Háskalegt tal um þjóðargjaldþrot!

Skuldir Íslendinga eru margfaldar á mannsbarn miðað við það sem við sjáum í nágrannalöndum okkar og erfiðleikar okkar í bankakreppunni eru það versta sem við höfum séð í sambærilegri kreppu.  Af þessu hafa fjölmargir dregið þá ályktun að um þjóðargjaldþrot sé að ræða og að landið eigi sér nú enga leið út úr vandanum aðra en að kalla hér til Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) og fela honum stjórn mála.

Í þessu er fólgin mikil einföldun. Einkanlega vegna þess að höfðatöluútreikningar á skuldastöðu segja ekki nema hálfa sögu. Með sama hætti er hægt að benda á að náttúruleg auðævi Íslendinga eru margfalt meiri en nokkurrar annarrar vestrænnar þjóðar, ef reiknað er út frá höfðatölu. Raunhæfast er kannski að meta annarsvegar auðlindir þjóða og hinsvegar skuldir en sleppa ómegðinni. Í þeim samanburði er næsta víst að staða Íslands er öfundsverð eins og starfsmenn IMF höfðu reyndar á orði í heimsókn sinni hingað í sumar.

IMF dæmir sig úr leik

En er kannski farsælasta leiðin að fela IMF hin pólitísku völd á Íslandi? Ég leyfi mér að efast um að svo sé. Í fyrsta lagi þá hefur þegar komið fram að IMF gerir ákveðnar kröfur vegna þeirrar deilu sem sprottin er upp milli Bretlands og Íslands og hefur þar með dæmt sig úr leik. Þar er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld haldi á málum af festu og láti ekki ómerkilegan áróður Gordons Brown afvegaleiða umræðuna. Við hann er ekkert að tala nema fyrir dómstólum.

Fyrir kratanum breska er Ísland það sem Falklandseyjar voru Margréti Thatcher. Mannkynssaga síðustu alda er ekki síst saga af ósanngirni breska heimsveldisins gagnvart öllum þeim sem þeir hafa getað haft undir. Árangur okkar í landhelgisdeilum 20. aldar eru einar af örfáum undantekningum þar frá. Ef deila þessi er falin yfirþjóðlegu valdi verða sjónarmið smáþjóðar mjög fyrir borð borin.

Um helgina vöruðu þeir Ragnar Önundarson og Þráinn Eggertsson við því í fjölmiðlum að íslenska ríkið tæki á sig afarkosti og vísuðu í því samhengi til Versalasamninganna 1919. Ef Ísland gengst IMF á hönd höfum það ekki lengur í hendi okkar hver niðurstaðan í fyrrnefndum skuldaskilum verður. Það orkar mjög tvímælis að halda því fram að bankainnistæður breskra sparifjáreigenda í Icesave hafi verið með íslenskri ríkisábyrgð.

Bretar báru sjálfir nokkra ábyrgð á hvaða fjárglæfrar voru stundaðir í Lundúnaborg og það er fráleitt hvort sem litið er á málið út frá lögfræði eða viðskiptasiðferði að íslensk alþýða beri ábyrgð á gjörðum íslenskra „athafnamanna" á erlendri grund. Og að nokkru er málið afleiðing af marglofuðu fjórfrelsi Evrópulanda sem Bretar bera ábyrgð á að minnsta kosti til jafns við Íslendinga.

Í annan stað ríkir enn mikil óvissa um hvert raunverulegt umfang Icesave reikninganna er þegar teknar hafa verið með eignir bankakerfisins. Bretar telja sig reyndar þegar hafa fryst eigur íslenskra banka sem nema innistæðunum og síst þarf þá fé skattgreiðenda þar til viðbótar. En um þetta er enn allt mjög á huldu og upplýsingar misvísandi.

Fullveldi til verndar auðlindum

Önnur ástæða þess að Ísland ætti í lengstu lög að forðast afskipti IMF er að með slíkri íhlutun stefnum við mjög í hættu yfirráðum okkar yfir auðlindum lands og sjávar. IMF hefur fylgt hráum og oft illskeyttum frjálshyggjukapítalisma í sínum lausnum á vanda þjóða og í litlu skeytt um félagsleg eða þjóðhagsleg sjónarmið. Mér er mjög til efs að hann hafi alltaf verið lánþegum sínum farsæll. Bankakreppan nú er í reynd áfellisdómur yfir þeirri hagfræði sem sjóðurinn hefur fylgt en það mun taka langan tíma að leiðrétta þann kúrs þar innanhúss.

Vel gæti verið að sjóðurinn fyrirskipaði einhverskonar útboð orkuauðlinda sem gæti verið fyrsta skref útlendinga inn í þau vé okkar. Slíkt er í fullu samræmi við algilda alþjóðavæðingu, villta frjálshyggju og önnur frekar úrelt og vafasöm sjónarmið. Sjóðurinn hefði engar skyldur gagnvart almenningi í þessu efni og þarf hvorki að taka tillit til vilja þjóðar né þings.

Draumsýn ESB - sinna

Af framansögðu er ljóst að það er okkur hættulegt að ganga á fund IMF í þeirri kokhreysti að þar verði engin skilyrði sett. Það er aftur á móti sjálfsagt að stjórnvöld ræði málefni landsins við sjóðinn og þreifi á hvaða aðstoð er möguleg án skilyrða. Hafi ég skilið fregnir helgarinnar rétt hefur fjármálaráðherra setið slíka fundi vestanhafs.

Á sama tíma hafa forystumenn Samfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins hamrað á að þegar eigi að ganga til samninga við IMF. Slíkt hefur verið einhverskonar pólitík til heimabrúks en vitaskuld hafa allar slíkar glósur farið hraðþýddar til IMF við borð fjármálaráðherra. Síðast á mánudagsmorgni lýsti utanríkisráðherra því fjálglega yfir að fyrst ætti að semja við IMF og síðan ESB!

Athyglisvert að nær allir þær fræðimenn og stjórnmálaleiðtogar sem hafa hampað nauðsyn þess að leita strax til IMF eru þeir sömu og talað hafa fyrir tafarlausri aðild Íslands að ESB. Getur verið að til séu í landinu þeir menn sem eiga einhverskonar þrot hins íslenska fullveldis sem draumsýn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Enn ein góð og þjóðholl greinin frá Bjarna Harðarsyni Alþingismanni.

Kærar þakkir Bjarni.

Er þér 100% sammála. Hér er sagt það sem segja þarf.

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 15.10.2008 kl. 09:21

2 identicon

Mér fannst merkileg frásögn Kristins R Ólafssonar sem var á götu í Granada og ókunnugur maður tók að hrópa upp um þjóðargjaldþrot Íslendinga.

Það heldur nefnilega allur heimurinn að við séum það. Og kannski erum við það.

Egill (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 09:34

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Allt hárrétt hjá þér Bjarni. Skuldlítið Ísland verður að neita ábyrgð á skuldum bankanna, því að tólf- föld landsframleiðsla í heildarskuldir (15,6 þús ma.+) veldur öllu sem þú lýsir: afsali sjálfstæðis, sölu auðlinda og skuldaánauð niðjanna. Bankarnir eiga víst um ¾ hluta þessarra skulda (12 þús. ma.) en þurftu skv. Davíð Oddsyni í Kastljósi um 7-8.000 ma. á næstu 3-4 árum. Enda fullyrti Davíð í Kastljósinu: „Við ætlum ekki að borga þessar erlendu skuldir bankanna“.

Þrautaminnst til langframa er að taka skellinn, neita ríkisábyrgð (þrátt fyrir EES, vegna forsendubrests) ákveða bindingu við gjaldeyri eða taka hann upp og fara í mál við Breta eða aðra sem nota hryðjuverkalög til þess að kúga lítilmagnann. Auðvitað hriktir í stoðunum, en betra er að vera barinn bóndi en hlekkjaður þræll um alla tíð.

Ívar Pálsson, 15.10.2008 kl. 09:48

4 identicon

Góð grein hjá þér, Bjarni. Eigum við ekki að sjá til hvað felst í samningi IMF? Sammála þér að það kemur ekki til mála að afsala okkur sjálfstæðinu. Hins vegar sé ég ekki að sjálfstæðinu verði ógnað með aðild okkar að ESB eða Myntbandalaginu. Mín skoðun er sú að okkar litla hagkerfi og gjaldmiðill ræður ekki við að standa eitt, verðum að vera partur af stærri heild. Held að þetta hrun sem er hjá okkur núna hefði ekki orðið ef við hefðum verið komin inn. Danir eru að viðurkenna núna að þeir hefðu verið betur settir ef þeir hefðu haft skjól í ÖMU.

Soffía (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 09:50

5 Smámynd: Friðrik Björgvinsson

Ég hef talið að það væri æskilegt að leita til IMF frá upphafi, til að fá fram viðbrögðin, það var reyndar áður en UK snéri okkur í svörðinn, það er ekki og á ekki að vera sama sem merki á milli IMF og ESB aðildar. Þetta er kosningabragð Samfylkingarinnar því mér sýnist þar á bæ sé farið að undirbúa kosningar í vor sem væri alveg hryllilegur fyrir okkur sem þjóð.

FB..

Friðrik Björgvinsson, 15.10.2008 kl. 10:15

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sammála Soffíu og Uffe Elleman Jensen um að "sjálfstæðið" ætlar að verða okkur dýrkeypt. Kvótakerfið og ofmetin króna innleiddu hér græðgisvæðingu og gífurlega skuldasöfnun, þar sem engin hagstærð var í lagi nema skuldir ríkisins. Nú förum við með krónukörlunum undir forystu Davíðs Oddsssonar niður í dýpstu dali. Ætlum væntanlega að bíða í einhver ár eftir að alþjóðasamfélagið hafi vott af virðingu fyrir þessari mynt? Eigum við svo ekki líka að elta alla álfíklana sem ætla sér að setja ein tvö þrjú ný álversegg í körfuna á tímum lækkandi álverðs?

Gunnlaugur B Ólafsson, 15.10.2008 kl. 10:29

7 Smámynd: Ívar Pálsson

IMF leiðin er háskaleg, þar sem bankinn sá gætir hagsmuna eigenda sinna (þjóða og banka þeirra), leggur megináherslu á endurgreiðslur lána og er líkegur til þess að láta erlenda viðskiptabanka fá góðan hluta af endurgreiðslukökunni, í stað þess að þeir fengu nær ekkert við gjaldþrot okkar þriggja banka.

Með fyrstu atriðum IMF er að selja virkjanir osfrv. sem færi aðallega til greiðslu skulda bankanna.

Ívar Pálsson, 15.10.2008 kl. 10:50

8 Smámynd: Dunni

"Í þessu er fólgin mikil einföldun. Einkanlega vegna þess að höfðatöluútreikningar á skuldastöðu segja ekki nema hálfa sögu."

Má vera að hér seú um einföldun að ræða. En bara Rússalánið, upp á 4 milljaðra evra" þýðir að hvert mannsbarn á eyjunni fær 2,5  milljónir króna í skuldabagga.  Það eitt getur ekki annað en kallað fram umtalsverða skattahækkun.  Náttúruauðlindirnar breyta þar engu um fyrr en við höfum komið þeim í verð.

Íslendingar verða stórskuldug þjóð mörg ár fram í tíman. Það er óumflýjanlegt nema við seljum auðlindir okkar í hendur erlendra útrásarvíkinga sem gjarnan vilja notfæra sér brunaútsöluna á Íslandi.

Það eina sem við eigum er viljinn og getan. Það eigum við að notfæra okkur til að viðurkenna orðinn hlut og hefja viðreisnarstarfið nú þegar. Það getum við þó það kosti blóð, svita og tár.

Dunni, 15.10.2008 kl. 11:17

9 identicon

Dunni, ef það er það eina sem við eigum eftir er viljinn og getan, hvað þá að nota okkur það. Þó svo að við séum (kannski) að fá lán frá rússunum, þýðir ekki að við þurfum að nota það. Einungis til að auka trúverðugleika okkar á alþjóðasviðinu sem byggir á að við höfum nóg lausafé. Þannig að eignir verða alltaf hærri en skuldir. Þetta yrði í sjóði sem við gætum nýtt okkur ef á þyrfti að halda á meðan við erum að byggja okkur upp aftur.

Auk þess þurfum við að auka erlent fjármagn í umferð og því mæli ég með að við förum í álversframkvæmdir á Bakka. Atvinnuleysi kemur til með að aukast enn meir á næstu mánuðum ef við förum ekki í framkvæmdir einhverskonar sem stuðla að aukinni framleiðslu sem hægt er að selja. Álver yrði tekjulind framtíðarinnar, og byggingaverkamenn íslenskir kæmur að. Ekki innflutninur fólks eins og gerðist fyrir austan, þegar flestir fóru í það að byggja verslunarhúsnæði, menningartengt húsnæði svo ég tali ekki um íbúðarhúsnæðið allt saman sem alltof mikið af stendur autt. Þessu verður að stýra! Það varð alltof mikil þensla á SV-horninu, því miður.

Soffía (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 11:49

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það varð alltof mikil þensla á SV-horninu, því miður.


Nú? Voru ekki allir sammála um að þetta væri nafninu á myntinni að kenna, og að það væri því miklu betra að sitja í "alltof mikilli þenslu á SV-horninu, því miður" með evrur. Svona eins og Lettar gera núna með hæstu verðbólgu í ESB-beintengdir við himnaríkið.

Nýja myntin hans Gunnlaugs verður aldrei of dýru verði keypt, því hún mun redda þessu öllu - of course - einnig SV-horninu. Auðvitað var þetta alger fásinna sem gerðist þarna á Þingvöllum í júní 1944. Alger mistök samkvæmt þessum hugsunarhætti. Alltof dýrkeypt.

Væl væl væl uppgjöf uppgjöf uppgjöf - niður með Ísland!

Gunnar Rögnvaldsson, 15.10.2008 kl. 12:15

11 identicon

Það eru margir faktorar þess valdandi að svona er komið fyrir okkur, Gunnar minn. Bankarnir höfðu alltof mikið fé til að lána út og auðvitað tók byggingaiðnaðurinn við sér. Allir vilja hafa mikið að gera, sem betur fer. En þetta varð stjórnlaust og mér sýnist enginn hafa náð að hafa heildarsýn yfir þetta sem var að gerast, fyrr en fyrir um ári síðan.

Margir vöruðu við þessu, en þá var skýrslum stungið undir teppið. En auðvitað hafa menn verið að reyna að vinna úr þessu á bakvið tjöldin, þó svo að almenningur hafi ekki vitað það. Ég trúi ekki öðru eða vil ekki trúa öðru. Hafi verið að reyna að halda "markaðinum" rólegri á meðan verið var að vinna. Það sefur enginn með svona viðvaranir framan við sig.... eða hvað?

Soffía (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 12:22

12 identicon

Það á að kjósa um þetta mál. ESB já eða nei. Þetta er orðið það aðkallandi spurning um hvaða stefnu við eigum að taka til framtíðar að það verður að kjósa um málið.

Gunnar, það er ekki væl, væl eða e-h bull um uppgjöf. Þetta er spurning um hagsmuni, þá hvar og hvernig við getum tryggt okkar hagsmuni. Hvernig getum við unnið okkur í þá stöðu að sú aðstaða sem við finnum okkur í nú, komi ekki fyrir eða hafi mjög takmörkuð áhrif.

Ég er í þeim flokki að telja okkar hagsmunum best borgið í samstarfi við sem flestar þjóðir, ekki eina eða bara við norðurlandaþjóðirnar. SÞ, NATO, EFTA og EES hafa reynst okkur þrátt fyrir allt, mjög vel. Þegar sú einangrunarhyggja sem síðuhöfundur talar fyrir, ríktu þá voru það jafnframt hörmungar tímar í sögu þjóðarinnar sem horft er á með hryllingi. Fyrir mér þá er það landráð, að óska þjóð sinni örbyrgð.

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 15:00

13 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þegar sú einangrunarhyggja sem síðuhöfundur talar fyrir


Því miður var einangrunin ekki betri en svo að svæsin mygla á erlendum fjármálamörkuðum olli heilahimnubólgu í íslenska fjármálageiranum. Sjúklingurinn liggur nú í gjörgæslu á sjúkrahúsi í heimabyggð sinni, því öll sjúkrarúm erlendis eru full og verða það næstu 50 árin. Núna er verið að þjóðnýta þann fjármálageira erlendis.

Já, og Ísland sem var svo vel einangrað.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 15.10.2008 kl. 15:47

14 Smámynd: Bjarni Harðarson

magnús: hörmungar voru í sögu þjóðarinnar þegar útlendingar réðu hér - og orðið landráð merkir að ráða land undan þeirri þjóð sem hana byggir,- koma yfirráðum þess í hendur útlendinga. og gaman að sjá að gunnlaugur b. ólafsson er farinn að viðurkenna að umræðan um esb snúist um sjálfstæði. það er málið, gunnlaugur!

Bjarni Harðarson, 15.10.2008 kl. 15:48

15 Smámynd: Júlíus Valsson

Bjarni þó!

Lestu ekki blöðin?

Júlíus Valsson, 15.10.2008 kl. 16:22

16 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Það má semsagt hvorki ræða málin við IMF né ESB, að þínu mati?

Heimir Eyvindarson, 15.10.2008 kl. 17:03

17 Smámynd: Kristín Magdalena Ágústsdóttir

Við meigum ekki gleyma okkur í þessari umræðu.  Peningarnir eru ekki allt ef við missum sjálfstæðið og þingið.  Ef farið verður að selja frá okkur auðlyndirnar, þá getum við alveg talað við Normenn og/eða Dani um að taka aftur við okkur.  Auðvitað þurfum við peninga en ég vil frekar vera fátaækur kotbóndi og sjálfstæð en að búa í einskis manns landi. Þar sem búið er að selja allt frá okkur.

Hugsum um það. 

Kristín Magdalena Ágústsdóttir, 15.10.2008 kl. 17:23

18 Smámynd: Gísli Ingvarsson

"Enn ein góð og þjóðholl greinin frá Bjarna Harðarsyni Alþingismanni.

Kærar þakkir Bjarni.

Er þér 100% sammála. Hér er sagt það sem segja þarf."

Er ég einn um að finnast það að grípa til þjóðernisraka þegar á bjátar vera að "kasta síðasta iðrinu" einsog gert var í Borgarvirki forðum.

Þegar banka og kaupsýslumenn vorir fengu ákúrur af Danske Bank fyrir ógætilegar áætlanir í fjárfestingarmálum fyrir 2 árum síðan amk þá var það túlkað sem árás á kjarkmikla frumlega djarfa útrásarvíknga af björdrafandi öfundsjúkum dönskum letingjum. "Þjóðhollustan" misnotuð. Þar sem þjóðin er vita trúlaus orðin er ekki hægt að særa fram allsherjar guðrækni henni til varnar. Það er þjóðhollustan sem blífur.

Nú vita allir að Danirnir eru framsýnir menn og forvitrir. Á meðan vitum vér að Íslendingar ku vera vitrastir eftir á að hyggja.

Þegar vér erum orðnir skipreika á úthafi fjársýslunnar er það þá svik við þjóðhollustuna að taka við línu frá björgunarsveit sem er send okkur til hjálpar í nauð. Eigum að fara um borð rússneska ísbrjótinn eða ameríska

flugmóðurskipið eða evrópska kaupfarið. Það er kannski eitthvað val hérna.

Það er svo sem hægt að bíða enn um hríð og éta upp kexið á meðan Skipper Geir lætur kanna skemmdirnar. Hvar kemur þjóðhollusta þessu ástandi við. Er það ævintýradreki sem mun hefja okkur yfir sviðið svo við getum aftur farið að brosa og hlæja víkingarnir.

Fyrirgefið mér biturleikann en er ekki einmitt þjóðræknisspilið komið í borðið. Sama spilið verður ekki notað tvisvar í pólitískum póker fjármálanna. Þeir sem segjast halda á því núna hljóta að vera annað hvort að svindla eða blöffa.

Gísli Ingvarsson, 15.10.2008 kl. 17:54

19 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Alveg er þetta maklaust með hluta framsóknarmanna. Það er bara bannað að leita sér leiða út úr vandamálum eða eiga samskipti við aðrar þjóðir.

Menn dæma hinar og þessar stofnanir eftir orðspori sem engin veit hvaðan er. Bendi fólki á að hlusta t.d. á Íslenskan mann sem vinnur hjá IMF. Hann hefur umsjón með verkefni IMF í Zambíu eða einhverstaðar. Það var talað við hann í þættinum "Á Sprengisandi " á bylgjunni síðasta sunnudag. Það er hægt að ná í þann þátt inn á bylgjan.is. Hann er í seinni hlutanum. Hann er aðal tengiliður IMF þar.

Hann segir að eina krafan sem IMF setur er að áætlanir sem ríkin gera sjálf að mestu séu raunhæfar og farið sé eftir þeim. Þeir skipta sér ekki að hvernig ríkin sem fá aðstoð skipa málum svo framalega sem þau séu að vinna eftir þeim markmiðum sem sett voru. Þau skipta sér ekki að innra skipulagi ríkja og hafa ekki áhuga á því. Þeir skilyrða ekki aðstoð við að ríki einkavæði nema að í þeim tilfellum þar sem ríki hafa engar aðrar leiðir.

Þátturinn er hér.

Er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn okkar eina von? Hvaða skilyrði verða okkur sett? Birgir Árnason fastafulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Zambíu og Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar ræða málin.Hlusta hér...

Magnús Helgi Björgvinsson, 15.10.2008 kl. 20:05

20 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Fyrirgefið hér er þetta spjall http://bylgjan.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=38293

Magnús Helgi Björgvinsson, 15.10.2008 kl. 20:07

21 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Þeir eru nú ekki að vanda sig á byljgan.is. Þetta eru vitlaus brot hjá þeim en hér er þátturinn og þetta er í seinnihluta hans http://vefmidlar.visir.is/VefUtvarp/?channelID=BYLGJAN&programID=3789635d-dc16-

Magnús Helgi Björgvinsson, 15.10.2008 kl. 20:21

22 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þetta er allt rétt hjá þér Bjarni.Ef augu fólks opnast ekki núna fyrir því hverskonar samtök ESB er, þá er fólk hreinlega blint.Allt samstarf við Nató og ESB eigum við skilyrðislaust að leggja niður nema að lágmarki.Hrokafullt framferði Breta og stuðningur ESB við þá opnuðu augu mín fyrir því að ESB er ekkert annað en gömlu heimsveldin í Evrópu.Framsóknarmenn eiga að hætta öllu ESB tali og horfa frekar á alla veröldina.Kv.

Sigurgeir Jónsson, 15.10.2008 kl. 21:54

23 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

ESB er fjarvistarsönnun Þjóðverja fyrir svartri fortíð sinni. Þeim líður mun betur í þessum nýju fötum, þau fá þá til að halda að þeir séu eitthvað annað er Þjóðverjar núna. ESB er einnig afsökun Frakka fyrir að vera einungis Frakkar núna. Þetta er snuð þessara tveggja þjóða fyrir horfin heimsveldi sem runnu þeim úr giktveikum greipum. Restin er svo klappkór sem klappar eftir pöntun við hátíðleg tækifæri og sem hengir sig þar á milli. Mamma má ég?

Gunnar Rögnvaldsson, 15.10.2008 kl. 22:53

24 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

IMF ?


Hvað er IMF ? Það veit enginn lengur.

Hvert er þeirra "umboð"? Það veit enginn lengur.

Hvaðan koma fjármunir þeirra? Veit það einhver?

Geta þeir prentað peninga? Nei

Vita þeir hvað fljótandi gengi er? Nei varla, þeir vinna ennþá í anda gamallra hugmynda

Núna er vertíð fyrir IMF - þeir eru að sækjast eftir nýju hlutverki sem alþjóðlegur vakthundur efnahagsmála

IMF er history

Sjá:

IMF agenda for U.S. economy?

Gunnar Rögnvaldsson, 15.10.2008 kl. 23:05

25 Smámynd: Friðrik Björgvinsson

Það er alveg með ólíkindum hvað menn hafa náð að tala illa um IMF sjóðinn. Hann er tilbúið tæki sem getur sennilega hjálpað okkur hvað best í þessu ástandi sem hér ríkir eftir þessi mistök sem gerð voru í hagstjórninni. Stjórnvöld verða að viðurkenna það sem allra fyrst fyrir sjálfum sér að þannig standi málin. Síðan þurfa þeir að skoða þessa leið mjög vandlega og gera sér grein fyrir að það er ekki til betri leið en að fara þá leið.

Þetta eru sérfræðingar á þessu sviði og eru vanir að vinna við mun verri efnahagsaðstæður en við erum komnir í þannig að það er ekki spurning í mínum huga að ræða alvarlega við þá og koma þessum málum sem fyrst þannig fyrir að atvinnulífið geti farið að starfa eðlilega.

Allt þetta EB bull á bara ekki við í þessu tilfelli nema hjá flokki einstaklinga sem hafa mjög þrönga framtíðarsýn á framtíð íslendinga, því miður.

Friðrik Björgvinsson, 15.10.2008 kl. 23:22

26 Smámynd: Árni Gunnarsson

"ESB er fjarvistarsönnun Þjóðverja fyrir svartri fortíð sinni."...........

Þetta er hin mesta snilld sem ég hef lesið um þetta kontóristabandalag eilífðarkratismans. Enda fann Geir þarna einu afsökun ríkisstjórnarinnar fyrir aðgerðarleysinu gegn skuldsetningu útrásarfyrirtækjanna í ræðu sinni á Alþingi í dag. Regluverkafrumskógur EES leyfir ekki ríkisafskipti sem hindra "útrás" fjármálafyrirtækja á svæðinu. Býsna athyglivert! 

Árni Gunnarsson, 15.10.2008 kl. 23:59

27 Smámynd: H G

Bjarni! Takk fyrir skilmerkilega grein. Ég las hana án þess að hafa litið á nafn höfundar, hvað þá að vita að hann sæti á löggjafarþinginu. Um FLOKKA er mér slétt sama! - Langafi sagði "það er gor og gall í öllum ættum" sama á við um flokka. Einnig er "sama hvaðan gott kemur" Hvaða skuld "per capita". þ e "á haus" er fólk að tauta um? Ef til stæði að kaupa jeppa og önnur leikföng fyrir aurin væri lántaka glæpur. Leikfangakaup svo til allrar þjóðarinnar hafa raunar verið fáránleg síðustu 2 áratugina - og má það vel breytast. Nú er um að ræða að fljóta yfir fjármálaskerin þangað til íslenskir bankar erlendis hafa losað um fast fé og borgað skuldir. Lán tekið nú verður NOTAР- er ekki baggi heldur vinnutæki til að halda atvinnulífi og þar með útflutningi gangandi þann langa tíma sem tekur fyrir bankana að koma eignum sínum, svo sem langtíma- útlánum, í verð. Basta!  Bless

H G, 16.10.2008 kl. 08:31

28 Smámynd: Skákfélagið Goðinn

Góð grein Bjarni. 100% sammála.  

Skákfélagið Goðinn, 16.10.2008 kl. 09:57

29 identicon

Bjarni,

Þið Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn rákuð frjálshyggju fjármálastefnu í a.m.k. tíu ár.  Þessi stefna kom beint frá hugmyndafræði IMF og Washington.   Og ESB var sýnd fyrirlitning sem þú ert ennþá að hamra á hérna.

Og hvað skeði?  Allt hrundi, og nú er fullveldi Íslands í mestu hættu í sögunni!

Það er að verða nokkuð ljóst að Íslandi verður þvingað inn í ESB.  Endirinn verður hinn sami, eini munurinn er að þrjóskan í ykkur og Sjálfstæðismönnum kostaði þjóðarbúið ótrúlegar fjárhæðir.  Við sitjum nú eftir med skuldir sem tekur margar kynslóðir að vinna sig út úr.

Sjálfstæði og fullveldi Íslands er betur borgið með fjármálastjórn frá ESB heldur en vanhæfra Íslenskra yfirvalda síðustu ára. 

Það sér mikill meirihluti Íslendinga, sem vonandi fá að tjá sig í kosningum sem fyrst.

Guðmundur (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 23:09

30 identicon

Mjög góð grein hjá þér Bjarni minn.

Gott að vita einhver er með fullu viti á sjálfri löggjafarsamkundunni. Ég tel nú að ekki sé er hægt að skamma þig og formæla fyrir axarsköft og fyllerí Framsóknarforystu fortíðarinnar. Það er eins og að ætla að dæma skítugu börnin hennar Evu.

Það hvílir á þér mikil ábyrgð að standa vaktina gegn sífelldu voli og væli landráðaaflanna !  

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 10:24

31 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Landsvirkjun og OR skulda þegar um 550 milljarða og eru sem sagt algjörlega gjaldþrota og erlend staða ríkissjóðs var neikvæð um 500 milljarða áður en hann tók yfir gjaldþrota banka. Þetta þrotabú þarf ekki lán heldur stórfellda efnahagsaðstoð, sennilega amk. 2-3000 milljarða, en ekki er ljóst hver á að reiða slíkt fram.

Baldur Fjölnisson, 20.10.2008 kl. 21:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband