Táknrænt fyrir bull ríkisstjórnarinnar

Nýjasta útspil Ingibjargar Sólrúnar að hátekjuskattur væri fyrst og fremst táknrænn þar sem hann einn og sér dygði ekki til. Þessvegna megi sleppa við hátekjuskatt, það hefur auðvitað ekkert upp á sig að vera með táknræn framlög í kreppu sem þessari. Þessi ræða jafnaðarmannaforingjans er táknræn fyrir það bull sem einkennir sitjandi ríkisstjórn.

Vitaskuld er engin ein leið sem dugar til að koma málum í lag, engin ein upphæð eða ein ráðstöfun sem ríður baggamuninn þannig að ef aðeins allsherjarlausnir skipta máli þá eru allar skattlagningar og sparnaðaraðgerðir aðeins táknrænar. Skerðing á greiðslum bóta hlýtur þá líka að vera táknræn því litlu breytir hún líka um heildardæmið, telur einhverja fjóra milljarða. Gott betur en það mætti hafa af hátekjuskatti.

En í táknfræðinni er þetta þá ásamt spillingu liðinna vikna tákn til þjóðarinnar um að Samfylkingin standi dyggilega vörð um hið grimma lögmál Biblíunnar þar sem segir: 

"Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur..." (Mark.4,25) 

Langar svo í lokin að vitna hér í frábæran kveðskap míns gamla tutors, Kristjáns Eiríkssonar sem birtist á vef höfundarins. Þar lýsir hann í anda Jónasar útrásinni og fallinu eins og skagfirðingi þessum er einum lagið. Og segir m.a.:

14. Sá fyrstur leysti festar dýrðarmanna

og færði Bónus stoltur voru landi

í rústir lagði búðir góðra granna.

15. Og annar sem hér fór með brugðnum brandi,

bjórdrukkinn eftir gerska ævintýrið,

hafskipi fornu sigldi að okkar sandi.

16. Ístryggði margan Englending - við stýrið

öruggur jafnan - vann sín hryðjuverk;

í Gordon Brown hann vakti villidýrið.

17. Kaupþingi réði kröftug hönd og sterk

þótt kjör sín engir þar við neglur skæru

ábyrgðarstörf sem unnu gríðarmerk.

18. Samvinnumenn þótt áður ýmsir væru

af sér nú struku þennan smánarblett.

Sá mun ei lengur sverta þeirra æru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ISG er ekki beint að skora með yfirlýsingum sínum almennt samanber á borgarafundinum í Háskólabíó um daginn.  Engu líkara að hún sé að biðja um andóf eða tryggja að hún þurfi aldrei aftur að sitja í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum aftur.  Sem hún sér rækilega eftir núna.  Allir ráðherra Samfylkingar eins og sprungnir vindlar.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 21:50

2 identicon

Kanski er ég sá eini sem tek eftir því en fréttamenn sitja alltaf fyrir pólítíkusunum þegar þeir koma niður stigann; nokkurs konar launsátur. MBL spyrillinn var ákveðin, en frúin gaf sig ekki.

 ...hátekjuskattur er kanski meira táknrænn...

Svar Ingibjargar var mjög ósmekklegt svo ekki sé djúpar í árinni tekið. Ráðherranum til skammar, en endurspeglar þá raunveruleikafirringu sem hrjáir ríkisstjórnarfélaga þessa dagana.

Sem fyrr er ráðist ómaklega á þá sem lægst hafa launin; á sama tíma er nauðsynjavara - bensínið hækkað , sem einnig kemur verst fyrir þá sem minnst mega sín. Þetta er einfaldlega ósvífni og engum bjóðandi.

Nú hvers vegna hagar ríkisstjórnin sér svona ?

Svarið er mjög einfalt:  Hún hefur ekki stuðning þjóðarinnar bak við sig.

Set hér fullyrðingu af heimasíðu Samfylkingarinnar, sem í raun má kalla bull í ljósi aðstæðna:

"Markmið Samfylkingarinnar er að fá umboð kjósenda til að taka forystu í landstjórninni, með jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi"

Greinilegt er að ISG hefur ekki tekist að ná settum markmiðum innan síns flokks, hvað þá sem ráðherra.

Nú til gamans fór ég aftur í tímann til 2003. 

Þá sagði frú Ingibjörg: Geta barið á mér eins og þeim sýnist
28. febrúar 2003
"Ég beygi mig ekki fyrir valdboði og þeir geta barið á mér eins og þeim sýnist. Ég mun ekki hætta að tala [...]. Þeir geta barið á mér og þeir geta barið á Samfylkingunni og það er allt í lagi. Við höfum engu að tapa en allt að vinna og við óttumst ekkert þessa valdherra."
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á fundi á Ísafirði 27. febrúar

MBL 28. febrúar

Þetta og fleiri ummæli má sjá má sjá á vef Samfylkingarinnar mörg ár aftur í tímann.

http://web.archive.org/web/*/http://www.samfylking.is

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 21:53

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Það væri líka "táknrænt" að endurheimta traust í samfélaginu, svo það tekur því ekki. Bara vesen að kjósa og svoleiðis.

Haraldur Hansson, 12.12.2008 kl. 22:29

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sammála Kristni Péturssyni hér  á undan/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 12.12.2008 kl. 23:43

5 identicon

Hér væri um þá um táknrænan gjörning að ræða sem mikil þörf er á í þessu samfélagi.  Hátekjufólk myndi leggja meira af mörkum.  Fólk eins og verkalýðsforingjar, umsjónarmenn lífeyrissjóða og RÁÐHERRAR. 

Það er óþarfi að þetta fólk taki á sig skerðingar því að það er að sjálfsögðu aðeins táknræn aðgerð.  Ræflana má skerða því þess sér meira stað í útreikningum.  Réttlætiskennd?

Ingibjörg er alveg að missa það.

marco (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 00:48

6 identicon

Sami popularistinn hún Solla;)

Hún hefur alltaf verið mjög höll undir svona táknrænar aðgerðir, svona Che komplex einhver.

sandkassi (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 05:37

7 identicon

Hárrétt Brynja!

Sjálfstæðisflokkurinn eru samtök forréttindabesefa, kosinn af illa upplýstri alþýðu þjóðinni til vanheilla.

marco (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 11:48

8 identicon

Hér eru nokkrar *táknrænar tillögur:

burt með öll verkefni sem geta beðið, framkvæmdir af hvaða toga sem er - verðum bara að búa við þrengslin eða hvað það nú er sem átti að bæta

burt með marmaragólf, kaup á dýrum listmunum, veislur nema í nauðvörn

burt með allar veitingar nema kaffi, kleinur og vatn á fundum og í móttökum. Fátækt fólk ber fram einfaldar veitingar

Hinn almenni borgari er löngu orð'inn þreyttur á umræðum (sem menn hafa lært utan að) um "ástandið" og eilífum boltaleik með sökina.

Raunveruleiki margra er þessi:

Úlpan verður ekki keypt

nýja rúmið handa unglingnum verður að bíða

ekki hægt að leyfa börnunum að vera áfram í ballet, fótbolta...

mamma fer orðið nánast aldrei í hársnyrtingu

og pabbi er hættur að fara í  bíltúra til að sýna okkur...

ekki hægt að fara í leikhús að sjá fjölskylduleikrit

... því vextirnir fóru í nýju úlpunni í leikhúsið o.sv.frv.

Þetta er það sem við skiljum og viljum fá lagfært. Að slíta endalaust krónur undan blóðugum nöglum hins saklausa almenna launfólks... og barna þess...

SKERA ALLT sem heitir efnisleg gæðasöfnun  í gegnum opinbera stjórnsýslu; hlúa að þeim sem minna mega sín, láta sjúkrahús,félagsmálastofnanir, dvalarheimili og skóla í friði

 Almenningur er ekki samsettur að spjallandi forðusnökkum í dýrum fatnaði, heldur fólki sem vinnur hörðum höndum fyrir sínum krónum - og vill fá að nota þær fyrir sig og sína, en ekki til greiðslu á græðgisskuldum nokkurra einstaklinga.

Og hananú

H.Ág.

Helga Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 12:24

9 Smámynd: Diesel

Hallelúja Helga. Sannleikskorn í þessum pistli

En, ISG er ekki tákngervingur þjóðarinnar. Ekki einusinni táknrænt.

Áfram táknrænt Ísland ohf

Diesel, 13.12.2008 kl. 12:36

10 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég er alls ekki sáttur við nýjustu aðgerðirnar.

hvernig væri samt að þeir sem mótmæla opinberlega, bentu á aðrar lausnir.

Brjánn Guðjónsson, 13.12.2008 kl. 16:19

11 identicon

Þarna er ég algerleg ósammála þér Bjarni.  Er þetta kannski bara táknrænt fyrir bullið í þér stundum.

Þrepaskipting í skattkerfinu er alveg skelfilegt fyrirbæri.  Skilar litlum tekjum og með alltof miklum tilkostnaði.

Það má berlega sjá af því hvernig virðisaukaskattinum var nánast rústað með því voðaskoti Friðriks Sophussonar á sínum tíma þegar hann fann upp á þrepaskiptingu skattsins.

Þá gerðist það að fjölda framteljenda opnaðist glufa með því að færa tekjur milli skattþrepa og illmögulegt fyrir Skattmann að fylgjast með öllu því.

Þannig fór nú fyrir því tæra og rökrétta kerfi sem lagt var upp með í virðisaukaskattinum.

Líkt er það með hátekjuskatt að hann skilar litlu einfaldlega vegna þess hve fáir þurfa að greiða hann í raun og hversu margir hérlendis hafa tök á að "lagfæra" tekjur sínar.  (Skoðaðu barasta fjölda eheffa t.d.)

Hátekjuskatturinn minnkar þannig það gegnsæi sem nauðsynlegt er í hverju skattkerfi.

Danir hafa verið manna íhaldssamastir á hátekjuskattinn og þar í landi skilur jafnvel Skattmann sjálfur ekki kerfið til hlítar, hvað þá almenningur og þá er ég kominn að því mikilvæga.  Nefnilega skattavitund.

Skattavitund er nauðsynleg almenningi rétt eins og hver önnur kostnaðarvitund.  Hvað þarf að borga í skatta þarf að vera jafn augljóst og hvað annað í útgjöldum manna ekki síður en húsnæðis, tóbaks-og bjórkostnaður.  Í flóknu skattkerfi er þetta ævinlega óskýrt.   Einfaldleiki er góður í þessu eins og öðru.

Meining mín er semsagt sú að það sé hálf óþverralegt að rífa fé af fólki hvort sem það er fátækt eða ríkt til þess eins að borga kostnaðinn við innheimtuna. Best væri þá að sleppa þessu.

Mér fellur heldur ekki hugmyndin um táknrænan hátekjuskatt.  Ástæðan er sú að nú þegar er allt of mikið af alls kyns "táknræningjum" vaðandi uppi með sín skilaboð sem þeir vilja troða inn í lög landsins þannig að lagasafnið okkar verði álíka óskýrt og þvælið og skattalögin Baunverjanna.

Reyndar grunar mig líka að bak við réttlætisgrímu fylgismanna hátekjuskattsins sé andlit hinnar gömlu mítu um vonda vonda ríka manninn og góða góða fátæka manninn.  Sú míta deyr líklega aldrei en það er alger óþarfi að hampa henni svona.

Hún fær aldeilis næga  næringu þessa dagana.

--------

Gestur Helgason (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 02:32

12 identicon

Nú klikkar kristnifræðin hjá þér gamli. 25. versið verður að lesast í samhengi við það sem áður er sagt í 4. kaflanum um sáðkornið.. þe. orð Guðs. Er hér átt við að sá sem tekur vel við Guðs orði, hann fái meira eða raunar meiri skilning, en lærisveinn sem latur er missi jafnvel þá þekkingu eða boðskap sem hann hafi meðtekið ef hann leggi sig ekki eftir öllu orði Guðs, þe. að sáðkornið falli í grýttan jarðveg.

Bara rétt til upprifjunar - og þá að skattinum. Hátekjuskattur nú þyrfti að miðast við frekar lágar tekjur, ss. 550 - 700 þúsund, og vera allt að 8-10% ofan á núverandi tekjuskatt og útsvar til að skila einhverjum hundruðum milljóna á ári hverju, og það miðað við skattskil síðasta árs. Nú hefur dregist saman sá hópur sem hefur virkilega háar tekjur. Allur slíkur ofurskattur yrði því væntanlegur til þess að fólk á ákveðnu tekjubili í kringum mörkin myndu forðast að vinna fyrir meiri tekjum, og hitt, að svona hár skattur hefur jafnan í för með sér minni sparnað og samdrátt í fjárfestinu, eitthvað sem við megum vart við nú.

Venlig hilsen,

-sigm.

-sigm. (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 22:12

13 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Finnst tekjuskattur eigi að vera þrepalaus. Föst prósenta sem að keisaranum ber. Hitt kemur sér illa fyrir þá sem til dæmis vilja vinna af sér skuldir með mikilli vinnu.

Hinsvegar finnst mér alltaf að fjármagnstekjuskattur eigi að vera í samræmi við tekjuskatt. Það er fáránlegt að verkafólk borgi um fjörutíu prósent af launum brauðstritsins, en eigandi að fjármagni þarf ekki að greiða nema 10%.

Eðlilegt er að samræma þessi tvö form álagningar. Hafa 25% fyrir bæði. Líkt og með persónuafslátt á tekjuskatt þá ætti að vera hægt að hafa skattlaust persónutengt frímark í fjármagnstekjum.

Gunnlaugur B Ólafsson, 15.12.2008 kl. 02:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband