Af öfugri þjóðrembu og steinsmugu í Danaveldi

Þjóðremba er eitt leiðinlegri fyrirbærum í menningunni og stafar fyrst og síðast af vanmetakennd. Þó er öfug þjóðremba verri og leiðinlegri. Hún lýsir sér í þeirri vanmetakennd að telja helst allt verra á Íslandi en í öðrum löndum og aldrei geti neitt versnað við áhrif frá útlöndum.

Vissulega er margt sem við fáum utan að til góðs fyrir samfélag og á við um innflutning bæði verkafólks og varnings sem hingað kemur. En þegar því er haldið fram að fénaðarinnflutningur sé landinu til góðs færist skörin mjög á bekkinn.

Getur leitt til örkumla

Salmonella herjar nú á frændur okkar Dani af verra tagi en verið hefur í hálfan annan áratug þar ytra. Á fjórða þúsund liggja þar þungt haldnir af því sem Politiken kallar „diarré" en slíkt hét hér áður steinsmuga í íslenskum sveitum. Ástæða veikindanna er talin sýkt kjöt af óvissum uppruna. Hluti þeirra sem veiktist var fluttur á sjúkrahús. Salmonella er alvarlegur sjúkdómur sem getur jafnvel leitt til varanlegra örkumla og örorku. Þetta er sú framtíð sem bíður okkur Íslendinga ef við heimilum innflutning á hráu kjöti.

Þarna er bara verið að tala um salmonellu. Danir telja ekki með þann fjölda sem sýkist þar ár hvert af kamfýlóbakter sem er landlægur í Evrópu utan Íslands. Hvorutveggja höfum við verið laus við úr íslenskum landbúnaði um langt árabil og það er raunverulega ótrúlegur árangur. Árangur sem á sér fáa líka í verksmiðjubúskap heimsins og árangur sem er heilsufarsöryggi neytenda mikilvægur.

Hinir öfugsnúnu sem nú vilja brjóta þessa sérstöðu niður mega vitaskuld ekki heyra á þetta minnst og telja öllu skipta að Evrópusambandið hefur innleitt mjög merkilegar og strangar heilbrigðisreglur. Staðreyndin er sú að víða um Evrópu eru reglur eitt og raunveruleikinn annar. Það á ekki síst við um hin fátækari lönd álfunnar sem enn eiga langt í land í því hreinlæti við matvælaframleiðslu sem er almenn í Norður Evrópu og best hér á Norðurlöndum. En auðvitað verður ástandið ekkert verra hér á landi en í Evrópu,- það verður einfaldlega svipað því sem hefur verið í Danmörku í sumar. Sem er ekki ásættanlegt.

Tríkín eins og í ísbirni

Rök þeirra sem vilja heimila innflutning á hráu kjöti eru af tvennum toga. Annarsvegar falsrök um að það sé nauðsynlegt vegna hagsmuna sjávarútvegsins í Evrópu. Í þeim efnum gildir að eftirspurn eftir íslensku sjávarfangi er slík að engar líkur eru á að Evrópubúar fari að vinna gegn eigin hagsmunum út á nokkrar kjúklingabringur. 300 þúsund manna markaður er Evrópu ekki stór.

Hin rökin eru mun veigameiri og snúa að frjálsum viðskiptum milli landa. Það er rétt og skynsamleg stefna að draga þar heldur úr hömlum og við Íslendingar höfum þar unnið með öðrum þjóðum. En sérstöðu okkar sem eyþjóðar verður að virða.

Fyrir nokkrum vikum voru það einmitt talin rök fyrir annars sjálfsögðu ísbjarnardrápi að sá bar hinn illvíga búfjársjúkdóm tríkin innan iðra. Við höfum verið laus við þann vágest hér á landi en verðum ekki ef hrátt svínakjöt fer að berast inn í landið.

Léttum álögum á frystu kjöti

Sjálfsagt er að koma til móts við kröfur neytenda um lægra verð og aukið frelsi í verslun með því að létta álögum á frystu kjöti en við verðum af heilbrigðisástæðum að sporna eftir mætti gegn því að hrátt kjöt verði flutt eftirlitslaust inn í landið. Koma þar til hagsmunir neytenda, hagsmunir náttúru og vitaskuld líka hagsmunir þeirra sem vinna við framleiðslu á hvítu kjöti sem á höfuðborgarsvæðinu eru jafnvel fleiri en eru í öllu álverinu í Straumsvík.

Þess er nú skammt að bíða að þjóðarsálin gefi því meiri gaum en nú er hvernig störfin verða til og mikilvægi þess að viðhalda þeim störfum sem við höfum. Þegar við bætist að matvælakreppan í heiminum mun hækka heimsmarkaðsverð á kjöti verulega á næstu árum eru komnar ærnar ástæður fyrir því að bíða með það óheillaverk að slátra heilli atvinnugrein á Íslandi.

(Birt í Fréttablaðinu föstudaginn 11. júlí 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

damn.. ég át þennan hroða erlendis í tæp 10 ár.. ég hlýt að fara að hrökkva upp af fljótlega :S

Óskar Þorkelsson, 11.7.2008 kl. 21:32

2 Smámynd: Skákfélagið Goðinn

Ástæða salmonnellusíkinganna í Danaveldi er líklega smitað hrátt kjöt sem verslunarkeðjurnar flytja inn sjálfar, sennilega frá Póllandi eða öðrum slíkum ríkjum þar sem heilbrigðisskoðunum er mjög svo ábótavant.

Þegar verslunarkeðjur flytja sjálfar inn vörur, þá ræður ekkert annað för en gróðasjónarmið. Skítt með öll heilbrigðisvottorð !

Það dóu 35 manns í Danmörku vegna þess á árinu ! Það eru töluvert fleiri en látast í umferðinni á hverju ári á Íslandi.

Þessa óværu eigum við yfir höfði okkar strax í haust fái okkar ómögulegi landbúnaðarráðherra að ráða.

Jack og Óskar !  verði ykkur að góðu.

Skákfélagið Goðinn, 11.7.2008 kl. 22:32

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

salmonella er ekkert vandamál ef fólk kann að umgangast hana.. ef ég veit af salmonellusmiti í bænum þá umgengst ég matvælin í samræmi við það.. svo.. takk fyrir mig.

Óskar Þorkelsson, 11.7.2008 kl. 22:51

4 Smámynd: Skákfélagið Goðinn

Já, ef þú veist af því í bænum ! Hvað með alla hina sem ekki vita af því ?  (fyrr en of seint ?)

Íslendingar eru vanir því að umgangast matvæli með öðrum hætti en gengur og gerist í suður Evrópu, því hér er hægt að treysta því að maður veikist ekki af matareitrun, þó svo að umgengnin sé ekki samkvæmt nákvæmri forskrift. (t.d. suðu tími á kjöti.)

Þegar innflutningur hefst á "fersku" kjöti þurfa neytendur að sjóða vandlega allt það innflutta "hráa" kjöt sem þeir kaupa svo að þeir veikist ekki. Ég er viss um að allur almenningur geri sér ekki grein fyrir þessu.

Skákfélagið Goðinn, 12.7.2008 kl. 10:34

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég verð nú að segja að ég er orðinn ansi þreyttur á þessum Grýlusögum um eitraðan útlenskan mat.

Líkt og Óskar bjó ég lengi erlendis eða í 12 ár og varð ekki meint af ketinu ytra. Það er ekkert óeðlilegt að á einhver smit komi upp á einhverjum svæðum eða í einhverju landi Evrópu, svo stór og fjölmenn sem hún er.

Yfirvöld taka mjög strangt á slíku, líkt og sást þegar kúariðan tröllreið Evrópu fyrir nokkrum árum. Landsvæðum er lokað, búfénaði er slátrað og vara innkölluð, en þannig er reynt að tryggja að neytendur fá ekki smitaðan mat í hendur.

Það getur auðvitað komið upp salmonellusmit hér á landi eins og annarsstaðar. Það mikilvægasta eru að viðbrögð yfirvalda séu rétt og skilvirk og það eru þau innan Evrópusambandsins.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.7.2008 kl. 12:07

6 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Það er greinilegt að menn ega það til að sjá flís í auga náungans en ekki bjálkann í sínu egin.

Ég get ekki séð og hef ekki orðið var við sýkt kjöt á ferðum mínum um Pólland, eða nokkurt annað ríki sem ég hef komið til (kanski er ég svona eitraður sjálfur?) og er ég mathákur.

Ég hef á ferðum mínum um Pólland farið með svín til slátrunar, já það er gert í sláturhúsi. Síðar þennan sama dag þá borðaði ég fyrstu máltíðina sem matreydd var af nýslátruðu svíninu, og er það besta máltíð sem ég hef fengið algert sælgæti.

Hættið þessu væli og farið að lifa lífinu öðruvísi en nöldrandi.

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 12.7.2008 kl. 15:25

7 Smámynd: Skákfélagið Goðinn

Það kemur væntanlega í ljós á næstu árum hvort þetta eru "grýlusögur" eða ekki. Hingað til hefur landið verið lokað fyrir hráu kjöti vegna smithættu. Svo að hingað berist ekki alvarlegir búfjársjúkdómar eins og Gin og klaufaveiki, blátunga, kúariða og fl.

Það er líka bannað að flytja hingað lifandi búfé. 

Það hefur tekist að verja landið fyrir þessum sjúkdómum. Vegna þess að hér hafa verið í gildi mjög strangar innflutningsreglur. Þannig að þetta hefur virkað hingað til. 

Ég vísa því algerlega á bug að þetta sé eitthvað nöldur. Allir sem hafa snefil af einhverri skynsemi hljóta að sjá hættuna sem í þessu er fólgin.

Skákfélagið Goðinn, 12.7.2008 kl. 16:33

8 identicon

Einhvern tímann lærði ég í skóla að ef hrært væri í gömlum fúlum pyttum myndi gjósa upp fýla mikil og megn í formi metangass. Mér finnst það eiginlega eiga við um pistilinn. Þetta virkar á mann eins og alvirturt prump aftan úr heilögum pólitíkusi meðan hann messar yfir óþekkum og vanþakklátum skrílnum.

Komdu nú með eitthvað bitastæðara en taugaveiklaða beljubuffið sem er selt hér í verslunum.

Magnús (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 18:45

9 identicon

Ja hérna! Nú sé ég að mönnum er "heitt á hamstrinum"

Mjér finnst skemmtilegt að sjá að "salmonella er ekker vandamál ef maður kann að umgangast hana"! Hvernig ætli maður UMGANGIST salmonellu? Nú af kurteisi og vinsemd eins og annað kvikt; býður góðan dag, eða nikkar yfir girðinguna til hennar. Talar um veðrið og dáist að dugnaðinum í garðinum, en gætir þess að bjóða henni ekki inn því þá gæti hún farið að temja sér að líta við í tíma og ótíma? Einhvern veginn svona?

Ég hef alltaf séð hana fyrir mér sem örlitla skepnu (með hala), sem rennir sér um líkama - og núna sálirnar sé ég.

Ekki vissi ég að hún gæti valdið örkumlum og dauða, en það er ugglaust satt fyrst vammlausir menn fulyrða það.  Annars er ég heldur á móti öllu sem hróflað gæti við íslenskum landbúnaði og það hefur ekkert að gera með Ellu Salómons, heldur tilfinningar,.

Aldrei gæti ég orðið þingmaður öðru vísi en verða "hlegin út" af þeirri eðlu samkomu fyrir tilfinningasemi, vanþekkingu og barnaskap. En ég sé hér að ofan að þar fer margt þingmannsefnið, sem heldur sig við kjarna málsins og kann á honum skil. Og það er gott.

Lambakjet og lítinn ost

ljúfan tel ég veislukost

nautakjet og nóg með smér

nautn og dásemd færir mér.

Ull og mjólk og innangóss

unnið hafa sér til hróss

að halda lífi í hokurþjóð

sem harðindanna gekk um slóð.

Og hananú!

Helga Ág.

Hega Ág. (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 10:44

10 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Langar að leggja nokkur orð inn í þessa umræðu.  Mjög gjarnan vildi ég að matvælaverð á Íslandi lækkaði.  Segi það hins vegar fullum fetum hér að margt er ég tilbúin að leggja á mig, til þess að geta keypt okkar íslensku afurðir.  Í fyrsta lagi vitum við oftast á hverju þær skepnur okkar sem við erum að kaupa afurðir af, eru fóðraðar.  Það finnst mér skipta æði miklu máli.  Þá held ég að eftirlit með eldi og slátrun sé hér mjög gott.  Í þriðja lagi eigum við að vera sjálfbær með matvælaframleiðslu og það gerum við einungis með því að styðja við eigin framleiðslu.  Ríkisstjórnin m.a.s. nýverið sett fram þá ályktun að stuðlað verði að sjálfbærni þjóðarinnar í matvælaframleiðslu.  Mér þótti reyndar undarlegt þegar svo yfirlýsing barst frá landbúnaðarráðherra nokkrum vikum síðar um að innflutningur á fersku kjöti yrði aukinn nú á vetrarmánuðum!!!!

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 16.7.2008 kl. 01:02

11 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Alma, þú heldur margt.. en veist ekkert sérlega mikið um íslenskan matvælaiðnað.. hann flytur nær allt inn nema grunnhráefnið sjálft og til og með fóðrið í svín og kjúklinga er flutt inn frá þessum stórhættulegu löndum í evrópu... 

Óskar Þorkelsson, 16.7.2008 kl. 11:02

12 Smámynd: Óskar Þorkelsson

umm já grunnhráefnið er oft líka flutt inn og selt sem íslenskt kjöt.... 

Óskar Þorkelsson, 16.7.2008 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband