Sökudólgurinn er Alþingi

Hver er ástæða þess að fámennum hópi tókst að kollsteypa íslensku hagkerfi. Víst skipti máli offar einstakra útrásarvíkinga og ennþá frekar ef rétt er að menn hafi skotið milljörðum undan til skattaparadísa suður í heimi. En þegar þeir ósvífnustu hafa verið metnir og einstaka óhappaverk tekin til skoðunar sjáum við líklega að ekkert af þessu breytir heildarmyndinni.

Óhappaverkið 1993

Hinn raunverulegi sökudólgur alls þessa er vitaskuld löggjafarvaldið og þeir sem þar eru í forsvari. Ekki vegna sértækra verka einstöku ráðherra eða rangra ákvarðanatöku framkvæmdavaldsins. Það er mjög hrópað á eftirlitsiðnaðinn í fjármálalífinu en sjálfum er mér til efs að eftirlitsiðnaðurinn einn hefði getað betur. Sökin liggur hjá Alþingi sem ákvað 1993 að fela Evrópusambandinu hluta af því valdi sem fram til þess tíma var Alþingis og þjóðarinnar. Þetta var gert með EES samningnum. Enginn þingmanna Framsóknarflokksins studdi þann gerning.

Við sem lýstum á þeim tíma andstöðu okkar við EES samninginn gerðum það einkanlega á forsendum fullveldis og frelsis þjóðarinnar. Engan okkar óraði þá fyrir að kerfi sem smíðað var af hundruðum þúsunda skriffinna í Brussel gæti verið svo ófullkomið sem raun ber vitni. Á annan áratug hafa þjóðir ESB og EES móttekið tilskipanir frá Brussel og gert að lögum sínum.

Missmíði á fjórfrelsinu

Nú kemur í ljós að í lagaumhverfi og tæknilegri útfærslu á svokölluðu fjórfrelsi eru slíkar missmíðir að jafnvel formaður Sjálfstæðisflokksins er farinn að vísa í EES samninginn sem orsök. Kerfi þetta gaf allskonar ævintýramönnum lausan tauminn í viðskiptum milli þjóðríkja eins og engin landamæri væru til. Þegar kemur að ábyrgð og uppgjöri sjáum við að eftirlit innan hins evrópska skrifræðis einkennist af magni en ekki gæðum.

Engin trygging er fyrir því í kerfi þessu að sá sem er ábyrgur viti af ábyrgð sinni og raunar eru lagaóvissur í þessum efnum svo miklar að þegar hefur kostað milliríkjadeilur, fleiri en bara þær sem eru milli Íslands og Bretlands. Á undan okkur deildu t.d. Írar og Danir um hliðstæða hluti. Verst er að ekkert þjóðríkjanna tók á sig að bera almennilega ábyrgð á að hlutirnir væru í lagi. Allir treystu skriffinnunum sem eru líka um 700 þúsund í einni borg.

Kerfi sem enginn skildi

Vissulega hafa allar smáþjóðir farið þá leið í lagasetningu að taka mið af lögum stærri nágranna sinna. Það gerðum við Íslendingar um aldir og fluttum um Skandinavísk lög allt frá árinu 930 og til okkar daga. En slík yfirfærsla var gerð með þeim hætti að íslenskir yfirvöld þurftu í hvert sinn að gæta að hvernig ein flísin félli þar að annarri.

Með innleiðingu EES - var sú aðgætni ekki lengur fyrir hendi enda um að ræða yfirfærslu sem gilti í senn um heila álfu þar sem við teljumst nokkur prómill af heildinni, náum ekki tíunda hluta af prósenti. Kerfið er í ofanálag svo flókið og risavaxið að í reynd var útilokað að nokkur hér heima gæti haft yfirsýn yfir það og reyndar ekki heldur svo í sjálfri London að nokkur hafi skilið það til fulls. Að minnsta kosti ekki Gordon Brown. Þannig hafa sérfræðingar, erlendir og innlendir, talið allt þar til í haust að innan evrusvæðisins væri samábyrgð Evrópska Seðlabankans fyrir hendi en nú kemur í ljós að hún er alls ekki til. Og við hefðum því í engu verið betur staddir innan evrusvæðis.

Allt bar því að þeim sama brunni að allir treystu í blindni á kerfi sem enginn gat skilið til hlítar. Nú reka Evrópuþjóðirnar sig illa á og Icesave dæmið íslenska er aðeins dropi í þeirri mynd. ESB þjóðirnar deila um ábyrgð á bönkum og draga sig sífellt meir að eigin hagsmunum.

Hagsmunir þjóða og hagsmunir stjórfyrirtækja

Í reynd hefur ríkisstjórnum allra Evrópuríkjanna verið kippt til þess raunveruleika að verða að gæta að eigin hagsmunum og sínu eigin fólki. Þau draga sig því í fleiri og fleiri atriðum frá heildarhagsmunum Evrópu. Og eðlilega vaknar spurningin, hverjir voru þessir heildarhagsmunir. Voru það ekki hagsmunir fólksins.

Þegar að er gáð hefur ESB einkanlega tekið mið af hagsmunum stórra efnahagsheilda, stórfyrirtækja og einokunar og engin tilviljun að hér heima höfum við einnig þokast nær einokunarkapítalisma allan EES tímann. Á erfiðleikatímum verða allar ríkisstjórnir að gæta hagsmuna sinnar eigin þjóðar og allt gildismat færist nær raunverulegum hagsmunum kjósenda.

Vegna EES samningsins gátum við ekki tryggt dreifða eignaraðild bankanna sem með öðru stuðlaði að þeirri óskemmtilegu mynd viðskiptalífsins sem við blasir. Við gátum ekki gengið gegn fjórfrelsinu og bannað bönkum að starfa utan Íslands. Það var mögulegt að stöðva opnun nýrra útibúa en útilokað að stöðva það sem í gang var komið.

Hendur Alþingis til að hafa áhrif hafa verið bundnar og tíska samfélagsins, mótuð af fjölmiðlum tískuauðvaldsins hefur stutt alla þá reginfirru.

(Birt í Mbl. í október 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Eggertsson

Sæll Bjarni.

Hver er svo niðurstaða þín eftir þessi skrif?  Hvað viltu gera?  Viltu síta EES samningnum?  Ef þú vilt það ekki, hvað viltu þá?

Kjartan Eggertsson, 6.11.2008 kl. 13:27

2 Smámynd: Bjarni Harðarson

góð spurning - kannski hefði ég átt að vera afdráttarlausari hvað þetta varðar. svarið er já, ef það er hægt að ná tvíhliðasamningi a la sviss. annars þarf stórfelldar breytingar. svo það sé á hreinu þá tel ég ekki að við höfum stöðu til að fórna aðgangi okkar að innri markaði ebe - nema eitthvað annað komi í staðin!

Bjarni Harðarson, 6.11.2008 kl. 14:59

3 Smámynd: Kristín Magdalena Ágústsdóttir

Ég var að horfa á Aþingi áðan og er ég ánægð með margt af því var gott og er ég ánægð með að hugsa á um þá sem eru að missa vinnuna.  Eins það að gera á fólki fært um að fara í skóla og fá skólalaun.  En það er búið að hækka stýrivexti um 18% og ég hef ekki séð neitt um hvað á að gera fyrir fólk sem er á örorku og fær ekki hækkun launa eða neitt til að bæta upp þau laun sem þau hafa fyrir.   Vextirnir eru jafn háir fyrir það fólk og okkur hin sem getum unnið fyrir okkur. 

Ég er líka sammála því að það er óþarfi hjá strjórnarflokkunum að halda upplýsingum leyndum fyrir stjórnarandstöðu flokkunum.  Það er grundvallar atriði á Alþingi.

Kristín Magdalena Ágústsdóttir, 6.11.2008 kl. 15:48

4 identicon

Mjög góð grein hjá þér Bjarni og er ég að stærstum hluta sammála henni. Þetta er ekki ólíkt og í söguni um nýju fötin keisarans og þannig finnst mér nú svo margt með þetta handónýta andlitslausa sérfræðingaveldi ESB !

En einu vil ég brýna þig í að tala nú fyrir á Alþingi. Láttu stofna sérstka Sannleiks- og siðfræðinefndi sem fer yfir allt hrunið. Þessi nefnd þarf að vera skipuð bæði érlendum og innlendum fræðimönnum og fjölbreyttu úrvali valinkunnra manna með mjög víðtæka menntun, með því á ég við að hún verði ekki bara skipuð viðskipta- og hagfræðingum heldur líka til að mynda siðfræðingum, heimspekingum, stjórnmálafræðingum, sagnfræðingum, verkfræðingum og prestum og svo framvegis. Einnig þarf að ganga vel úr skugga með hvern og einn að hann tengist ekki beint þessum stórskandölum og hafi ekki beinna hagsmuna að gæta. Þessi nefnd fái víðtækar heimildir og geti skipað undirnefndir og geti ráðið sér sérfræðinga bæði innlenda og erlenda í hin og þessi verk. Ef Alþigni þarf þá verða sett ný lög til þess að styrkja heimildir og valdsvið nefnadarinnar. Nefndinni verði falið að fara vel yfir bankahrunið og hún fái víðtækar heimildir til að kalla fólk sem vann í þessum fyrirtækjum sem tengdist þeim og bönkunum til eiðsvarinnar skýrslutöku, einnig embættismenn og starfsfólk stofnana og seðlabanka og ráðherra og alþingismenn.

Bankaleynd verði afnuminn a.m.k. 4 ár aftur í tímann kanski lengur, til að ekki sé endalaust hægt að bera því fyrir sig. Hverjum og einum verði heitið því að hann verði ekki dæmdur eða sekur fundinn þó svo að hann skýri frá einhverju sem kanski reyndist ólögmætt og hann vann samkvæmt skipun sinna yfirmanna. Útrásarvíkingarnir, bankastórarnir og forstjórarnir verði líka kallaðir fyrir nefndina og spurðir í þaula. Ef þeir lofa að vinna með nefndinni og viðurkenna mistök sín og hjálpa til við að fletta ofan af þessu öllu, þá verði þeim heitið sakaruppgjöf þó svo eihhvað saknæmt finnist, alla vegana að sleppa við óskilorðsbundna fangelsisdóma. Ef þeir verða ekki tilbúnir við að vinna heiðarlega með nefndinni þá verður enginn miskunn, þá verða þeir dregnir fyrir dómstólana.  Síðan þarf nefndin líka að kafa ofaní hvað annað fór úrskeiðis í stjórnun bankanna, í regluverkinu og í stofnununum sem áttu að hafa eftirlit með öllu regluverkinu. Með störfum ráðherra og æðstu embættismanna Ríkisins og með Alþingi. Var Alþingi nægjanlega upplýst, var einhverju haldið leyndu og svo framvegis og svo framvegis. Þetta er nauðsynlegt að gera og þér og öðrum þingmönnum hér með falið að ganga í þessi mál og útfæra þetta í meðförum Alþingis. Fyrir framtíðina og fyrir börnin okkar er alveg nauðsynlegt að við sem þjóð náum að læra af þessu, þannig að svona óskapnaður geti aldrei, aldrei komið fyrir okkur aftur.   Kærar kveðjur

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 15:48

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Við hefðum átt að fara að dæmi Sviss - við vorum jú líka EFTA-þjóð.

Hugsanlega er skynsamlegt að reyna þá aðferð núna og losa okkur út úr EES sem hefur vægast sagt ekki reynst okkur það gæfuspor sem lofað var. 

Kolbrún Hilmars, 6.11.2008 kl. 15:52

6 Smámynd: Anna Svavarsdóttir

Ég verð að taka undir með Gunnlaugi að "sannleiksnefnd" er eina vitið.  Við verðum að vita hvað gerðist og hvernig gat þetta gerst.  Það er líka svo stór hluti af því að lægja öldurnar og koma samfélaginu í gang aftur.  Losna við eitthvað af reiðinni og þá verður skárra að halda áfram uppbyggingunni.

Anna Svavarsdóttir, 7.11.2008 kl. 07:07

7 Smámynd: Kristín Magdalena Ágústsdóttir

Já en er það ekki líka mikilvægt að komast að því hvernig þetta gat gerst til að læra af því og koma í veg fyrir að þetta gerist aftur???  Jú ég er sko ekki ánægð og er ábyggilega jafn reið og margur Íslendingurinn.

Kristín Magdalena Ágústsdóttir, 7.11.2008 kl. 08:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband