Fullveldishátíð - beiðni um fjárstyrk

Heimssýn, félag sjálfstæðissinna í Evrópumálum efnir til fullveldisfagnaðar 1. desember næstkomandi. Jafnframt er ráðgert að auka til muna starf félagsins enda umræðan um mögulega ESB aðild meiri en verið hefur. Félag okkar er þó fjárvana til þess að hasla sér völl í umræðunni og því leitum við til þín um lítilsháttar fjárstyrk.

Ætlun okkar er að birta á næstu dögum heilsíðuauglýsingar um fullveldishátíð okkar þar sem vakin er athygli á glæsilegri dagskrá samkomunnar og fólk hvatt til að mæta. Jafnframt yrði á sömu síðum eftirfarandi yfirlýsing:

Undirrituð hvetja fólk til að fjölmenna í Salinn í Kópavogi á fullveldisdegi íslensku þjóðarinnar. Með því leggjum við okkar að mörkum til varðveislu fullveldis landsins á viðkvæmum tímum í stjórnmálalífi og efnahag þjóðarinnar. Við leggjum áherslu á vinsamleg samskipti og samstarf við aðrar þjóðir og hvetjum til opinnar umræðu um Evrópumál. Aðild að Evrópusambandinu fæli hins vegar í sér víðtækt framsal valds og réttinda til stjórnarstofnana ESB í Brussel, þar á meðal yfirráð yfir helstu auðlindum landsins. ESB aðild er andstæð fullveldi þjóðarinnar og samrýmist ekki hagsmunum Íslendinga. Jafnframt er ljóst að aðsteðjandi efnahagsvandi verður ekki á nokkurn hátt leystur með aðild eða aðildarviðræðum að ESB.

Undir þetta ávarp biðjum við fólk að setja nafn sitt með því að greiða 5000 krónur til samtakanna. Taxtinn verður þó aðeins 2000 krónur fyrir námsmenn, eldri borgara og öryrkja. Öllum er heimilt að greiða meira og mun það sem verður umfram renna í sjóði Heimssýnar.

Með því styrkjum við félag okkar til áframhaldandi starfs en nauðsynlegt er við þær aðstæður sem nú eru að félagið komi sér upp reglubundnari rekstri en verið hefur.

Þeir sem vilja ljá lið með þessum hætti geta sent okkur einfalt svarbréf á þennan póst með kennitölu sinni. Tekið skal fram ef upphæðin á að vera önnur en 5000 krónur. Veittur er 500 króna afsláttur ef viðkomandi greiðir beint inn á reikning Heimssýnar, 101-26-5810 kt. 680602-5810.

Ragnar Arnalds, rithöfundur, formaður Heimssýnar
Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, varaformaður Heimssýnar
Bjarni Harðarson, bóksali, gjaldkeri Heimssýnar
Anna Ólafsdóttir Björnsson, sagnfræðingur, ritari Heimssýnar
Páll Vilhjálmsson, blaðamaður stjórnarmaður í Heimssýn
Gunnar Dofri Ólafsson, laganemi stjórnarmaður í Heimssýn
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögfræðingur stjórnarmaður í Heimssýn
Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðinemi stjórnarmaður í Heimssýn
Steingrímur Hermannsson, fyrrv. forsætisráðherra stjórnarmaður í Heimssýn
Stefán Jóhann Stefánsson, hagfræðingur stjórnarmaður í Heimssýn
Kolbrún Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnarmaður í Heimssýn


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband