00:21

9 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ekki er víst að Vaclav Klaus segi það sama um að Tékkland hafi afsalað sér fullveldi með því að ganga í Evrópusambandið,eins og hann sagði 22.apríl 2004.Það er næsta öruggt að það segir hann ekki.

Sigurgeir Jónsson, 1.5.2008 kl. 09:18

10 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þar fyrir utan sagði ég að engum fosvarsmanni aðildarríkjanna, dytti í hug að segja það að ríkin hefðu glatað fullveldi sínu við við ESB aðild.Andstæðingar ESB aðildar halda því margi hverjir fram eins og kemur fram hér að ofan, að Íslendingar tapi fullveldi sínu við inngönguna.Umþað er ekki deilt að með því að undirgangast ýmsa lögjöf ESB með aðild okkar að EES samningnum þá höfum við takmarkað rétt okkar til eigin lögjafar á ýmsum sviðum.Það er þegar komið.Ef einhverjir túlka það sem afsal fullveldis að hluta, þá breytist það ekki við inngöngu í ESB.En hvað með aðild okkar að Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna.Þingmenn stóðu í ræðustól Alþingis í fyrradag og héldu því blákalt fram að ef fulltrúar ma. Kína og Saudi Arabíu ályktuðu sem svo að ef Íslenska ríkið setti lög sem segðu að ég þyrfti að afla mér aflaheimilda sem sjómaður á þrjú þúsund tonna frystitogara, stærð skipsins var reyndar ekki tiltekinn, þingmennirnir héldu því blákalt fram að afnema þyrfti lögin vegna þess að um mannréttindabrot væri að ræða að ályti þessara þekktu þjóða fyrir mannréttindi.Erum við þá ekki búin að afsla okkur fullveldi að hluta þar.

Sigurgeir Jónsson, 1.5.2008 kl. 09:50

11 identicon

Sæll aftur Sigurgeir

Sá munur er á samþykktum Evrópusambandsins og álitsgerðum mannréttindanefndar SÞ að  þær fyrrnefndu eru bindandi fyrir aðildarríkin en þær síðarnefndu ekki. Mörgum finnst kannski siðferðileg skylda að fara eftir áliti mannréttindanefndarinnar en það er ekki lagaskylda að gera það nema innlendur löggjafi mæli svo fyrir.

Hitt kann að vera rétt að ef skilgreind er lögleg útgönguleið úr Evrópusambandinu, þá verður lítill munur á tilskipunum sem taka þarf upp vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu og tilskipunum sem aðildarríki Evrópusambandsins þurfa að innleiða, annar en sá að þær síðarnefndu er miklu fleiri.

Það er mótsagnakenndur málflutningur að segja bæði að ríki Evrópusambandsins séu fullvalda og að Íslendingar séu þegar búnir að glata fullveldi sínu með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu.

Karp um hvort ríki Evrópusambandsins séu fullvalda er annars fremur ófrjótt að mínu viti. Ég held að það sé meiri þörf á að ræða um lýðræðið í Sambandinu. Fyrir almenning í Sambandsríkjunum skiptir trúlega meira máli að pólitískt vald sé sett undir lýðræðislegt aðhald og þeir sem taka ákvarðanir þurfi að standa kjósendum reikningsskap ráðsmennsku sinnar, heldur en hvort löggjöf er sameiginleg fyrir nokkur lönd eða ákveðin sér fyrir hvert ríki.

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 12:48

12 identicon

Sæll aftur Sigurgeir.

Smá athugasemd við hæpna fullyrðingu þína um Vaclav Klaus: Fyrir forsetakosningarnar í Tékklandi í febrúar á þessu ári hélt hann uppteknum hætti í gagnrýni sinni á Evrópusambandið.

Meðal annarra þjóðhöfðinga og valdamanna sem hafa sett út á "lýðræðishallann" í sambandinu má nefna jafnólíka menn og Ólaf Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson. 

Því fer víðs fjarri að það sé einhver allsherjarsátt um Evrópusambandið í sambandsríkjunum. Í þeim öllum eru stjórnmálamenn sem fara um það mun harðari orðum en Ólafur Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson hafa nokkurn tíma gert.

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 13:05

13 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Sæll Atli. Ég sagði aldrei að íslendingar hefðu glatað fullveldi sínu við að ganga í EES.Það sögðu aðrir þegar við gengum í EES.Þeir eru flestir annarar skoðunar nú. Ég sagði að með inngöngunni í EES hefðu íslendingar takmarkað rétt sinn til að vera með eigin lög, eins og berlega er að koma í ljós núna, bæði í sambandi við vörubílstjóra  og hjúkrunarfræðinga.Það er sitthvað að segja að Vaclav Klaus gagnrýni Evrópusambandið ,eins og margir gera eins og þú bendir réttilega á eða að segjaeða að segja að hann segi að Tékkar hafi glatað fullveldi sínu við inngönguna. 

Sigurgeir Jónsson, 1.5.2008 kl. 15:04

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hjónaband byggist nú sjaldan á skynsemi og því algjör óþarfi að blanda henni inn í þetta mál, strákar mínir.

Því síður hvort annar aðilinn er stærri og feitari en hinn.

Þorsteinn Briem, 1.5.2008 kl. 15:38

15 Smámynd:   Heimssýn

Sigurgeir:
Hvaða heldur þú að gríðarleg völd stofnana Evrópusambandsins komi sem velflestar eru meira eða minna sjálfstæðar gagnvart aðildarríkjum sambandsins? Varð það til úr engu? Nei, þetta mikla vald var eitt sinn í höndum aðildarríkjanna, hluti af fullveldi þeirra, en er það ekki lengur.

Heimssýn, 2.5.2008 kl. 08:50

16 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þetta er bara það besta sem ég hef heyrt frá frömmurum engi

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/05/03/tharf_ad_breyta_stjornarskra/

Brjánn Guðjónsson, 3.5.2008 kl. 15:30

17 identicon

Það er ljóst að Guðni er búinn að skipta um skoðun, enda skynsamur með meiru. 

"laugardagur, 3. maí, 2008 - 16:45

Guðni Ágústsson: Mikilvægt að breyta stjórnarskrá vegna alþjóðlegs samstarfs

gudni.jpg“Ef til aðildar að Evrópusambandinu kemur er fullkomlega ljóst að mæta þarf því framsali valds sem í slíkri aðild felst með breytingu á stjórnarskránni,” sagði Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, í ræðu á miðstjórnarfundi flokksins í dag. “Hvort sem menn meta hagsmunum okkar betur borgið utan eða innan Evrópusambandsins tel ég því mikilvægt að ráðist verði í nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá okkar til að mæta þeim kröfum sem alþjóðlegt samstarf kallar á.”

Guðni fjallaði áfram um Evrópumál í ræðu sinni og sagði: “Samhliða þessu þarf að ráðast í aðrar efnislegar breytingar á stjórnarskránni sem við framsóknarmenn höfum lagt fram frumvarp um á Alþingi og sem varða tryggingu þess að auðlindir landsins verði um ókomna framtíð í þjóðareigu. Þær breytingar er einnig mikilvægt að gera áður en til hugsanlegra aðildarviðræðna við Evrópusambandið kemur til að treysta samningsstöðu og hagsmuni okkar betur. Þessum nauðsynlegu breytingum ætti að vera unnt að ljúka í lok þessa kjörtímabils og upphafi þess næsta, eða árið 2011 í síðasta lagi.

Annað stórt atriði sem liggur fyrir að taka þarf ákvörðun um, ef til þess kemur á annað borð að Alþingi ákveður að framselja löggjafar-, framkvæmda- og dómsvald til Brussel, er hvernig staðið skuli að þjóðaratkvæðagreiðslum sem snerta þessi mál. Í mínum huga er nefnilega kristalstært að það er íslenska þjóðin sem þarf að úrskurða um svo stórt atriði – bæði hvort yfirhöfuð skuli ráðist í aðildarviðræður og eins varðandi samþykkt eða synjun aðildar að loknum samningaviðræðum, ef til aðildarviðræðna kemur. Þó er ég sammála forvera mínum Ólafi Jóhannessyni, lagaprófessor og fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, um að „þjóðaratkvæði“ er löggjafaraðili sem ekki á að leita til, nema þegar mikið liggur við eða þegar um meginatriði í lagasetningu er að ræða. Hér liggur vissulega mikið við og því ber að fara þessa leið. Ég hugsa að enginn stjórnmálaflokkur vilji samningaviðræður um aðild að ESB nema að hafa að baki sér staðfestan þjóðarvilja og þingvilja.

Af þeim sökum þarf að setja lög á Alþingi og ákvæði í stjórnarskrá um atriði sem lúta til að mynda að þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á að setja lágmarksskilyrði um þátttöku atkvæðisbærra manna í þeim kosningum? Hversu afgerandi þarf niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu að vera? Á einfaldur meirihluti að ráða eða á að gera kröfur um aukinn meirihluta? Í kjölfar slíkrar atkvæðagreiðslu þarf einnig að liggja fyrir hversu stór hluti þingmanna þarf til að samþykkja atriði sem lúta að valdaframsali til fjölþjóðlegra stofnana. Þar er mjög líklegt að menn muni staldra við hlutfallið 2/3.”"

Hannes (IP-tala skráð) 3.5.2008 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband