Flokkur í gíslingu S - hópsins
16.12.2008 | 09:45
Sá sem hér ritar hefur fyrr vikið að þeim óheiðarleika blaðamanna Baugsmiðla í landinu að leggja hvern þann stjórnmálamann í einelti sem talað hefur af einurð gegn ESB aðild Íslands. Þar gengur blað Jóhanns sínu lengst eins og gleggst kemur fram í frámunalegum skrifum um Seðlabankastjóra. Fráfarandi formaður Framsóknarflokksins hefur ekki farið varhluta af rógskrifum þessum og á sama hátt hafa blöð Baugsmanna ítrekað hælt og hampað bæði Samfylkingarkrötum og þeim hluta Framsóknarflokksins sem er fylgispakur útrásarvíkingum í sínum ESB áróðri.
Það kastar þó tólfunum þegar í sömu grein er kallað eftir afsögn manna vegna mistaka í starfi en þeir sem þá leið fara eru í hinu orðinu sakaðir um að smokra sér undan refsingu! En til þess að almenningi gefist nú kostur á þeirri refsingu sem blaðamaðurinn telur maklega er rétt að undirritaður ræði umrædda tölvupóstsendingu því ekkert er betur fallið til krossfestingar en að hinn seki verji málstað sinn.
Óþarfa afsögn og afbrotin verri
Enda er það svo að margan hefi ég hitt sem taldi afsögn mína algerlega óþarfa og að þarflausu miðað við umfang brots. Síðan hún átti sér stað hafa enda komið upp á yfirborðið þær aðrar bréfasendingar millum manna í Framsóknarflokki sem lýsa miklu einlægari brotavilja gagnvart flokkssystkinum. Ber þar hæst tölvubréf sem Jón Sigurðsson fráfarandi formaður hefur ritað völdum hópi samherja innan flokksins þar sem beinlínis er lagt á ráðin um aftöku þáverandi formanns, Guðna Ágústssonar.
Slag í slag voru þannig send skilaboð um hvar menn verði að sýna samstöðu í að mótmæla orðum formanns og jafnvel skipulagt út í æsar hverjir fari fram á tilteknum fundum vegna tiltekinna mála. Nægir hér að vísa í umfjöllun í blaði Jóhanns Haukssonar, DV. Að þessum vinnubrögðum komu á þeim tíma bæði varaformaður flokksins, ritari, framkvæmdastjóri, skrifstofustjóri og fleiri lykilmenn í trúnaðarstöðum. Og vitaskuld var allt þetta okkur hinum kunnugt þó við hvergi hefðum aðstæður til að opinbera þær heimildir.
Af því eina bréfi Jóns Sigurðssonar sem birt hefur verið orðrétt er ljóst að í þessu stríði var engu skeytt um skömm né heiður, sannleik eða lygi.
Flokkur í gíslingu
Það mun raunar ekki ofmælt að allt lýðræðislegt starf Framsóknarflokksins hafi verið í gíslingu lítillar harðsnúinnar klíku í liðugan áratug eða allt frá valdatöku Halldórs Ásgrímssonar í formannsstóli. Sá sem hér ritar taldi að með skyndilegu burthvarfi Halldórs hefðu skapast aðstæður til að endurvekja þann gamla og félagslega sinnaða flokk sem Framsókn var í tíð Steingríms Hermannssonar og hans forvera.
Hálfs annars árs þingmennska fyrir Framsóknarflokkinn sannfærðu mig smám saman um hið gagnstæða. Hvevetna í starfi flokksins var komið að múrveggjum flokkseigendafélagsins hvort sem ætlunin var að rífa upp grasrótarstarf í flokknum eða ræða stefnumál. Allsstaðar voru á fleti fyrir þeir fótgönguliðar fyrrum formanna sem höfðu með lagni og liðsinni hluta þingflokks möguleika á að bregða hér fæti fyrir. Verst kom þetta sitjandi formanni sem allan sinn formannsferil mátti búa við undirróður og róg af þeirri stærðargráðu og gerð að engum manni er ætlandi í slíku að lenda.
Farsæl mistök í tölvupóstssendingu
Og vitaskuld er það rétt að þessi vonda tölvupóstsending kallaði ekki ein og sér á afsögn mína frá þingmennsku. Fyrst og fremst var afsögnin viðurkenning á þeim afglöpum undirritaðs að telja að hægt væri að koma Framsóknarflokki á réttar brautir. Hin klaufalega tölvupóstssending gaf mér tækifæri á að hverfa þar frá enda þá algerlega útséð með að verk mitt í mínum gamla flokki mætti lukkast.
Ég hlýt hér að fjalla um þetta enda get ég engum óskað að lenda í sömu sporum pólitískrar eyðimerkurgöngu og undirritaður rataði í. Þaðan af síður er það verjandi að nokkur heiðarlegur stjórnmálamaður lendi í sporum Guðna Ágústssonar. Þeir sem telja að ég sé hér að ósekju að sparka helsærðan Framsóknarflokk verða að eiga þá blindu sjálfir og einir. Staðreyndin er að það er flokkseigendafélag Framsóknarflokksins sem hefur grafið undan þeim flokki og skemmt á allan hátt. Það er til lítils að kenna þeim um sem segir frá. Hinir bera meiri ábyrgð sem horfðu á óhæfuna í flokknum öll þessi ár og þögðu.
Það sem á eftir minni afsögn kom með aðför að Guðna Ágústssyni var staðfesting á þeim veruleika sem hér er fjallað um. Nú er svo komið að gamli S-hópurinn getur í friði fyrir okkur hinum sveitalegu Framsóknarmönnum tekið sinn gamla flokk og leitt fulltrúa sinn til formennsku. Sami hópur hefur lengi talið að hin sveitalegu viðhorf þvælist fyrir því að flokkurinn nái fylgi og nú er þeirra að sanna mál sitt.
Stuðningsmönnum mínum í pólitík, fyrr og nú, innan og utan Framsóknarflokks, sendi ég mínar einlægustu jólakveðjur. Með nýju ári hefst ný barátta.
Íslandi allt.
(Birt í Mbl. 16. des.2008)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér nafni.
Það er ekki ónýtt, að lesa svona góðan texta með Morgunkaffinu.
Maður minn, þú ferð vel með ástkæra ylhýra.
Hafðu ævinlega þökk fyrir.
Um innihaldið vissu flestir áður en þú ritaðir. Hryggir mig þó óummælanlega, þáttur Jóns Sigurðssonar.
Vonandi hefur hann ekki farið með ósannindi. Mér þæti það afar miður, því honum ber að segja ætíð satt.
Þannig er það nú bara.
En við búum víst í Mannheimum og allir erum við breyskir.
En kerlingin sagði ,,mikið ert þú nú beiskur Drottinn minn" ef rétt er eftir haft í þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Nú búa menn sig undir Landsfund, hver sem betur getur og vopnast atgeirum og verjum við hæfi.
Hinnsvegar er nú að koma hátíð ljóss og friðar en eins og þekkt er, ku Jesús hafa sagst vera Sannleikurinn ´Vegurinn og Lífið.
Ljósið vinnur gegn Myrkrinu og setur veldi þess takmörk.
Eins er að ljós Sannleikans setur Lyginni takmörk og um síðir kemur oftast það sanna fram.
Nú eru menn að upplifa á andlegum kroppi sínum, sannleikann um Fjölmiðlalögin og allt það.
Davíð er hvítskúraður eftir tildragelsin á DV og viðlíka umstangi.
Njóttu þess Friðar sem þig fýsir og hygg að þeim Sannleik, sem ljósið færir okkur, sama hverrar trúar við erum.
Því segi ég að íbúar Gimli ,--Paradísar ,,Heiðinna" manna, nutu Ljóss og Sannleika.
Þínum Kyrrðarstundir efrit at kaupmennskunnar á Jólaföstu og aðventu
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 16.12.2008 kl. 11:46
Þú ert sérkennilegur maður Bjarni Harðarson.
Mikið ofboðslega er ég fegin því að þú ert ekki á þingi lengur, þjóðinni og Framsókn til heilla.
Fanný Guðbjörg Jónsdóttir, 16.12.2008 kl. 15:13
Fanný. Vertu ekki svo viss að Bjarni komi ekki á þing bráðlega.
Sem fyrrv. framsóknarmaður með þjóðlegar hugsjónir eins og
framsóknarstefan byggðist á í upphafi vonast ég eindregið eftir
að Bjarni setist á þing aftur, og þá utanflokka. Því Framsókn í
dag er ein rjúkandi rúst eftir að ESB-liðar hafa yfirtekið flokkinn.
kominn niður í 4.9% fylgi sem Evrókrataflokkur í skjóli gjörspillts
flokkseigendafélags. Grátlegt hvernig búið er að rústa elsta
flokk þjóðarinnar.
Já mikið ofboðslegar held ég að Bjarni sé feginn að vera laus úr
þessari Evrópusinnaðri og gjörspilltri ljónagrífju!
Guðmundur Jónas Kristjánsson, 16.12.2008 kl. 15:36
Mey skal að morgni lofa og dag að kveldi.
Eitthvað hefur nafni nuddað stúlkunum í Framsókn öfugt. Var að lesa heilmikla romsu nokkuð rasaða á bloggi hér Helga Sigrún fór mikinn og bað Bjarna étan sjálfan.
Ungar konur muna sumar ekki lengra aftur en þær kjósa.
Það hentar að muna ekkert eftir Kvótakerfinu, Ólfslögum og svoleiðis nokk.
Miðbæjaríhaldið telur fátt verra en þegar Kratar og Framsókn koma saman til lagasmíða jafnvel ekki EES hrákasmíðin hjá mínum mönnum.
Lifið heil en ekki í Maddömmunni
Bjarni Kjartansson, 16.12.2008 kl. 15:49
Það sem ég er dálítið hissa á er af hverju kom ekkert af þessu uppá yfirborðið hjá þér meðan þú varst á þingi, eða jafnvel í síðasta lagi þegar þú sagðir af þér þingmennsku?
Kemur þetta núna upp af því þú ert farinn að huga að framboði, mig minnir að ég hafi séð Jón Magnús bjóða þig velkominn í hans flokk,
Spyr bara svona af venjulegri íslenskri forvitni :)
Sigurbjörg, 16.12.2008 kl. 20:03
Kostulegur texti Bjarni boy! Þú hrökklaðist úr klíkunni sem þú bölvar nú hátt vegna klaufaskapar og heigulsháttar. Það er engin leið fram hjá því.
Þegar þú misstir vonina um slettur á diskinn þinn þá kjagaðirðu í burtu og baðar þig nú í aðdáun einangrunarsinna og þjóðernisöfgamanna. Kannski færðu einhverjar slettur á diskinn út á það. Hver veit?
marco (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 00:21
Kæri Bjarni.
Ég held að þú sért í pistli þínum að vísa til úttektar þar sem reynt er af fræðimönnum í Skandinavíku að leggja mælikvarða á það hvað teljist hneyksli - skandalar. Hvernig stendur til dæmis á því að ein lítil yfirsjón með opinbert kreditkort veldur afsögn ráðherra eins og Monu Sahlin árið 1996 í Svíþjóð. Hún keypti Toblerone og bleiur!
Mig minnir að ég hafi sagt að með því að segja af þér þingmennsku hafir þú komið í veg fyrir skandalinn og átt fyrir vikið möguleika á endurkomu í pólítík.
Þetta er einn mesti ljóðurinn á íslenskri þjóð; hún skilur ekki "pólitíska ábyrgð". Björgvin segir til dæmis síðast í viðtali við Stöð 2 að hann hafi ekki brotið neitt af sér (engin lög brotið).
Svo er nú það.
Jóhann Hauksson (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 13:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.