Af köngulóar- og hvaladrápi

Endaði frábæran gærdaginn á að ganga hér umhverfis húskofana mína á Sólbakka og myrða köngulær. Hér í kvosinni á Selfossi er fár af þessum áttfætlingum og ef ég ekki hreinsa það mesta öðru hvoru er ég fyrr en varði kominn með skepnur þessar á sængina mína, ofan í hálsmálið, inn í bílinn og hvur veit nema á mig berann...

En ég finn til við verk þetta enda af þeirri sort að ég hefi aldrei getað þrætt öngul á maðk af meðlíðaninni með maðkinum. Köngulær eru skynug dýr, gott ef ekki gáfuð og allavega miklar persónur. Ég held að þær viti stundum hvort ég er kominn til að myrða þær eða bara tala við þær. Skynja vel örvæntinguna hjá þessum krílum sem sjálf eru þó miklir og mér gagnlegir morðvargar. Morðferðirnar valda mér oft samviskutruflunum en ég hætti þeim samt ekki. Gæti auðvitað ráðið meindýraeyði til að hreinsa hér en kann betur við að vinna þetta skítverk sjálfur. Veit þannig af því fyrir hvað ég stend.

En því er ég að tala um þetta að í gærhvöld sat Gunnar Bergmann Jónsson útgerðarmaður í Kastljósi og þurfti þar að verja þann glæp að sjómenn hans skyldu vera morðingjar. Á móti honum Sigursteinn Másson sem einhverntíma var nú talinn með.

"Það er fullt af fólki sem ofbýður að sjá gert að þessum dýrum," sagði Sigursteinn og var þar að lýsa því þegar skrokk af nýveiddri hrefnu var flensaður um borð í litlum hvalveiðibát. "Bætti svo við glottandi,- þetta eru stór dýr."  Það tekur auðvitað enginn alvarlega að það sé meiri glæpur að drepa stór dýr en lítil, heimsk eða gáfuð, falleg eða ljót.

Ef ég tæki nú kvikmynd af köngulóarfjölskyldunni sem flýr í ofboði undan morðferð minni undir miðnótt. Eða birti ævisögu laxskepnu sem veiddur er vikulega sumarlangt og sleppt að því loknu, heyr sitt dauðastríð aftur og aftur en ekki bara einu sinni eins og við flest. Eða sýndi á kvikmynd líf galtar í íslensku svínabúi, hlekkjaður í bás á hörðum steini.

Auðvitað er hægt að ofbjóða og misbjóða tilfinningum fólks með nógu nákvæmum lýsingum á þjáningum ferfætlinga, fugla og hvalfiska. En til hvers? Ef það er gert til þess að stuðla að dýravernd og mannúðlegri meðferð á skepnum, villtum og ræktuðum þá er það hið mesta nauðsynjamál. Raunar er margt í okkar nútíma landbúnaði sem illa stenst það sem nóbilskáldið kallaði hundruðustuogelleftu meðferð á dýrum. Kannski erum við þar verri í dag en við vorum á dögum þeirra áa okkar sem lögðu sömu sultarpínuna á vinnufólk sitt og búfénað. Og skeyttu því mátulega þó það lélegasta dræpist af hor, niðursetningar og vankakindur.

En hvalveiðar eiga ekkert skylt við illa meðferð á skepnum. Fyrir utan hvað einn hvalur getur fætt miklu fleiri en til dæmis ein rækja eða ein hæna... Ef einhver fæðuöflun úr dýraríkinu er mannúðleg og heilbrigð þá eru það einmitt veiðar á villtum skepnum sem fá uns skutullinn hæfir að lifa því frjálsa lífi sem náttúran gefur. Eru enda heilnæmari matur en margt af því hormóna - og kamfýlóketi sem verksmiðjubúskapur leiðir yfir okkur...

En hvernig læt ég - Sigursteinn Másson og allir hans árar í Greenpeace og Sea Shepheard eru vitaskuld grænmetisætur, leggja sér aldrei annað en tómat og kartöflu til munns. Sjálfur ólst ég upp í gróðurhúsum innan um misvitrar grænmetisplöntur. Og man þær stundir þegar faðir minn fann snigil og myrti hann þegar með hamarshaus en ég sjálfur látinn standa með sjóðheita vatnsbunu yfir moldarbeði svo drepa mætti í því allt kvikt áður en ný ræktun var hafin. Köngulær, maðka, járnsmiðu, grápöddur, margfætlur og ótal fleiri vini míns barnshjarta. Umhverfisvæn og hreinleg morðaðferð. En hvað ætli það séu mörg líf bakvið einn rauðann tómatinn...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Undir þetta get ég flestallt tekið nema það er með takmörkuðu samviskubiti sem ég kóngulóarhreinsa hús mitt með nokkuð reglulegu millibili. Því ég hef nefnilega fengið þær á mig beran og kann því satt að segja ekkert sérlega vel.

Sigurður Hreiðar, 10.7.2008 kl. 13:40

2 identicon

Var það ekki Þórbergur sem fann upp 111 meðferð dýra. Það er nú reindar mesta fyrra a'ð vera að drepa kóngulær, þær gera fólki aldrei mein, en eru stórtækar í eyðingu á flugum og öðrum meindýrum.

Hörður 

Hörður Vignir Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 16:15

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ljóst er að kóngulær lifa á öðrum pöddum og geta gert gagn þannig -- en samt er enginn hugnaður að leyfa þeim að hreiðra um sig óátalið í eða á híbýlum manna.

Ég veit ekki um Þórberg og 111 meðferðina -- var hún ekki komin til sögu á undan Þórbergi?

Sigurður Hreiðar, 10.7.2008 kl. 17:25

4 identicon

Undur sem það gleður mig að fleiri en ég skuli finna til með laxinum í sumarlöngum sídauðastríðum. Þá finnst mér ekki par skrítið þótt einhverjum finnist heldur ógeðfelld sú hundraðastaog elleftameðferð á mönnum og skepnum, að þræða litlu maðkana upp á öngul. Einu sinni skoðai ég pyntingartæki spænska rannsóknarréttarins, heldur ógeðfellda. Þar var m.a. tæki sem virkaði ekki ósvipða öngli, nema það var ætlað til að fara inn um óæðri enda "galdra"fólks... og svo upp úr öllu. Það breikkaði eftir því sem ofar dró dró í líkamanum. Jammm.

Litlum möðkum er fallegt að bjarga af grýttum jarðvegi og gangstéttum. Þá tekur maður litla, slímuga skrímslið í hendina, ber það að næsta moldarbing (best er að hann sé svolítið rakur) og lætur litla dýrið á mjúkan moldarbeð. Þar engist hann af unaði, sælu og alhliða öryggiskennd, rétt eins og ég gerði, væri ég hirt up af förnum, malbikuðum vegi og borin heim í bólið mitt.

Nú, varðandi köngulær þá er best að reyna að fá þær til að fikra sig upp í lófa og líða svo fjaðurmögnuðum skrefum (það gerir ferðina þægilegri) að opinni gátt. Þar skal þeim sleppt og þeim beðið blessunar í þrotlausu náttúruverndarstarfi sínu.

EN hvað sem öllu líður þá fagna ég skrifum þínum Bjarni, því þau færa mér enn og aftur heim sanninn um að þú ert ekki bara valmenni heldur vinur Guðs kykvenda. Ekki veit ég um önnur kvendi en ég býst við að allt lúti einum lögum hvað mann- og dýrúð varðar.

Helga Ág.

 Pje Ess: veit nokkur annars hvað köngulærnar gera af sé þótt þær slysist inn til fólks? Eru þær bara soooog ógeðslegar?

Helga Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 19:42

5 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Sæll vertu Bjarni.  Þú ættir að sjá hlussurnar sem hafa tekið sér bólfestu á pallinum hjá mér..... og ég er EKKI að tala um mig og vinkonur mínar,  heldur áttfættar kerliongar, sem eru væntanlega að reyna að unga út heilu herfylkjunum kóngulóa. 

Annars er mér mun verr við röndótta, suðandi geitunga sem hóta manni stungu eða tveim, sé maður fyrir þeim. Kóngulærnar mega eiga þá fyrir mér.....

 Ég átti leið á Selfoss í dag og varð hugsað til þín er ég ók framhjá bókabúðinni..... var á hraðferð í dag en verð að fara að líta inn hjá þér.

Kveðja,

 Linda

Linda Samsonar Gísladóttir, 11.7.2008 kl. 01:27

6 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Heill og sæll kappi!  Verð á Laugarvatni næstu vikur og hef kviðið því áttfætlufargani sem fær heilu og hálfu húsin til að færast úr stað.

Þarf að áttfætluhreinsa húsið - og kemur þá stóra spurningin kæri skordýraprófessor - Hvaða efni/aðferð er best að nota?

Trúi algerlega á mátt þinn og megin í þessu stóra máli - og skora á þig að senda inn nokkrar línur til leiðbeiningar varðandi morð þessi.

Þinn kæri vin 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 11.7.2008 kl. 02:47

7 Smámynd: Haukur Nikulásson

Það er hægt að setja hlutina fram á marga vegu. Hér er grimmd tilverunnar máluð á sérlega raunkaldhæðinn (nýyrði?) hátt. Takk fyrir pistilinn.

Haukur Nikulásson, 11.7.2008 kl. 07:44

8 Smámynd: halkatla

mér finnst mjög mikill munur á skorkvikindum og spendýrum, þau síðarnefndu hafa svipaðan skilning á lífinu og við - miðað við hin. Það hefur allt önnur ahrif að drepa eitthvað þannig heldur en eitthvað sem við tengjumst varla neitt (ok jú, ef fólk tengist skordýrum er það allt í lagi, það er bara svo sjaldgæft). Ég drep samt ekki kóngulær þó ég sé bæði með innikóngulær og útikóngulær heima ég tala stundum við þessar sem eru úti á hurðum eða gluggum og bið þær um að færa sig (einsog versti gróðurhúsahippi sem þú getur ímyndað þér). Það virkar sennilega bara ef þær eru mjög fáar (en það virkar). Og alls ekki á innikóngulærnar en þær eru mestu ógeðin. Spendýr einsog hvalir eru allt annað og mér finnst alls ekki að eigi að elta þá uppi og drepa. Þeir koma ekki uppá land til okkar og eru ekki einu sinni með vesen... Þessi dýr hafa bara fylgt náttúrulegri hringrás í árþúsunda rás og matarræði þeirra er víst til fyrirmyndar. Við stundum hins vegar ofveiði á flestu og notum ekki allt. Við eigum því að hætta að bögga hvalina einsog Sigursteinn segir

Vanalega les ég ekki hvalveiðipistla annarra en þessi var frábær.

Ég óska þér síðan bara rosalega góðs gengis í að díla við kóngulærnar. Svona ástand er algjör plága, ég er stundum að gefast upp á öllum viðbjóðslegu skordýrunum sem eru heima. Ef einhver myndi drepa þau meðan ég væri úti yrðu þau ekki grátin æ samt ekki. Þau eru engin plága þannig séð.

halkatla, 11.7.2008 kl. 11:04

9 Smámynd: Bjarni Harðarson

úps elsku alma, leiðbeiningar um morð. best er að kremja kvikindin með flugnaspaða, köngulær eru frekar svifaseinar. svo er möguleiki að úða á þær með flugnaeitri sem fæst á bensínstöðvum. þriðji möguleikinn er að sprauta á þær vatni sem eyðileggur vefina og drepur sumar en flæmir aðrar í burt. frekar óskilvirk leið en góð ef maður vill telja sér trú um að maður sé ekki svo vondur að drepa. skilvirkast er að kremja en þá má klígjustuðullinn fyrir áttfætlingum ekki vera mjög hár. -

já og skólasystir anna karen, víst standa köngulær okkur nær í tengslum en bæði ísbirnir og hvalir sem eru fyrir mér og flestu fólki aðallega til í myndabókum. svín eru manninum líkust um margt og samt komum við alveg svínslega fram við þau, greyin...

Bjarni Harðarson, 11.7.2008 kl. 15:59

10 Smámynd: halkatla

já mér finnst ég þannig séð líka í alveg þvílíkum tengslum við þessi skemmtilegu og listfengu rándýr, takk fyrir að benda mér á það

það er skelfilegt að þurfa að myrða öll dýr, sérstaklega svínin ef útí það er farið en þess þarf jú stundum.

halkatla, 14.7.2008 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband