Af hverju var ekki sagt mér!

(Að stofni til sama grein og birtist í Mbl. 14. maí, upphaflega rituð 11. maí en hér endurbætt og aukin 20. mai)

Setningin hér að ofan er unglingamál samtímans,- algengt svar unglingsins sem fullur eftirsjár spyr afhverju hann hafi ekki verið varaður við. Og yfirleitt er svarið það eitt að hann vildi ekki hlusta, varnaðarorðin voru nóg. Við heyrum það sem við viljum heyra.hsagtmer

Forsætisráðherra landsins á það sameiginlegt með mörgum unglingnum að skjöplast í notkun orðtækja þegar hann segir stjórnarandstöðunni nær að veifa öngu tré en röngu! Og hann hefur ítrekað á þessu voru haldið því að fram enginn hafi nú vitað fyrir um þá efnahagskreppu sem ríður yfir heimsbyggðina. Morgunblaðið tekur í sama streng og spyr með þjósti í Staksteinum, af hverju sagði Ragnar Árnason ekki fyrr að stefna Seðlabankans væri röng.

Nú þegar loksins er myndast við að gera brot af því sem við Framsóknarmenn og margir fleiri töluðu um fyrir mánuðum þrumar Geir yfir sínum mönnum að Framsóknarmenn séu gamaldags í sínum ráðleggingum. Af hverju er forsætisráðherra þá að gera nokkurn skapaðan hlut fyrst það er svona gamaldags. Og klifar enn á að enginn hafi getað séð neitt fyrr en seint á lönguföstu.

Varnaðarorðin voru nóg!

Það rétta er að fjölmargir hagfræðingar og stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu vöruðu fyrir tæpu ári við því að mikið efnahagskreppa væri á næsta leyti. Við Framsóknarmenn vöruðum við spreðunarsömum fjárlögum af þessum sökum. Og Ragnar Árnason hafði margoft talað á móti stefnu Seðlabankans um langt árabil og það hafa fleiri gert.

Við Framsóknarmenn höfum lagt fram ítarlegar tillögur að þjóðarsátt sem stjórnarliðar hafa ekki einu sinni fengist til að ræða í hroka sínum og yfirlæti.

Íbúðalánunum að kenna!

Efnahagsumræðan nú er um mjög margt einkennileg. Þannig hafa fulltrúar stjórnarflokkanna keppst við að halda því fram að ástæða skuldasöfnunarinnar sé fyrst og fremst vegna ríflegra íbúðalána. Staðreyndin er að hin misheppnaða stefna okkar í peningamálum vegur þar miklu þyngra.

Með hávaxtastefnu Seðlabankans hefur raunveruleg verðbólga undanfarinna ára verið niðurgreidd með hækkandi gengi. Þar með látum við útflutningsatvinnuvegum eftir að greiða niður óhófsneyslu og ýtum um leið undir skuldasöfnun. Meðan allir voru þess meðvitaðir að hér var gengi krónunnar óeðlilega hátt ýtti það undir margskonar eyðslu og vaxandi viðskiptahalla. Það eitt er miklu meiri orsök þeirra vandræða sem þjóðin stendur nú frammi fyrir heldur en ákvörðunin um 90% húsnæðislán ein og sér.

Tilfellið er líka að þegar sú ákvörðun var tekin stóðu allir stjórnmálaflokkar saman um það þetta væri rétt skref. Og frá greiningadeildum og hagfræðingum heyrðist tæpast gagnrýni. Það sama er ekki hægt að segja um peningamálastefnu Seðlabankans eða hið algera andvaraleysi núverandi stjórnarflokka gagnvart vandanum. Nú á vormánuðum standa þau Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde ráðþrota gagnvart ástandinu og minna helst á forstokkaða unglinga þá sem segja í forundran:

Af hverju var ekki sagt mér!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi eina aðgerð sem hefur verið gerð af hálfu Seðlabankana á Norðurlöndum, virkar ekki nema í nokkra daga. Þetta er ekki aðgerð sem dugar, því miður.

Nafnlaus (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 22:38

2 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Svo ég haldi mig nú við unglingamálið, Bjarni minn, en fyrirsögnin leit einmitt strax út sem kunnuglegt dæmi um slíkt, þá kemur í hugann annað algengt orðatiltæki meðal þess aldurshóps:

"Veistu hvað gerðist með hann ?"

Merking: Veistu hvað kom fyrir hann ?  

Hildur Helga Sigurðardóttir, 24.5.2008 kl. 00:39

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

P.S.   Mikið ertu annars heppinn að byrja þinn þingferil í stjórnarandstöðu.  Það er svo miklu skemmtilegra að hafa skemmtilega menn eins og þig þar.

Kveðja í Flóann, HHS 

Hildur Helga Sigurðardóttir, 24.5.2008 kl. 00:45

4 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Verð að leiðrétta unglingaslangur sem ég hafði eftir hér að ofan.

Það sem krakkarnir segja er: "Veistu hvað gerðist FYRIR hann ?"  Sama merking.

------------------------------------

Er eins og sumir "svona ör á vorin..." og flýtti mér því aðeins um of áðan.

Svo færð þú mig nú varla oftar í svona þrennu -nema mikið liggi við. 

Hildur Helga Sigurðardóttir, 24.5.2008 kl. 04:22

5 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Hvers vegna var ekki farið í markvissar aðgerðir strax árið 2004?  Hvers vegna frestuðu stjórnarflokkarnir (Sjálfst.fl. og Frams.fl.) að taka á vandanum?  Árið 2004, ef ekki fyrr, var farið að vara við þeim vanda sem nú þarf að taka á.  Mér finnst Framsóknarflokkurinn gagnrýna allt of mikið ástand sem hann átti þátt í að skapa og hafði allt of langan tíma til að laga.  Við lentum í samskonar vanda árið 2006 en Framsóknarflokkurinn lærði ekkert af honum og gerði ekkert.  Hvers vegna er hann að gagnrýna núverandi stjórn fyrir aðgerðarleysi?  Núverandi stjórn er að gera meira til að leysa vandann en fyrri ríkisstjórn og það á skemmri tíma.

Lúðvík Júlíusson, 30.5.2008 kl. 12:34

6 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Þú segir: "fjölmargir hagfræðingar og stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu vöruðu fyrir tæpu ári við því að mikil efnahagskreppa væri á næsta leyti. Við Framsóknarmenn vöruðum við spreðunarsömum fjárlögum af þessum sökum."

Eitthvað ertu að misskilja þarna því að í uppsveiflu á ríkið að draga úr útgjöldum en í níðursveiflu þá á ríkið að auka útgjöldin.  Það er kannski ekki skrýtið að landið skuli vera í svona slæmum málum eftir stjórnarsetu Framsóknarflokksins.

Lúðvík Júlíusson, 30.5.2008 kl. 12:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband