Klumsa...

Ertu alveg klumsa, man ég að afi minn sagði einu sinni við mig. Ég hef áreiðanlega ekki verið mikið meira en sjö og við vorum í bíl pabba á leið upp í Tungur. Og ég sem samkjaftaði yfirleitt ekki, ekki þá frekar en síðar, var allt í einu kjaftstopp. Og afi segir þetta og varð svo að útskýra fyrir mér þetta sérkennilega orð sem ég hef síðan alltaf haldið mikið upp á.

Suma daga núna líður mér eins. Ekki vegna þess að það sé ekkert að segja heldur vegna þess að það er of margt. Og svo bætast við fregnir um að ég sé að stofna flokk. Það er auðvitað orðum aukið. Ég er í flokki og hef ekkert hugsað mér að breyta því meðan stefnu hans hefur ekki verið breytt. Og meðan ég er að hugsa þetta er ég mikið klumsa og dagarnir fara í að hlusta á annað fólk. Reyndar svo mjög að ég er löngu kominn með hlustaverk í eyrun og ríg í hálsinn.

Kannski er rígurinn líka ónotatilfinning útaf Icesave málinu sem mig hryllir við og krossa fingur fyrir að eitthvað sé í ermum Geirs sem við ekki vitum. Annars eru mál virkilega komin á versta veg. Kannski skýrist eitthvað um það mál í þingumræðu á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Bjarni minn, var ekki einhvern tíma sagt að sjaldan lygi almannarómur? Ég er búin að heyra þetta með nýja flokkinn og trúði því alveg! Þú ert mikill hugmyndasmiður og hefur ekki líkað á hvaða sveif Framsóknarflokkurinn er kominn í ýmsum málum. Sama má segja um Guðna. Ég hef alltaf sagt það með ykkur tvo að þið séuð síðustu alvöru Framsóknarmennirnir. Mér var meira að segja sagt það að þetta yrði einhverskonar "þjóðarflokkur" eða "þjóðernisflokkur". Hvað svo sem til er þessu eða ekki, þá er Framsóknarflokkurinn farinn að halla ansi mikið undir flatt þessa dagana. Þannig er það nú.

Sigurlaug B. Gröndal, 19.11.2008 kl. 22:41

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Sigurlaug,

það er staðreynd að oft, eða í það minnsta stundum, veit almannarómuri mun betur en maður sjálfur hvað maður er að bjástra, það er að segja þykist vita það.

Ég er ekkert hissa á því að bæði Bjarni og Guðni þurfi að ná andanum efir undangengna atburði áður en þeir vinda sér í að stofna nýjan flokk, hafi þeir á annað borð slíkt í huga.

Við sjáum hverju fram vindur.

Mikið er óþol landans.

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.11.2008 kl. 23:03

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

...þó hann hafi að vísu verið ótrúlega og eiginlega um of þolinmóður hvað ríkisstjórnina varðar undanfarnar vikur.

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.11.2008 kl. 23:05

4 identicon

Ósköp finnst mér eitthvað ljótt,

að vera orðinn klumsa.

Breyttu þessu býsna fljótt!

Það er betra að nota “hvumsa”.

Eitthvað til að rífast yfir :)

-sigm. (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 00:11

5 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Heimóttaflokkurinn eða Moldakofaflokkurinn eru mínar uppástungur.

Það er ekki spurning um hvort heldur hve fljótt framarar setja €vróðusambandsaðild á sína stefnuskrá

Brjánn Guðjónsson, 20.11.2008 kl. 00:58

6 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Ég held að almannarómurinn komi til af því að margar athugasemdir hér á blogginu hans Bjarna eru að hvetja hann til að stofna nýjan flokk. Kannski hefur Bjarni ekki áhuga á því að fara í slíkt framboð, en þeir eru margir sem lýsa áhuga á að vera með í slíkum flokki. Það gæti orðið til þess að flokkurinn yrði stofnaður hvort sem Bjarni og/eða Guðni yrði með í því eða ekki.

Svo enginn misskilji mig, þá er ég ekki sjálfur að hugleiða að vera með í slíkum flokki. Ég er framsóknarmaður, þó ég sé reyndar efins um að ESB sé pottþétt það sem við þurfum.

Einar Sigurbergur Arason, 20.11.2008 kl. 01:02

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég er nú ekki framsóknarmaður en vona að menn eins og Guðni, Bjarni og Einar Sigurbergur séu ekki að yfirgefa flokkinn heldur reyni til þrautar að hafa áhrif til góðs í sínum gamla flokk. Það er mikilvægt á tímum sem þessum að menn reyni að vinna þjóð sinni gagn hvar í flokki sem þeir standa.

Sigurður Þórðarson, 20.11.2008 kl. 03:48

8 identicon

Davíð er auðvitað húmoristi dauðans eins og bréfið góða sýnir til ÓRG. Rætt er um hirð Egils og nýjan flokk,held þið tveir rúlluðu þessu upp. Allt er jú betra en Framsókn það vitum við bæði.

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 09:03

9 identicon

Ja, ég tek nú eiginlega undir þetta með hálsríginn og eyrnaverki af ýmsum tegundum. Og svo er ég líka klumsa.

 Alltaf mest klumsa eða þá bara klumsust, yfir hve ótrúlega margir "ráða"menn, halda að pöpullinn sé arfa-heimskur og óupplýstur. Margan heimskingjann hef ég hlustað á skáka í því skjólinu.

 (orðið heimska merkir hér vitgrannur maður - ekki sá sem fer lítið út fyrir sitt byggðarlag).

 Elsku, blessaðir "ráða"mennirnir, svona ljómandi af greind og hreinskiptni, svo ekki sé nú minnst á hógværð forseta lýðveldisins. Ég táraðist. Já alltaf svo klumsa!

Annars veit ég nú líka svolítið um almannaróminn; það segir SJALDAN, sem getur líka þýtt: stundum lýgur almannarómur, en ekki oft.

 Hvað ætli þið vitið nokkurt einasta ykkar, hvort eitthvað er til í þessu tali um nýjan flokk? Iss, þetta eru svona dæmigerðar íslenskar ágiskanir - byggðar á kunningjasamfélaginu sem við byggjum. - Við höfum nú líka reynslu af heimasaumuðum stórf´rettum sem reyndust argasta þvaður þegar að var gáð. O, jæja. Það hefur það.

Æ, Bjarni minn ágæti málvin - bjúddu bara til flokk ef þú vilt! Bara í Guðs almáttugs bænum: enga inn í hann nema þá sem vilja vinna FYRIR ÞJÓÐINA. Hinir verða bara að vera í sínum SÉR-flokkum.

Í eilífri náðinni

Helga Ág.

hugflæðiráðunautur m.m.

Helga Áagústsdóttir (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband