Leiðindablogg og fagur bautasteinn

100_3410Það voru löngu tímabærar skammir um daginn sem ég fékk frá vini mínum Lýði Pálssyni um að blogg þetta væri bara um efnahagsmál og evruþras. Mér er sjálfum farið að þykja þetta leiðinlegt með köflum og kannski er ég bara ekki í skemmtilegri vinnu en þetta. En þetta er líka meginástæðan fyrir því hversu margir eru glópskir í Evrópuumræðunni,- það nennir enginn að setja sig inn í hana því hún er svo leiðinleg. Einn kommentaði um daginn hjá mér og sagði,- nei aldrei færi nú nokkur stjórnmálamaður að fallast á Evrópusambandsaðild ef það væri engin leið út! Sem er þó tilfellið. Og sami maður er vís til að segja já við því að við eigum að hefja viðræður við ESB! (Ég veit ég veit ég veit,- ég er byrjaður aftur í pólitík...)

Ég ætlaði að skrifa hér smávegis af fjölskyldunni en hefi nú sagt frá flestum af hyski mínu í eitt og annað sinnið. Meira að segja talað um köttinn sem hefur mikil hljóð og farsælar gáfur. Kannski helst að ég eigi eftir að blogga um Snorra frænda minn sem ég hitti fyrir óvænt um daginn. Og af öllum Áshreppingum efast ég um að nokkur eigi honum fallegri stein í Kálfholtskirkjugarði og var hann þó allra karla fátækastur austur þar.

Flestir liggja hér undir steyptum steinum og reisulegum - sumum mikið haganlegum en samt er steinninn hans Snorra í smæð sinni merkilegri. Ekki samt fyrr en við feðgin höfðum reitt ofan af honum mesta grasið og vissulega þyrfti að losa aðeins um og hækka steininn en það gerum við ekki í leyfisleysi. Það var Eva sem hér sést við steininn sem fann karlinn,- ég gekk einn hring næsta sannfærður um að auðvitað lægi allt mitt fátæktarfólk í ómerktum gröfum. 100_3403

Ég er ekki steinafróður en ímynda mér að þetta sé einhverskonar móbergssteinn. Ofan í hann hefur verið höggvið þannig að eftir standa haganlega gerðir upphleyptir stafir þar sem á eru letruð nöfn þessara sæmdarhjóna Snorra í Húsum og Guðbjargar konu hans. Hún dó 1957 á tíræðisaldri en hann nálægt sjötugu 1922. Afkomendur þeirra eru flestir syðra eða lengra frá.

Um Snorra þennan voru sagðar kímisögur líkt og bróður hans Guðlaug langafa minn og systur þeirra Margréti í Ranakoti sem var sögð göldrótt og gekk aftur. Þau voru frá Látalæti á Landi, sjö sem komust upp og öll dvergvaxin af beinkröm. Sagt var um Snorra sem bjó rétt við Þjórsárbrúna að hann hefði illa þorað að ganga yfir það ferlíki eftir brúarvígsluna 1895 en látið sig hafa það þegar hann var leiddur yfir með trefil fyrir augum. Sami karl hefur vísast verið óhræddur við að sundleggja jökulvötn!

Á ættfræðivef sem bróðir minn kom upp í vetur leið birti ég eftirfarandi um foreldra Snorra, Jón og Helgu í Látalæti og þeirra fólk:

Hjónin Helga Snorradóttir og Jón Jónsson í Látalæti voru vel meðalmenn að hæð og mesta myndarfólk samkvæmt lýsingu sem Eyjólfur Landshöfðingi gefur í bréfi til Skúla Helgasonar fræðimanns um miðbik 20. aldar. Barnabörn þeirra urðu mörg og flest vel að manni eins og sagt var um þá sem voru bæði eðlilegir að stærð og líkamsburðum. Sama var ekki sagt um Guðlaug og systkini. Þau voru öll afar smávaxin og pasturslítil. Tveggja álna fólk, þ.e. um 130 sentimetra há. Fræðimaðurinn Helgi Hannesson sem mundi þetta fólk sagði þeim sem hér ritar að þau hafi öll verið afturkreistingar en áréttaði það með orðinu uppkreistingur þegar ég ekki skildi fyrrnefnda hugtakið öðruvísi en sem einhverskonar fúkyrði. (Nyrðra voru þetta kallaðir kramar-aumingjar).

Orðið vísar vissulega til fordóma og harðneskju fyrri tíma en líka þeirra flimtinga sem fyrri tíðar fólk hafði í vörn sinni um það sem miður var. Hugtakið merkir einfaldlega að viðkomandi hafi fengið beinkröm í æsku og ekki náð eðlilegum vexti. Lýsingin á foreldrunum á Látalæti og líkamsvöxtur afkomendanna tekur af öll tvímæli um að hugtakið átti hér fullkomnlega við þó svo okkur geti svo mislíkað hvað hljóðan þessara orða er niðurlægjandi. Rétt eins og viðhorfin gagnvart þeim sem minna máttu sín í samfélagi þessa tíma. Beinkröm fengu börn af næringarskorti og var af sumum kallað „enska veikin" þegar börn voru orðin sljó af matarleysi. Látalætissystkinin ólust upp á einu harðasta tímabili þjóðarinnar á harðbalakoti í sveit þar sem geysuðu látlausar náttúruhamfarir á þessum tíma, uppblástur uppsveita Rangárþings en þessar náttúruhamfarir urðu síðan drifkrafturinn að stofnun Landgræðslu ríkisins.

Einn bræðra Guðlaugs var Jón Jónsson bóndi á Svínavatni, afi Jóns Ingileifssonar sem þar býr nú. Ingileifur bróðursonur Guðlaugs sem var sveitarhöfðingi í Grímsnesi var stór maður og stæðilegur en faðir hans að sama skapi lítill. Einhvern tíma á millistríðsárunum kom Lýður heitinn á Gýgjarhóli við á Svínavatni á leið sinni upp í Tungur og þeir vinirnir, hann og Ingileifur fóru að metast um líkamsburði sína. Sagan gerist fyrir þann tíma að best þyki að vera sem léttastur og hér gilti þvert á móti að hafa verið sem þyngstur. Jón sagðist þyngstur hafa verið 17 fjórðungar (um 85 kg.) og Lýður hélt sig hafa náð 18 fjórðungum. Gellur þá í Jóni karli sem var þegar hér kom orðinn fjörgamall:

Ég var nú þyngstur 13 fjórðungar.

Ingileifur, sem var fljótmæltur mjög, svarar þá strax:

„Hvað er um þig að tala pabbi, sem aldrei hefur maður verið!"

Að aflokinni myndatöku af Evu dóttur minni við legsteininn trúði ég henni fyrir að fengi ég svona fallegan stein gæti nú bara verið reglulega gaman að vera dauður...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: haraldurhar

Sæll Bjarni.

    Ekki er ég hissa á að þú skiptir um umræðuefni, eftir eina þá makalausustu yfirlýsingu Björns Bjarnasonar, og það sé hann sjálfur sem deilar og drottnar, og því hjáróma væl í þér og öðrum er efast um dómgreind hans í hinum ýmsu málum. séu ekki marktækar, og hana nú.

haraldurhar, 25.9.2008 kl. 21:38

2 Smámynd: Eyþór Árnason

Það er gott að liggja undir fallegum steini.

Eyþór Árnason, 28.9.2008 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband