Evrópuglufa Guðna Ágústssonar!

Fjölmiðlauppsláttur helgarinnar af okkur Framsóknarmönnum var að formaður flokksins hafi opnað glufu í umræðu um Evrópumálin. Það rétta er að sú umræða hefur alltaf verið mikil í flokki okkar og Guðni Ágústsson hefur alltaf tekið virkan þátt í þeirri umræðu sem virkur og staðfastur talsmaður fullveldis þjóðarinnar. Á því varð engin breyting um helgina.

Póstkosningar nýmæli

Hitt eru nýmæli að Guðni nefndi í ræðu sinni þann möguleika að efna til póstkosninga um málið meðal allra flokksbundinna Framsóknarmanna líkt og Samfylkingin gerði þegar hún mótaði sína afstöðu.

Hvað sem líður stefnumörkun einstakra stjórnmálaflokka er samt ljóst að innan flokkanna verður ákveðin breidd í málinu líkt og er í dag. Guðni vék  að þessu í sinni lokaræðu og sagði m.a. að forveri hans hefði reynt að gera flokkinn að hreinum Evrópusinnaflokki en mistekist og sjálfur hefði hann ekki vilja til að gera flokkinn að hreinum flokki Evrópuandstæðinga. Í þessu efni vitnaði Guðni til þróunar í Noregi þar sem afstaða til ESB - aðildar gengi þvert á flokkslínur líkt og hér á landi. Evrópuumræðan er því tekin út fyrir flokksaga og flokkslínu.

Glufa ESB eða varnir fullveldis

Annað atriði sem miðstjórnarfundurinn vék að var umræðan um Stjórnarskrána. Þar var ítrekuð fyrri afstaða að gera þyrfti breytingar til þess að mæta auknu alþjóðasamstarfi og það er raunar í samræmi við álit okkar Framsóknarmanna á EES samningnum. Einu nýmælin í þessu voru að Guðni minnti í þessu sambandi á að meðal sumra þjóða tíðkaðist að aukinn meirihluti þyrfti hjá þingi og þjóð til breytinga sem fela í sér valdaframsal. Með kröfunni um 2/3 hluta atkvæða er slegin sterkari vörn en ella um fullveldið sem er eðlilegt þegar til þess er horft að afsal þess er óafturkræft. Þannig getur eitt tiltekið ár myndast naumur meirihluti með valdaafsali sem bæði fyrir og eftir er minnihlutaskoðun.

Þá tók miðstjórnarfundur af öll tvímæli um að Framsóknarflokkurinn telur ekki fært að Ísland gangi inn í ESB í veikleika hagkerfisins og raunar slær það af alla umræðu um aðildarumsókn á yfirstandandi kjörtímabili. Þá telur flokkurinn alveg skýrt að ekki sé hægt að efna til þjóðaratkvæðisgreiðslu um aðild nema breyta stjórnarskránni fyrst sem tekur ekki gildi fyrr en eftir næstu Alþingiskosningar. Þá er ítrekað í ályktun okkar um málið að ríkisstjórnin getur ekki hafið aðildarviðræður fyrr en að lokinni slíkri atkvæðagreiðslu.

Þannig kom flokkurinn á móts við báða hópa með opinni umræðu um ESB - mál og traustum bautasteinum til varnar fullveldinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Það sem mér finnast stóru fréttirnar er að Guðni skyldi yfir höfuð tala á þann hátt að aðildarumræður væru möguleiki. Þar finnst mér hann hafa stigið upp úr skotgröf og tel ég hann eiga heiður skilinn.

Þótt ég telji mig Evrópusinna, er ég algerlega sammála því að aukinn meirihluta þurfi til að samþykkja aðild. Það verður að vera afgerandi fylgni við hana, ef á annað borð hugsanlegar viðræður skili okkur á þann stað að við munum að kjósa um hana.

Fysta skrefið er þó að við sjálf, Íslendingar, rísum upp úr skotgröfunum sem við höfum verið í allt of lengi og förum að tala saman af alvöru. Setjum niður okkar markmið. Vinnum að því að gera okkur viðræðuhæf, t.d. með að ná niður verðbólgu og hefjum síðan viðræður við Sambandið.

Meðan við höldum áfram skotgrafahernaðinum og skjótum fullyrðingum hvort í annað, um hvort eitt og annað sé hægt eða ekki, munum við aðeins hjakka í sama farinu.

Brjánn Guðjónsson, 6.5.2008 kl. 21:02

2 Smámynd: Dunni

Opin umræða í Framsóknarflokknum er alltaf skemmtileg. Og að nafni minn skyldi færa Evrópusambandsumræðuna inna flokksins á það stig að skoða beri alla möguleika er óneitanlega dálitið nýtt í Framsókn.

Það lítur út fyrir að flokkurinn sé að breytast úr miðaldafjósi í bjart og fengiríkt fjárhús eða blómlega garðyrkjustöð þar sem umræðaog skoðanaskipti vaxa að verðleikum.

Ég verð að segja að mér finnst gaman að fylgjast með Framsókn þessi misserin.  Valgerður talar í norður.  Guðni í suður og Bjarni Harðar eins og Bjartur í Sumarhúsum.

Verð bara að segja að flokkurinn óvenju málefnalegur eftir síðustu formannaskipti.

GÞÖ  

Dunni, 7.5.2008 kl. 12:09

3 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Sæll Bjarni. Þetta með stjórnarskrána er mjög óljóst hjá ykkur
varðndi hversu langt þið eruð tilbúin til að ganga varðandi fullveldis-
framsalið. Veit að ESB-sinnar innan flokksins eru tilbúinir til að ganga alla leið þannig að stjórnarskráin verði ekki hindrun í því
að Ísland gangi í ESB. En hvað með ESB-andstæðinga innan flokksins eins og þig Bjarni ? Ef breytingatillaga á stjórnarskrá
Íslands kemur fram hjá ESB-sinnum að leyft yrði það míkið full-
veldisframsal þannig að Ísland geti gengið í ESB, ert  þú þá til-
búinn að samþykkja slíka tillögu? Þetta stóra atriði er afar óljóst
í ályktun miðstjórnarinnar.  Því enn og aftur.  Breyting á stjórnar-
skránni til að gera hana ESB-væna er fyrsta orustan um það
hvort Ísland skuli í ESB eða ekki. Annað hvort eru menn á móti
aðild Íslands að ESB og berjast því á móti stjórnarskrárbreytingu
ESB-sinna eða ekki.  Mjög mikilvægt er alla vega að þú Bjarni
útskýrir hreint út þína afstöðu til þessa grunnpunktar í málinu.
Hún hefur enn ekki komið fram! 

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 7.5.2008 kl. 14:18

4 identicon

Guðmundur. Guðni og Bjarni eru búnir að taka einhverja þá mestu u-beygju sem þekkist og eru nú orðnir esb-sinnar.
Ástæðan fyrir þessu er einföld, það er yfirgnæfandi meirihluti fyrir ESB-aðild innan Framsóknar og þvi voru fyrri skoðannir Guðna og Bjarna ekki í takt við aðra flokksmenn.

Hannes (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 19:04

5 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Þetta er þín skoðun Hannes. En bíð enn eftir efnislegu svari
Bjarna Harðarsonar við mínum spurningum! En bíðin er ekki
endalaus!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 10.5.2008 kl. 00:32

6 identicon

Guðmundur. Ég held að biðin eftir svari verði löng.

Ég ræddi í gær við nokkra framsóknarmenn sem voru á u-beygju-fundinum góða og sögðu þeir að Guðni og Bjarni hefðu verið slegnir yfir þeirri esb-öldu sem er innan flokksins.
Það ku lítið hafa heyrst í Bjarna í fundinum, sem þó glymur jafna manna mest.

Hannes (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 11:45

7 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Það eina sem ég hef heyrt af fundinum Hannes er hið gagnstæða. Að ESB-sinnar hefðu verið í minnihluta. En rengi þig samt ekki Hannes.

Hins vegar þurfa ESB-andstæðingar innan flokksins, einkum þeir
sem eru á þingi eins og Bjarni, að svara því hreint út, hvort þeir ætla að  styðja jafn mikla breytingu á fullveldi Íslands í stjórnarskránni, þannig  að Ísland geti gerst aðili að ESB að ósk
ESB-sinna. Það er grundvallarspurningin, en svarið liggur ekki
ljóst  fyrir með það í dag.

Nema að þögn sé sama og samþykki. En þá eru menn heldur
betur búinir að taka U beygju og eru ekki  samkvæmir sjálfir
sér lengur. Því sá sem segist vera á móti ESB aðild m.a af
fullveldiisástæðum, fer alls ekki að samþykkja slíkt fullveldis-
afsal í stjórnarskránni svo Ísland geti gengið í þetta sama ESB,
og það löngu áður en aðildarumsókn liggur fyrir, og því síður
samningur.

Slík afstaða gengur alls ekki upp ! 

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 10.5.2008 kl. 13:55

8 Smámynd: Bjarni Harðarson

guðmundur; mun skrifa betur um þetta seinna en svo það sé alveg ljóst þá er ályktun okkar framsóknarmanna um það að við viljum styrkja fullveldisvarnir stjórnarskrár en ekki veikja - og já yfirlýstir esb sinnar voru fáir á fundinum og fóru frekar lágt en hannes sá sem hér kommenterar hefur ekki verið marktækur til þessa og verður varla úr þessu - hvur sem hannesinn nú er ef þetta er ekki dulnefni... - það að ég hafi ekki talað eða látið til mín taka á fundinum er hrein og klár lygi!

Bjarni Harðarson, 11.5.2008 kl. 12:25

9 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Sæll Bjarni.

Það er mjög gott að  þetta komi fram. Þú munt þá berjast með okkur ESB-andstæðingum á móti áformum ESB-sinna að veikja
fullveldisákvæðið svo í stjórnarskránni að Ísland geti gengið í ESB.

Gott að fá þetta fram Bjarni, því við ESB-andstæðingar þurfum á
öllum okkar styrk og samstöðu að halda til að verja fullveldi og
sjálfstæði Íslands .

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 11.5.2008 kl. 13:07

10 identicon

Bjarni. mín.

Ég heiti Hannes og er það ekkert dulnefni.

Að ég hafi vitnað í tvo framsóknarmenn sem sögðu að þú hafir farið lítinn á fundinum, hlýtur nú að vera í lagi að benda á hér.
Þú ert nú varla svo mikil gunga að þú getir ekki tekið gagnrýni eða ábendingum.

Bjarni, þu segir að esb-sinnar á fundinum hafi verið fáir, það er lygi og það veistu vel.

60% framsóknarmanna eru esb-sinnar samkvæmt könnunum og bæði ungliðahreyfing, kvennahreyfing, varaformaður og fv. formaður eru fylgjandi.
Þannig að allt tal um lítið fylgi við ESB innan Framsóknar er helber þvættingur.

Annars býst ég varla við því að þetta komment mitt fái að standa, miðað við hvers konar karakter þú ert.

Kv.

Hannes

Hannes (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 21:27

11 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Hannes. Hvað sem má um  Bjarna Harðarson segja lít ég á hann
sem einlægan ESB-andstæðing og sem mikilvægan samherja í
barátunni fyrir íslenzku fullveldi og sjálfstæðu Íslandi. Enda er
Bjarni félagi í Heimsýn, félagi sjálfstæðisinna. En viðurkenni, hann er í erfiri stöðu móti háværum  hópi ESB-sinna innan Framsóknarflokksins.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 13.5.2008 kl. 01:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband