Atvinnulífið klessukeyrt

Hefi undanfarið rætt við nokkra smákapítalista. Atvinnurekendur sem eru svo algengir hér á landi, bæði í borg og sveit. Menn sem halda sjálfum sér og tveimur til tíu öðrum uppi með rekstri sínum. Það var sama sagan allsstaðar. Erfiðleikar og vanskil.

Einn þessara var að skila kennitölu fyrirtækisins. Reiknaði með að tapa íbúðarhúsinu þar með og verða persónulega gerður upp. Allir glímdu við það sama. Vaxtakostnaður er að sliga reksturinn. Ástandið er orðið eins og það verst varð undir lok síðustu óstjórnar á 20. öldinni þegar vextir og laun og voru víða á pari.

Manngerður harmleikur

Allt í einu skynjaði ég hið pólitíska karp liðins vetrar sem part af mannlegum og líka manngerðum harmleik þeirra sem síst skyldi. Ég brá mér í blaðamannsbuxurnar:

„Það er verið að hjálpa bönkunum en það ætlar enginn að hjálpa okkur," sagði spengilegur grafískur hönnuður fyrir sunnan sem hefur lagt nótt við dag að byggja upp fyrirtækið og ekki sólundað.

„Auðvitað fór þjóðin á neyslufyllerí en það er seint í rassinn gripið að ætla að rassskella hana núna þegar það er afstaðið. Og þær rassskellingar verða aðeins til þess að gera lendinguna ennþá harkalegri en vera þyrfti," sagði bílstjóri sem er jafnvel farinn að harka svart til að forðast gjaldþrot...

„Við sáum samt ótrúlega sölu núna í vetur þegar allir héldu að það væri komin kreppa," sagði tölvukaupmaður. „Það var ekki fyrr en eftir á sem ég áttaði mig á því að þetta var fólk að hamstra því það vissi að gengið myndi falla hressilega. Og það hafði rétt fyrir sér. Stundum er eins og almenningur viti betur hvað er framundan heldur en ráðherrarnir sem hafa núna spáð því mánuðum saman að þetta sé allt að lagast. Það er sko öðru nær."

Gjaldþrotin draga úr verðbólgu!

„Þetta er rétt að byrja og það vita það allir," sagði bóndi einn við mig og hefur áhyggjur af skuldsettum sveitungum. „Lánin hafa hækkað mikið vegna gengislækkunar. Það var kannski óhjákvæmilegt en þegar ofan á það er skellt vaxtaokri þá er staðan vísvitandi gerð vonlaus."

„Auðvitað fer verðbólgan á endanum niður með þessum vinnubrögðum en það verður þegar menn fara að selja birgðirnar á undirverði og gjaldþrotahrinan kemst í algleyming," segir maður sem best allra minna kunningja stendur undir nafngiftinni braskari, en strangheiðarlegur. „Sumarútsölurnar fara nú í gang fyrr en nokkru sinni og þegar þær duga ekki fara menn á hausinn. Þá verða heilu lagerarnir seldir á slikk og það er auðvitað aðferð til að ná niður verðbólgu. Og kannski er hún ekkert verri en sú að halda verðbólgunni niðri með sífellt hækkandi gengi eins og gert var allt síðasta kjörtímabil. En aðferðirnar eru líka báðar mjög heimskulegar og hættulegar atvinnulífinu. Þá var einblínt á ágæti útrásarinnar en nú á að refsa þjóðinni fyrir neysluæði og það er gert þó að það þýði fjöldagjaldþrot."

Óþolandi raus!?

„Þessi smjörklípuaðferð að leita nú að sökudólgum þess að hafa keyrt niður gengi krónunnar er bara blaður til þess að beina athyglinni frá því sem máli skiptir. Auðvitað sveiflar viðskiptaheimurinn krónunni eftir sínum hagsmunum og hann gerir það líka við miklu stærri gjaldmiðla. Hagfræðingar segja að allir gjaldmiðlar sveiflist raunar eftir viðskiptum kauphalla. Og það er allt í lagi. Ef það er einhver sökudólgur í þessu þá er það Seðlabankinn sem í mörg ár hélt hér uppi alltof háu gengi og lét útflutningsatvinnuvegina þannig niðurgreiða verðbólguna. Það er mjög alvarleg árás á undirstöðu þjóðarbúsins," sagði pulsusali með meiru og fór mikinn.

Svona halda þeir áfram að rausa daglangt þessir vinir mínir og það sem gerir þá algerlega óþolandi - er að þeir algerlega rétt fyrir sér.

(Birt í 24 stundum sl. laugardag)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Eldjárn Þorgeirsson

Gunnar Þór Jónsson!  Það er gott að kenna öðrum um en ég vil minna á að Framsóknarflokkurinn var ekki einn við völd síðastliðin ár.  Ég er ekki að segja að flokkurinn eigi ekki sök á þessu.  Mér finnst bara fjandi ódýrt að kenna þeim um allt sem miður hefur farið í þessum efnum.  Þjóðin á líka stóran þátt í þessu sjálf hvernig komið er í efnahagsmálunum, hún fór á eyðslufyllrí.  Jú aðstæður buðu upp á það að mörgu leyti,  bankar lánuðu ótæpilega,  þannig bera þeir ábyrgð á þessu líka.  Það eru svo margir þættir sem skapa það ástand sem nú er í efnahagsmálum að það er ekki hægt að kenna neinum einum um.

Kristján Eldjárn Þorgeirsson, 2.7.2008 kl. 00:16

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Nafni.

Útlendur spekingur ritar um þetta í FT.

ÞAð sem hann segir er nánast það sama og Raggnar Önundason sagði um öll þessi tildragelsi bæði nú í vetur, og fyrrmeir.

Ögn að rót vandans:

Finnur Ingólfs og Ólafur í Samskipum lögðu fram tilboð með Afhauser sem ,,Kjölfestfjárfesti" enallt það reyndist plat og leiktjöld.

Það ætti að rifat öllum gjörningum á grunni svona svika og þannig leiðrétta siðferðis radar þeirra sem nú hyggjast senda brauðstriturum þessa lands reikninginn fyrir sínum gjörðum og gylliboðum til þeirra sem ginkeyptastir voru.

Okkur vantar ekkert annað en leiðréttingu á soiðferðisviðmiðunum og að koma í veg fyrir að siðblindir eignist ekki auðlindir okkar, því þeir sjást ekki fyrir.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 2.7.2008 kl. 11:43

3 identicon

Góður pistill hjá þér Bjarni Harðar,

Er bara ekki málið að það þarf að setja í 5 gírinn frekar en að stöðva  hjólið í atvinnulífinu, er það ekki stór hættulegt?

Gunnar (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 12:43

4 Smámynd: Bjarni Harðarson

það er ótrúleg söguskoðun að telja framsóknarmenn höfunda að hávaxtastefnu seðlabankans - eða að við höfum fyrirskipað aðgerðaleysi og aulahátt núverandi stjórnvalda...

Bjarni Harðarson, 2.7.2008 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband